Viltu ný augu?

Viltu ný augu?

Bókstafshyggjan er gamaldags gleraugu, sem við eigum að kasta, segir í prédikun í Neskirkju á biblíudegi 2005. Fjallað er um þá sjón, sem menn hafa í lestri Biblíunnar, um biblíufræðin, ávinning þeirra og litblindu bókstafshyggjunnar. Fræðin eru til fagnaðar. Ef við æfum sjónfæri okkur vel getum við hlotið skarpa sýn í heimi trúarinnar. Viltu ný augu? Prédikunin fer hér á eftir.

Fræðin til góðs

“Má bjóða þér ný augu?” “Bíddu nú við. Er það hægt?” Já, já tæknin er orðin slík.” “Ja, fyrst svo er þá bara segi ég: Já takk. En hvað kosta þau?”

Ný augu! Er það ekki með ólíkindum hvað framfarir í augnlækningum og sjóntæka-þróun færa okkur? Við getum keypt nýja sjón. Og mörg kasta gleraugunum endanlega, losna við að hreinsa kámug glerin, sleppa við að fálma eftir gleraugunum í morgunmyrkrinu eða missa þau á mikilvægum stundum þegar nóg er fyrir hendur að gera. Hinar nýju leysiaðgerðir hafa stórbætt sjón margra. Sögurnar um augnbætur eru kraftaverkasögur. Auðvitað eru einstaka, sem hafa ekki fengið það, sem þau þráðu, fullkomna sjón. En árangur aðgerðanna er augljós, framfarirnar í vísindum eru óumdeilanlegar og margir njóta.

Leysiaðgerðir eru margbrotin tækni sem á sér langan aðdraganda í fræðaheiminum, ekki aðeins hinum læknisfræðilega heldur ekki síður í eðlisfræði og verkfræði. Tæknilegar uppgötvanir hafa verið nýttar á sviði læknisfræði til að hægt verði að samtengja þekkingu og þar verður hinn nýi skilningur, og þegar best lætur – hin nýja sjón.

Biblíudagur og Árnalestur

Í dag er Biblíudagur. Hvað hafa lækningaundur að gera með slíkan dag? Sjónbótatæknin er dæmi um hvernig þekking á einu sviði er færð yfir á annað og skapar nýja sýn og getur skapað nýja tilveru ef einstaklingurinn notar hana rétt.

Ég var svo lánsamur að kynnast manni í frumbernsku, sem las Biblíuna sína, bæði reglulega og með alúð. Hann hét Árni Þorleifsson, var vinur foreldra minna og vann hjá föður mínum. Hann bað móður mína meira að segja að láta kútinn bera nafn hans þegar ég fæddist. Foreldrum mínum var annt um gamla manninn og urðu við beiðni hans. Báðir afar mínir voru látnir þegar ég fæddist og Árni kom í þeirra stað. Við urðum nánir og ég heimsótti hann reglulega. Þegar ég var komin á unglingsaldur missti hann sjónina og þar með gat hann ekki lengur lesið, hvorki blöð eða bækur og ekki heldur Biblíuna. En við ákváðum að ég skyldi verða honum augu og ég fór til hans og las fyrir hann. Stundum vildi hann blaða- eða tímaritalestur, en þó helst að ég læsi upp úr Biblíunni.

Svo áttum við okkar helgistundir og ég fékk innsýn í trúarlíf, afstöðu og biblíusýn hans. Þetta varð okkur báðum til góðs. Svo féll Árni frá og ég tapaði honum, en ekki innsýn í ríkulegt trúarlíf manns, sem hafði mótast af glímunni við stórritningu veraldar, Biblíuna. Hann hafði leyft henni að móta sig í grunninn og því veit ég hvað öflug glíma við Ritninguna getur áorkað. Hann var heilagur maður. Réttur biblíulestur skapar engla.

Fjölbreytileiki Biblíu og lestrarlykill

Árni þekkti sína Biblíu, hafði lesið hinar 66 bækur margoft, skildi hversu ólíkar bókmenntir þær voru, vissi að Biblían var heilt bókasafn, að ritin þjónuðu mörgum og mismunandi hlutverkum, að Biblían hafði sprottið úr og slípast í ólíku samhengi á nærri tvö þúsund árum. Hann leit ekki smáum augum á spádómsbók Habakúk eða Dómarabókina. Hann bað mig stundum að lesa úr Mósebókum eða Jesaja. Honum þótti vænna um Saltarann, þ.e. Davíðssálma, en Orðskviðina. En helst vildi hann að ég læsi guðspjöllin því hann vildi vera sem næst Jesú.

Árni ÞorleifssonÉg lærði hjá Árna Jesúsóknina og skildi betur síðar, að allir biblíulesarar eiga sér leið og hlið inn í þetta mikla ritasafn. Allir eiga sér jafnframt ramma um túlkun og biblíunálgun, sem er með mjög ólíku móti. Sumir leita að siðferðisboðskap í Biblíunni. Aðrir leita að huggunarorðum. Enn aðrir hrífast helst af spekinni.

Biblíusýn – túlkandi afstaða

Það hefur gjarnan verið kölluð biblíusýn, þessi afstaða einstaklings eða hóps til hvernig lesa eigi Biblíuna. Sýn fólks er alltaf tengd forsendum. Skilningur er aldrei hreinn, við skiljum aldrei án túlkunar. Forsendur eiga sér rætur t.d. í hugðarefnum, lífsafstöðu, aldri, reynslu, varnarháttum og í hvaða hefð við stöndum.

Eitt er biblíutúlkun presta í einhverri kirkjunni, annað hvernig Sjónvarpsstöðin Omega nýtir Ritninguna. Síðan túlka aðventistar með einu móti, hvítasunnumenn öðru vísi og svo fræðimaður í Biblíufræðum með sínu móti.

Stöldrum við og skoðum hvað ræður afstöðu okkar til Biblíunnar, hvaða augu eða gleraugu við notum sem lestrarhjálp. Eru þau til hjálpar eða henta þau illa til Ritningarskoðunar? Nokkrum orðum vil ég fara um þann biblíuleshátt, sem hefur breiðst hvað hraðast út í nútímanum, leshátt Biblíunnar sem ég tel vondan og ástæða til að vara við. Það er það sem við köllum bókstafshyggju.

Bókstafshyggjan

Bókstafshyggjan einkennist af því að leita að klipptum og skornum niðurstöðum, leggur áherslu á einfaldan og svart/hvítan skilning á málum trúar og Biblíu. Bókstafshyggjan hefur lítinn áhuga á táknrænum boðskap heldur leitar að óskeikulli leiðsögn. Bókstafshyggjan hefur ekki mikið umburðarlyndi gagnvart því að samfélag og gildi hafi breyst og vill sjá í siðfræði fornaldar boð um líferni og skyldur kristins manns í nútíma.

Bókstafshyggjumenn halda fram ákveðnum hugmyndum, siðalögmálum, náttúrufræði og reglum, sem þeir segja vera boðskap Biblíunnar. Þeir telja að Biblían sé óskeikul eða ákveðinn túlkunarháttur hennar sé hinn eini rétti. Þegar einhver dregur slíkt í efa taka bókstafstrúarmennirnir það sem árás á trú og jafnvel Guð og bregðast ókvæða við, jafnvel með ofbeldi og stríðsaðgerðum.

Afstaða óttans

Bókstafstrúin er aldrei einföld eða augljós. Oftast er að baki henni ótti: Hræðsla við þekkingu og rannsóknir; hræðsla við að einhver ógni leiðtoga eða stefnu samfélags; hræðsla við fjölbreytni, ólíkar skoðanir og hugmyndir; hræðsla við útlendinga; samræður, ósættanlegar kenningar og breytingar. Það, sem bókstafstrúarmenn leggja til grundvallar túlkun Biblíunnar, eru einhver grunnatriði, sem á enskumælandi tungum er nefnt fundamentals, hvort sem það er nú meyjarfæðing, ákveðin skýring á upprisunni, afstaða til hjúskaparstofnana eða kynlífs, eða að Biblían sé líka vísindarit um sköpun heimsins o.s.frv.

Hvað sjón gefur bókstafshyggjan? Jú það er sjón hinna gráu tóna. Hún er einföld, gjarnan einstaklingsbundin, þröngt menningarskilyrt og á kostnað fjölbreytni í mannlífi. Bókstafshyggjan er litblind í biblíutúlkuninni - sér bara svart og hvítt. Við sjáum hvernig bókstafshyggjan breiðist út í Bandaríkjunum og hefur gríðarleg áhrif í pólitík. En það er líka mikilvægt að muna eftir að svipaðar áherslur og svipuð einhæfni breiðist út meðal múslima og hindúa og utan átrúnaðar einnig. Bókstafshyggjan er ekki bara til innan kristni heldur hefur með baráttu, hræðslu, ógn og jafnvel hernað að gera. Menn læsast í hinni litblindu heims, trúar- eða lífs-afstöðu, öllum til ills og trúnni til skemmdar, Guði til hryggðar.

Þekkingarbreytingar - sjóntækjabreytingar

Bókstafshyggjan er gamaldags gleraugu, sem við eigum að kasta. Háskólafræðin eru okkur í trúarlífinu sem leysiaðgerðir í sjónmálum. Við ættum að taka fagnandi móti því, sem vísindin hafa opinberað og veita okkur varðandi biblíuskilning og lestrarhátt. Biblíufræði og öll þau fræði, sem menn hafa stundað í rannsókn Biblíu og trúarlífs, hafa fært okkur dásamleg tæki til skýringar á flestu í heimi Biblíunnar. Við vitum mun meira um gerð textanna og merkingarsvið þeirra en formæður og forfeður okkar um allar aldir, mun meira um félagslegar forsendur frumkristninnar og úr hvaða samhengi Davíðssálmar spruttu. Meira er vitað um félagslegt, menningarlegt og trúarlegt samhengi Jesú Krists. Rannsóknirnar hafa flísað niður einfeldningslegar hugmyndir um að bókasafnið Biblían sé rit sem eigi að trúa á bókstaflegan hátt, trúa á einn máta, og túlka á einn veg.

Mörgum biblíulesurum ógna þessi fræði. En trúðu mér, hvorki kirkja eða kristindómur þurfa að að óttast góð vísindi og gangrýna hugsun. Trúmaður þarf ekki að hneykslast þótt sögulegar rannsóknir sýni að það eru menn sem komu við gerð og skrif Biblíunnar. Guði er ekki ógnað, heldur kanski aðeins ímyndum okkar um Guð og okkar eigin sjálfsmynd. Og við þurfum að muna að trú kristins manns beinist að Guði, en ekki bók eða bókasafni Biblíunnar.

Fólk, sem horfir með augum trúarinnar, þarf æfa sig stöðugt í að spyrja um rök eigin skoðana, eigin kirkju, eigin trúfræði – að eigin sýn. Það er margt í arfinum, sem veldur sjóntruflun í málum trúarinnar.

Hvernig getum við lesið Biblíuna?

Ef rannsóknir á Biblíunni hafa breytt sýn manna á uppruna, eðli og merkingu Biblíutextanna verðum við að spyrja hvort sýn okkar standist og hvort það sem við sjáum sé aðeins flekkuð eða sködduð mynd, molnuð Biblíumynd í þúsund brotum. Þegar sjónin breytist þarf auðvitað að fara horfa með nýjum hætti og það tekur líka tíma að aðlagast betri sjón. Mér hefur lærst, að það er hægt að lesa með nýjum hætti sem dýpkar sjónmynd hins guðlega.

Góð saga grípur og verður oft til að hjálpa fólki við að endurskilja líf sitt, sjá það í nýju ljósi. Þær bókmenntir, sem við köllum klassískar, þjóna slíku hlutverki. Saga Guðs í samskiptum við fólk, og glíma fólks við Guð hefur verið meginsaga í okkar menningarheimi í þúsundir ára. Einstaklingar og þjóðir hafa lesið sögu sína í þeim skjá, túlkað drauma, vonir og vonbrigði í þeim ramma. Sem slík er Biblían enn fullgild í dag. Saga Jesú verður það sem fólk getur séð sem erkisögu heims og manns og er hægt að nota til að túlka líf okkar manna á þessum tíma sem öðrum. Smásögur okkar verða hluti af stórsögu Jesú og sögu Guðs í heimi. Þar er kjarninn, hinu má sleppa.

Hvernig er biblíusjón þín?

Það var einhvern tíma prestssonur sem var að horfa á pabba sinn skrifa prédikun og spurði hann. “Hvernig veistu hvað þú átt að skrifa og tala í kirkjunni?” Pabbinn svaraði að bragði: “Heilagur Andi segir mér það.” Strákurinn spurði þá að nýju: “En af hverju ertu alltaf að strika út það sem þú ert búinn að skrifa?!”

En þannig starfar nú Guðs góði andi – í og með dómgreind okkar! Við þurfum stöðugt að skoða og endurskoða trúarefni og sjónarhól okkar. Við þurfum að spyrja okkur hvernig við sjáum og hvort eitthvað sé missýn.

Hann Árni nafni minn og “afi” varð blindur en sá með innri augum. Hann hafði fullkomna sálarsýn til þess sem er miðjan í Biblíunni, Jesú Kristur. Hann gerði sér grein fyrir að hann gat sleppt gömlum gleraugum, jafnvel sjóninni og mátti sjá hið dýrmætasta aðalatriði Ritningarinnar.

Ertu háð(ur) gömlu gleraugunum, gömlu fordómunum, og getur ekki lesið nema hafa þau á nefinu? En ný sýn er í boði, ný túlkun, ný biblíusjón. Biblían er heillandi heimur, sem á í safni sínu mynd af þér og hinu góða lífi sem þú mátt njóta. Þú mátt lesa að nýju. Þér eru boðin ný augu. Aðalmáli skiptir hvað þú sérð með sjónfærum þínum. Má bjóða þér nú augu?

Amen Prédikun flutt í Neskirkju á biblíudegi, 30. janúar 2005, og flutt og rædd á útvarp Sögu sama dag.