Afskiptaleysið

Afskiptaleysið

Við höfum heyrt fregnir af slösuðu fólki í umferðinni sem hefur mátt þola afskiptaleysi annarra vegfarenda. Fregnir hafa borist úr Reykjavík af einstæðingum sem látist hafa í íbúðum sínum án þess að nokkur yrði þess var fyrr en nokkrum dögum síðar. Það er sannarlega áhyggjuefni hversu tómlætið fer vaxandi gagnvart náunganum í þjóðfélaginu.

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“

En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar’ eða: ,Statt upp og gakk’? En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér“ - og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!“

Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald. Matt. 9.1-8

Í guðspjalli dagsins segir frá Jesú sem steig í bát og hélt yfir um til borgar sinnar. Ég minnist þess þegar ég heimsótti Ísrael 1984 ásamt guðfræðinemum að þá steig ég í bát við strönd Genesaretvatns og hélt yfir um vatnið til Kapernaum. Borgin sú var rústir einar í mínum augum á þeirri stundu en steinarnir hrópuðu og minntu mig m.a. á þessa sögu sem við íhugum í kvöld. Flestir fræðimenn telja að borgin sem talað er um í guðspjallinu sé Kapernaum. Engri annarri borg í víðri veröld hefur hlotnast sú vegsemd að vera nefnd með þessum hætti. Reyndin er sú að hvergi hefur fólk séð meira af dásemdarverkum Drottins en í þessari borg, Kapernaum.

Það er athyglisvert að þrátt fyrir þessi undur sem Drottinn framkvæmdi í borginni þá sagði Jesús eitt sinn um hana “Og þú Kapernaum. Munt þú verða hafin til himins? Til Heljar skalt þú niður stíga því að ef þau kraftaverk hefðu gjörð verið í Sódömu sem gjörst hafa í þér, stæði hún allt til þessa dags”.

Þetta eru þung áfellisorð sem Jesús mælti í garð Kapernaum borgar. Hverjar voru þær syndir Kapernaumbúa er réttlætt gátu svo óhagstæðan samanburð við eitt mesta lastabæli sögunnar ? Hvergi voru þær nándar nærri eins hrikalegar og syndir Sódömu. Jesús lagði sitt mat á syndir og sumar þeirra voru augljóslega verri en aðrar í augum hans.

Hvað var þá að í Kapernaum? Svo er að sjá að þar hafi búið venjulegt fólk sem engan veginn var óvinveitt manninum frá Nazaret. Ekkert bendir til þess að íbúarnir hafi hafnað honum. En þeir gerðu annað sem var verra. Almenningur lét orð hans sem vind um eyrun þjóta. Enga verri meðferð getur nokkur sá maður fengið sem telur sig hafa boðskap að flytja. Mikils hefði mátt vænta af Kapernaum. En borgin sýndi guðsríkisboðskap mannsins frá Nazaret tómlæti og skilningsleysi. Því fór sem fór fyrir borginni.

Syndir afskiptaleysis eru síst betri en aðrar syndir. Ef Jerúsalem hefði farið eins að og Kapernaum væri enginn kristindómur í heiminum. Það voru þó ekki allir íbúar borgarinnar sekir um afskiptaleysi og tómlæti ef að líkum lætur.

Í guðspjalli dagsins er brugðið upp fallegri mynd af einlægum trúuðum einstaklingum sem bera lamaðan mann í rekkju til Jesú og biðja hann um hjálp. Afskiptaleysinu var ekki fyrir að fara í fari þessara manna heldur sýndu þeir þvert á móti gott fordæmi sem við ættum ætíð að hafa í huga hvar sem okkur ber niður í þessu lífi. Kannski hafa þeir þurft að bera lamaða manninn um langan veg. Í Afríku nútímans er vitað að fólk ber sjúka ættingja sína og vini langar vegalengdir, meira en dagleið, til þess að þeir geti sótt sér lækninga. Trúin flytur fjöll er stundum sagt. Þeir sem báru lamaða manninn til Jesú hafa e.t.v. fengið að skyggnast inn í himinn Guðs, haft af Jesú fregnir þar sem lamaðir gengu, dauðir risu upp blindir fengu sýn, daufir fengu heyrn og málhaltir mál fyrir tilstilli frelsarans. Þess vegna voru þeir reiðubúnir að leggja töluvert á sig í þágu lamaða mannsins. Lamaði maðurinn hefði ekki fengið þennan algjöra bata nema fyrir það að þeir lögðu á sig að bera hann til Jesú.

Það fer ekki framhjá neinum sem guðspjöllin les, hve geysimikla áherslu Jesús leggur á gildi trúarinnar. “Trú þín hefur gjört þig heila Trú þín hefur frelsað þig”. Trúin á Jesú er í eðli sínu trúnaðarsamband milli okkar og hans sem fyrst getur orðið máttugur í okkur þegar við treystum honum af hjarta og leggjum allt okkar ráð í hans hendur. Það er þetta innilega, barnslega og örugga trúnaðartraust sem frelsar manninn og gjörir hann heilan.

Jesús las úr hjörtum og kærleiksríku atferli vina lamaða mannsins að þeir treystu sér fyllilega. Það getur verið að lamaði maðurinn hafi verið orðinn vonlaus um bata og þeir borið hann til Jesú, jafnvel gegn vilja hans. Hvað sem því líður þá fékk hann lækninguna vegna þess að þeir höfðu til að bera trú til frelsarans.

“Vertu hughraustur barnið mitt” segir Jesus við lamaða manninn. “Syndir þínar eru fyrirgefnar”.

Það vekur athygli að Jesús fyrirgefur manninum syndir hans áður en hann læknar líkama hans. Sú skýring er til við því að í Palestínu var það almennt viðhorf á þessum tíma að tengsl væru milli sjúkdóma og syndar. Við getum því gert ráð fyrir því að lamaði maðurinn hafi hugsað sem svo að lömun sín væri afleiðing synda sem hann hefði drýgt og að Guð hlyti því að vera óvinur sinn og hefði refsað sér fyrir syndir sínar. Þegar Jesús fyrirgaf honum syndirnar þá vissi hann að Guð væri ekki lengur óvinur sinn heldur vinur sinn og þess vegna gat hann tekið óttalaus við lækningunni.

Heilbrigð sál í hraustum líkama er setning sem við könnumst við. Í þessari setningu eru fólgin sannindi því að vitað er að flókið samband er á milli sálar og líkama. Sé sálin veik þá hefur það áhrif á líkamsstarfssemina. Jesús vissi alveg hvað hann var að gera þegar hann umgekkst lamaða manninn. Þegar hann las huga og hjarta mannsins þá sá hann að syndabyrði hans gat varnað því að hann gæti sem best tekið á móti lækningunni.

Orð sem Nýja testamentið notar um þetta fyrirbæri sem við nefnum synd þýðir eiginlega það að hæfa ekki í mark, láta sér mistakast, verða ekki það sem manni er ætlað að verða. Jesús tekur sér orðið synd ekki oft í munn. En þegar það vill til er það einkum í þessu sambandi. “Syndir þínar eru fyrirgefnar”. Það var honum líkt að taka þannig á syndurum. Það var til þess að þeir sneru við og vikju af vegi synda og lasta. Sýnilega taldi Jesús það ekki til góðs að ala mjög á sektarkenndinni. Hann vildi láta menn skilja að þeir ættu yfir sér góðan og gæskuríkan Guð sem ekki væri eilíflega reiður, heldur fús til sátta við sérhvert frávillt barn sitt sem snúa vildi heim til föðurhúsa. Við þessi syndaaflausnarorð Jesú gat lamaði maðurinn fyrst trúað á batann. Sú trú er líka fyrir öllu, hverjum þeim sem sjúkur er og þráir að fá bót meina sinna.

Hvernig var syndaaflausn Jesú og lækningu tekið? Fræðimennirnir sögðu að hann guðlastaði því að Guð einn gæti fyrirgefið syndir. Aðrir urðu óttaslegnir og lofuðu Guð fyrir að hafa gefið manninum frá Nasaret slíkan lækningarmátt og vald til að fyrirgefa syndir.

Aðalatriðið í þessari sögu er það að Jesús opinberar mátt sinn og hlutverk í þessum heimi. Hann gefur sterklega til kynna að hann sé Messías, hinn smurði konungur, Guð sem er kominn inn í mannleg kjör til þess að frelsa allt mannkyn undan valdi syndarinnar með valdi kærleikans, valdi fyrirgefningarinnar.

Jesús segir að engin tengsl séu milli synda lamaða mannsins og veikinda hans því að hann spyr fræðimennina, kannski á léttum nótum hvort léttara sé að segja: Syndir þínar eru fyrirgefnar eða statt upp og gakk. Jesús bendir þeim á að einu gildir hvað hann segir því að hann hefur vald til að fyrirgefa syndir. Hann sé kominn til þess að rétta aftur samband mannsins við Guð, afmá merki syndarinnar af mannlífinu.

Og svo merkilegt sem það kann að virðast þá erum við ekki í ósvipuðum sporum og lami maðurinn. Við erum vanmáttug á ýmsum sviðum, erum sveipuð ýmis konar fjötrum og við berum margvíslegar byrðar sem við eigum erfitt með að losna við. Þegar við lítum í eigin barm þá sjáum við margvíslegar skúffur. Sumar þeirra er opnar eða hálflokaðar. Aðrar bera yfirskriftina: Aðgangur bannaður. En Jesús sér þó í gegnum allar þessar skúffur. Hann þekkir hugsanir okkar og hugrenningar hjartans. Hann vill að við stígum skrefið til sín og vörpum öllum áhyggjum okkar og syndabyrði á sig. Sumir geta þó ekki stígið þetta skref í eiginlegri merkingu líkt og lami maðurinn. Hann var svo heppinn að njóta liðsinnis vina sinna sem báru hann til Jesú. Það er ekki hægt að segja að vinir hans hafi verið merktir marki tómlætisins og afskiptaleysins.

Það er stundum sagt að við eigum ekki að vera að skipta okkur af öðru fólki. En Kristur sagði að við ættum að elska náungann eins og okkur sjálf. Kærleikurinn felur í sér jákvæða afskiptasemi þegar við skynjum að hjálpar okkar er þörf.

Rauði krossinn á Íslandi hefur á undanförnum árum staðið fyrir námskeiðum fyrir sjálfboðaliða víðs vegar um landið sem vilja láta gott af sér leiða með því að heimsækja aldraða og sjúka og þá sem búa við einangrun. Eitt slíkt námskeið verður á þriðjudaginn kemur á Húsavík eins og auglýst hefur verið. Ljóst er að verkefnin eru næg fyrir þá sem vilja skipta sér af á jákvæðan hátt og láta gott af sér leiða.

Við höfum heyrt fregnir af slösuðu fólki í umferðinni sem hefur mátt þola afskiptaleysi annarra vegfarenda. Fregnir hafa borist úr Reykjavík af einstæðingum sem látist hafa í íbúðum sínum án þess að nokkur yrði þess var fyrr en nokkrum dögum síðar. Það er sannarlega áhyggjuefni hversu tómlætið fer vaxandi gagnvart náunganum í þjóðfélaginu. Það þarf að bregðast við þessu. Kirkjan, sveitarfélög og félagasamtök geta tekið höndum saman að þessu leyti og virkjað sjálfboðaliða til starfa.

“Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf”. (Jóh. 3.16) Við bregðumst við þessari elsku Guðs í okkar garð með kærleiksþjónustu í garð náunga okkar. Kærleiksþjónustan er yfirskrift vetrarstarfs þjóðkirkjunnar þetta árið og fram á næsta ár. Þar verður ekki síst horft til þess að efla heimsóknarþjónustuna í söfnuðum landsins, virkja vinaleiðina þar sem þeim sem búa við einangrun af ýmsum ástæðum er boðið að fá sjálfboðaliða í heimsókn Við þurfum virkilega að taka til hendinni í þessum efnum, ekki síst í þéttbýlinu og auðsýna jákvæða afskiptasemi að þessu leyti. Tómlæti gagnvart þessum málaflokki er alvarleg synd að mínum dómi.

Örlagaríkasta syndin er þó synd tómlætisins gagnvart fagnaðarerindi Jesú en það var helsta synd Kapernaumborgar. Í trúnni á Krist sjáum við hann sem frelsara og fyrirmynd vinaleiðarinnar. Við reiknum með honum hvar sem er á vegferð okkar. Við tölum við hann og hlustum á hann tala við okkur með því innsæi sem okkur er gefið gagnvart orði hans og sakramentum, skírninni og heilagri kvöldmáltíð.

Trúin þarfnast Drottins. Hún er sambandið við hann sem stenst þegar allt annað hrynur. Þegar við fetum í fótspor mannanna sem báru lamaða manninn til Jesú þá fæðist játning hjartans og lífsins. Þá gerast undur Guðs ríkis likt og lamaði maðurinn upplifði. Kristur býður okkur mátt sinn, kærleika sinn, fyrirgefningu synda og sátt við Guð og allt annað með þessum gæðum. Hann opinberar dýrð sína og gefur okkur kost á að sjá þetta, treysta því og reyna það.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.