11. september 2001 var svo sannarlega hrollvekjandi dagur.

11. september 2001 var svo sannarlega hrollvekjandi dagur.

,,þarna er horft til þess að einstaklingurinn aðlagist grundvallarhugmyndum en samfélögin auðgist með margbreytilegum siðum fólksins og háttum."

Dagurinn í dag vekur upp hrollvekjandi minningar. 11. september árið 2001 rændu hryðjuverkamenn farþegaflugvélum og drápu yfir 3000 manns, farþega og fólk við dagleg störf sín í tvíburaturnunum í New York. Hryllileg minning. Hryðjuverkamennirnir hafa að sumu leyti náð fram markmiðum sínum. Vesturlönd réðust inn í Írak. Vaxandi tortryggni hefur gætt milli arabaheimsins og hins kristna heims. Óumburðarlyndi og ýmis konar fjandskapur hefur vaxið. Islamafóbía hefur grafið um sig í Evrópu sem leitt hefur til misréttis gagnvart þeim sem aðhyllast eða  álitið er að aðhyllist Islam.  Samfélög vesturlanda eru ekki jafn frjáls og áður, ótti og fjandskapur hefur gripið um sig, hatur og óvild vaxið.

Í  Þjóðríkinu sem segja má að hafi verið ríkjandi form í Evrópu frá 1870 til 1945 var gert ráð fyrir að allir sem lifðu innan þess aðlöguðu sig að tiltekinni menningu og tilteknu siðferði, tiltekinni trú.  Eftir því sem leið á öldina með auknu flæði fólks milli landa og að hluta til af nýjum landamærum vegna heimstyrjaldanna fóru menn að viðurkenna tilvist minnihluatahópa sem gætu lifað við hlið meirihlutahópsins án þess að láta af siðum sínum og venjum – hugtakið fjölmenning ruddi sér til rúms.  Á síðari tímum hafa ókostir þessa skipulags komið betur og betur í ljós í átökum þjóðfélagshópa og núningi milli þeirra. Fólk hefur ekki lifað saman heldur lifað hlið við hlið, ekki aðlagast hvort öðru í nægilega ríkum mæli.  Þetta eru tilhneigingar ekki regla.  Nú eru menn á vesturlöndum að hugsa þetta upp á nýtt. Hugsa sér samfélagið þar sem allir viðurkenni viss grundvallaratriði, fyrst og síðast þau gildi sem felast í lýðræði og mannréttindum eins og hvort tveggja hefur verið skilið og iðkað þar, en að öðru leyti sé einstaklingunum frjálst að viðhafa sína siði, iðka sína trú, rækta sína menningu já svo fremi svo það stangist ekki á við þau grundvallargildi lýðræðis og mannréttinda sem ég nefndi.

Dæmi um þetta væri að samfélag umberi ekki umskurð kvenna eða neins konar kvenfyrirlitningu. Hins vegar mætti fólk ganga í því sem það vildi, borða sviðakjamma, svín og ekki nema kjöt sem slátrað er samkvæmt sérstöku rituali og mætti iðka iðka (opinberlega) þá trú sem því sýndist, eða trúleysi. Þarna er horft til þess að einstaklingurinn aðlagist grundvallarhugmyndum en samfélögin auðgist með margbreytilegum siðum fólksins og háttum. Þarna er gert ráð fyrir að allir sitji við sama borð en ekki hugsað um meirihluta og minnihlutahópa sem kæmu til leiks með sín hópsérkenni sem orðið hefur raunin í fjölnmenningarsamfélaginu.  Við getum sagt að þessi hugsun geri ráð fyrir samræðum og samspili milli fólks af ólíkum uppruna, fólks sem er sammála um að tileinka sér ákveðin grundvallaratriði og geri sér að sama skapi far um að umbera hvert annað.

Hvað kemur þetta pistli á trú.is við? Jú, ekkert er kristnum mönnum óviðkomandi og allra síst það hvort að þjóðfélög sem gegnsýrð eru af kristnni menningu þróist til ills eða góðs.  Vestræn samfélög fólks af ólíkum uppruna eru staðreynd. Kristnir menn spyrja sig gjarnan:  Eigum við þá að gefa eftir fyrir Allah og spámanni hans? Ég segi, það gerum við um leið og við efnum til illinda við þá Islamstrúarmenn sem hafa flutt til okkar og reiðum hnefann á loft eða beitum þá misrétti.  Þá erum við að semja okkur að háttum öfgamanna og þá höfum við ekki efni á því að gagnrýna ríki þar sem Islam er normið og kristnir menn gjarnan órétti beittir. Leggjum því eyrum við þessum hugmyndum og reynum með umburðarlyndi, skilningi og kærleika að feta okkur til framtíðar í átt til betri samfélaga án þess að gefa eftir þau grundvallargildi sem við höldum að séu forsenda þess að umburðarlyndi, skilningur og kærleikur geti ráðið ríkjum.  Og gætum að því að það eru engir samstíga hópar að reyna að hnika þessum grundvallarréttindum en margs konar sjónarmið eru uppi á plánetunni.  En höfum eitt á hreinu. Mikill meirihluti þeirra innflytjenda sem sest hafa að á vesturlönum vill viðhalda þeim gildum sem vestræn samfélög  eru byggð á og haga lífi sínu eftir því.   Allar tilraunir til að mála hlutina svart hvíta eiga heima í lélegri Hollywood mynd en ekki í litskrúði hins lifaða lífs.

11. September 2001 var svo sannarlega hrollvekjandi dagur.