Hvað er í pakkanum?

Hvað er í pakkanum?

Á bernskuárum sínum áttu börnin mín það til að teikna og lita á pappír, brjóta hann saman, líma og gefa mér. Gjöfin var umbúðirnar einar, ekkert var í pakkanum. Getur verið að við hin eldri förum stundum svipað að?
fullname - andlitsmynd Ólafur Jóhannsson
12. desember 2008

Á bernskuárum sínum áttu börnin mín það til að teikna og lita á pappír, brjóta hann saman, líma og gefa mér. Gjöfin var umbúðirnar einar, ekkert var í pakkanum.

Getur verið að við hin eldri förum stundum svipað að?

Hvort sem um er að ræða stórafmæli, brúðkaup, fermingu eða jól hættir okkur til að leggja svo mikið í hið ytra að sjálft tilefnið týnist í glæsilegum umbúðum.

Pakkað - mynd: Árni Svanur Daníelsson

Þó er líklegt að aðsteðjandi efnahagsþrengingar leiði til aukinnar hófsemdar og skynsemi í hátíðarhöldum. Á það mun reyna nú á aðventunni.

Aðventa er tími undirbúnings og eftirvæntingar. Þess tíma skulum við njóta án þess að taka forskot á jólin. Þau koma á sínum tíma! Það er hollt að hlakka til, hollt að bíða en fá ekki allt strax.

Þegar liðið er á aðventuna verður sífellt meira aðkallandi að gera ráðstafanir varðandi jólagjafir. Það er vissulega góður og viðeigandi siður að gefa jólagjafir. Kristin jól byggjast á gjöf, stærstu gjöf sem gefin hefur verið þegar Guð gaf son sinn í heiminn til þess að hann yrði frelsari okkar mannanna.

Sú gjöf kom ekki í veglegum umbúðum og hlaut ekki glæsilegar viðtökur í upphafi. Samt hefur gjöf Guðs í Kristi enst mannkyninu í tæp 2000 ár og er enn helsta uppspretta trúar, vonar og kærleika í veröldinni. Því fögnum við á jólum.

Það getur vafist fyrir okkur að finna viðeigandi jólagjafir handa ástvinum. Hvað á svo sem að gefa fólki sem „á allt“?

En það á ekki við um alla, ekki einu sinni í samfélagi okkar. Meðal okkar eru einstaklingar og fjölskyldur sem hafa ekki heilsu eða fjárhagslega burði til að halda neyslujól eins og almennt hefur tíðkast. Einnig eru dæmi um einstæðinga sem enginn gefur neitt.

Í víðara samhengi tilheyrum við – þrátt fyrir bankahrunið – ríkasta hluta heimsins. Bræður okkar og systur um víða veröld njóta einskis af því sem við teljum sjálfsögð þægindi og geta ekki gert sér neinar vonir um veglegar gjafir í tilefni jólanna.

Í þessu samhengi á það vissulega við að „sælla er að gefa en þiggja“. Vitur maður komst svo að orði að við ættum ekkert nema það sem við hefðum gefið.

Meiri og varanlegri jólagleði hlýst af því sem ég gef en því sem ég fæ í jólagjöf.

Tækifærin eru mýmörg. Hjálparstarf kirkjunnar sér fúslega um að koma gjöf okkar áleiðis til þeirra sem minnst hafa. Mörg önnur líknarsamtök og mæðrastyrksnefndir miða að því sama. Í Grensáskirkju er sésrtakt gjafaverkefni á aðventu undir heitinu „englatréð“ og áfram mætti telja tækifærin til að gefa og gleðja ókunnug en þurfandi systkin okkar.

Jólagjöf Guðs til okkar er fullkominn kærleikur. Gjöf okkar er endurskin þess kærleika, sé hún gefin í kærleika en ekki af nauðung eða einskærri skyldurækni.

Mörg okkar þekkja ævintýrið um Trölla sem stal jólunum. Sem betur fer endar það ævintýri vel og jólunum er bjargað.

Þjóðarleiðtogar hafa reynt að fresta jólunum en án árangurs. Fólk lætur ekki taka þau frá sér. Jólin eru ómissandi.

Hins vegar er það að miklu leyti undir okkur sjálfum komið um hvað jól okkar snúast og hvað þau skilja eftir sig, hvort þau eru glæsilegar umbúðir án innihalds eða færa varanlega gleði.

Á aðventunni búum við okkur undir jólin, m. a. með því að gefa ókunnugum. Í þeim pakka er kærleikur, umhyggja, samstaða, uppörvun. Slík gjöf gleður hjarta Guðs – og er þá ekki tilganginum náð?