Sjálfstætt fólk

Sjálfstætt fólk

Það er talið að um 800 milljónir manna gangi svangar til náða hvert kvöld. Við slíkar tölur fallast manni hendur og slíkum tölum verður ekki breytt í snarhasti. Við getum hins vegar byrjað á nærumhverfinu. Við sem þjóð og við sem kirkja og við sem einstaklingar. Því hvað er sjálfstæð þjóð með slíkan smánarblett á bakinu sem skortur og fátækt eru. Látum slíkt heyra sögubókunum til.

Lítið samhengi

Þegar maður lítill, þegar maður er barn, þá er allt nýtt. Samhengi er óþekkt hugtak. Þegar maður er litill er það sem maður heyrir satt og rétt. Þegar maður er lítill skilur maður ekki alltaf allt sem maður heyrir.

Hátíðarmessa 1. desemberÉg verð alltaf lítill þegar ég heyrir þessi kunnuglegu orð „leitið og þér munuð finna“. Þetta var síterun á mínu heimili og er raunar enn. (eins og sjálfsagt á mörgum öðrum heimilum)

Þessi orð þýddu að nú var móðir mín að leita að einhverjum nauðsynjagrip, sem hún hafði lagt frá sér á góða staðinn. Einhverra hluta vegna færðist sá góði staður alltaf til og var aldrei vís.

Í dag merkja þessi orð að tengdamóðir mín er stödd í sinni eilífðarleit að einhverjum af þeim fjórum eða fimm gleraugum sem hún er búin að planta um húsið. Pabbi sagði hinsvegar alltaf: Látum okkur nú sjá sagði blindi jón – Þá var hann að hugsa.

Svo voru önnur orðtæki sem maður skildi síður, en maður skildi þau síðar. Eins og til dæmis „addú addú! klukkan tíu, komið hádegi, dagurinn búinn og ekkert gert!“ Hangs taldist ekki til mannkosta á mínu heimili.

Stærra samhengi

Í dag er þessi mikilvægi dagur, fullveldisdagurinn, haldinn hátíðlegur. Minnismerki um baráttu og afrek forfeðra okkar. Varða í sögu vegferðar þjóðar.

Við erum alin upp í því augnamiði að geta staðið á eigin fótum, vera sjálfstæð. Eignast þak yfir höfuðið, vera fyrirvinnur og dugleg. Sem er allt saman þarft, gott og blessað.

Ég vann einu sinni á öldrunardeild og kynntist þar þó nokkrum sem höfðu búið í torfbæ, mundi stofnun lýðveldisins 1944, svo örar hafa framfarirnar verið á landinu okkar, svo ung erum við. Og hver og ein kynslóð man tímana tvenna: „Ég var farinn að vinna 12 ára“ „Ég lærði að synda með því að mér var nú bara hent útí ána“ „Ég þurfti að ganga rúma þrjá kílómetra í skólann!“ „Hvaða skóla?“ spyr þá sá elsti. „Það var farskóli heima, ekki meir.“ Þessar kynslóðir hverfa nú smám saman, og reynsluheimur þeirra er að glatast. En við megum ekki gleyma. Því til að vita hver við erum, þurfum við að vita hvaðan við komum. Gleymum hvorki þeim sem upplifðu þetta þá, né þeim sem upplifa ekki síður erfiða tíma í dag.

Við erum svo sannarlega blessuð þjóð. Okkur hafa svo sannarlega hlotnast „hinar góðu gjafir“. Þegar horft er á hina stóru mynd, stóra samhengið, þá höfum við það svo dáyndis gott.

Skuggahliðin á þessari öru þróun og allsnægtum flestra heimila er sú að sum orð eru að glata merkingu sinni. Mikilvæg orð, sem þarft er að minna á. Trú von og kærleikur, eru orð sem standa fyrir þau kastljós sem við kristið fólk, og raunar allir, eigum að láta lýsa veg okkar. Trú von og kærleikur eru einnig orðin að skartgrip og það meira að segja fallegum. Sem er ljómandi svo lengi sem það sem stendur á bak við „Trú“ „Von“ og „Kærleik“ stirðnar ekki í silfrinu sem er svo aðeins skartað á hátíðarstundum.

Þau orð sem eiga erfiðara uppdráttar eru virðing og auðmýkt. Að bera virðingu og sýna auðmýkt. Virðing er of oft lögð að jöfnu við að „skemma ekki“ og auðmýkt er nánast horfin út orðfæri fólks. Helst að menn tengi orðið við undirlægjuhátt.

Í annan tíma höfum við horft upp á svo marga spurja einskis og banka þaðan af síður, heldur láta greipar sópa. Hrifsa. Anything goes. Sá sem hefur hærra vinnur.

Kannski stafar virðingarleysið af því fordæmi sem þessir menn gáfu. Þeim var hampað. Kannski er það til komið vegna þess að það er í raun svo stutt síðan að við urðum sjálfstæð. Við kappkostum að vera ekki undir neinn sett. Stolt þjóð. Kannski er það þess vegna sem mörgum finnst erfitt að biðja. Biðja um. Leita ásjár. Knýja á. Leita. En kannski hafa sumir beðið en farið bónleiðir heim.

Smærra samhengi

Sjálfstæði lýsir sér á fleiri en einn veg. Það er til stærra samhengi og það er til smærra samhengi. Það er til sjálfstæði þjóðar og það er til sjálfstæði einstaklings.

Annað orðatiltæki heyrði ég stundum sem barn. „Það er illt að vera aumingi.“ Þá var hengingaról einhverrar lánastofnunarinnar farin að herða að og búið gaf ekki nóg. Og það er illt að vera barn og finna áhyggjur gegnsýra heimilið.

Það er illt að vera aumingi – og það er illt að finnast maður vera aumingi. Þannig á engum að líða. Ekki á þessum tímum. Ekki á nokkrum tímum. Ekki með þessum allsnægtum. Ekki með öllum þeim gjöfum sem algóður Guð hefur látið okkur í té, því hann starfar á óteljandi vegu, þar á meðal í gegnum okkur sem höfum allt til alls, eigum umfram þarfir.

Aðventan fer í hönd. Dásamlegur fagnaðartími. Tíminn þegar ljósið skín skærast í myrkrinu og við höldum upp á fæðingarhátíð frelsarans okkar, þess sem var sannur maður og sannur Guð. Hann dó svo við fengjum lifað. Hann fæddist svo við gætum vaxið að verðleikum og orðið allt sem við höfum möguleikann til að verða.

Aðfangadagur er mér eins og svo mörgum, sérstaklega kær. Þegar mamma var orðin alveg galin á okkur systkinum, sem þýðir sennilega að hún var orðin galin á mér, ég er svo lang yngstur – og allir hennar bestu staðir voru týndir og tröllum gefnir og hún fann hlutina ekki alveg nógu hratt – þá var maður sendur út í fjárhús.

Þangað fór ég, ákaflega ómeðvitaður um hversu viðeigandi það væri, að eyða aðdraganda jólanna í að fylgjast með kindum standa við jötu og jórtra og liggja sjálfur í garðanum.

Þegar kemur að því að róa sál og hjarta, þá sigrar jórtrandi kind allt jóga heimsins. Ég finn hvernig kyrrðin og hin stóíska ró skepnunnar róar hnútinn í maganum. Kvíðann og spennuna. Og nú er góð stund til að tala til hins ósýnilega sem þó er allt um kring.

Eins og segir í einhverri auglýsingu: Kjötbollur í IKEA 790 krónur – spjaldtölva : 19900. Slíkar minningar: Præsless

Stóra samhengið

Það er svo gott að biðja. Það er sáluhjálparatriði að biðja. Það er gott að spenna greipar og úthella hjarta sínu. Það gerir okkur ekki ósjálfstæð. Það segir einfaldlega að við þurfum sárlega á samtali að halda. Ráðfæra okkur. Við trúum og treystum á réttlæti. Að við trúum og treystum að vel verði fyrir séð.

En það er vont að lifa í ótta. Og það er illt að vera „aumingi“ og vera ekki álitinn í stakk búinn til að taka eiginlegar ákvarðanir um sitt eigið líf, því að lífsgangan, fæðingarstaðurinn, veikindin, haga því þannig til. Fá ekki að vera sjálfstæður. Finnast þú bregðast þér og þínum.

Það er talið að um 800 milljónir manna gangi svangar til náða hvert kvöld. Við slíkar tölur fallast manni hendur og slíkum tölum verður ekki breytt í snarhasti.

Við getum hins vegar byrjað á nærumhverfinu. Við sem þjóð og við sem kirkja og við sem einstaklingar. Því hvað er sjálfstæð þjóð með slíkan smánarblett á bakinu sem skortur og fátækt eru. Látum slíkt heyra sögubókunum til, ásamt með hriplekum torfkofum.

Við sem fáum sérbakað brauð í stað steina, við sem höfum knúið á dyr menntastofnana og leitað gæfunnar og fundið. Við getum breytt hlutunum.

En það gerist ekki af sjálfu sér. Til þess þurfum við að virkja trú okkar, veita von og auðsýna kærleik. Finna í hjarta og farast úr hendi. Sýna í verki. Bjóða fram og láta ekki fólk frá okkur bónleitt fara. Verum ekki vegprestar.

Því eins gott og það er að biðja, getur verið eins erfitt að biðja um, knýja á og leita eftir. Svo munum, að það eru ekki aðeins þeir sem þurfa sem geta bankað á dyr.

Sýnum virðingu öllum mönnum. Sýnum þeim virðingu sem börðust sjálfstæðisbaráttunni svo við mættum vera ráðandi afl í okkar lífi. Heiðrum minningu þeirra með því að halda áfram bráttunni fyrir þeim sjálfsögðu lágmarks mannréttindum að fá að lifa góðu og mannsæmandi lífi.

Sýnum auðmýkt algóðum Guði. Við erum hans kærleiksverk og allt okkar er frá honum komið.

Og í stóra samhenginu, alvöru samhenginu, erum við öll jafn smá. Eða stór. Við erum jöfn. Í augum Guðs erum við jöfn. Þá ættum við að vera það í hvers annars augum líka. Þegar ég var lítill þá sagði mamma mér einhvern tíma, að í útlöndum væri það kennt að Ísland væri fyrirheitna landið. Guðs ríki á jörð.

Ég veit ekkert hvað hún hafði fyrir sér í því blessunin, en væri ekki dásamlegt ef hún hefði haft rétt fyrir sér, þó síðar verði?

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda

Amen,