Af jörðu ertu kominn

Af jörðu ertu kominn

Þessi sígjarna keppnishugsun nútímans sem flæðir um allar gáttir og elur af sér óseðjandi græðgi þar sem manninum á allt að vera fært og fæst er heilagt og á öllu skuli sigrast, sama hvað það kostar.
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
18. september 2014
Flokkar

Ein mín ástsælasta bók er gömlu skólaljóðin, safn valinna ljóða af Kristjáni J. Gunnarssyni. Mér er minnisstætt frá barnaskólaárum mínum, að þetta var í raun sú bók sem ég var látin fletta oftast, ekki bara til að lesa, heldur til að læra mörg ljóðin utanbókar. Og ég á minningar um móður mína þar sem hún stóð yfir mér, þar sem ég vældi af gremju af því þetta var svo erfitt, en ekki skyldi hætt að stagla fyrr en ég kunni ljóðið. Svo í skólanum daginn eftir vorum við börnin látin standa upp hvert fyrir sig og þylja upp viðkomandi ljóð. Þar rís hæst í minningunni Heilræðavísurnar eftir sr. Hallgrím Pétursson. Eftir var gengið að við kynnum allar vísurnar níu reibrennandi, aftur á bak og áfram. Mér gekk alltaf verst að muna síðasta erindið:

Víst ávalt þeim vana halt: vinna, lesa og iðja, umfram allt þó ætíð skalt elska Guð og biðja.

Kannski var það fyrirboði um það sem lífið bar í skauti sínu. Er þetta ekki einmitt það sem reynir mest á, að vinna, lesa, iðja, elska Guð og biðja?

Það var ekki fyrr en löngu síðar, að ég áttaði mig á hversu mikil lífsgæði fólgin eru í að þekkja svolítið til þeirrar auðlegðar sem í ljóðunum eru fólgin. Í þessu gamla ljóðasafni voru þrjú megin stef: Trúin og Guð, náttúran og ættjarðarástin, virðingin og hjálpfýsin. Þannig lögðu ljóðin með boðskap sínum grunn að gildismati. Þó margt í ljóðunum væri framandi og illskiljanlegt barnshuganum, þá síaðist inn ákveðin kjölfesta sem hafði kristna trú, náttúruna og þjóðina í miðju,- umvafið af virðingu og kærleika. Og þetta birtist svo innilega í guðspjallinu sem tileinkað var síðasta sunnudegi og ég las frá altarinu og ritningarlestrarnir bera einnig vitni um. Að lífið er þjónusta af auðmýkt, rækt og virðingu.

Jesús segir í guðspallinu: „Þér vitið að þeir sem ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá sem mikil vill verða meðal yðar, þjónn yðar“.

Með öðrum orðum: Ekki er mikil reisn yfir hetjudáðum sem láta kenna á valdi sínu, hvorki í mannlífinu eða í náttúrunni, t.d. með því að sigra fjallstinda sama hvað það kostar eða sigra heiminn með því eignast mest. Heldur sá sem nýtur samfélags með náttúru landsins og gengur um af skilningi, af virðingu, auðmýkt og ást, ekki til að sigra eða láta kenna á valdi sínu, heldur til að þiggja, njóta, gefa. Það gerir líka sá sem yrkir jörðina eða leitar fanga til hafs. Þannig viljum við líka umgangast hvert annað.

Hér á lýðræðis-og mannréttindahugsjónin rætur sínar að rekja þar sem virðingin fyrir lífinu er í fyrirrúmi.

Þessi sígjarna keppnishugsun nútímans sem flæðir um allar gáttir og elur af sér óseðjandi græðgi þar sem manninum þar sem allt á að vera fært, og fæst er heilagt og á öllu skuli sigrast, jafnvel sama hvað það kostar. Þetta á ekkert skylt við keppnisandann í íþróttunum þar sem leikið er samkvæmt gefnum reglum.

Græðgishyggjan er svo andstæð heilbrigðum metnaði til framfara sem birtist í þessum kristna mannskilningi, að lífið er gagnkvæm þjónusta, ekki til að láta mannlífið og náttúrna kenna á valdi sínu, heldur að njóta og nýta, að við getum þegið og notið samfélags hvert með öðru og jörðinni til lands og sjávar. Líka óverðskuldað þar sem einasta tjáningin sem í boði er heitir: Þakklæti. Þess vegna getur sá verið mikill og stór á meðal okkar sem ekkert getur gert annað en að þakka. Það er einnig þjónusta við Guð, mann, jörðina og lífið allt. Í þakklætinu felst hvatning og virðing, dýrmæt skilaboð um falleg gæði.

Þegar við horfum yfir liðið sumar, þá er þakklæti efst í huga. Mikil gróskutíð, náttúran hefur gefið ómælt með uppskeru sinni til sjávar og sveita og skartað sínu fegursta. Þrátt fyrir að við séum minnt áþreifanlega á að við búum á landi elds og ísa, þá minnir það ekki síður á allt hið góða og fagra sem landið okkar býr yfir og gefur. Sumarið með öllum sínum gjöfum er vitnisburður um það. Enginn maður hefur það á valdi sínu, en við reynum að haga lífi og háttum eins og gefur hverju sinni.

Það ljóð sem líklega mest hefur verið lesið allra ljóða heimsbókmentanna, og rannsakað meira en nokkurt annað, fjallar einmitt um mann og jörð. Það er sköpunarfrásögnin á fyrstu blaðsíðum Biblíunnar. Sumir hafa meðtekið boðskapinn eins og bókstafleg náttúrvísndi, en fæstum dylst að þar er ortur lofgjörðar-og þakkaróður til almáttugs Guðs.

Engum kemur í hug, þó Jónas Hallgrímsson hafi verið náttúrfræðingur, að kenna ástarljóðin hans til landsins og náttúrunnar við bókstafleg náttúruvísindi. Nær væri að kenna sköpunarfrásögur Biblíunnar við ástarljóð heldur en náttúruvísndi. En það dregur á engan hátt úr sannleiksgildi boðskaparins, tjáningu þakkklætis og lofgjörðar til almáttugs Guðs um að hann er skapari himins og jarðar. Dettur nokkrum manni í hug að bárur hafsins geti bókstaflega heilsað heima rómi blíðum, um hæð og sund í drottins ást og friði, eins og Jónas yrkir í „Ég bið að heilsa“? En boðskapurinn hans, heimþráin og ástin á landinu fagra og fólkinu er skír og framborinn svo innilega með tungutaki ljóðsins.

Sömuleiðis heillumst við af andagiftinni og fegurðinni sem sköpunaróðurinn í Biblíunni birtir:

„ Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. Jörðin var auð og tóm og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum. Guð sagði: Verði ljós. Og það varð ljós. Guð sá að ljósið var gott og Guð greindi ljósið frá myrkrinu. Og Guð kallaði ljósið dag, en myrkrið kallaði hann nótt. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur“.

Á þessum orðum hefst Biblían. Síðar er sagt frá sköpun mannsins, og það meira segja gert á þremur stöðum á sömu opnunni og með mismunandi hætti sem undirstrikar að saman koma ólíkar frásgnahefðir og jafnvel frá ólíkum tímum. Á fyrsta staðnum segir, að Guð hafi skapað manninn eftir sinni mynd, karl og konu, en síðar segir að Guð hafi myndað manninn af leiri jarðar og blásið lífsanda í nasir hans og þannig varð maðurinn lifandi sál og enn síðar er lýst hvernig konan var sköpuð af rifi mannsins. Öll þessi frásagnarbrot eru hvorki líffræði né náttúrvísindi, heldur þakkaróður, lofgjörð, játning um lífgjöfina frá Guði og ábyrgðina gagnvart skapara sínum og verndara. Þessi lofgjörðar-og þakkaróður Biblíunnar glæðir í vitund okkar virðingu. Himinn og jörð eru svo mikið undur, að aldrei verður til hlítar skilið og maðurinn verður að lúta og eiga meðferðis nægan skammt af æðruleysi, auðmýkt og þakklæti til að komast bærilega af. Á þetta erum við minnt þegar við lítum ofan í opna gröf. Moldin sem við blasir, fögur og þvílíkt undraefni, en með vatni og sól tendrar líf, elur, nærir og geymir. Engin vísindi geta enn skýrt það allt út. Svo glittum við í svarta öskurák í moldarstallinum sem minnir á að allt er í sístæðri sköpun, landið lifir og náttúran bærir á sér t.d. með elsgosum, öskufalli og flóðum.

En yfir öllu þessu stendur maðurinn, treystir og vonar á Guð, og segir af hjartans einlægni: „Af jörðu er ertu kominn, að jörðu skaltu aftur verða og af jörðu skaltu aftur upp rísa“. Það eru engin náttúruvísindi, heldur trúarjátning lifandi manns sem vonar og þakkar. Af sama gildismati njótum við náttúrunnar og nýtum auðlindir hennar mannlífi til blessunar af virðingu og þökk. Þetta kenndu gömlu skólaljóðin og nærðust af þessari trú sem lofar og þakkar Guði, skapara himins og jarðar. Þau afsökuðu það ekki, þó valin væru fremur ljóð sem upphófu ástina á Guði og íslenskri jörð. Kannski yrðu þau í dag af einhverjum flokkuð til áróðusrsrita og ekki samboðin börnum í fjölhyggjusamfélagi nútímans sökum þjóðrembings eða trúaráróðurs.

Enn er þó leyfilegt að þykja vænt um landið sitt og enn er kristin trú kjölfesta í íslenskum sið. En ættjarðarástin og trúræknin má aldrei úthýsa né fordæma aðra, hvorki einstaklinga né þjóðir, heldur ekki siði eða átrúnað, og heldur ekki þá sem búa á meðal okkar og hafa ólíkar skoðanir. Í því felst frelsið, að fá notið lands og gæða, trúar og friðar þar sem við erum saman og þjónum hvert öðru í von og kærleika.

Megum við þakka fyrir það allt, í Jesú nafni. Amen.