Um vettvangsferðir skólabarna á aðventu

Um vettvangsferðir skólabarna á aðventu

Hvaða valkosti fá börn og foreldrar þegar vettvangsferð er fyrirhuguð á Þjóðminjasafnið, í Seðlabankann eða á Klambratún?
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
15. desember 2016

Heimsóknir skólabarna í kirkjur eru ávallt á forsendum skólans.

Hæfir skólastjórnendur

Reynsla mín, sem foreldri, er sú að skólastjórnendur séu mjög hæfir í störfum sínum og þar á meðal að meta út frá faglegum forsendum hvað sé viðeigandi í desember sem og á öðrum tímum skólaársins. Ég held það hljóti að vera óþægilegt fyrir skólastjórnendur að finna frá foreldrum vantraust í sinn garð í þessum efnum. Ég tel að ákvörðun skólastjórnenda að setja á dagskrá vettvangsferð í kirkjuna í hverfinu á aðventu sé iðulega byggð á faglegum sjónarmiðum.

Frelsi til þátttöku

Umhugsunarverð finnst mér sú krafa sem skólastjórnendur reyna sumstaðar að uppfylla, þ.e. að finna valkost fyrir þá sem ekki vilja taka þátt í þessum vettvangsferðum.

Hvaða valkosti fá börn og foreldrar þegar vettvangsferð er fyrirhuguð á Þjóðminjasafnið, í Seðlabankann eða á Klambratún? Það virðist vera svo að meiri sveigjanleiki sé í boði varðandi þátttöku í þessum dagskrárlið skólastarfsins en öðrum. Ef það á að viðhafa slíkan sveigjanleika finnst mér að hann mætti einnig eiga við um aðrar vettvangsferðir og jafnvel námsefnið, heilsurækt og félagslíf.

Trúboð, er það rétt hugtak?

Þeir sem gagnrýna heimsóknir skólabarna í kirkjur segja á stundum að þar fari fram trúboð, sem ég tel ekki réttnefni. Það orð er mjög gildishlaðið og þröngt og er ekki lýsandi fyrir vettvangsferðir skólabarna í kirkjuna í sínu hverfi.

Kirkjan í hverfinu er svo miklu meira og annað í okkar samfélagi. Tónlistarfólk leiðir þar öflugt starf, byggingarnar sjálfar bera gjarnan sköpunarkraftinum vitni, höggmyndalist, málaralist, saga og menning mætir okkur þegar inn er komið. Sjálfboðaliðar, fólkið sjálft, í hverjum söfnuði annast reksturinn og gjarnan er uppbyggilegum frásögum miðlað í bland við fallega tóna og aðra list.

Um hvað fjalla trú og lífsskoðanir?

Þegar við tölum um trú og lífsskoðanir finnst mér sú umræða varða þann grundvöll sem við stöndum á. Sú umræða varðar til dæmis hvernig við tökumst á við dauðann og þann missi þegar einhver sem er okkur kær deyr. Hún varðar einnig hvernig við hlúum að nýju lífi, nýrri manneskju sem fæðist í þennan heim. Þessi skil við upphaf og endi lífs eru auðvitað mikil undur og öll stöndum við í raun jafn ráðþrota frammi fyrir þeim staðreyndum.

Ég tel einnig að trú og lífsskoðanir snerti það hvernig við lifum lífinu. Mér er ekki tamt að tala um sjálfan mig sem trúaðan eða flíka því sérstaklega að ég sé kristinn. Ég tel að það sé ekki til heilla að flokka fólk í þannig hópa og eru slíkir merkimiðar sjaldan til þess fallnir að segja sannleikann um fólk.

Mismunun er stórt orð

Að sjálfsögðu er ég sammála þeim sem ekki vilja að börn upplifi mismunun. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þetta sé svona hálf tilbúið vandamál, því af hverju eiga börn og foreldrar að hafa svona mikið val varðandi þátttöku í vettvangsferð í kirkjuna í hverfinu sínu, þegar við sem foreldrar höfum nær ekkert að segja um aðra dagskrárliði skólastarfsins?

Mér finnst orðið mismunun í þessu samhengi mjög stórt orð. Við erum að tala um eina vettvangsferð, samveru á fallegum stað með sögu, söng og kertum. Mér finnst illa farið með þetta mikilvæga orð þegar það er notað í þessu samhengi.

Mismununin blasir við víða og birtist miklu frekar í því að sum börn eiga ekki möguleika á því að sækja tónlistarskóla eða fara í sumarbúðir vegna fjárskorts eða fátæktar, svo dæmi sé tekið. Eða þegar vorferð foreldrafélagsins er hjólaferð og í ljós kemur að nokkrir í bekknum eiga bara ekki hjól. Og þannig mætti áfram telja, svo ég tali nú ekki um stöðuna og ástandið í öðrum heimshlutum og þau forréttindi sem við búum við hér á landi í samanburði við fjölmarga staði í heiminum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu fimmtudaginn 15. desember 2016