Tíðarandinn

Tíðarandinn

Guðspjall: Jóh. 8. 42-51 Lexia: 2. Mós. 20.1-3,7-8, 12-17 Pistill: Op. 2.8-11

Nú hafa Bandaríkjamenn og Bretar hafið óhugnanlega feigðarför upp á sitt eindæmi og hafið ólögmætt árásarstríð gegn Írak og þessi feigðarför getur vart annað en endað í vegleysu og valdið sundrungu á milli þeirra þjóða sem stóðu að sáttmálanum sem þjóðir heimsins samþykktu í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Með þessu árásarstríði eru mannréttindi og mannúðarsjónarmið virt að vettugi í krafti valds, auðmagns og áhrifa. Stríðsrekstur skapar fleiri vandamál en honum er ætlað að leysa og veldur saklausum borgurum ómældum þjáningum og hörmungum. Varnarstríð getur verið réttlætanlegt en ekki árásarstríð líkt og nú er nýhafið því að engar sannanir eru til sem benda til þess að einvaldurinn í Írak hafi stutt við eða hýst hermdarverkamenn Al Kaída. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur ályktað í þessa veru en Bretar og Bandaríkjamenn telja að samkvæmt ályktuninni sé þeim leyfilegt að fara í árásarstríð engu að síður. Þessi ákvörðun ber vott um afskaplega takmarkaða skynsemi að mínum dómi, raunar heimskulega.

Ég er í þessu sambandi minntur á söguna um Ágústín kirkjuföður sem var á gangi á strönd Miðjarðarhafs. Hann var að brjóta heilann um hina eilífu gátu, þrenninguna. Hann vildi skilja hana en gat það ekki. Þá sá hann lítinn dreng sem var að grafa djúpa holu í sandinn í flæðarmálinu. Hann gróf sífellt dýpra. Ágústín spurði: “Hvers vegna ertu að grafa þessa holu?” Drengurinn svaraði: “Ég ætla að ausa Miðjarðarhafinu upp í hana”.

Ágústín hélt áfram göngunni og hugsaði upphátt og sagði við sjálfan sig: “Hið víðáttumikla haf í litla holu. Hinn mikla eilífa Guð í lítinn mannsheila. Og Ágústín sá hve fávís hann var”.

Tíðarandinn í kjölfar síð-nútímahyggjunnar

Hið guðdómlega og eilífa stríðir ekki gegn skynseminni. Ég man ekki til þess að nokkur hafi borið hinum miklu heimspekingum þessarar jarðar á brýn að þeir hafi verið skyni skroppnir. Hins vegar þykir mér að heimspekinga seinni tíma hafi skort nægilega skynsemi, einkum þá sem stóðu fyrir heimspekistefnu sem hefur haft mjög mótandi áhrif á þjóðlíf allt á vesturlöndum undanfarna áratugi. Þessi stefna hefur verið nefnd post modernismi eða síð-nútímahyggja. Undanfari hennar var modernismi, nútímahyggja sem átti upphaf sitt í upplýsingunni. Hugmyndafræði upplýsingarinar einkenndist af óbilandi trú á skynsemina, vísindin og framþróun. Áhrifa nútímahyggjunnar gætti á öllum sviðum þjóðlífsins, efnahagslega, stjórnmálalega og stofnanalega. Olíukreppan kringum 1973 hafði gífurlega neikvæð áhrif á efnahagskerfi heimsins hvert sem litið er. Í öllu þessu umróti varð til jarðvegur fyrir hugmyndafræðilegar breytingar sem kenndar hafa verið við post-modernisma eða síð-nútímahyggju. Þessar breytingar eru enn að eiga sér stað og víða má sjá þessara breytinga merki í nútímaþjóðfélagi. Síð-nútímahyggja setur alvarleg spurningamerki við skynsemina og vísindin og afneitar í raun tilvist þess sem kalla má undirstöðuþekkingu á þeim forsendum að nánast enginn félagslegur veruleiki sé til utan tungumálið, myndir og orðræðan.. Fyrir þann sem aðhyllist þetta lífsviðhorf verða sannleikur og skynsemi merkingarlaus hugtök og trúin á að til séu einhver haldbær gildi sem sameinast má um víkur. Þannig er einstaklingurinn í samfélaginu í raun ekki bundinn eða tengdur neinu heldur játar því sem hann aðhyllist hverju sinni. Kjarninn í nútímahyggju og síð-nútímahyggju liggur í hnattvæðingu efnahagskerfa, pólitískra tengsla, upplýsingamiðlunar, samskipta og tækni. Þannig getur hnattvæðingin leitt til vaxandi þjóðernishyggju, valddreifing til miðstýringar og dreifð stjórnun til dulinnar stigskiptingar valdsins. Vaxandi þjóðernishyggja í ríkjum fyrri Júgóslavíu og stríðið í kjölfar hennar eru lifandi dæmi um hvernig þversagnir hnattvæðingarinnar geta birst. Þekkingarbyltingin hefur leitt til þess að það sem gildir í dag gildir ekki á morgun, allt er breytingum háð. Trúfestan og hollustan víkur fyrir tækifærismennsku.. Þessi heimur síð-nútímahyggju elur jafnframt af sér brothætt sjálf hjá manneskjunni. Við sjáum það að ættartengsl eru orðin minni. Hjónabandið er ekki lengur álitin sú lífstíðarskuldbinding sem það var. Siðferðileg, trúarleg og hugmyndafræðileg kerfi eru sömuleiðis síbreytileg og fallvölt. Ekkert er lengur öruggt eða gefið.

Og æskan í samfélagi nútímans er umvafin tækniundrum. Oft er þessi tækni notuð til að skapa sýndarveruleika sem oft virðist vera jafnvel trúverðugri en veruleikinn sjálfur. Aðstæður sem í veruleikanum eru hættulegar verða í sýndarveruleikanum öruggar og hættulausar. Þetta skapar vissulega marga spennandi möguleika en ekki síður hættur. Þær felast fyrst og fremst í því að tæknin og sýndarmenningin sem hún getur búið til yfirtaki og mái út hina nauðsynlegu, siðferðilegu og gagnrýnu orðræðu og greiningu sem þarf að eiga sér stað um slíkan tílbúinn veruleika. Án hennar væri hægt að fá hvern mann til að trúa því að drengurinn sem Ágústín talaði við gæti ausið Miðjarðarhafinu ofan í holu eftir dágóða stund í sýndarveruleika.

Sívaxandi hraði nýrra upplýsinga leiðir til enn meiri óvissu fólks um sannleiksgildi frétta sem fluttar eru með ýmsum miðlunarleiðum. Þessa sjást dæmi í stríði eins og nú þegar ekki er gætt hlutleysis í fréttaflutningi. Og það þarf ekki stríð til vegna þess að áhrifamenn í þjóðfélaginu segja oft það sem kemur þeim sjálfum best og fyrirtækjum þeirra og flokksstefnu, sérstaklega þegar kosningar eru í nánd. Hraði upplýsinganna er slíkur oft á tíðum að möguleikar til gagnrýninnar ígrundunar verða takmarkaðir og tilhneigingin til firringar verða sífellt meiri, sérstaklega núna þegar ýmsir miðlar eru notaðir til að miðla upplýsingum. Þetta veldur því að við látum fréttirnar stundum sem vind um eyrun þjóta. Þessi firring veldur því að grafið er undan hinum heilnæma grundvelli sem maðurinn getur byggt líf sitt á. Hinn vestræni heimur er um margt byggður á kristnum siðrænum gildum en síð-nútímahyggjan hefur valdið því að þessi heimur hefur misst sjónar á þeim. Þess í stað hefur verið tekin upp hentistefna sem getur ekki endað með öðru en hruni þeirra siðrænu kristilegu gilda sem við þekkjum og hafa til þessa einkennt vestrænar siðvenjur sem og austrænar að einhverju marki.

Hvað er sannleikur?

Pontíus Pílatus spurði Krist hvað sannleikur væri. Kristur benti á sjálfan sig og sagði: “Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið” Bandaríkjaforseti sagði eftir fundinn á Azoreyjum að daginn eftir myndi stund sannleikans renna upp. Hvað átti hann við? Enginn veit það með vissu. Vafalaust hefur síð-nútímahyggjan mótað hugarfar forsetans líkt og annarra misvitra stjórnarherra. Við lifum í dag tíma þar sem öll gildi eru talin eiga rétt á sér. Þau eru sem sagt sniðin að þörfum okkar hverju sinni. Í þessum heimi sem við lifum er sannleikurinn og réttlætiisboðskapurinn brotakenndur og margslunginn, veginn og metinn með tilliti til aðstæðna og þarfa hverju sinni, á hverjum tímapunkti þar sem hagsmunagæslan er orðin aðalatriði á kostnað mannréttinda, mannúðarsjónarmiða. Rétt og rangt, gott og illt, sannleikur og lygi eru orðin fallvölt kristileg siðræn gildi, sérstaklega í höndum áhrifamanna.Sannleikurinn verður þá sannleikur hjá einum en ekki endilega hjá öðrum. Sannleikurinn verður þá samkomulag ólíkra hópa um það hvað sannleikur er. Réttlæti verður þá afsprengi hentistefnu sem miðast við tillteknar kringumstæður og staðhætti. Í þessum heimi síð-nútímahyggjunnar er sannleikanum pakkað inn í svo flókinn búning með hjálp fjölmiðla að hinn venjulegi maður segir við sjálfan sig: “Þetta er svo flókið að ég skil þetta ekki”. Þá er markmiði valdhafanna náð. Hinn almenni borgari hættir að hafa skoðun. Unnt verður að fá hann til að trúa hverju sem er og gera hvað sem er. Lygin verður þá sannleikur og leyfilegt verður að refsa hverjum sem er fyrir hvað sem er.

Kirkjuleiðtogar í Bandaríkjunum gerðu það sem í þeirra valdi stóð til að benda forsetanum með vinsamlegum hætti á hversu afvegaleiddur hann væri en allt kom fyrir ekki.

Honum og okkur öllum er hollt í þessu samfélagi nútímans að horfa um öxl yfir farinn veg og spegla okkur í ljósi boðorða Guðs. Þar er að finna leiðbeiningu sem er hin sama í dag og hún var þegar hún var sett fram forðum. Þá á ég t.d. við boðorðin tíu. Ef við speglum okkur öll í ljósi þeirra þá verður okkur strax ljóst að við erum öll sek og syndug og þurfum að iðrast til þess að geta tekið á móti fyrirgefningu. Það væri skynsamlegt ef við könnuðumst öll við það frammi fyrir Guði að skynsemi okkar er takmörkuð. Þess vegna værum við enn þá skynsamari ef við tryðum því sem Guð hefur opinberað okkur í orði sínu um það sem heyrir til eilífðinni. Kristur benti lærisveinum sínum á það að hann gæfi þeim nýtt boðorð sem væri uppfylling boðorðanna tíu, að þeir elskuðu hver annan og hann fræddi þá svo sannarlega í orði og verki hvernig þeir ættu að tileinka sér þetta nýja kærleiksboðorð. Hann sagði þeim að réttlæti Guðs birtist í umhyggjunni og mannúðinni sem sérhver einstaklingur ætti rétt á að njóta hvar sem hann byggi.

Heiminum gefst nú kostur á að líta augum heima í stofu, í gegnum sjónvarpsskjáinn, stórfelldari loftárásir en nokkru sinni hafa verið gerðar. Í sjúkrastofu í Bagdad gat að líta lítið barn grátandi með reifar um höfuð sér og hvassyrtan íraka sem spurði mig og þig þar sem við sátum og fylgdumst með hvar siðgæði okkar væri og mannúð? Barnið stóð ekki frammi fyrir einhverjum sýndarveruleika heldur hrikalegum raunveruleika sem hlýtur að nísta hvern mann inn að beini sem hefur einhverja samvisku. Getum við látið þessi orð sem vind um eyrun þjóta, við sem teljum okkur kristna einstaklinga?

Kirkjan er samviska heimsins

Samtökin Amnesty International hafa vakað eins og samviska heimsins yfir því að ekki sé brotið á mannréttindum í heiminum. En hvað með kristna kirkju? Í mínum huga á kirkjan að vera samviska heimsins. Hún á að vera miklu pólitískari í sinni boðun og vera þannig rödd sem heyrist. Kristin trú byggir á samkennd. Í því sambandi erum við minnt nú á föstunni á Krist sem líður á krossinum. Hann þekkir þjáningar mannanna af eigin raun og grætur því með með grátandi barninu í Bagdad og öðrum sem þjást vegna styrjaldarátakanna.

Svo virðist sem efnahagskerfi nútímans sé meira eða minna haldið gangandi með hernaði. Þetta gerist meðan einhver skæðasti sjúkdómur mannkynssögunnar, eyðnin, geisar í Afríku og hefur gert yfir 30 milljónir barna foreldralausa. Lítið sem ekkert er gert til að berjast gegn þessari veiki, og borið við fjárskorti, en nóg er til af peningum til að sprengja nútíma þjóðríki í tætlur - og byggja það svo aftur upp fyrir þeirra eigin peninga. Þetta finnst mér vera ákaflega þversagnakennt og kaldhæðnislegt svo ekki sé meira sagt.

Í guðspjalli dagsins stendur Jesús í orðræðum við gyðinga sem höfðu tekið trú á hann en áttu erfitt með að skilja hann og tileinka sér kenningar hans. Svar Krists á einnig fullt erindi við okkur í ljósi styrjaldarástandsins og ég spyr mig hvort valdhafarnir í Bandaríkjunum eigi nú djöfulinn að föður í stað Guðs sjálfs? Við vitum að markmið djöfulsins er að eyðileggja sjálfa kórónu sköpunarverksins, manneskjuna. En látum Krist hafa síðasta orðið hér í dag og hugleiðum orð hans vandlega:

Jesús segir: “Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt. Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir”.

Guð gefi að sinn vilji nái fram að ganga svo á jörðu sem á himni. Amen.

sr. Sighvatur Karlsson flutti þessa prédikun í Húsavíkurkirkju Sunnudaginn 23. mars 2003 þá stríðið við Írak var nýhafið.