Prestvígsla kvenna og María frá Betaníu

Prestvígsla kvenna og María frá Betaníu

Það vald sem sá enga leið færa aðra en að taka Jesús af lífi til að tryggja völd sín, er sama eðlis og það vald sem finnur sig knúið til að gera lítið úr þeim sem ógna völdum sínum í trúarlegum embættum kirkjunnar í dag. Konur sem krefjast þess að standa jafnfætis körlum í embættum kirkjunnar gera það af ást sinni til Jesú, líkt og María forðum.
fullname - andlitsmynd Sigurvin Lárus Jónsson
13. apríl 2014
Flokkar

Í liðinni viku var í Ríkissjónvarpinu sýnt merkilegt viðtal við Brautryðjandann Auði Eir Vilhjálmsdóttur, sem fyrst íslenskra kvenna vígðist til prests á Íslandi þann 29. september 1974. Í viðtalinu lýsir hún samtali sínu við þáverandi biskup, dr. Sigurbjörn Einarsson, en það samtal að hennar sögn ,,verndaði kirkjuna frá veseni”. Sigurbjörn tók þá ákvörðun sem biskup að vígja hana til prests og leitaði í kjölfarið eftir samþykki prestafélagsins, KFUM og fleiri hreyfinga sem kirkjuna varða. Á hinum norðurlöndunum var prestsvígsla kvenna sársaukafull umræða, sem enn eimir af, en þó Auður hafi mætt fordómum í starfi sínu varð sú andstaða ekki með sambærilegum hætti hérlendis. Störf kvenpresta ber að lofa og þakka og sr. Auður Eir hefur sjálf lagt mikið til guðfræðiumræðu á Íslandi, með þeirri kvennaguðfræði sem hún hefur prédikað í boðun sinni og starfi.

Í samhengi kirkjusögunnar eru 40 ár stuttur tími og þó kvenprestar þyki sjálfsagðir í dag í okkar kirkju er enn langt í land í að konur standi jafnfætis körlum í kirkju krists. Stærsta kirkjudeild heims, kaþólska kirkjan, hafnar prestvígslu kvenna á þeim forsendum að Guð hafi komið sem karl og því þurfi umboðsmenn hans í þjónustu að vera karlmenn. Meirihluti mótmælenda viðurkennir í dag kvenpresta en víða hafa kirkjur klofnað yfir prestvígslu kvenna og dæmi eru um að þau réttindi hafi verið afnumin. Systur-kirkja okkar í Lettlandi vígði konur frá 1975 til 1993, en í dag mega konur ekki starfa sem prestar í lútersku kirkjunni í Lettlandi. Stærsta bandalag lúterskra kirkna í bandaríkjunum vígir konur (ELCA), en þar eru jafnframt stórar lúterskar kirkjur sem leyfa ekki prestvígslu kvenna (sbr. LCMS), og í Noregi (Den nordisk-katolske kirke), Svíþjóð (Missionsprovinsen) og Finlandi eru starfandi hópar innan lútersku kirknanna sem tala gegn og viðurkenna ekki prestvígslu kvenna.

Þó okkur kunni að þykja það óhugsandi að prestvígsla kvenna yrði afnumin á Íslandi eru þessi átök í nágrannalöndum okkar áminning um að halda á lofti umræðu um jafna stöðu kynjanna í samfélagi okkar og kirkjulegri þjónustu. Það er mikið í húfi og ég undrast oft á skammsýni þeirra kynbræðra minna, sem ekki vilja njóta þeirra krafta sem að konur í prestastétt færa kirkjunni. Frumkirkjan ber sambærilegum átökum vitni og í Nýja testamentinu kallast á textar sem bera starfi kvenna í frumkirkjunni vitni og textar sem draga úr vægi þeirra og/eða tala gegn áhrifum þeirra. Í guðspjöllunum standa uppúr þrjár Maríur sem hver með sínum hætti voru áberandi persónur í lífi og þjónustu Jesú og fá slíkt vægi í frumkirkjunni að arfleifð þeirra lifir til þessa dags. Maríurnar eru María móðir Jesú, María frá Betaníu og María Magdalena.

Í frásögn Jóhannesarguðspjalls af innreiðinni í Jerúsalem er í aðdragandanum sagt frá því að Jesús hafi heimsótt heimili Maríu í Betaníu, en hún var eins og lýst er fyrr í guðspjallinu og í þekktri frásögn Lúkasarguðspjalls systir Mörtu og Lasarusar. Systra og bræðrabönd í Nýja testamentinu eru margræð og lýsa oft annarskonar sambandi en eiginlegum blóðsystkinatengslum. Þannig telja fræðimenn t.d. líklegt að Jakob, einn postulanna í Jerúsalem, hafi verið blóðbróðir Jesú en Tómas, sem nefndur er skv. hefðinni tvíburabróðir hans, var það líklegast ekki, heldur lýsir nafngiftin trúfesti hans. Flestir ritskýrendur hafa talið systkinin í Betaníu vera eiginleg systkini en kvennaguðfræðingurinn Mary Rose D’Angelo hefur lagt til að Marta og María hafi verið sambýliskonur og að heimili þeirra í Betaníu hafi verið trúboðs-miðstöð eða heimakirkja. Slík pör í þjónustu við fagnaðarerindið eru algeng í frásögnum Nýja testamentisins og orðnotkunin sambærileg (sbr. lýsingar í 16. kafla Rómverjabréfs). Marta var samkvæmt þessari kenningu djákni húskirkjunnar í Betaníu og María eigandi hússins og forstöðukona eða prestur.

Í guðspjallinu segir að Jesús hafi leitað þar skjóls og borðað með lærisveinum sínum og að Marta hafi gengið um beina. Lasarus situr með þeim til borðs en í kaflanum á undan nær þjónusta Jesú hámarki í því kraftaverki sem hann vinnur með því að reisa hann upp frá dauðum. Sá atburður, líkt og öll tákn Jóhannesarguðspjalls, vísar til krossfestingar og upprisu Jesú á páskum. Þegar þau hafa borðað sýnir María Jesú ást sína á hátt, sem er í senn táknræn fyrir það sem framundan er og á allan hátt ögrandi.

,,Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna.” (Jh 12.3) Frásögnin hefur allt að því erótískan undirtón en í hinu forna samfélagi huldu giftar konur hár sitt eða bundu í hnút á almannafæri. Höfundur guðspjallsins er meðvitaður um þá margræðni sem felst í þessum atburði. Smurning Jesú er í senn smurning til konungs, þó slík smurning hafi yfirleitt verið á höfði, og hinsta smurning, en látnir voru smurðir smyrslum til að varna nályktar í hitanum á meðan ættingjar kvöddu. Fyrst og fremst er þetta ástarjátning og undirstrikar stöðu Maríu andspænis Jesú.

Hneykslan Júdasar er þannig ekki úr lausu loft gripin, hann hefur hrokkið við bæði þá erótík sem felst í því að þerra fætur hans með hári sínu og þau verðmæti sem voru notuð. „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?“(Jh 12.5) segir hann. Denari voru laun verkamanns fyrir dagsvinnu og ef marka er verðskyn gjaldkerans kostuðu þau smyrsl sem María hafði í fórum sínum árslaun verkamanns. Það styður þá kenningu að María frá Betaníu hafi verið eigandi hússins og efnakona, líkt og heimildir eru um að María Magdalena hafi verið líka. Jesús leyfir Júdasi ekki að gera lítið úr þeirri ást sem honum er sýnd og setur ofan í við Júdas: „Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“ (Jh 12.7-8)

Úr húsi María hefur Jesús innreið sína inn í Jerúsalem á Pálmasunnudag, þar sem hann er hylltur sem konungur, smurður af Maríu, og gengur í dauðann á krossi. Guðspjallamaðurinn tekur fram að Lasarus hafi jafnframt verið líflátinn af æðstu prestunum, þeim trúarlegu höfðingjum sem var ógnað af þjónustu og boðun Jesú. María frá betaníu er ein af þremur kvenpersónum guðspjallanna sem varða komu Guðs inn í þennan heim og fagnaðarerindi hans. María guðsmóðir fékk það hlutverk að vera farvegur hans inn í þennan heim, María frá Betaníu smyr hann til konungs með ást sinni og trúfesti og María Magdalena verður fyrsti upprisuvotturinn og sú sem boðar lærisveinunum það fagnaðarerindi sem borist hefur okkur sem tilheyra kristinni kirkju.

Það vald sem sá enga leið færa aðra en að taka Jesús og Lasarus af lífi til að tryggja völd sín, er sama eðlis og það vald sem finnur sig knúið til að gera lítið úr þeim sem ógna völdum sínum í trúarlegum embættum kirkjunnar í dag. Konur sem krefjast þess að standa jafnfætis körlum í embættum kirkjunnar gera það af ást sinni til Jesú, líkt og María forðum. Og með því að standa gegn þjónustu kvenna er hætt við að karlar taki sér stöðu með Júdasi fremur en Jesú.

Það til marks um visku og áhrif Sigurbjörns Einarssonar að honum hafi tekist að afstýra deilum um prestvígslu kvenna á Íslandi. Það voru prestar sem tjáðu sig opinberlega gegn þessari ákvörðun og létu sterk orð falla um málið en þökk sé Sigurbirni var okkur hlíft við þeim átökum sem enn standa yfir víða í systurkirkjum okkar.

Innreið Jesú inn í Jerúsalem var ekki árétting á rétti kirkjunnar til að setja sig á hærri hest en frelsarinn sjálfur, heldur ákall og táknmynd um það að konungsveldi Krists er annarar gerðar. Ef Jesús hefði kært sig um að ganga hinu veraldlega valdi á hönd, hefði honum verið tekið opnum örmum af valdshöfum síns tíma og fengið til þess valdsmannleg klæði og reiðskjóta. Þess í stað ber okkur sem kirkja og samfélag að aðlaga okkur að því göngulagi sem innreiðin boðar og reynast hugrökk, látlaus, auðmjúk og í sífelldri ögrun við það vald sem reynir að setja konur og menn á pláss.

Guðspjall: Jóh 12.1-16 Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður og Marta gekk um beina en Lasarus var einn þeirra sem að borði sátu með honum. Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna. Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?“ Ekki sagði hann þetta af því að hann léti sér annt um fátæka heldur af því að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók af því sem í hana var látið. Þá sagði Jesús: „Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“ Nú frétti allur fjöldi Gyðinga af því að Jesús væri í Betaníu og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna heldur og til að sjá Lasarus sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá ákváðu æðstu prestarnir að taka einnig Lasarus af lífi því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.

Degi síðar frétti hinn mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem. Fólk tók þá pálmagreinar, fór út á móti honum og hrópaði: „Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, konungur Ísraels!“ Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er: Óttast ekki, dóttir Síon. Konungur þinn kemur og ríður ösnufola. Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu en þegar Jesús var dýrlegur orðinn minntust þeir þess að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gert þetta fyrir hann.