Leiðarvísir fyrir lífið

Leiðarvísir fyrir lífið

Ég tel að ein hagkvæmasta aðgerðin til stuðnings heimilunum nú væri að bjóða upp á ókeypis skólamáltíðir fyrir öll börn þeirra sem misst hafa vinnuna. Ríki og sveitarfélög og frjáls félagasamtök ættu að taka höndum saman um það! Mikið misræmi virðist vera milli réttinda bótaþega eftir því hvers konar bætur um er að ræða, atvinnuleysisbætur eða örorkubætur. Hér þyrfti neyðarlög um hag heimilanna, sem beinist að því að opna vatnsþétt skilrúm milli ríkis og sveitarfélaganna og mismunandi úrræða í þessum efnum.

Þá sagði Jesús: „Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð. Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti. Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu. En þá er ávöxturinn er fullþroska lætur hann þegar bera út sigðina því að uppskeran er komin.“

Og Jesús sagði: „Við hvað eigum við að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum við að lýsa því? Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold er það smærra hverju sáðkorni á jörðu. En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess.“

Mark. 4. 26-32

Gleðilega hátíð! Ég samgleðst söfnuði Kópavogskirkju með þann áfanga í lífi og sögu sóknar og samfélags þegar nýtt safnaðarheimili er blessað og tekið í notkun. Ég þakka þeim sem lagt hafa hugi og hendur að góðu verki og bið þess að sú aðstaða sem hér skapast megi verða lyftistöng safnaðaruppbyggingu og samfélagi hér í bænum. Hjartanlega til hamingju.

Og hátíð er til heilla best, segir máltækið. Í dag er Biblíudagurinn, Hátíð heilagrar ritningar í kirkjunni. Það er mikilvæg áminning til kirkju og samfélags um grundvöll uppbyggingar, vaxtar og þroska mannlífs og menningar. Þann grundvöll er að finna í hinni helgu bók. Það er trúin sem blessar og reisir þjóðir. Og hvað vantar okkar þjóð í dag? Trú og traust, trú á sjálfa sig og framtíð sína, trú á þau gildi, þau verðmæti, viðmið og framtíðarsýn sem gefur djörfung, þrek og þrótt til að rísa upp og halda fram.

Biblían er bókin um Guð, og hún er frumheimildin um frelsarann Jesú. Hún segir sögu og í þeirri sögu mætum við Guði og fólki sem vitnar um samfylgd sína með Guði, og glímu sína við hann. Þetta fólk lifði gleði og raunir eins og við, en gat séð og skynjað Guð að verki í því öllu. Biblían er þannig dyr inn til samfélags við Guð, og það fólk sem hefur trúað á hann. Biblían er heilagt orð, heilög ritning, sem birtir heilagan sannleika.

Eitt tímaritanna á markaðnum spyr þessarar spurningar: Er Guð til? Og eyðir að sögn löngu máli í að sýna fram á að það verði ekki sannað og því geti hann ekki verið til.

En það er nú reyndar ótal margt í lífinu og tilverunni sem enginn hefur augum litið, en efast samt ekki um tilveru þess. Í Biblíunni segir: „Heimskinginn segir í hjarta sínu: Enginn Guð!“ Og það er víst alveg áreiðanlega satt sem vitur sagði á öldinni sem leið: „Sá sem trúir ekki á Guð trúir ekki engu. Nei, hann trúir öllu!“ Okkar samtíð hefði sannarlega þurft á meir efa að halda gagnvart því sem haldið hefur verið fram sem ótvíræðum sannleika og staðreyndum í nafni vísinda, þekkinga, yfirburða alls konar. Enda er trúin á Guð Biblíunnar ekki að loka á spurningar og efasemdir, heldur að treysta honum, elska hann og virða vilja hans.

Það vantar yfirleitt ekki mótbárurnar þegar Biblíuna ber á góma. Það býsna algeng klisja að hún sé úrelt bók. Iðulega er fullyrt að vísindin hafi kollvarpað kenningum hennar um sköpun heimsins. Á það hefur gjarna verið minnst um þessar mundir þegar minnst er 200 ára afmælis Darwins, höfundar þróunarkenningarinnar. Vísindin hafa kollvarpaði trúarbrögðunum og kenningum þeirra, er fullyrt í fjölmiðlum og skólastofum og hvarvetna þar sem þessi mál ber á góma. Hvað voru þessar kenningar? Tilraunir til skýringa sem byggðust á hyggjuviti, ekki aðeins trúarbragðanna heldur líka heimspeki og vísinda samtíðarinnar. Kenningar trúarbragðanna um uppruna heimsins voru aldrei neinn meginþáttur í trú neins tímabils né neinna manna. Trúarbrögðin eru ekki í eðli sínu nein örþrifatilraun til þess að svara spurningum um uppruna manns og heims. Þau eru svar mannshjartans við leyndardómi tilverunnar, sem þrýstir sér inn á manninn, jafnsterkt á heilbrigðan mann, hvort sem hann býr yfir vísindalegri þekkingu 21. aldar eða fálmkenndu hugboði frumstæðs fólks. Og það sem Biblían er að segja um uppruna heimsins er í raun og veru þetta: Heimurinn, tilveran, lífið mitt á sér frumrök, mark og mið í þeim góða vilja og milda valdi sem birti sjálfan sig í Jesú Kristi.

Mannshjartað býr yfir miklu í djúpum sínum. Þar eru háleit fyrirheit, og svo undursamlegt, eilíft leyndarmál ofið inn í rætur þess að ekkert fullnægir nema Guð. Það er kristin trú að viðurkenna þessa staðreynd, beygja sig fyrir henni, þiggja það að fá að koma til móts við hann. Að mæta þeim Drottni sem gaf líf sitt á krossi heiminum til lífs, til móts við hann á þeim vegi sem hann hefur lagt og vísar á og þar sem þau sammæla sig honum og hvert öðru sem vilja þiggja. Sú samfylgd eða föruneyti er kirkjan.

„Það sem ég skil af því er svo ágætt að ég tek líka gilt hitt, sem ég skil ekki.“ Þetta á Sókrates að hafa sagt um rit Herakleitoss. Og eins er viðhorf kristinna manna til Biblíunnar.

Það er lykill sem lýkur upp leyndardómunum og ráðgátunum. Það er Jesús Kristur. Hann er lykillinn að ritningunni. Hann er svarið. Og taktu eftir því hvernig hann svarar: „Komdu, þá sérðu það!“ „Fylg þú mér.“ Svarið er samfélag við hann, fylgd hans. Kristin trú er samfélag. Kristin kirkja er samfélag, allar athafnir hennar og iðkun eru samfélagslegar og til að byggja, efla, rækta og næra samfélag í elsku til Guðs og náungans.

Sæðið grær, kornið vex, axið þroskast, frækornið smáa verður feiknastórt tré.

„Ekki með orðaflaumi Eyðast mun heimsins nauð. Kyrrt og rótt í jörðu Vex korn í brauð,“ -var einu sinni ort. Safnaðarstarf á vettvangi kristins safnaðar í biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju er gróðursetning og ræktunarstarf í þágu lífs og framtíðar. „Ekki með orðaflaumi..“ Nú er okkur brýnna en nokkru sinni á Íslandi að taka höndum saman við alla góða menn og virkja allan góðan vilja í samfélaginu, í þágu hinna ungu, hinna viðkvæmu fræja sem okkur eru falin. Að þau beri ávöxt til góðs og heilla.

Tréð, sem Jesús talar um í guðspjallinu veitir fuglum himinsins skjól. Það er falleg mynd og áleitin. Vildum við ekki öll að landið okkar og þjóð og samfélag væri þesskonar tré, skjólgott, með djúpar rætur í frjósamri mold traustrar menningar, heilbrigðrar trúar og siðar?

Biblían geymir leiðarvísi fyrir lífið. Hún talar með undraverðum hætti inn í líf okkar og samtíð. Af því að hún er orð Guðs, skaparans og lausnarans. Hvað segir hún við Ísland í dag? Hún geymir þau gildi sem aldrei falla í verði, þau viðmið sem alltaf standa óhögguð í öllum sviptingum daganna. Þjóðin hefur verið óþyrmilega minnt á það hve hrapallega við villtumst af vegi hinna sönnu verðmæta og góðu gilda, sem orð Guðs vill beina okkur.

Við höfum rekið okkur óþyrmilega á það sem þjóð að það er svo satt sem segir í Orðskviðum Salómons: „Eignir, sem í upphafi voru skjótfengnar, blessast ekki að lokum.“ (Orðskv 19.21). Og orð Páls postula til Tímóteusar: „Fégirndin er rót alls ills. Við þá fíkn hafa margir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ (1.Tím.6.10) Biblían bendir líka á hvar vonina er að finna, og leiðin út: „Nemið staðar við vegina og litist um og spyrjið um gömlu göturnar hver sé hamingjuleiðin, og farið hana og þér munuð finna sálum yðar hvíld.“ (Jer.6.16) Og þegar vonleysið sest að þá segir hann: „Óttastu ekki, ég frelsa þig. Þú ert minn!“ „Verið óhrædd, ég hef sigrað heiminn!“ Hann bendir á veg hógværðar og hófsemi, og viðhorf og viðmót umhyggju og kærleika. Og þar er vonin fólgin.

Hvernig var það annars meðan allt lék í lyndi á Íslandi? Meðan öll áherslan var á afköstum, gróða og meiri gróða, vorum við ekki slegin blindu gagnvart þeim fórnum sem færðar voru gullkálfinum? Helst voru það því miður börnin sem báru þær byrðar, börnin og gamalmennin, já og yfirleitt þau veikburða okkar á meðal, sem enginn tími gafst til að sinna. Já, og náttúran, umhverfið, landið og andrúmsloftið sem gjalda þurfti fyrir ofsaakstur ofurspennunnar og oflætisins og græðginnar. Nú höfum við tækifæri til að snúa við blaðinu. Notum það tækifæri!

„Hvað er þetta annars með peningana? Ég skil þetta ekki. Hvers vegna gerir auðurinn menn sjálfhverfa og sjálfselska?“ Þannig spurði maður nokkur prestinn sinn. Presturinn sagði: „Komdu út að glugganum! Hvað sérðu?“ „Ég sé konu með barn. Og ég sé vagn sem ekur í átt að akrinum.“ „Gott. Komdu nú hér að speglinum. Hvað sérðu?“

„Hvað á ég svo sem að sjá? Sjálfan mig auðvitað!“

„Skilurðu nú? Glugginn er úr gleri og spegillinn er úr gleri. Maður setur bara ögn af silfri á bak við það og þá sér maður ekkert nema sjálfan sig.“

Í boðskap Jesú Krists gegna börnin alveg sérstöku hlutverki. Við megum aldrei gleyma því. Allra síst kirkjan! Lengi hefur verið kallað eftir og reynt að vinna að viðhorfsbreytingu í íslensku samfélagi þar sem þarfir barnsins og þeirra sem það annast, eru settar í forgang. Ég er sannfærður um að ekkert, engin pólitísk eða efnahagsleg aðgerð myndi hafa heillavænlegri áhrif á samfélag okkar í heild og sú ef hið opinbera, ríkið og sveitafélögin legðu af alvöru rækt við að styrkja fjölskylduna siðferðislega og efnahagslega, hjónabandið og heimilið. Ríki og sveitarfélög ættu að leggja kapp á að setja það í forgang sem þeim þáttum hlúir.

Ég tel að ein hagkvæmasta aðgerðin til stuðnings heimilunum nú væri að bjóða upp á ókeypis skólamáltíðir fyrir öll börn þeirra sem misst hafa vinnuna. Ríki og sveitarfélög og frjáls félagasamtök ættu að taka höndum saman um það! Mikið misræmi virðist vera milli réttinda bótaþega eftir því hvers konar bætur um er að ræða, atvinnuleysisbætur eða örorkubætur. Hér þyrfti neyðarlög um hag heimilanna, sem beinist að því að opna vatnsþétt skilrúm milli ríkis og sveitarfélaganna og mismunandi úrræða í þessum efnum, svo hjálpin berist sem greiðast til þeirra sem á þurfa að halda.

Það vantar ekki orðaflauminn, en mörgum finnst lítt sjást til efndanna. Mörgum finnst sem upplýsingar um aðgerðir í þágu einstaklinga og fjölskyldu liggi ekki á lausu og oft vísi hver frá sér, fjármálastofnanirnar, sveitarfélögin, ríkið. Það minnir mig á manninn sem kom á spítala og bað um að fá að hitta augn- og eyrna sérfræðing. Honum var sagt að það væri enginn slíkur, það væru bara Háls, nef og eyrna læknar. „Það dugar mér ekki, ég verð að hitta augna- og eyrnalækni.“ „Hvers vegna?“ „Vegna þess að ég sé ekki það sem ég heyri.“

Biblían er ekki pólitísk stefnuskrá. En boðskapur hennar og viðmið ná út fyrir ramma helgidómsins og er ætlað að hafa áhrif á mannlífið allt. Hún leggur þau viðmið og mælikvarða sem þegar allt kemur til alls snúast um að elska Guð og náungann. Þeim einstaklingum og samfélögum vegnar best þar sem þeim þáttum er hlúð. Þar er uppskrift hins góða lífs og góða samfélags.

Kópavogskirkja er fagur helgidómur og krýnir Kópavogsbæ. Hún er eins og varða við veginn sem bendir á það. Guð blessi Kópavogskirkju, alla sem til hennar líta og henni unna og því orði og anda sem hún vitnar um með veru sinni, iðkun og athöfn allri.