Til himinsins heim

Til himinsins heim

Guðspjall: Jóh. 6. 35-51 Lexia: Mós. 16. 11-18 Pistill: Fil 2. 1-5

Þegar við hugleiðum guðspjall þessa Drottins dags þá finnst okkur að það sé til svo margt leyndardómsfullt í þessum heimi, í kirkjunni, og innra með okkur. Við sjáum það ekki. Við finnum ekki lyktina af því. Við getum ekki bragðað á því. Við getum ekki snert það. Við getum ekki heyrt það. Það skilur ekki eftir sig líkamlega slóð.

Samt er það hér yfir og allt um kring samkvæmt því sem Jesús segir.

Leyndardómsfullir kraftar eru að verki allt um kring og innra með okkur. Á þessari stundu er mjög hljóðlátt í kirkjunni í Reykjahlíð, í það minnsta þegar ég þegi. Hlustið bara! Hvað heyrið þið? Ekkert. Það ríkir þögn. Samt sem áður vitið þið, rétt eins og ég, að allt þetta rými umhverfis okkur er fullt af kröftum og raföldum. Ef ég myndi nú kveikja á útvarpi þá yrði þögnin rofin t.d. með gömlu góðu gufunni. Þessar raföldur og þessir kraftar eru þarna.

Guðspjall dagsins fjallar um annars konar leyndardómsfulla krafta sem eru guðdómlegir, kröftugir, máttugir, upplýsandi, sameinandi. Þeir eru hér yfir og allt um kring þótt þeir virðist alls ekki vera það. Jesús kallar þetta aðdráttarafl. Þetta er aðdráttarafl sem kemur frá Guði og dregur alla sköpunina til Guðs í gegnum Jesú Krist.

Það er ljóst að það er aðdráttarafl í náttúrunni. Við erum hér í Reykjahlíðarkirkju í Mývatnssveit en náttúran hér í sveitinni er ólýsanlega fögur árið um kring þótt vorið heilli suma einna mest þegar náttúran vaknar til lífsins. Vorið boðar fæðingu í ýmsu tilliti. Trén taka vaxtarkipp til himinsins heim og blöðin á trjágreinunum breiða úr sér móti sólarljósinu. Blómin blómstra á grundunum. Fiskarnir synda í víkum og vogum og nærast m.a. á mýflugunni sem sveimar allt um kring í þéttum hópum þegar hún er upp á sitt besta. Fuglarnir fljúga og búast til hreiðurgerðar. Alls kyns dýrategundir reika um grundirnar leitandi að jafningja, maka og afsprengi lítur dagsins ljós. Adam faðmaði að sér Evu og Eva faðmaði að sér Adam. Strákar kyssa stelpur og skýin elta stöðugt hvert annað.

Jesús talar um afl sem dregur okkur öll til sín og á sama tíma dregur þessi máttur okkur hvert til annars. Meiri samræða á sér nú stað milli kirkjudeilda heimsins en nokkru sinni fyrr og milli kristinna og hindúa, múslima og gyðinga, bandaríkjamanna og rússa, asíubúa og evrópumanna og margs konar fjölmiðlar eru þróaðir og nýttir til samræðu og skoðanaskipta. Það eru leyndardómsfull öfl að verki sem eru að breyta ásjónu jarðar. Jesús opinberaði ekki einungis eðli þessara afla heldur einnig það sem þau myndu leiða í ljós. Þetta aðdráttarafl á rætur sínar að rekja til Skaparans, Föður okkar og Móður sem laðar okkur til sín, að borði sínu, að upphaflegu heimili okkar. Við erum umlukt þessu afli og það er einnig innra með okkur. Þetta skýrir hvers vegna við höfum þessa djúpu tilfinningu fyrir því að heimurinn sem við sjáum sé ekki allur þar sem hann er séður. Við vitum t.d. að litirnir sem við sjáum eru ekki allir litirniir sem til eru. Það eru til ýmis önnur hljóð en þau sem við einbeitum okkur að því að heyra frá einni andrá til annarrar. Á bak við tónlistina á gufunni er önnur tónlist. Íslenskan er ekki eina tungumálið í veröldinni. Það eru til margs konar uppskriftir að matnum sem við borðum. Og eitt sem er enn mikilvægara eru mannleg samskipti. Það hvernig við snertum hvert annað uppfyllir ekki allar vonir okkar og þrár í þeim efnum. Sá kærleikur sem við mætum og þiggjum og gefum, sá kærleikur getur verið svo stórkostlegur, huggandi, umvefjandi og gefandi. Samt sem áður er hann bara smá sýnishorn af því sem við eigum í vændum þegar við komum heim, heim til Guðs. Hann gefur okkur nefnilega dálitla mynd af þeim tímapunkti þegar Guð hefur dregið okkur öll til sín og heldur okkur veislu og við fögnum tilkomu Guðs ríkis mitt á meðal okkar, þegar lífið sem Guð gaf okkur birtist okkur í fullri gnægð sinni og dýrð. Jesús kom til að draga okkur synduga menn til sín, til Guðs. Hann er vegurinn heim til Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði. Við eigum svolítið langt í land með þetta ennþá, mannkynið, en enn er von fyrir okkur synduga menn að rata heim. Til þess þurfum við að taka mið af Jesú og hlusta á hann þó að það geti valdið okkur heilmiklum heilabrotum rétt eins og henti lærisveinana.

Jesús endurtók aftur og aftur. “Ég er brauðið. Ég er lífið. Ég kem frá Föðurnum. Ég hef séð Föðurinn. Ég var sendur af Föðurnum. Við hlustum á orðin hans og lesum þau í biblíunni og tölum við hann í bænum okkar. Já, samræða á sér stað. En þetta virðist vera leyndardómsfull, djúp, erfið og endalaus samræða sem mjög erfitt er að fá nokkurn botn í. Við höfum þó átt í slíkri samræðu þótt með öðrum hætti sé á vegferð okkar í gegnum lífið. Ég skal gefa ykkur dæmi.

Þú stendur fyrir framan son ykkar. Hann reykir ekki tóbak heldur eitthvað sem hann kallar gras. Þið talið saman. Þig langar til þess að gera honum ljóst hvað þú veist, hvað þú hefur reynt. Hann heldur áfram að vera fjarlægur og ónálganlegur og svarar engu. Þá segir þú við hann: Ef ég gæti aðeins skriðið inn í höfuð þitt þá gætir þú séð með mínum augum.

Þú stendur fyrir framan dóttur þína elskaða sem kemur mjög seint heim úr partíi þar sem var fullt af fólki sem þú þekkir ekki og hefur ekki haft samskipti við. Þið talið og talið. Þú grætur og sárbænir hana, vandar um fyrir henni. Þú fellur á kné þér og segir við hana: “Ef ég gæti aðeins sagt þér það sem ég veit. Ef ég gæti aðeins látið þig reyna það sem ég hef reynt. Ef ég gæti aðeins látið þig finna fyrir gremju minni. Ef þú aðeins fengið drukkið minn bitra kaleik”.

Þú liggur við hlið ástvinar þíns og þú leggur þig fram um að vera nærfærin í hans eða hennar garð. En hann sér ekki, hún skilur ekki, hann finnur ekki til kenndar. Þú tekur hönd hennar, þú kyssir augu hans. Þú strýkur bak hans, höfuð þtt liggur í skauti hennar og þú segir: “Ef ég gæti aðeins verið þú. Ef ég gæti aðeins látið þig sjá með mínum augum. Ef ég gæti aðeins látið þig heyra með mínum eyrum. Ef ég gæti aðeins látið þig snerta með höndum mínum. Ef þú gætir aðeins etið brauðið sem ég borðaði. Ef þú gætir aðeins verið mitt hold og haft mitt blóð”.

Á þennan hátt talaði Jesús við lærisveina sína þetta síðdegi. Hann var þess fullviss að gagnkvæmt kærleikssamfélag sem byggðist á guðs ótta og góðum siðum væri það sem þeir skyldu stefna að, þar sem virðing væri borin fyrir Guði og sérhverri manneskju, ekki síst börnum þessa heims. Þetta yrði samfélag fyrirgefningar og umburðarlyndis þar sem fullt tillit væri tekið til ólíkra menningarheima og aðstæðna fólks og skoðana þess á lífinu og tilverunni. Með þessu móti væri hægt að byggja upp samfélag friðar sem væri laust við hvers kyns ofbeldi. Ef þetta tækist þá myndi það forða heiminum og mannkyni öllu frá hörmungum.

Jesús brýndi fyrir lærisveinum sínum að taka hann alvarlega og hlusta á röksemdir sínar. Hlustið á mig, sagði hann. Ég veit hvað ég er að tala um. Ég er viss. Hlustið á mig. Finnið fyrir kenndum mínum í ykkar garð. Ég kem að ofan. Etið brauð mitt, drekkið vatn mitt, etið hold mitt og drekkið blóð mitt með táknrænum hætti en með þeim hætti minnist þið mín og mætið mér og takið á móti fyrirgefningu minni og þiggið styrk til áframhaldandi lífsgöngu.

Jesús beinir einnig þessum orðum til okkar í dag og brýnir fyrir okkur kristnum mönnum í dag að líta í eign barm og sjá þörf okkar fyrir að taka háttaskiptum hugarfarsins og snúa við frá villu okkar vegar eins og sagt er.

Svo ég gefi dæmi. Ég veit ekki hvort þið vitið að á árinu 1973 var 700 krónum eytt í vopn á hvern mann í Nígeriu, 80 krónum í heilsuvernd og 240 krónum í menntun. Sama ár, í Guðs eigin landi eins og Bandaríkjamenn nefna landið sitt, var samsvarandi 28.800 þús. kr. eytt í vopn á hvert mannsbarn, 13.200 þús. kr. og 26.900 þús. kr. í menntun á hvert mannsbarn. Þetta árið verða dollaratölur Bandaríkjamanna geigvænlega háar á hvert mannsbarn sem fara í stríðsrreksturinn í Írak. Til þess að standa undir stríðsrekstrinum verður að skera niður á öðrum sviðum innan Bandaríkjanna, sennilega í heilsugæslu og menntun. Hætt er við að þessi óbilgjarni og grimmilegi stríðsrekstur kveiki ófriðarbál víðar í heiminum og setji heiminn á heljarþröm fyrr en síðar, sjái Bandaríkjamenn ekki að sér, virði ályktanir Sameinuðu Þjóðanna og snúi við og fari heim í eiginlegu og óeiginlegum skilningi. Og svo útmála þeir sig fyrir að vera kirkjurækna kristna menn. Hversu afvegaleiddir geta misvitrir kristnir stjórnarherrar orðið nú á dögum. Er tíðarandinn virkilega orðinn slíkur að lygin er orðin að sannleika, ranglætið að réttlætii og þannig mætti lengi telja? Við virðumst reka sofandi að feigðarósi. Er ekki kominn tími til fyrir okkur öll að vakna, að rísa af svefni á fætur og verja þau kristilegu siðrænu gildi sem okkur var kennt? Guð gefi að svefngenglarnir sem standa fyrir stríðsrekstrinum snúi við, iðristt gjörða sinna frammi fyrir Guði og saklausum fórnarlömbum stríðsins og láti friðarhöfðingjann móta hugarfar sín og verk í þágu mannkyns. Amen. Í Jesú nafni. Amen.

sr. Sighvatur Karlsson flutti þessa prédikun í Reykjahlíðarkirkju í Mývatnssveit 4. sunnudag í föstu 2003 í gospelmessu