Guð í tengslunum

Guð í tengslunum

Vald Kærleika Guðs hefur með öðrum orðum ekki áhuga á yfirráðum eða þvingunum heldur miðlar það græðandi krafti. Kærleikur Guðs leitar út fyrir sjáflan sig, til mannkynsins, til hagsmuna fyrir heildina. Guð verður uppspretta allra góðra og réttlátra tengsla.

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Jesú Kristi. Amen.

Við skulum biðja: Guð þúsund nafna og andlita Móðir og faðir alls lífs á jörðu Þú sem býrð í frumum alls lífs. Kenndu okkar að þekkja og elska þig. Amen (Sharon Owens)

Hverjar eru þínar dýrmætustu minningar? Hvaða atburður hefur snortið þig dýpst í lífinu ? Hvaða andartak hefur haft mest áhrif?

Væntanlega eru atburðirnir sem þið hugsið til margir og ólíkir en þeir gætu þó átt eitt sameiginlegt;  Þú varst ekki ein eða einn á mikilvægustu stundunum í lífi þínu. Það er næsta víst að fólkið sem þér þykir hvað vænst um hafi verið með þér.

Við höfum djúpa þörf fyrir að tengjast öðrum manneskjum. Til að verða heilsteyptir einstaklingar er okkur nauðsynlegt að mynda jákvæð og nærandi tengsl hvert við annað. Og það eru ekki eingöngu trúarleg sannindi.

Samkvæmt skýrslu unicef, stærstu barnahjálparsamtaka í heimi, hafa rannsóknir á sviði taugavísinda leitt í ljós að ást gegnir veigamiklu hlutverki sem grundvöllur fyrir vitsmunalegan og tilfiningalegan þroska barna. Það skiptir sköpum fyrir sérhvert barn að eiga ástríkt, hvetjandi og uppörvandi samband við fjölskyldu sína fyrstu mánuðina  og árin í lífi sínu. Vísindi og trú eru sem sagt sammála um að við lifum ekki á brauðinu einu saman. Án ástar er ekkert líf.

Og þetta breytist lítið þegar við eldumst . Við verðum að vísu fær um hugsa um okkur sjálf og taka sjálfstæðar ákvarðanir  en þörfin fyrir ást og kærleika heldur áfram að gegna lykilhlutverki í lífi okkar, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Skortur á kærleika hefur líka afdrifaríkar afleiðingar og einelti, útskúfun og ofbeldi í hverskonar mynd skerða lífsgæði fólks. Þetta skynjum við  í fjölda frásagna sem hugrakkir einstaklingar hafa dregið fram í dagsljósið. Einstaklingar sem hafa verið beittir ofbeldi og hafa sagt frá þjáningarfullri reynslu sinn og afleiðingunum á líf þeirra og lífsvilja. Slíkar sögur taka af allan vafa um að án kærleika visnum við og deyjum. Án kærleikans er ekkert líf.

Við höfum öll áhrif hvort á annað og það þekkjum við.  Og það að hafa áhrif er að hafa vald.  Það er athyglisvert að velta fyrir sér hugmyndinni um vald. Vald er flókið hugtak og hægt að skilgreina á margan hátt. Það getur bæði verið leynt og ljóst og því er hægt að beita bæði til góðs og ills. Valdi er hægt að dreifa , til hagsmuna fyrir heildina en því er líka hægt að safna á fárra hendur oft með miður góðum afleiðingum.

Það er líka athyglisvert að hugtökin vald og kærleikur hafa í gegnum aldirnar verið notuð sem grunntákn til að lýsa Guði. Í tungutaki kirkjunnar er okkur bæði tamt að tala um alvaldan og almáttugan Guð en einnig kærleiksríkan.

Megináhersla kristinnar hefðar hefur verið á að skilgreina  vald Guðs sem ótakmarkað vald til að stýra, stjórna og ríkja yfir sköpun sinni. Þess konar skilgreining á valdi er nátengt hugmyndum um drottnun og yfirráð og handhafar slíks valds eru oftar en ekki þeir sem hafa afl og áhrif til að þvinga fram vilja sinn.

Samkvæmt guðfræði Carter Heyward er guðlegt vald þó annars konar vald. Vald Guðs er kærleiksríkt vald sem býr yfir miklum sannfæringarkrafti og miðlar valdi sem leiðir til viðbragða og aðgerða. Þess konar vald er máttur  sem ber með sér kraft sem leiðir til samvirkni og stuðlar að samvinnu. Ef guðlegt vald er byggt á hefðbundnum skilningu um drottnun og yfirráð býður slík hugsun heim siðferði sem byggist á hlýðni.  Frammi fyrir slíkum Guði erum við mannfólkið afar smá,  hugsum um það eitt að hlýða og höfum takmarkað vald til að láta til okkar taka í heiminum. Sé aftur ámóti litið á guðlegt vald sem vald kærleika og tengsla, kraft sem er bæði lífgefandi og skapandi og sem miðlar valdi verður siðferðishugsunin önnur. Dygggðin fellst þá í því að sýna samtöðu, láta til sín taka og einbeita sér að því að auðga og styrkja samband sitt bæði við Guð og einstaklingana í kringum sig.

Vald kærleika Guðs hefur með öðrum orðum ekki áhuga á yfirráðum eða þvingunum heldur miðlar það græðandi krafti. Kærleikur Guðs leitar út fyrir sjáflan sig, til mannkynsins, til hagsmuna fyrir heildina. Guð verður uppspretta allra góðra og réttlátra tengsla. Við getum túlkað guðpspjall dagsins í ljósi þessarar guðfræði. Þar finnum við samspil þessara þátta, kærleika Guðs sem leitar að viðfangi og tengslanna sem halda í okkur lífinu. En fyrst þurfum við að velta fyrir okkur kraftaverkinu í guðspjallinu.

Kraftaverk Jesú hafa vissulega verið uppspretta ýmiskonar vangaveltna í gegnum tíðina. Þau vekja áleitnar spurningar, krefjast þess að við skoðum sjálfsmynd okkar og sjálfsskilning og tökum afdráttarlausa afstöðu til umheimsins. Hvað er kraftaverk? Gerast kraftaverk í alvöru? Er hið ómögulega mögulegt? Er hægt að gefa þúsundum manns að borða með fimm brauðum og tveimur fiskum ? Ég geri ráð fyrir að svör okkar við þessum spurningum séu ólík.  Sum okkar segja afdráttarlaust já og geta í huganum tínt til gild rök og reynslu fyrir skoðun sinni. Önnur okkar hrista höfuðið  og segja hugmyndina fjarstæðukennda, stangast á við  öll náttúrulögmál. Enn önnur okkar velta vöngum, yppta öxlum, eiga ekki von á að svörin skipti máli í lífi þeirra. Svarið okkar ræðst af heimsmynd okkar, reynslu af Guði og því hvort við höfum tamið okkur að skoða lífið í ljósi trúarinnar.

Í guðspjalli dagsins mætum við hópi fólks sem hefur fylgt Jesú. Við mætum mönnum, konum og börnum sem hafa notið nærveru hans og hvers annars og búið til sameiginlegan brunn minninga. En það vantar mat fyrir fólkið og þögult barn sem tilheyrir hópnum hefur það sem hina skortir – fisk og brauð. Barnið er tilbúið að deila því litla sem það eða fjölskylda þess á og Guð, þ.e.a.s. Jesú margfaldar brauð og fiska, þannig að allir verða saddir.

Samkvæmt frásögninni hafði fólkið í kringum Jesú þegar séð hann gera kraftaverk á veiku fólki og þegar það nú sá þetta kraftaverk vildi það gera hann að veraldlegum konungi. En það var og er ekki þess konar vald sem Jesús hefur áhuga á að taka sér, ekki vald til að ríkja og drottna yfir öðrum. Og því yfirgefur hann hópinn, og gengur einn síns liðs uppá fjall. Tilgangur kraftaverka Jesú var ekki að halda sýningu, skapa hrifningu eða gera sjálfan sig að aðalatriði. Tilgangurinn var að dreifa mætti og auka trú á það eina sem skiptir máli, á Guð sem er kærleikur.

Hvort sem sagan er sagnfræðileg staðreynd eða ekki þá er hún táknræn í ljósi trúarinnar. Við getum túlkað hana í samhengi þeirrar fullvissu að kærleikur Guðs er vald sem var, er og verður að verki  í heiminum.

Í gegnum lífið erum við öll í sporum barnsins sem átti fiska og brauð. Í stað fiska og brauðs höfum við  persónuleika, ýmiskonar eiginleika og hæfileika. Kannski gerum við okkur alls ekki grein fyrir að Guð hefur þörf fyrir þá. En ef við leggjum líf okkar og eignleika í hendur Guðs, biðjum hann að blessa þá  og treystum honum fyrir því sem við höfum mun hann margfalda gleði okkar og gæði. Því Guð þarfnast þess að við tökum þátt í að miðla valdi kærleikans til fólksins í kringum okkur, til hagsmuna fyrir heildina og til eflingar trúarinnar.

Já við höfum djúpa þörf fyrir að tengjast öðrum manneskjum. Og á mikilvægustu stundunum í lífi okkar er næsta víst að við vorum ekki ein. Tengir þú Guð við dýrmæstustu minningarnar, við atburðina sem hafa snortið þig hvað dýpst í lífinu? Hefur þú valið að skilgreina líf þitt í ljósi trúarinnar?

Leyfum okkur að finna kærleika Guðs streyma inní hjörtu okkar. Leyfum okkur að finna fyrir lífgefandi og græðandi kraft Guðs í tengslum okkar við aðrar manneskjur. Því þannig skynjum við kraft Guðs að verki í heiminum. Þannig skynjum við kraftaverk.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Jóh. 6. 1 - 15 Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. Mikill fjöldi manna fylgdi honum því þeir sáu þau tákn er hann gerði á sjúku fólki. Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum. Þetta var laust fyrir páskahátíð Gyðinga. Jesús leit upp og sá að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: „Hvar eigum við að kaupa brauð svo að þessir menn fái mat?“ En þetta sagði hann til að reyna hann því hann vissi sjálfur hvað hann ætlaði að gera. Filippus svaraði honum: „Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki svo að hver fengi lítið eitt.“ Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann: „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska en hvað er það handa svo mörgum?“ Jesús sagði: „Látið fólkið setjast niður.“ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. Nú tók Jesús brauðin, gerði þakkir og skipti þeim út til þeirra sem þar sátu og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. Þegar fólkið var orðið mett segir Jesús við lærisveina sína: „Safnið saman leifunum svo ekkert spillist.“ Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm sem af gengu hjá þeim er neytt höfðu. Þegar menn sáu táknið, sem hann gerði, sögðu þeir: „Þessi maður er sannarlega spámaðurinn sem koma skal í heiminn.“ Jesús vissi nú að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gera hann að konungi og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.