Að tala tungum og skilja tungumál

Að tala tungum og skilja tungumál

Er ekki skynsamlegt fyrir okkur að hvítasunnan verði fjölþjóðahátíð kirkjunnar þar sem hver fær leyfi til að tala sína tungu og vera með? Við skulum fagna þeim sem tala framandi tungum og hlusta og skilja. Það gerir þau örugg og ákveðin og þau fara að treysta okkur. Er það ekki einnar messu virði?
fullname - andlitsmynd Svavar Stefánsson
10. maí 2008

— tækifæri á hvítasunnu

Tungumál aðgreina Öll höfum við einhvern tíma lifað þær aðstæður að heyra framandi tungutal og skilja lítið sem ekkert. Það er ekki þægilegt og gerir mann óöruggan að heyra talað, hlegið, grátið eða æpt og við skiljum ekki neitt og getum ekki náð sambandi við annað fólk. Hér á landi býr fjöldi innflytjenda sem sumir hverjir lifa við þessar aðstæður, að skilja ekki hvað er talað í kringum þá, hvað er að gerast í nýja landinu og nánasta umhverfi. Ætli þeir séu ekki bara eins og annað fólk í líkum aðstæðum, óöruggt, kvíðið og hættir til að einangrast í eigin veröld, heimi sem þau ein skilja?

Pistill Hvítasunnudags lesinn á nokkrum tungumálum.

Atburðir hvítasunnu

Lærisveinarnir, í frásögn Postulasögunnar um atburði hvítasunnunar, töluðu framandi tungum og fólkið hélt þeir væru drukknir eða gengnir af göflunum. Fólkið skildi ekki mál þeirra, þeir voru sem framandi fólk í eigin landi og samtíð. Tungutalið eða tungumálið setti gjá milli þeirra og áheyrandanna og þá er stutt í dómhörkuna og alhæfingarnar þegar við skiljum ekki þessa fáu. Það er gömul saga og ný að manneskjan er fljót að dæma það sem hún ekki þekkir og fordæma það sem hún ekki skilur. Hversu mörg ætli þau séu slysin og ódæðin sem framin hafa verið vegna þess að manneskjan ætlar náunga sínum illar hvatir þegar hún skilur ekki? Tungumál aðgreina manneskjur sem eiga þó svo margt sameiginlegt.

Tungumál kristninnar

Kristin kirkja á í raun sitt eigið tungumál. Atferli í helgihaldi, liðir guðsþjónustunnar og helgisiðir kristins samfélags eiga sér mismunandi orð en skiljast þó þeim sem hafa innsýn í veröld kristinnar trúar og hafa lifað lífi kristinnar kirkju. Ég hef sjálfur verið í ýmsum guðsþjónustum í framandi löndum þar sem ég skildi ekki hið talaða orð. En ég vissi nákvæmlega hvað var að gerast af því ég er læs á tungutal kirkjunnar minnar. Ég fann til öryggis í tungutali trúarinnar og vissi að ég var í vinahópi.

Þetta eru að vissu marki forréttindi sem trúin nýtur og við eigum að hagnýta okkur þennan veruleika til að brjóta niður óþarfa múra milli fólks. Kirkjan á að nýta sér þennan sérleik sinn og leggja ríkari áherslu á að gera táknmál trúarinnar aðgengilegt almenningi. Sérhvert tækifæri sem gefst, í kirkjuheimsóknum, í kynnisferðum í kirkju, kirkjuhátíðum og hvenær sem færi gefst á hún að fræða um táknmál trúarinnar svo við séum yfirleitt læs á trú og menningu. Það er andlega fátæk manneskja sem ekki skilur tungutak trúarinnar og skilur ekki atferli helgihaldsins í tali og tónum

Ný tækifæri

“Hvítasunnan er fyrsta ferðahelgi sumarsins”, sagði glaðlegi þáttastjórnandinn í útvarpinu áðan. Hann meinti vel en er hvítasunnan ekki örlítið meira? Getum við ekki notað hvítasunnuna til að laða til okkar þá innflytjendur sem búa í nágrenni okkar inn í kirkjuna, gefið þeim hlutverk, hlustað á hugmyndir þeirra, boðið til samveru og beðið þá að lesa texta dagsins á sínu tungumáli og glaðst með þeim? Er ekki skynsamlegt fyrir okkur að hvítasunnan verði fjölþjóðahátíð kirkjunnar þar sem hver fær leyfi til að tala sína tungu og vera með? Við skulum fagna þeim sem tala framandi tungum og hlusta og skilja. Það gerir þau örugg og ákveðin og þau fara að treysta okkur. Er það ekki einnar messu virði?

Gleðilega hátíð.