Dagurinn í dag er margfaldur minningar- og gleðidagur.

Dagurinn í dag er margfaldur minningar- og gleðidagur.

Það er 1. desember, fullveldisdagurinn. Nýtt kirkjuár er hafið með þessum fyrsta sunnudegi í aðventu.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Dagurinn í dag er margfaldur minningar- og gleðidagur.  Það er 1. desember, fullveldisdagurinn.   Nýtt kirkjuár er hafið með þessum fyrsta sunnudegi í aðventu.  Við göngum veginn fram til jóla, veg sem varðaður er fjórum kertaljósum aðventukransins.  Kertaljósin hjálpa okkur að minnast, íhuga og reyna spádómana um fæðingu Jesú, sem kertið í dag minnir okkur á, litla bæjarins þar sem hann fæddist, hirðanna sem fyrstir fengu að heyra tíðindin um fæðingu hans og englanna sem voru boðberar þeirra tíðinda.

Guðspjallið í dag segir líka frá ferðalagi. Á lífsins leið er okkur ekki alltaf ljúft að ganga þá leið sem við förum.  Stundum krefur nauðsyn, stundum sjúkdómar eða annað sem við verðum að ganga í gegnum.  Óskastaðan er ekki alltaf tiltæk.   Innreið Jesú í Jerúsalem, er guðspjall fyrsta sunnudags í nýju kirkjuári.  Jesús vissi að hann var að ganga til móts við dauða sinn á krossi svo viðbúið er að gangan sú hafi ekki verið gleðiganga.  Auðmjúkur og hógvær gekk hann til móts við borgina Jerúsalem þar sem spádómarnir rættust.  Jesús fór síðasta spölinn inn í borgina á asna, þessu litla burðardýri sem var þarfur þjónn heimamanna á þeirri tíð.  Fólkið fór á undan og á eftir og hrópaði orð sem þau þekktu úr Biblíu sinni Gamla testamentinu.  Þar var fólk á ferð, pílagrímar sem fóru til Jerúsalem á páskahátíðinni. 

Það eru margir pílagrímarnir sem ganga og íhuga þessi árin.  Nútímafólk þráir innri frið og styrk og er andlega leitandi.  Margir velta fyrir sér hvort þörf sé á að taka þátt í öllu, alltaf.  Það er mikið álag á mörgum í samtíma okkar.  Í gamla daga var aðventan nefnd jólafasta.  Þá sparaði fólkið við sig í mat og hugsaði um að eiga hangið læri og hátíðarbrauð um jólin.  Nú er jólamatur á borðum okkar margra daglega svo erfitt er að gera sér dagamun um jólin.  Það er líka umhugsunarvert að sá matur sem tengist hefðum aðventu og jóla er tilkominn vegna sparsemi í mat.  Kæsta skatan fyrir vestan, laufabrauðið fyrir norðan, rjúpan og fleira mætti nefna sem er nú til dags tengt við hefðir sem við viljum ekki vera án.  Já, allt á sér sögu,  tengingar og tengsl.  Sá guðspjallstexti sem við heyrðum áðan um innreið Jesú í Jerúsalem er tengdur textum sem samtíðarfólk Jesú þekkti úr sínum helgiritum.  Fólkið hrópaði „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“ Þessi texti kom upp í huga þeirra þegar þau fylgdu Jesú inn í Jerúsalem. 

Pílagrímagöngur eru hluti af hinum kristna menningararfi og enn ganga margir í trúarlegum tilgangi.  Persónulegar áskoranir koma þar líka við sögu.   Það er vinsælt að ganga Jakobsveginn og margir Íslendingar hafa gert það.  Á hverju sumri ganga þó nokkrir í Skálholt og taka þátt í hátíðinni þar sem haldin er eftir miðjan júlí ár hvert.  Það er áhrifamikil sjón að sjá fólkið ganga inn kirkjugólfið berfætt og lúið eftir eins til fjögurra daga göngu eftir því hvaðan var lagt upp frá.  Þau syngja „Við erum fólk í förum“ og kirkjugestir taka undir með þeim. 

Við erum fólk í förum.
Ef ferðin er erfið og löng,
við setjumst við læki og lindar
og leitum þín, Guð, í söng.

Já, við erum öll á lífsins leið.  Hvar sem við fæðumst hér á jörð þráum við öll öryggi og hamingju.  Við vitum að lífið er alls konar og margt getur gerst sem við ráðum ekki við.  Við þurfum á hverju öðru að halda.  Það veit hjálparstarf kirkjunnar sem veit að margt smátt gerir eitt stórt.  Veit að það er skylda okkar sem meira höfum að deila með þeim sem minna hafa.  Veit að öll börn eiga að hafa jafna möguleika til náms og öryggis.  Veit að fólk þarf á stuðningi að halda á lífsleið sinni og er reiðubúið til að feta veginn fram með fólkinu sem í hlut á.  Þess vegna minnir hjálparstarfið okkur á að muna eftir öðrum, bæði hérlendis og erlendis því starfsfólkið veit að lífskjör fólks eru mismunandi.  Á veggspjaldi sem ég sá frá Hjálparstarfi kirkjunnar stendur:  „Vatn, húsaskjól og betri heilsa.  Með þinni hjálp.“ 

Já, enginn getur hjálpað öllum en allir geta hjálpað einhverjum.  Þetta er þekkt setning sem vekur til umhugsunar.  Við búum í samfélagi og á hverjum degi koma fram margar skoðanir á því hvernig við viljum hafa það samfélag og hvort nóg er að gert í hinum og þessum málaflokkum.  Það eru skiptar skoðanir um það sem er og sýnist sitt hverjum.  Með hjálparstarfi sínu minnir kirkjan á að margir, já í raun allt of margir eru í þörf fyrir stuðning, kærleika, félagsskap auk daglegs brauðs.  Þeim fjármunum er vel varið sem látnir eru af hendi til Hjálparstarfs kirkjunnar.  Bæði innanlands- og utanlandsaðstoð kemst til skila og bætir líf einstaklinga og fjölskyldna.  „Hjálparstarf kirkjunnar hefur hafið fjársöfnun til verkefna í sveitum Úganda og Eþíópíu. Fólkið sem við aðstoðum þar býr við mikinn skort um aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu.“ segir á heimasíðu Hjálparstarfsins.  Jafnfram segir á heimasíðunni um innanlandsaðstoðina: 

 „Starfsfólk og sjálfboðaliðar Hjálparstarfs kirkjunnar undirbúa nú aðstoð við efnalitlar fjölskyldur í desember. Aðstoðin er veitt með inneignarkortum í matvöruverslunum, ásamt jólagjöfum fyrir börnin og jólafatnaði fyrir börn jafnt sem fullorðna, en fatnaðinn hefur okkur verið gefinn og er vel með farinn, hreinn og heill. Markmiðið er að gera fólki kleift að gleðjast með sínum nánustu yfir hátíðirnar.“ 

Ennfremur kemur fram að „Alls nutu 1274 fjölskyldur eða um 3400 einstaklingar um land allt aðstoðar fyrir síðustu jól. Fjölmörg fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar veita styrki til starfsins ár hvert og vinnuframlag sjálfboðaliða við skráningu og afgreiðslu umsókna fyrir jól er jafnframt ómetanlegt.“

Þau sem fylgdu Jesú á undan og á eftir til Jerúsalem voru fólk í förum.  Um það fjallar guðspjall þessa dags.  Það eru þó nokkrar göngurnar sem farnar eru.  Sumar til að mótmæla, sumar til að styðja, sumar til að gleðjast yfir náðum árangri og minna á að aldrei má halda að það sem er hafi komið af sjálfu sér.  Gleðigangan í ágúst er ganga sem farin er og margir taka þátt í.  Bæði með því að ganga eða standa og fylgjast með göngunni.  Það er gleðilegt að mannréttindi séu virt og fólki leyfist að vera eins og það vill vera.   Fögnum fjölbreytileikanum, óttumst hann ekki. 

Þegar Jesús var kominn til borgarinnar Jerúsalem fór mikið fyrir honum.  Þar var mannfjöldi mikill og eins og oft þar sem fólk safnast saman var verið að selja og skipta gjaldeyri.  Jesús þolir ekki óréttlæti eða ranglæti.  Kirkja hans á að feta í fótspor hans og halda uppi mannúð og taka upp hanskann fyrir þau sem hafa orðið undir af ýmsum ástæðum.  Hjálparstarf kirkjunnar er útréttur armur til þeirra sem þurfa aðstoð.  Það er einnig sóknarkirkjan, Fjölskylduþjónusta kirkjunnar, sérþjónusta hennar og það frábæra fólk sem sinnir þjónustu við náungann um allt land. 

Hann sem sagðist hafa allt vald á himni og á jörðu kom ríðandi á ösnufola til borgarinnar Jerúsalem á páskahátíðina.  Fólkið vildi taka á móti konungi og bar sig þannig að.  Breiddi vissulega ekki rauðan dregil á götuna heldur klæði sín.  Veifaði ekki þjóðfána sínum heldur pálmagreinum.  Hann sýndi ekki valdsmannslega tilburði heldur auðmýkt.  Fólkið þráði konung, leiðtoga.  Var það ekki skipuð krafa sem borin var upp hér um árið á Íslandi.  Þegar bankarnir hrundu og sumir misstu aleiguna.  Var þá ekki kallað eftir leiðtoga?  Á hverju ári svara nokkur þúsund því að þau vilji hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins og í framhaldi athafnarinnar eru viðstaddir minntir á að vera góðar fyrirmyndir hinna ungu.  Leiðtogar eru fyrirmyndir.  Leiðtogi okkar sem kirkjunni tilheyrum er Jesús.  Hann er líka leiðtogi fjölmargra annarra sem ekki tilheyra kirkjunni enda er það að vera í félagi frjálst val hvers og eins. 

Við göngum aðventuveginn og stefnum að ljósinu sem við okkur skín á jólum.  Megi aðventan, jólafastan vekja með okkur gleði og tilhlökkun og fullvissu um að við erum elskuð börn Guðs hvernig svo sem aðstæður okkar eru og lífsviðhorf.

Prédikun flutt í Hallgrímskirkju 1. sunnudag í aðventu 1. desember 2019.  Jes. 62:10-12; Róm. 13:11-14; Matt. 21:1-11.