Vöxtur

Vöxtur

Já, hvað þarf til þess að eitthvað vaxi? Það byrjar allt með þeirri orku sem í brjóstum okkar býr.

Hvað þarf til þess að eitthvað vaxi?

Ég ver dögunum með syni mínum sem nú er tæpra ársgamall. Við skemmtum okkur oft konunglega, feðgarnir. Lífið kemur reglulega á óvart á þessu skeiði ævinnar og það eru auðvitað forréttindi að fá að vera vitni að nýjum uppgötvunum, nánast daglega. Reglulega förum við foreldrarnir með þann stutta í skoðun þar sem hann er veginn og mældur. Þá sjáum hvort við erum að gera rétt, hvort við nærum hann og örvum eins og foreldrum ber að gera. Þetta mun allt vera á áætlun og það er ekki laust við að við fyllumst snert af stolti þegar hjúkrunarfólkið sýnir okkur stöðu hans á þyngdarkúrfunni. Hann er talsvert fyrir ofan meðallag, þótt hæðinn sé eins og gengur og gerist.

Já, hann nærist vel og Reglulega gera ömmur hans innrás í fataskápinn og taka frá samfellur og galla sem eru orðnir of litlir. Þegar maður handleikur þessar flíkur er eins og þær séu gerðar fyrir brúður en ekki börn – þótt þær hafi passað svo ágætlega fáeinum mánuðum áður.

Vit og magn er ekki nóg

En hvað þarf til þess að börn nærist og vaxi? Víst væri til lítils að hafa miklar upplýsingar um næringarfræði smábarna ef ekki kæmi meira til. Jafnvel gnægð matar hrykki skammt ef ekki væri fyrir eitt grundvallaratriði sem þarf að vera til staðar ef börnin okkar eiga að dafna. Jú, þau þurfa að njóta ástúðar. Annað væri það nú. Þekkingin og matarforðinn duga ekki ein og sér. Löngunin til þess að hlúa að barninu, efla það og næra er algjört grundvallaratriði. Jafnvel þótt skortur sé á hinu tvennu vitum við mörg dæmi um það að foreldraástin hefur fundið sínar leiðir til þess að bæta úr því sem vantar.

Við mennirnir kunnum jú fátt annað í upphafi ævigöngu okkar en að vekja þessar fögru og lífgefandi kenndir í brjóstum þeirra sem okkur eiga að sinna. Börnin fá þetta í fæðingargjöf enda eru þau háð foreldrunum lengur en flest annað ungviði á móður jörð. Og það gengur jú blessunarlega með slíkum ágætum að smábarnaforeldrar hugsa um fátt annað en um ungviðið smáa og vöxt þess og viðgang. Allt á þetta á sér upptök innra með þeim sem börnunum sinna. Þar þarf að vera ríkuleg ástúð og umhyggja og frá henni sprettur síðan allt það þrotlausa starf daga og nætur, árum saman – sem við köllum uppeldi!

Vöxtur í eyðimörkinni

Hér í guðspjallinu er fjallað um magnaðan vöxt. Þar kemur matur sannarlega við sögu og reyndar barn einnig, þótt það sé í hlutverki gefandans en ekki þess sem þiggur. Og rétt eins og gjarnan er í lífinu þá horfa menn fram á mikið vandamál, sem lýsir sér í því að maturinn hrekkur engan veginn fyrir svo marga. Hver getur hlýtt á dýrmætan boðskap um kærleika Guðs til mannsins á meðan maginn er galtómur? Menn áttu eftir að sýna fram á það löngu löngu síðar að í lífi okkar eru ákveðnar grunnþarfir sem þarf að uppfylla til þess að við getum fært okkur þrepi ofar í þarfapíramídanum. Sá sem ekki nær andanum, spáir ekki í hungri. Sá sem sveltur veltir lítt fyrir sér djúpum tilvistarspurningum. Og svo koll af kolli. Hér voru menn að ræða hin hinstu rök lífsins, stöðu mannsins frammi fyrir Guði og hinn skilyrðislausa kærleika sem Guð ber fyrir okkur – rétt eins og foreldri gagnvart barni sínu. Þá er eins gott að eitthvað heyrist fyrir garnagauli og fólk komi sér ekki bara í burtu og missi af öllu saman.

En frásögnin greinir frá ævintýralegum vexti. Þetta er kraftaverkafrásögn – sannarlega er hún það. Lítilræði er lagt fram en það vex og vex svo að fjöldi fólks fær næringu. Það verður jafnvel afgangur. Þetta er kraftaverk. Hvað er annars kraftaverk? Það er einhver furða þar sem allt fer á annan veg en í fyrstu mætti ætla. Lögmálin víkja fyrir einhverju sem við fáum ekki útskýrt. En það getur líka verið kraftaverk þegar við skynjum einhverja krafta í kringum okkur sem megna að breyta veruleikanum.

Kraftaverk

Víst er það kraftaverki líkast að fylgjast með litlum einstaklingi vaxa upp úr flíkunum, þjálfa sig í hverri listgrein lífsins á fætur annarri og sigrast á nýjum og nýjum raunum. Kraftaverkin eru víða í kringum okkur. Hérna í kirkjunni okkar hefur orðið mikill vöxtur. Kærleiksríkar konur og kærleiksríkir karlar leggja á sig mikla vinnu til þess að metta messugesti að helgihaldinu loknu. Hvern einasta sunnudag vetrarins, frá byrjun september og fram yfir páska mæta sjálfboðaliðar til leiks og stuðla að því að samfélagið okkar heldur áfram eftir að hringt hefur verið úr messu. Þegar við ræddum þessi mál í undirbúningnum hugsaði ég með mér að vart tækist að leysa slíka krafta úr læðingi. Það þar hafði ég rangt fyrir mér.

Í þessu bæjarfélagi vinna fjölmargir að sama marki. Fólk leggur mikið á sig til þess að létta undir með byrðum náungans og starf þetta skilar árangri. Fólk fær dýrmæta næringu og ekki aðeins fyrir hinn líkamlega vöxt heldur líka til þess að geta haldið áfram að vaxa og dafna sem manneskjur – mennta sig, umgangast aðra og skila sjálft af sér framlagi sínu til samfélagsins. Aftur er það hinn sami drifkraftur sem lætur kraftaverkið verða að veruleika. Það er umhyggjan fyrir náunganum. Það er þessi tilfinning að annað fólk komi okkur við, að við getum lagt okkar af mörkum til þess að breyta lífi annarra og þar með heiminum sem við tilheyrum.

Ég velti því stundum hvort kraftaverkið í sögunni þegar Jesús mettar fjöldann hafi verið af þessum meiði sprottið. Hvað fór fólkinu á milli sem hafðist við þarna í auðninni? hafði enginn sýnt þá forsjálni að taka með sér bita nema þessi eini drengur?

Er kraftaverkið sem Kristur vann þarna í eyðimörkinni ef til vill það að breyta því hvernig fólkið hugsaði? Kveikti hann kærleikseld í hjörtum þeirra sem er, þegar allt kemur til alls forsenda allra okkar góðu verka og alls framtaks okkar, hvers eðlis það er. Gildir þar einu hvort við búum barn undir framtíðina eða sinnum þeim öðrum sem í kringum okkur standa.

Hvað gerðist þegar menn sáu fordæmi þessa unga pilts? Tóku þeir þá að rétta bitana sína áfram? Og fundu gleðina sem felst í því að gefa, já sælla er að gefa en þiggja og því til staðfestu er greint frá því að afgangur hafi orðið.

Forsmekkur

Þessi saga er undirbúningur fyrir það sem í vændum var. Þegar Kristur lýsir Guðs ríki þá talar hann um þá sem líða skort: „Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp, og fátækum er flutt fagnaðarerindi.“

Já, hvað þarf til þess að eitthvað vaxi? Það byrjar allt með þeirri orku sem í brjóstum okkar býr. Það er sú ríkulega uppspretta sem Kristur beinir starfi sínu að. Hann horfir inn í hjarta okkar og þangað á hann erindi. Sá sem hleypir honum þangað inn finnur það fljótt að rödd Krists er auðug og gefandi. Já, öll tilveran sýnir á sér nýjar hliðar og menn skynja mátt þeirra orða sem Kristur sjálfur sagði – að sælla er að gefa en þiggja.

Allt á þetta rætur í hjartanu okkar. Þar finnum við uppsprettuna að því að eitthvað gott geti gerst, að við teygjum okkur út fyrir okkar þrengsta svið og leggjum náunganum lið. Og vöxturinn verður ótrúlegur, margfalur umfram það sem við þorðum að vona. Þetta er erindi Guðs til okkar. Við skulum fara að dæmi unga drengsins í sögunni og færa gjafir okkar fram fyrir Krists. Árangurinn mun ekki láta á sér standa ef við leysum krafta kærleikans úr læðingi.