Heyrið óma hátt um jörð

Heyrið óma hátt um jörð

Það var síðla dags og tekið að rökkva í Betlehem þegar Jósep kom gangandi inn í bæinn með Maríu háólétta uppi á asnanum. Hann gekk að næsta gistihúsi sem hann sá og beiddist þar gistingar. Nei! Þar var allt yfirfullt af fólki sem komið var til að láta skráetja sig í víðlendu Rómarríkinu.
fullname - andlitsmynd Örnólfur Jóhannes Ólafsson
25. desember 2014
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá guði föður vorum og drottni Jesú Kristi og gleðilega hátíð.

Heyrið óma hátt um jörð Helgan söng frá englahjörð: „Náð og frelsi fagni þér, Friður jörðu veittur er.“ Syng þú glaður lofsöngsljóð, Lýður heims, með englaþjóð, Kunngjör ásamt englaher: „Yður Kristur fæddur er.“ Þei! Nú syngur himnaher Honum dýrð, sem fæddur er. (Bjarni Eyjólfsson)

Það var síðla dags og tekið að rökkva í Betlehem þegar Jósep kom gangandi inn í bæinn með Maríu háólétta uppi á asnanum. Hann gekk að næsta gistihúsi sem hann sá og beiddist þar gistingar. Nei! Þar var allt yfirfullt af fólki sem komið var til að láta skráetja sig í víðlendu Rómarríkinu. Hver hugsaði um sig eins og venja er hér á jörð. Hóteleigandinn sá aumur á fólkinu og benti þeim á útihús sitt á bak við gistihúsið. Ekki gat gistihúseigandanum rennt grun í hvaða atburðarás hann var orðinn þáttakandi í. Hann var bara að venju að redda hlutunum.

Þannig er lífið. Heldur áfram í smá sögum, hér og þar, kryddaðar sorg og gleði í mismunandi miklum mæli. Inn í þennan veruleik gerast kraftaverkin, hljóðlega og áreynslulaust. Allt í kringum okkur, án þess að við verðum þeirra sérstaklega vör, því að þau eru svo fastur hluti af okkar daglega lífi. Okkur finnst við í raun stýra atburðarásinni Í raun er jólasagan að gerast sífellt í kringum okkur við ósköp venulegar aðstæður. Guð kemur til okkar í náunga okkar. Við erum í raun ekkert ólík hóteleigandanum. Það sem okkur virðast eðlilegar aðstæður, jafnvel svolítið ómerkilegar og ekki þess virði að greina frá þeim, þar er Guð að verki.

Jósef var kominn langt frá heimaslóðum sínum, ókunnur maður í ókunnum bæ og hvarf í fjöldann. Hann var kominn þarna, af því að hann var af kynþætti Davíðs og Betlehem var borg Davíðs. Hann var þó bara einn af fjöldanum sem kominn var til að leita sér gistningar og varð bara að fara í röðina. Hann hefur efalaust þekkt suma, en ekki alla. Hvað átti þetta fólk sameiginlegt. Jú! Sameiginlegan forföður, sem var látinn fyrir langa löngu. Þessi dagur var bara líkur deginum í gær. Ekkert sérstakt við hann. Engann gat rennt grun í hvað myndi gerast þarna í bænum þessa nótt. Guð valdi staðinn og stundina.

Jósep var kominn til Betlehem til að fullnægja kröfum hins veraldslega valds. Keisarinn í Róm þurfti að vita, hverjir væru þegnar hans, hafa yfirsýn yfir ríki sitt. Fæðing Jesú í Betlehem gengur þvert á öll viðmið mannanna um hver sé hinn raunverulegi konungur. Boðskapur Guðs til okkar er sá, að allir menn og konur hér á jörðu séu jafnir fyrir Guði. Þar skipti landamæri og tunga engu máli. Öllum er boðið að jötunni. Konungurinn sem skiptir máli fæddist í útihúsi, í fátæku hreysi en ekki konungshöll. Það eru fátækir hirðar, sem fyrstir koma að hinu nýfædda barni, ekki yfirstéttin og það eru útlendingar sem að koma og votta því lotningu sem segir okkur að allar mannverur séu jafnar fyrir Guði. Jólagleðin er komin til okkar allra á þessari jörð, sem viljum taka við henni. Jólagleðin og mennskan byrja í okkur sjálfum. Charles Dickens lýsir þessu ógleymanlega í jólasögu sinni. Skröggur sögunnar breytist og við getum breyst, þegar við sjáum stjörnuna og fylgjum henni.

Guð velur sér staðinn og stundina. Það er staðurinn og stundin fyrir þig! Við erum hluti af langri sögu, en hvert um sig okkar er einstakt. Við þurfum að upplifa jólasöguna hvert og eitt og þó saman. Jólasagan er að gerast allt í kringum okkur. Í sögu eftir þýska rithöfundinn Stefan Heym, eru María og Jósef innflytjendur til Bandaríkjanna. Þau eru stödd á Elliseyju, sem er eyja rétt við Manhattan í New York. Þar voru innflytjendur geymdir, uns þeim var veitt landvistarleyfi til Bandaríkjanna. Þarna í bárujárnskýli á eyjunni á aðfangadag fæðir María dreng og aðrir hælisleitendur koma og færa barninu gjafir af sinni fátækt.

Guð varð að koma til okkar í manneskju. Af hverju? Jólafrásögnin kallast á við atburði páskanna. Guð varð að fæðast til að standa okkur jafnfætis, skynja okkar þrár og langanir, styrk og veikleika og til að vísa okkur leiðina heim til sín í gegnum dauða og upprisu. Hann varð með öðrum orðum að ganga inn í okkar kjör, verða einn okkar. Öðruvísi yrði hann okkur eilíflega fjarlægur. En við getum nálgast hann með trúnaðartrausti barnsins og þannig kemur myndin af nýfæddu barninu í jötunni til okkar. Það er einhvern veginn allt þar, það sem við getum ímyndað okkur saklausast og hreinast. Nýtt upphaf.

Jólin minna okkur á að varðveita barnið í okkur sjálfum. Þegar við röltum með börnum okkar, til að kaupa hæsta grenitréð sem er á markaðnum og koma því heim í stofu, þá erum við ansi nærri því að finna barnið í sjálfum okkur aftur.

Jesús blessar barnið í okkur sjálfum og býður okkur að gefa hvort öðru gjafir á afmæli sínu. Sú gjöf er gefin er þannig í kærleika, endurspeglar kærleika stærstu gjafarinnar sem við fáum ár hvert á jólum. Vonina um eilíft líf í gleði sérhverja stund með Guði og ættingjum og vinum okkar.

Við göngum út úr útihúsinu með hirðunum og vitringunum og horfum upp í stjörnubjarta nóttina. Heimurinn fagnar komu frelsarans og þakkar fyrir þá stóru gjöf sem við tökum á móti í þökk.

Er við horfum upp í himininn hljómar falleg jólasaga í eyrum. Á aðfangadegi jóla kom sonur konu einnar til hennar til að segja hversu mikið hann hlakkaði til kvöldsins og pakkanna. Hann sagði við hana: „Mamma, þú færð svo fáa pakka!“ „Nei sagði hún. Ég fæ birtuna úr augum þínum og einnig að auki söguna af fæðingu Jesú sem fæddist á jólanótt. Það er mér nóg! Sú fullvissa, að guð kemur til okkar í Jesú Kristi sérhvert ár til að lifa með okkur árið nægir mér. Ég get ekki farið fram á stærri jólagjöf!“

Með þessa jólasögu í huga höldum við jól. Jólin koma til okkar þegar myrkrið er sem mest. En núna fer daginn að lengja. „Ljósið sín í myrkrinu“ segir Jóhannesarguðspjall okkur um jólin. Jesús er sólargeislinn sem á að vaxa í okkur. Í myrkrum katakombanna í Róm myndskreyttu ofsóttir kristnir menn og konur veggina með upprisu Jesú. Jólin horfa fram til páskanna. Líf sem átti sitt upphaf gengur í gegnum dauðann til lífs með guði. Fögnum og verum glöð. Það var svo gleði hinna kristnu og samhjálp sem heillaði rómarkeisara forðum og svo, að hann gerði kristni að ríkistrú í ríki sínu. Slíkur varð ávöxturinn af barninu í jötunni í Betlehem ef við mennirnir hjálpum til og gerum boðskap hans að okkar í daglegu lífi. Guð gefi ykkur Gleðileg jól!

Dýrð sé Guði, föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.