Ást sem meikar yfir allt

Ást sem meikar yfir allt

Það hvarflar ekki að mér að Páll hafi ritað þessi kraftmiklu og fallegu orð um kærleikann með kúgun og niðurlægingu í huga. En það sem við skrifum eða segjum er ekki alltaf meðtekið á þann hátt er við hugsuðum okkur.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
18. september 2011
Flokkar

Ást sem meikar yfir allt Mig langar til að segja ykkur svolítið í tilefni af því að við lásum hér einn útbreiddasta texta Bilíunnar, Óðinn til kærleikans. Ég sló þennan texta inn í leitarvél google og á broti úr sekúndu komu um 13 500 000 vísanir í ýmislegt sem tengist þessum texta á netinu. Hann hefur gagnast sem innblástur í skáldskap, kvikmyndir, leikrit, tónverk svo ekki sé minnst á Biblíu og textarannsóknir og sjálfsagt margt fleira.

Þannig er að ég les þennan fallega texta um kærleikann gjarnan þegar ég gef saman hjón. Að undanförnu hefur þó læðst að mér efi um að orðin sem ég les séu viðeigandi. Hvað ef samband hjónanna einennist af ofbeldi og kúgun. Heimilisofbeldi er algengara en við gerum okkur flest í hugarlund. Fleiri konur á aldrinum 15-44 ára deyja eða verða örkumla vegna ofbeldis en samanlagt vegna krabbameins, bílslysa, stríðsátaka og malaríu. Stór hluti þessa ofbeldis fer fram innan veggja heimilis eða er beitt af nánum fjölskyldumeðlimi. Hvað ef brúðurin er nú reglulega lamin af brúðgumanum? Hvernig skilur hún orðin um að kærleikurinn breiði yfir allt, trúi öllu, voni allt og umberi allt?

Þýða þessi orð að hún á bara að láta þetta yfir sig ganga, vona það besta og halda áfram að meika yfir marblettina? Eru þetta skilaboð um að kirkjan, presturinn, muni ekki koma til hjálpar ef hún vill rjúfa þögnina.

Hvernig skilur ofbeldismaðurinn orðin um að kærleikurinn breiði yfir allt, trúi öllu, voni allt og umberi allt. Hann situr þarna í kirkjunni og sér eftir öllu saman. Hjarta hans er fullt af kærleika til elskunnar sinnar. Hann ætlar aldrei að leggja á hana hendur aftur. En hann veit einhversstaðar innst inni að það er ekki satt. Hún mun aftur æsa hann upp þar til hann missir stjórn á sér. Hann veit líka að ef hún elskar hann þá fer hún aldrei. Hún mun meika yfir allt. Ástin meikar yfir allt.

Það er kannski ekkert fallegt að hugsa svon á meðan ég er að gefa saman fólk enda er ég nú ekkert að velta þessu fyrir mér í smáatriðum og gefa þessum hugsunum allt of stórt rými. En þetta hvarflar stundum að mér vegna þess að um 23 – 27 000 kvenna á Íslandi hafa einhverntíma á lífsleiðnni orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi. Ég þekki margar og það gerir þú eflaust líka þó ekki sé víst að þú vitir af því. Þetta þýðir einnig að mikill fjöldi íslenskra barna og unglinga hefur orðið vitni af ofbeldi á heimili eða orðið fyrir því sjálf.

Svo stend ég þarna í kirkjunni og segi vð fólkið að kærleikurinn breiði yfir allt, trúi öllu, voni allt og umberi allt.

Getur verið að Páll hafi verið að hvetja til meðvirkni og kúgunnar? Hann var nú ekki dyggur talsmaður kvenfreslsis. Getur verið að það sé undir okkur sem lesum komið, hvernig við túlkum þetta? Að þinn sannleikur og minn sé ekki endilega sá sami.

Biblían, eins og önnur trúarrit, hefur í gegnum tíðina verið notuð til þess að kúga og berja á fólki og hafa nokkrir textar Páls postula, höfundar Kórintubréfsins, nýst sumum vel í þeim tilgangi.

Biblían er þó engin ofbeldisbók nema í þeim mæli sem hún lýsir lífi manneskjunnar, sem stundum er ofbeldisfullt.

Kærleikur og ótti Það hvarflar ekki að mér að Páll hafi ritað þessi kraftmiklu og fallegu orð um kærleikann með kúgun og niðurlægingu í huga. En það sem við skrifum eða segjum er ekki alltaf meðtekið á þann hátt er við hugsuðum okkur.

Að sjálfsögðu þýðir þetta ekki að við eigum að umbera og þola allt. Við eigum heldur ekki að trúa öllu og hvað þá að breiða yfir allt. Kærleikurinn felst ekki í því. Jesús Kristur, sem sjálfur boðaði að þú ættir að rétta fram hina kinnina, reiddist þegar hann sá óréttlæti, sagði frá þegar honum þótti brotið á fólki og skammaði þau sem honum þótti tala ógætilega. Hann var engin geðluðra sem lét troða á sér.

Það sem Jesús gerði og kannski lýsir kærleikanum best í verki er að hann stóð alltaf með þeim er minna máttu sín. Hann þoldi ekki ofbeldi og óréttlæti. Hann fyrirgaf. Hann hafði kjark til þess að standa með því sem rétt er þótt það þýddi óvinsældir yfirvalda. Hann þorði að standa með hinum valdalausu þó hann hefði sjálfsagt lifað lengur og í meiri hagsæld ef hann hefði staðið með valdinu.

Auðvitað þýðir þetta ekki að við eigum bókstaflega að breiða yfir allt, trúa öllu eða umbera allt og við megum ekki túlka þessi orð á þann veg. En þetta þýðir að þegar okkur tekst að lifa í kærleikanum, í ljósinu, í Guði þá þolum við mikið. Þá tekst okkur að umbera meira en annars. Þá verður auðveldara að trúa því besta um fólk. Þá verður auðveldara að eiga við óvini og kærleiksleysi í heiminum.

Kannski er það þannig að ef á okkur er brotið og við höfum ekki kærleikann þá verður erfiðara að bera hönd fyrir höfuð okkar. Ef við höfum kærleikann, Guð, með okkur þá reynist okkur einfaldara að slá vopn haturs og illsku úr höndum fólks því hatur og illska byggja yfirleitt á ótta og kræleikurinn er gagnstæða óttans. Ótti þrífst ekki í kærleikanum.

Kærleikurinn, ljósið og Guð En hvernig eignumst við þá þennan magnaða kærleika sem Páll talar um?

Mörg okkar þekkjum hvernig það er að vera ástfangin. Þið vitið þegar hjartað slær örar, við verðum kjánaleg og ófær um að taka ákvarðanir því við svífum um á bleiku skýju sem á lítið skylt við raunveruleikann. Við verðum eiginlega hálf veik á geði og sjáum manneskjuna er ástin beinist að sem gallalausa og fullkomna og ef hún hefur einhverja galla þá eru þeir bara sætir og auðveldir að elska.

Þetta ástand varir yfirleitt ekki mikið lengur en í tvö ár. Þá fer að brá af okkur. En þetta er aðeins einn angi af kærleikanum sem Páll talar um og þetta er ekki sú tegund af kærleika sem Jesús talar um í Guðspjalli dagsins þegar hann segir að við eigum að elska óvini okkar og biðja fyrir þeim sem ofsækja okkur. (Sjá. Matt. 5. 43-48)

Þessi magnaði kærleikur snýst um eitthvað miklu meira en að vera ástfangin/n. Hann snýst um að elska áfram þegar við hættum að vera ástfangin. Hann snýst um að reyna að sjá manneskjuna á bakvið verknaðinn. Hann snýst um að biðja fyrir þeim sem vilja okkur illt og sjá það góða í þeim sem okkur líkar ekki við og eru jafnvel okkur vond. Hann snýst um að þola ýmislegt vegna þess að kærleikurinn beinist ekki aðeis að okkur sjálfum.

En það er meira en að segja það að takast þetta.

Ég verð alveg að viðurkenna að ég á afar erfitt með að reiðast ekki og verða vond á móti þegar einhver hreytir í mig að ástæðulausu eða að ósekju. Ef réttlætiskennd minni er ógnað.

Ég get ekki elskað einræðisherra og valdafólk sem svífst einskis til þess að halda völdum. Ég get ekki elskað ofbesldismanninn sem lemur konuna sína og jafnvel börnin sín. Ég get alls ekki elskað kynferðisofbeldismanninn. Og ég á erfitt með að láta mér líka við þau sem ekki deila því gildismati og lífssýn sem ég hef.

Enda er ég ófullkomin og breisk.

En þegar ég lifi í kærleikanum á ég að geta litið á þau sem ég get ekki elskað og alls ekki líkað við sem góða sköpun Guðs.

Kærleikurinn afsakar ekki ofbeldi en hjálpar okkur kannski að skilja ástæður þess. Kærleikurinn fær mig kannski ekki til þess að elska óvini mína en hann fær mig til að umbera þá og biðja fyrir þeim. Og þegar vel tekst upp fær kærleikurinn mig til þess að líta í eigin barm í stað þess að leita að göllum og sök hjá öðrum og þá verður auðveldara að bera virðingu fyrir þeim sem ekki deila lífsýn minni og gildismati.

En hvernig eignumst við þennan magnaða kærleika?

Jú, kærleikurinn er Guð. Kærleikurinn er að lifa í ljósinu, að lifa í Guði. Ef við gerum það þá lifum við í ástandi kærleikans. Því miður þýðir það ekki að við verðum fullkomlega góð og gallalaus og förum að elska allan heiminn.

Nei, við höldum víst áfram að vera sömu gallagripir alveg jafn ófullkomin og alveg jafn fullkomin hvort sem við lifum í Guði eða ekki. En það verður auðveldara að finna kærleikann í öllum aðstæðum þegar við höfum gefið Guði leyfi til þess að taka þátt í lífi okkar og baða okkur ljósinu.

Þegar ég stend við altarið í kirkjunni og er að fara að gefa saman brúðhjónin þá bið ég elskulega/n Guð að gefa brúðhjónunum líf í kærleikanum. Ég bið Guð að gefa þeim líf í sannleika. Ég bið Guð að gefa að engin/n skilji þessi loka orð Páls í óðinum til kærleikans bókstaflega heldur í samhengi við líf sitt og aðstæður. Að við getum sætt okkur við og þolað ýmislegt í fari makans og reynum ekki að breyta henni/honum og móta eftir okkar eigin smekk og vilja. Ég bið Guð að gefa mér kjark til þess að líta ekki í hina áttina þegar mér er sagt frá ofbeldi á heimili hvort sem það er líkamlegt, kynferðislegt eða andlegt og hver sem verður fyrir því.

Lexía dagsins úr Jesaja spámanni lýsir svo fallega ávöxtum kærleikans og launum:

Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal, hættir hæðnisbendingum og rógi, réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í og seður þann sem bágt á, þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur. Drottinn mun stöðugt leiða þig, seðja þig í skrælnuðu landi og styrkja bein þín. Þú munt líkjast vökvuðum garði, uppsprettu sem aldrei þrýtur. (Jes. 56) Amen.