Stóru spurningarnar

Stóru spurningarnar

Klukkan er 6:45 á laugardagsmorgni og ég finn þegar fimm ára sonur minn skríður upp í rúmið til mín með ískaldar tær. Í stað þess að kúra í hlýjunni, þá spyr hann stundarhátt: „Pabbi, af hverju vildi fólkið krossfesta Jesú?“
fullname - andlitsmynd Stefán Már Gunnlaugsson
04. júní 2010

Teiknað á blað

Klukkan er 6:45 á laugardagsmorgni og ég finn þegar fimm ára sonur minn skríður upp í rúmið til mín með ískaldar tær. Í stað þess að kúra í hlýjunni, þá spyr hann stundarhátt: „Pabbi, af hverju vildi fólkið krossfesta Jesú?“ Við sem uppalendur þá hvetjum við börnin til að spyrja spurninga og leita sér þekkingar. Enginn spurning er vitlaus eða röng – allar spurningar eiga rétt á sér, því hver spurning markar upphaf að nýrri þekkingu og nýjum skilning. Við sem uppalendur þurfum á sama hátt að vera viðbúnir að svara fjölmörgum spurningum sem snerta lífið og tilveruna og þær spurningarnar geta verið um hvað sem er, allt frá því af hverju hafa fuglarnir vængi til hver er Guð. Þegar stórt er spurt, þá er ekki spurt um stað eða stund. Aðstæðurnar oft öðruvísi maður hafði gert sér í hugarlund og hvatvís hugur barnsins bíður ekki svars. Þarna í fyrstu skímu af nýjum degi í svefnrofanum glímdi ég við eina af stóru spurningum guðfræðinnar. Þannig er það oft með aðstæður okkar í lífinu, þegar okkur er keypt út úr hversdeginum (eða svefninum) fyrirvaralaust að glíma við ýtrustu rök lífsins. Mér runnu í hug flóknar guðfræðilegar útskýringar sem höfðu svo oft reynst mér gott haldreipi við spurningum sem þessari, en þær áttu ekki við hér þegar spurt var í fyllstu einlægni. Ég velti líka fyrir mér um stund hvers vegna barnið var að velta þessu fyrir sér á meðan aðrar spurningar ættu að vekja hjá því meiri forvitni. Í vandræðum mínum greip ég til dýrmætrar reynslunnar minnugur þess að oftast er spurningin aðalatriðið ekki bara svarið og ég spurði á móti: „Af hverju heldur þú að fólkið hafi krossfest Jesú?“ Það var stutt þögn, en svo svaraði hann glaður í bragði: „Vegna þess að Jesú rústaði búðarmönnunum.“ Í sama mund sveiflaði hann stórum og fallegum krossi sem gömul kona hafði gefið honum. Ég sá fljótt að ég gat ekki keppt við þetta svar – enda svarið rétt, eins rétt og það gat verið fyrir fimm ára gamlan strák. Eftir sat ég þó með þessa stóru spurningu og þakklátur fróðleiksfúsum syninum velti ég henni fyrir mér það sem eftir var dagsins. Að spyrja og leita svars er viðfangsefni trúarinnar. Trúin veitir svör við stærstu spurningum lífsins – svör sem við finnum ekki annarsstaðar. Þess vegna er svo dýrmætt að dýpka skilningin og trúnna, spyrja og leita svara með bæn og lestri Biblíunnar og þannig vera undirbúin fyrir stóru spurningarnar þegar þær brenna á – hvenær sem það verður.