Í þrengingu – en von

Í þrengingu – en von

Lífsreynd manneskja gæti líka tekið undir orð engilsins og sagt að fyrir Guði væru engir hlutir ómögulegir. Sá sem hefur þurft að ganga í gegn um ýmsa erfiðleika á lífsleið sinni, skilur ekki aðeins með höfðinu, heldur einnig með hjartanu
fullname - andlitsmynd Birgir Ásgeirsson
01. október 2009

"En ekki aðeins það: Við fögnum líka í þrengingum þar eð við vitum að þrengingin veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan og fullreyndur á vonina. Og vonin bregst okkur ekki. Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn. " (Róm 5:3-5).

Sá sem á í þrengingu leiðist oft af þeirri hugsun að allt sé ómögulegt. Þegar engillinn Gabríel vitjaði Maríu og boðaði henni fæðingu Jesú, varð hún hvumsa, en engillinn sagði:  “Guði er enginn hlutur um megn.” Lk. 1.27. Lífsreynd manneskja gæti líka tekið undir orð engilsins og sagt að fyrir Guði væru engir hlutir ómögulegir. Sá sem hefur þurft að ganga í gegn um ýmsa erfiðleika á lífsleið sinni, skilur ekki aðeins með höfðinu, heldur einnig með hjartanu, þ.e.a.s. af allri sál, önd og mætti. Í þeim skilningi er ljóst að engir hlutir eru sjálfsagðir og að allt sem við njótum er frá Guði komið. Hann er skapari allra hluta og ekkert er honum um megn, þótt hann kjósi að láta ekki allar óskir okkar rætast. Hluti lífsglímunnar er sá, að reyna að skilja það, eða a.m.k. að leitast við að sættast á þá staðreynd.

Í þrengingunni áköllum við Guð. Stundum í sársauka og neyð, stundum í reiði, stundum í sorg, stundum í efa, stundum í örvæntingu. Allt heyrir hann og allar bænir hlustar hann á. Í trausti þess komum við fram fyrir hann í bæninni. Meðan við megnum að biðja missum við ekki vonina. Mest ríður á að missa ekki vonina.  Sá sem glatar voninni, missir kraftinn sem þarf til að lifa. Af lífi fárveikra sjúklinga og annarra, sem hafa gengið gegnum afar mikil áföll og harðræði, lærum við mest um vonina. Sagt er að fangar í einangrunarbúðum, eigi skammt eftir ólifað, ef vonin hverfur þeim alveg.

Þegar við leggjum einhvern í hendur Guðs í fyrirbæninni, leggjum við hann fram á svið þess mögulega, sem í Guði býr. Þar í er ljós vonarinnar, sem tendrar vitundina um kærleika Guðs og návist hans. Það þýðir raunverulega, að Guð lætur sér annt um viðkomandi. Sá sem á þá trú og vitund í brjósti sér, á mun meiri möguleika, en sá sem hulinn er myrkvi vonleysisins.

Þegar Stefán, hinn fyrsti  píslarvottur kristninnar, var grýttur til dauða, fyrir trúarafstöðu sína, af villtum múginum, sá hann sýn:

En hann horfði til himins, fullur af heilögum anda og leit dýrð Guðs og Jesú standa til hægri handar Guði og sagði: „Ég sé himnana opna og Mannssoninn standa til hægri handar Guði.“ (Post. 7:55 og 56).

Þetta er merkileg sýn og hinn hjálplegasti vitnisburður. Þegar Jesús er Guði til hægri handar, táknar það einingu hans og föðurins, þeir eru eitt og jafnir í eilífum skilningi. Í trúarjátningunni situr Jesús til hægri handar. Það táknar kannski það jafnvægi og þann frið (trúartraust), sem trúarjátningin tjáir. En í sýn Stefáns, þar sem þrengingin og örvæntingin sameinast í heitu ákalli, stendur Jesús, - af því að hann er reiðubúinn til að bregðast við. Þegar dómarinn dæmir ranglega á íþróttaleikvanginum, stöndum við upp til að mótmæla ranglætinu. Það eru viðbrögð þess, sem finnur til. Við stöndum upp, þegar við þurfum á öllu okkar að halda. Stefán er fullreyndur, þegar hann sér sýnina. Í henni verður Jesús nálægur og reiðubúinn til þess að koma og veita hjálp.  Sú fullreynd er trúin í brjósti okkar, og í krafti hennar hverfur vonin okkur ekki.  Við skulum því biðja fyrir þeim, sem eru hjálpar þurfi.

(Byggt á kafla úr bókinni “Själavård við köksbordet” e. Esbjörn Hagberg. Bls. 107 um fyrirbænina, Bokforlaget Libris, 2000).