Ég bið fyrir þeim

Ég bið fyrir þeim

Himininn þar sem Jesús biður fyrir okkur er ekki ofan jarðar eins og hin gamla heimsmynd byggðist á. Heldur er himininn þar sem Jesús er. Marteinn Lúther lagði mikla áherslu á það í umjöllun sinni um fyrirbæn Jesú að himininn væri einmitt ekki ákveðinn staður þar sem Jesús sæti í hásæti sínu. Himinn Guðs væri í bæninni í hjarta mannsins.

Jóh. 17:9-17.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

“Hún snýst nú samt” þessi orð á Galileo að hafa látið falla í hálfum hljóðum eftir að hafa staðið frammi fyrir rannsóknarrétti kaþólsku kirkjunnar í Róm árið 1632. Skoðun hans á himintunglunum hafði leitt hann til þeirrar niðurstöðu eins og kunnugt er að jörðin væri ein af reikistjörnum alheimsins og snérist í kringum sólina. Þessi skoðun kollvarpaði heimsmynd kirkjunnar sem hélt því fram að jörðin væri miðja alheimsins og að sólin snérist í kringum hana. Kirkjan hélt því fram að hugmynd Galileo stangaðist á við heilaga ritningu svo að jaðraði við guðlast eða alla vega trúleysi. Og þrátt fyrir að Galileo reyndi að koma kenningum sínum á framfæri á varfærnislegan hátt varð hann að draga í land þar sem honum var hótað limlestingum eða jafnvel dauða. Kirkjan hélt fast við sína gömlu heimsmynd, þó svo að kirkjan hafði orðið að sætta sig við miklar breytingar þar á, þegar óyggjandi sannanir höfðu sýnt fram á að jörin væri til að mynda ekki flöt og væri stærri en sem næmi sjóndeildarhringnum. Lengi vel var þó hin þrískipta mynd ríkjandi. Það er að himininn væri jörðinni hærri og að undir jörðinni væri heilvíti að finna. Við þekkjum þessa mynd, himinn, jörð og helvíti. Hún er jafnvel svo sterk að hún læðist um hugskot okkar þó við höfum verið vitni að því þegar maður gekk um á tunglinu og mönnuð geimför eru nánast daglegt brauð. Og kannski ekki að undra þar sem við játum í hverri messu trú okkar á Jesú Krists, sem steig niður til heljar og upp til himna. Síðast liðinn fimmtudag héldum við uppstigningardag hátíðlegan þar sem við minntumst þess þegar Jesús skildi við lærisveina sína meðan hann blessaði þá og var upp numinn til himna. Þar situr hann nú við hægri hönd föður síns og biður fyrir okkur.

Guðspjall þessa dags er bæn Jesú í Jóhannesarguðspjalli. Fyrirbæn Jesú þar sem hann biður fyrir okkur því stundin er komin. Bænin er einnig kölluð æðstaprestsbæn Krist og er þannig fyrirmynd þeirrar bænar sem við berum hvort fyrir öðru sem prestar, almennir prestar í kirkju Krists sem leidd er af heilögum anda. Bæði atferli Jesú við bænagjörðina og uppbygging hennar er leiðarvísir bænalífis okkar og þeirrar bænar sem flutt er í hverri messi og við köllum hina almennu kirkjubæn. Fyrirbæn Jesú kemur í kjölfar þess að hann hafði boðað lærisveinum sínum orð Guðs, hann hafði lokið prédikun sinni og játað að stundin var komin, stund krossins. Eftir orðið bar hann fram bæn sína með því að hefja augu sín til himins. Atferlið gat ekki verið einfaldara og sýnir okkur að hið ytra atferli bænalífsins skiptir ekki höfuðmáli heldur hitt að að bænin beinist til Guðs og sé borin fram í hjarta mannsins. Þannig skiptir það ekki máli í messunni í dag hvort við biðjum saman með upplyftum höndum eða með spenntar greipar með opin eða lokuð augu heldur hitt að helgur andi beri bænir okkar áfram. Það er einnig athyglisvert þegar við skoðum fyrirbæn Jesú að við getum lært margt af uppbyggingu bænarinnar. Í fyrsta hluta bænarinnar þakkar Jesús Guði föður sínum, lofar velgjörðir hans. Í öðrum hluta bænarinnar leggur hann líf sitt og starf algjörlega í hendur Guðs og í þriðja hluta bænarinnar biður hann að hjálpræðið veitist öllum mönnum. Af þessum sjáum við hvernig bænir okkar eiga að hefjast á lof og þakkargjörð, síðan leggjum við líf okkar í Guðs hendur og biðjum að lokum fyrir náunganum. Þetta er ekki flókin uppskrift en það er erfitt að fylgja henni þar sem hugur okkar á oft á tíðum í erfiðleikum með að halda sig við orð Guðs í bæn. Vissulega er margt sem við getum gert til þess að styrkja bænalíf okkar og gera okkur staðföst í bæninni og má þar nefna fasta bænastundir, frátekinn tíma á hverjum degi til bæna. En við skulum heldur ekki gleyma mikilvægi messunnar í bænalífi okkar. Kirkjan er biðjandi kirkjan, hún er borin uppi af fyrirbæn Jesú á himnum. Og kirkjan er kirkja heilags anda, það er andinn sem vekur og viðheldur trúnni í hjörtum okkar svo að bænin eigi þar sinn sess og sinn farveg okkur til lífs.

Himininn þar sem Jesús biður fyrir okkur er ekki ofan jarðar eins og hin gamla heimsmynd byggðist á. Heldur er himininn þar sem Jesús er. Marteinn Lúther lagði mikla áherslu á það í umjöllun sinni um fyrirbæn Jesú að himininn væri einmitt ekki ákveðinn staður þar sem Jesús sæti í hásæti sínu. Himinn Guðs væri í bæninni í hjarta mannsins. Þannig að þegar Jesús steig upp til himna á uppstigninardag þá tók hann sér bústað í hjarta mannsins þar sem hann lifir í krafti heilags anda. Því það er Guð sem gefur trúna sem byggist á orði Guðs. Það er hið lifandi orð sem Kristur opinberar okkur og sem öll okkar trú og allt okkar traust byggist á. Þess vegna er orð Guðs og boðun þess óaðskiljanleg frá kirkjunni. Við boðum orðið í prédikun á helgum sunnudegi og í hvert sinn sem kirkjan kemur saman í Jesú nafni er orð hans lesið og fram borið. Í öllu kirkjustarfinu er það í hávegum haft hvort sem við erum í sunnudagaskólanum með kirkjuprökkurunum eða í öldrunarstarfinu –alltaf er það orð Guðs sem við byggjum á. Eins þegar við komum saman sem hin biðjandi kirkja í bænaguðsþjónustum eða kyrrðarstundum þá er orðið boðað. Orðið - Kristur Drottinn. Það ásamt bæn gerir einnig sakramentið lifandi fyrir okkur að það næri bæði trú okkar og guðsþjónustu alla. Kirkjan byggist á orðinu, það er það sem sameinar alla kristna menn. Og þegar við komum saman í kirkjunni og sem kirkja Krists þá erum við eitt í einingu orðsins. Það er þessi eining sem er bæði kirkjunni og þar með okkur svo mikilvæg og leggur okkur þá skyldu á herðar að standa vörð um kirkjuna og hið boðaða orð. Guð býr í orði sínu, það er máttug staðreynd trúarinnar. Við trúum og játum að orðið varð hold, Guð gerðist maður í Jesú Kristi og fyrir upprisu hans og uppstigningu varð Guð nálægur okkur í orði sínu sem býr í hjörtum okkar. Þannig er kirkjan ekki aðeins stofnun með kennitölu og ársreikninga eins og við komum til með að fjalla hér um á aðalsafnaðarfundi sóknarinnar á eftir, heldur er hún farvegur náðarinnar fyrir orð Guðs.

Nú höfum við sjálfsagt öll mismunandi skoðanir á því hvernig orðið skuli boðað og að sama skapi hvernig kirkjan skuli starfa. Oft heyrast enda gagnrýnisraddir þar að lútandi að kirkjan sé annað hvort ekki nógu framsækin og nútímaleg eða þá hitt að hún sé of frjálslynd og eftirlátssöm tíðarandanum hverju sinni. Og við vitum líka að það sem einum finnst fallegt eða hátíðlegt getum öðrum fundins framandi eða hreinlega leiðinlegt. Enda er það gott að hafa skoðun á kirkjunni og kirkjunnarmálum, það segir að okkur stendur ekki á sama heldur látum okkur kirkjuna varða. Persónulegar skoðanir okkar beinast einnig að okkur sjálfum því við höfum mikið um það að segja hvernig kirkjan er. Þátttaka okkar allra skiptir máli og rödd okkar innan kirkjunnar á að heyrast því hún endurspeglar trú okkar sem andinn blæs okkur í brjóst. Í kirkjunni störfum við með Guði og frábærari samstarfsaðila er ekki hægt að hugsa sér. Hann er mitt á meðal okkar í orði sínu í hinu boðaða orði kirkjunnar sem segir Jesús er Drottinn. Sú staðreynd trúarinnar stendur af sér allar breytingar á bæði heimsmynd og tíðaranda. Við brosum að þjósku og visku Galileo og syngjum með Bubba að jörðin hún snýst um sólina! Og við vitum að það er ekkert til sem heitir undir eða yfir jörðinni og að vera í sjöunda himni er okkur svo sjálfsögð líking. En hinn boðaði veruleiki sem fyrirbæn Jesú færir okkur leggur áherslu á mikilvægi þess að við gerum okkur grein fyrir því að þar sem Guð er þar er himnaríki og ef hann á sér bústað í hjarta okkar þá erum við eitt með honum á himni og á jörðu.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.