Prédikun flutt í Seltjarnarneskirkju Biblíudaginn 23. febrúar 2025
Lexía Jes 55.6-11; Pistill: 2Tím 3.14-17; Guðspjall: Lúk 8.4-15
Í dag er fyrsti dagur Góumánaðar sem jafnframt er konudagurinn. Þorrinn kvaddi okkur í gær og hann hefst, eins og við vitum, með bóndadegi.
Takmarkaðar heimildir eru
til um fornar hefðir og siði í tengslum við þessa upphafsdaga gömlu mánaðanna nema
hvað nokkuð öruggt þykir að á bóndadegi skyldu húsfreyjur gera venju framar vel
við bónda sinn en á konudegi snerust hlutverkin við, þá skyldu bændur stjana
sérstaklega við eiginkonu sína. Heimildir eru fyrir því að um aldir hafi víða
um land verið til siðs að húsfreyjur færu út á hlað kvöldið fyrir bóndadag og
byðu Þorra velkominn, eins og um tiginn gest væri að ræða, og öfugt, að fyrir
fyrsta dag Góu gengju húsbændur út og byðu Góu velkomna.
Góan er næstsíðasti
vetrarmánuðurinn skv. hinu gamla tímatali okkar Íslendinga. Þorrinn og Góan
þóttu langerfiðastir vetrarmánaðanna þar sem oft var farið að ganga á
matarbirgðirnar á bæjunum og orðatiltækið að þreyja þorrann og Góuna birtir
einmitt þann skort sem gat einkennt þessa mánuði áður en landsmenn komust í
nýmetið sem fylgdi vorinu og gróanda sumarsins.
En í dag er ekki aðeins konudagurinn;
í almanaki kirkjuársins er ávallt haldið
upp á Biblíudaginn annan sunnudag í
níuviknaföstu og Kristur gerir einmitt sáningu, grósku og uppsprettu að umtalsefni
í guðspjalli dagsins,
þessi fyrirbæri sem hafa væntanlega verið ofarlega í huga fólks á meðan það
þreyði Þorrann og Góuna. En í dæmisögu Jesú eru sáningin og uppskeran
myndhverfingar fyrir Guðs orð og virkni þess á og hjá þeim sem heyra. Af
samhenginu má ráða að einungis lærisveinarnir fengu að njóta útleggingar
sögunnar. Til fjöldans hrópaði Jesús hins vegar „Hver sem eyru hefur að heyra,
hann heyri“ og lét fólkinu þannig eftir að kryfja orð hans til mergjar. Við
lærisveinana segir hann hins vegar í einrúmi: „Ykkur er gefið að þekkja leynda
dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum, ,að sjáandi sjái þeir ekki og
heyrandi skilji þeir ekki.‘“ Orð hans eru tilvísun í texta í Jesajabók og fela
í sér dóm yfir fjöldanum, eins harðneskjulegt og það nú er. Hér horfir höfundur
guðspjallsins af eigin sjónarhóli og stígur í raun inn í hlutverk Jesú en
áheyrendur hans ganga inn í hlutverk lærisveinanna. Hinir, sem aðeins fá
dæmisögur, eru þeir sem enn eru fullir efasemda og eru ekki tilbúnir til þess
að gangast Kristi á hönd. Þar með er
hjarta þeirra lokað fyrir boðskap Jesú og útleggingar hans á dæmisögunum sem lýsa
guðsríkinu fara fyrir ofan garð og neðan og þeir eiga á hættu að fyrirgera sálu
sinni.
Eins og Kristur bendir sjálfur á í
guðspjalli dagsins er merking Biblíutexta sjaldnast augljós eða einföld.
Lyklarnir að túlkun hans geta legið víða í samhenginu, bæði í textanum sjálfum
en ekki síður í sögulegu samhengi hans og trúarhefðinni. Einnig má okkur
öllum vera ljóst þegar við tölum um Guðs orð að það merkir ekki að Guð hafi
skrifað það sem í Biblíunni stendur heldur að textarnir séu vitnisburður um trú
á Guð og í sumum tilfellum um verk Guðs í sögunni. Það á t.a.m. við um
vitnisburð guðspjallanna og bréfa Nýjatestamentisins um fæðingu Krists, verk
hans, dauða og upprisu, sem eru þar með skiljanlega kjarninn í því sem kallast
heilög ritning kristinna manna, grundvöllur trúarinnar.
Síðan eru allt hitt efnið sem er
vissulega sögulega áhugaverður vitnisburður um forna tíma, forna siði og
hugsun, en er fráleitt hægt að telja á einhvern hátt bindandi fyrir viðmið eða
lífsafstöðu kristins manns í nútímanum. Kannski gagnlegt að því leyti sem við
tökumst á við það gagnrýnum huga en aldrei bindandi. Dæmi um slíkt væru t.d.
orð Páls um hlutverk og hegðun kvenna eða viðhorf hans til ástalífs karla og
kvenna sem hann áleit til óþurftar — frekar
ætti fólk að taka hann sjálfan til fyrirmyndar sem var ókvæntur og barnlaus.
Þetta viðhorf hans er hæglega hægt að útskýra með þeirri staðreynd að hann
bjóst við dómsdegi á hverri stundu.
En að því sögðu er hægt að
fullyrða að ritningin hefur einnig að geyma heilan fjársjóð af perlum og dýrum
steinum sem standast tímans tönn, okkur til trúarlegrar og andlegrar
uppbyggingar og siðferðilegrar leiðbeiningar, eða eins og Páll orðar það í
pistlinum: „Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú.“.
Þær perlur er hægt að finna í öllum bókum Biblíunnar í mismunandi mæli, þó
kannski hvað greinilegast í spámannaritum Gamla testamentisins og Davíðssálmum
og í guðspjöllunum og bréfum N.t. Og kannski er það viðlíka kraftaverk í
nútímanum og það að sáðkorn skuli spíra, vaxa upp og bera mikinn ávöxt, að
vitnisburður hinna fornu rita skuli enn geta vakið og nært trúarneista í
brjósti hins svokallaða upplýsta manns, já, jafnvel í brjósti vísindamanns, eða
eins og spámaðurinn leggur Drottni í munn í lexíu dagsins:
Eins og regn og snjór fellur af himni
og hverfur ekki þangað aftur
fyrr en það hefur vökvað jörðina,
gert hana frjósama og gróandi,
gefið sáðkorn þeim sem sáir
og brauð þeim er eta,
eins er því farið með orð mitt sem kemur af munni mínum,
það hverfur ekki aftur til mín við svo búið
heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast
og framkvæmir það sem ég fel því.
Guð á þannig
stöðugt í virkum samskiptum við manninn fyrir tilstilli orðs síns og speki, sem
— vel að merkja — er eitthvað miklu meira
og leyndardómsfyllra en þau orð sem standa skrifuð á síðum Ritningarinnar.
Sú
guðsmynd, sem Biblían birtir okkur, er margbrotin og stundum mótsagnakennd. Með
gleraugum biblíufræða má greina hvernig hún hefur breyst með tímanum. En þó má
greina ákveðna grunnhugmynd sem er ríkjandi; þ.e. hugmyndina um kærleiksríkan
Guð, sem þó gerir strangar siðferðilegar kröfur til mannsins, rétt eins og
ábyrgt foreldri gerir til barnanna sinna. Hann reiðist brotum mannanna en er
ávallt reiðubúinn til að fyrirgefa, ef hinn brotlegi iðrast, því hann er
miskunnsamur Guð. Eins og kemur skýrt fram í bæninni sem Jesús kenndi
lærisveinum sínum, Faðirvorinu, þá er hér um afar föðurlega mynd af Guði að
ræða; m.ö.o.: Hugsun hinnar hebresk-gyðinglegu trúar um Guð leggur þegar allt
kemur til alls höfuðáherslu á þann þátt í eðli hans sem maðurinn kann best að
lýsa með vísun í hlutverk foreldrisins. Þess vegna er það mjög jákvæð þróun að
farið sé að vísa til Guðs ekki aðeins sem föður heldur einnig sem móður í
helgihaldi kirkjunnar því að þannig komumst við nær því að tjá víðari skilning okkar
á Guði sem uppsprettu kærleikans í öllum sínum ólíku birtingarformum, sem
hugtökin „faðir“ og „móðir“ saman ná betur utan um en „faðir“ eitt og sér. Þessa
breytingu á þessi söfnuður líkt og aðrir söfnuðir þjóðkirkjunnar eftir að
upplifa þegar guðsþjónustuform nýrrar handbókar koma til framkvæmda en prestum
kirkjunnar er uppálagt af biskupi að kynna þau söfnuðum sínum á þessu ári til
reynslu.
Biblían er hvort tveggja, ávöxtur
lifandi trúarlífs í lifandi trúarsamfélagi og á sama tíma sáðkornið af hverju
af sprettur sá lifandi kvistur sem gefur þann ávöxt; trúarritningin og
trúarsamfélagið verða ekki skilin í sundur, þar gildir spurningin um hænuna og
eggið. Og í raun er það leyndardómur hvernig þessu sambandi er háttað og
hvernig Orð Guðs, eins og það birtist í prentsvörtum orðum Biblíanna okkar, kveikir
trúarneistann í hjörtunum og blæs í glæðurnar. Fyrir Guðs náð heldur Biblían áfram
– eins og til forna – að vera grundvöllur lifandi trúar með því að trúað fólk gerir
sér grein fyrir gildi hennar sem túlkunarlykils fyrir líf sitt í síbreytilegum aðstæðum og og
megi svo verða um alla framtíð.
Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.