Enron og afreksverkin

Enron og afreksverkin

Fjarri fer því að hægt sé að segja sem svo að umfjöllun og rannsókn á hruni íslensks efnahagskerfis hafi nú staðið svo lengi að hægt sé og hagkvæmt að hverfa frá þeim. Afleiðingarnar eru enn að koma í ljós og úrræði til lausnar liggja ekki fyrir.
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
06. október 2010

Fjarri fer því að hægt sé að segja sem svo að umfjöllun og rannsókn á hruni íslensks efnahagskerfis hafi nú staðið svo lengi að hægt sé og hagkvæmt að hverfa frá þeim. Afleiðingarnar eru enn að koma í ljós og úrræði til lausnar liggja ekki fyrir.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sýnir umfang efnahagsumsvifanna sem leiddu til hrunsins og bendir á og staðfestir misbresti og glapræði og jafnvel glæpi í fjármálaumsýslu og bankastarfsemi. Forsætisráðherra í hrunríkisstjórn bíða réttarhöld fyrir Landsdómi. Fjöldi fólks er uggandi og kvíðir vetri, því að greiðslufrestur er útrunninn á skuldum, sem vaxið hafa langt fram yfir greiðslugetu og mikil fjölgun nauðungaruppboða verður vart umflúin.

Áhrifarík sýning Borgarleikhússins á nýju og beinskeyttu leikverki eftir kornungan enskan leikritahöfund, Lucy Prepple, sem fjallar um ris og hrun orku- og fjárfestingafyrirtækisins Enrons í Vesturheimi, gæti virst íþyngjandi viðbót við þessi ósköp, en hún hjálpar til skilnings og mats á því sem á undan er gengið. Sýningin dregur vel fram hvað gerðist í öfgafullri sögu Enrons. Jafnframt speglar hún íslenskt samfélag á þenslu- og útrásartíð enda voru leiðarmerkin hin sömu og leiddu Enron út í ógöngurnar. Þeim merkjum var víðar fylgt en hér á landi þótt hvergi væri farið jafn greitt í hasarreiðinni.

Sárgrætilegast við Enronhneykslið er, að það varð ekki einstætt og sérstætt dæmi í bandarísku efnahagslífi um efnahagsspillingu og nýtt sem víti til varnaðar, heldur var það fyrirboði um enn víðtækari efnahagsáföll fáum árum síðar. Enginn raunhæfur lærdómur var dreginn af hneykslinu né hugað að því að fjarlægja ágallana úr bandarísku efnhagskerfi og fjármálaeftirliti, sem fall Enrons leiddi í ljós. Fjármálahasarinn var enn í gangi þótt Enron væri búið að vera og magnaðist og mótaði lausungarstefnu í fjármálum sem þandi út mikla efnahagsbólu, er sprakk að lyktum með hörmulegum afleiðingum.

Leikverkið fylgir atburðarásinni vel í risi og falli Enrons sem varð sjöunda stærsta fyrirtæki Bandaríkjanna og byggði raforkuver og seldi gas og rafmagn og hafði víðtæk umsvif um allan heim. Matsmenn og álitsgjafar hrifust með og dáðust að framsækni þessa fyrirtækis og viðskiptanýjungum sem það innleiddi enda þénuðu þeir sjálfir í réttu hlutfalli við hagnaðinn.

Hjalti Rögnvaldsson leikur Kenneth Lay, stjórnarformann og forstjóra fyrirtækisins, sem hefur valið nafn og ímynd fyrirtækisins og komið upp glæsilegum höfuðstöðvum þess í Houston í Texas. Hjalti sýnir vel sjálfsöryggi Kens og áhrifavald enda hefur hann komið sér vel fyrir innan orkugeirans og tryggt stöðu sína með víðtæku samskiptaneti og nánum tengslum við ráða- og stjórnmálamenn í æðstu stöðum. Hann er viðfelldinn á yfirborði og heiðarleikinn uppmálaður þótt hann svífist einskis í gróðafíkn sinni. Ken trúir á Guð, Lýðræðið og Fyrirtækið.

Orkufyrirtæki í Vesturheimi þrífast vel á lokaáratug síðustu aldar þrátt fyrir að forsetinn sé demókrati. Uppsveifla er í efnahagslífinu enda nær forsetinn ágætri sveiflu í saxófónleik sínum, svo sem leikverkið sýnir, en hefur þó ekki gefið færi á frjálsri orkusölu.

Vel menntað og metnaðargjarnt fólk sækir fram í nafni Enrons, enda fljótt rekið frá borði standi það sig ekki. Jeffrey Skelling (Stefán Hallur Stefánsson) ber þó af öðrum og setur fram djörfustu hugmyndirnar. Claudia Roe (Jóhanna Vígdís Arnardóttir) er glæsileg og fær í flestan sjó, enda talin með áhrifamestu konum í viðskiptaheiminum. Hún er hugarfóstur leikritaskáldsins en mikilvæg í verkinu sem mótvægi við Jeff og skerpir mynd hans. Hún á sér þó raunverulegar fyrirmyndir í þeim aðilum innan Enrons sem vilja ekki rasa um ráð fram en byggja á raunhæfum grunni.

Jeff nýtur ,,gagns” af Claudiu þangað til Ken er nær því búinn að velja hana í forstjórahlutverkið, er hann ætlar að láta sér nægja að vera stjórnarformaður. Claudia vill styrkja orkufyrirtæki Enrons og standa örugglega að rekstri þeirra innanlands og utan. Jeff hefur aðrar hugmyndir. Hann sér framtíð Enrons ekki í því einu að það stýri orkuflæðinu í gas- og olíuleiðslum, heldur skipuleggi og stjórni hlutabréfamarkaði, sem hafi með jarðefnaeldsneyti og rafmagn að gera og breyti orkunni í fjármálagerninga sem stunda megi viðskipti með eins og hlutabréf. Ken lætur ánetjast þessari draumsýn og Jeff hreppir forstjórastarfið.

Jeff sprengir Andrew Fastow litla (Bergur Þór Ingólfsson) næstum því á hlaupabretti í líkamsræktinni í kostulegri senu þar sem munurinn á þeim kemur vel fram. Jeff er stór og státinn en Andý lágvaxinn og uppburðalítill, enda hefur hann orðið fyrir hnjaski og einelti. Jeff segir, að það ætti að reka hann fyrir að hafa staðið sig slælega í söludeildinni en Jeff áttar sig á hugmyndaauðgi og tölvísi Andýs og gerir hann að fjármálastjóra Enrons.

Þeir móta ,,Mark to market” bókhaldskerfið, þar sem áætlaðar framtíðartekjur af áformum og framkvæmdum eru þegar skráðar svo að hugmyndir verða ,,raunveruleg” verðmæti. Hagnaðurinn eykst dag frá degi og fjörlegt er að fylgjast með verðbréfaviðskiptum og hagnaðartölum á kauphallarskjám í höfuðstöðvum Enrons, þar sem dansinn í kringum gullkálfinn er stiginn taktfast í hröðu tempói og mikilli spennu, tilbeiðslu og trúarlegum ákafa. Trúarhiti og hasar koma vel fram í glæstum hópsenum.

Sviðsmyndin er grátóna og skiptist í neðra og efra rými, innarlega á sviðinu. Uppi eru skrifstofur og svalir. Neðri hlutinn getur opnast líkt og kjallararými sem er tilvalið til myrkaverka. Fremsti hluti sviðsins nýtist vel fyrir hópatriðin, mammonsdansinn tryllta og blaðamannafundina og að lyktum réttarhöldin. Myndskjár og skyggnur lífga sviðsmyndina og flytja tíðindi daganna og hagsveiflur. Og þotuliðið er klætt í þeim stíl og stæl, sem votta drift þess og færni.

,,Aðeins þeir sem eru viðbúnir að tapa geta unnið” segir Jeff. ,,Eins og í hraðskák skiptir hraðinn mestu og hvor er sneggri. Hasarinn glæðir frumstæða lífskennd og minnir á kynlíf og skotveiði.” Öruggum ráðum er enda beitt svo að Enron tapi aldrei. Jeff kynnir Enron sem fyrirtæki af nýrri og óþekktri gerð og orkuver sem nýti og dreifi ekki bara gasi og olíu heldur skapandi hugmyndum. Fulltrúar matsfyrirtækja og greiningardeilda minna á hve þjónusta þeirra sé mikilvæg, en verða eins og klappstýrur í aðdáun sinni. ,,Fyrirtæki eins og Enron er vilji góða umfjöllun leiti til þeirra” og greiða vel fyrir.

Enronundrið er orðið kennsluefni í Harvard en Claudia kvartar við Jeff undan því að hann selji allt frá henni og segir honum að þrátt fyrir stighækkandi hlutabréf muni bólan springa. Hann þurfi gáfað fólk nærri sér sem þori að gagnrýna hann. Enron er þó skærasta ljósið á hlutabréfamarkaðnum og besta fjárfestingin, hlutbréf þess hækka um 26% á einum degi.

Jeff kennir ungri dóttur sinni að telja peninga, ellefu daga taki að telja milljónina en milljarðinn mörg ár. Að hans mati er börnum augljóslega mikilvægast að þroska verðmætaskilninginn.

Þegar Jeff heilsar upp á Andý, vegna þess að hann hafi eignast strák sem skírður hafi verið Jeffrey, leggja þeir drög að því eftir uppástungu Andýs að koma sér upp ,,hjákonu/m í viðskiptunum”, því að raunverulegur fjárhagsgróði fyrirtækisins vaxi ekki sem skyldi heldur bara verðmæti hlutabréfanna. Þeir þurfi að losna við tapið á lélegum eignum og ,,sprauta því inn í hjákonurnar.” Vogunarsjóðir eru gagnlegir sem trygging. Ef t.d. flugslys verði, komi sér vel að eiga í bílaleigum, sem hækki þá í verði.

Skuggafyrirtæki séu þó enn betri lausn, skúffufyrirtæki, sem kaupi tapeignir Enrons og lítið þurfi að leggja út fyrir. Þau virki eins og rússneskar babúskur sem séu hver innan í annarri. Jeff er agndofa yfir þessari snilld. Búktalarar gegna hlutverki endurskoðenda í sýningunni og vísa hver á annan svo að enginn athugasemd er gerð við þessi góðu áform. Snareðlurnar sem Andý elur í kjallaranum eru táknmyndir björgunartækjanna í bókhaldinu og vaxa hratt með skuldunum.

Afleiður, skortsala og hvatakerfi sanna gildi sitt og efla dirfsku og dáð. Viðskiptatímaritið Fortune velur Enron framsæknasta fyrirtækið í Vesturheimi ár eftir ár, er sýni kraft kapítalismans, og fleiri fjölmiðlar dásama viðskiptaaðgerðir þess sem séu fyrirmyndir að nútíma stjórnarháttum. Sýndarveruleikinn virðist enda vera hinn nýi raunveruleiki. Fyrirheit Jeffs um kvikmyndaveitu heilla og áþekkar draumsýnir sem muni breyta heiminum.

Við árþúsundamótin eru skuldaskrímslin samt orðin nær óviðráðanleg. Enda þótt Lehmansbræður taki þátt í fjörinu og séu kynntir skemmtilega í sýningunni sem samvaxnir tvíburar sem bugta sig og beygja, er Enron komið að ystu brún. Andý heldur því að vísu fram, að skuldir séu fjármunir, en Claudia finnur á sér að eitthvað er að gerast sem sé algjörlega úr tengslum við raunhæft mat á gildum og verðmætum, enda sagt að veruleikinn komi málum ekkert við. Ken er óánægður með það sem Claudia segir og þeir Jeff vísa henni úr þjónustunni. Uppgjör þeirra Jeffs og Claudiu fer fram á svölum og virðist fela í sér ósigur hennar. Claudia hverfur frá og selur öll hlutabréf sín í Enron og kemst undan hrapi, en Jeff er að falla framaf.

Ken biður Jeff að biðja með sér og þeir þegja saman og segja svo amen, enda fátt til bjargar Enron nema regluverk og höft verði afnumin á raforkusölu. Tvísýnar forsetakosningar á milli Al Gore og Bush yngri ráða þar úrslitum og mikill hasar er á sviðinu og spenna þegar fylgst er með þeim á myndskjám í höfuðstöðvum Enrons. Ken talar við vin sinn Bush verðandi forseta, er ávarpar góðvin sinn sem Kenny boy, enda hefur hann veitt rausnarlega í kosningasjóðinn. Reiðuféð, sem ekki var til fyrir rekstri Enrons, fæst þegar raforkusala er gefin frjáls í Kaliforníu rétt eftir kosningarnar.

,,Vígasveitir” Enrons ríða röftum og kynna hörku hins frjálsa markaðar, þegar hann fær að ráða og kemur fram í ófegraðri mynd sem hamfarakapítalismi, enda hiklaust talað um stefnumiðin sem helstirni og brunafórn líkt og um tölvuleik væri að ræða eða styrjaldarrekstur í stíl við ,, Eyðimerkurstorminn” forðum. Sveitirnar vösku hika ekki við að skapa orkuskort og öngþveiti til að hækka orkuverðið upp úr öllu valdi og láta sig litlu varða þótt dauðaslys verði í umferðinni, er umferðarljós virka ekki, loftkælingar stöðvast og skurðstofur loka. Enda þótt fréttir sýni neyðarástand og þjáningar segir Jeff glaðbeittur: ,, Guð er með okkur í liði,” og Ken dílar við Swartzenegger/tortímandann um kjörin og fleiri ráðamenn, er birtast sem skuggamyndir.

Jeff hefur selt vatn og vonast til að geta brátt selt veðrið, en óveðursskýin hrannast upp, enda fellur álit Enrons mjög eftir afreksverkin í Kaliforníu. Starfsmenn fá laun sín að hluta greidd í hlutabréfum og sýna fyrirtækinu tiltrú og hollustu sína með því að taka út lífeyri sinn til að eignast sem stærstan hlut, enda ábatinn vænlegur. En nú er meira að segja Andý uggandi og smeykur. Eðlurnar hafa fengið of mikið af skuldum og ógna honum. Ken lifir hins vegar óáreittur í sínum heimi og er einkum hugað um að fá svar við því, hvort áklæðin á þotusætunum eigi að vera rauð eða blá, og heldur því blákalt fram, að enn einum stórkostlegum ársfjórðungi sé að ljúka hjá Enron og vill að Andý fari til New York og rói markaðinn.

Jeff sem jafnan er kokhraustur fipast, þegar blaðamaður Fortune óskar eftir því að sjá efnahagsreikninginn. Jeff vísar á endurskoðendur og neitar því að Enron sé svarthol. Andý getur þó ekki annað en tekið undir það. Jeff missir stjórn á sér, enda taugarnar þandar, og kallar blaðamanninn drullusokk sem vekur spurningar hjá fjölmiðlafólki um það, hvað sé í gangi hjá Enron og hvernig fyrirtækið þéni eiginlega peninga? Þótt Jeff segi að allt sé í lagi, enda honum treystandi sem ávallt fyrr, lætur hann svo lítið beri á selja öll hlutabréf sín í Enron. Hann segir upp stuttu síðar, af einkaástæðum í orði kveðnu, enda loksins að fara yfirum af áhyggjum.

Ken lætur samt í veðri vaka að engin óþekkt vandamál steðji að og ekkert sé í ólagi í bókhaldinu, enda geti hann sagt með sanni að fyrirtækið hafi aldrei verið í betra ásigkomulagi og kveðst vera í skýjunum yfir því að koma aftur að stjórn þess. Þegar Andý neyðist þó til að ganga frá skrímslunum hefur Ken ekkert brúk fyrir hann lengur, og Andý reynir að undarlegir hlutir gerast í loftbólum. Þegar trúin dofnar á þensluþolið geta þær sprungið með hvelli eins og flugvélar sem missa flug og hrapa. Hark og drunur í hrapandi flugvél heyrast á sviðinu, þegar tilkynnt er að opinber rannsókn á rekstri Enrons sé að hefjast. Fall og hrun þess eru óhjákvæmileg og fylgjandi réttarhöld til að fá svar við því ,,hvað gerðist. Hvers vegna? Og hver ber ábyrgðina?”

Ken deyr af hjartaslagi, en Jeff gefur til kynna við yfirheyrslur, að fyrirtækið hafi verið í fínu standi þegar hann hætti og staðhæfir að hann hafi ekki gert neitt rangt og saknæmt, þótt ákærður sé fyrir fjársvik og ólögmæt innherjaviðskipti. Andý, sem ákærður er fyrir peningaþvott og bókhaldssvik, ákveður að viðurkenna sök og veita upplýsingar gegn vægari dómi og segist hafa verið mjög gráðugur, en gert þó það eitt sem sér var sagt og hafa trúað á og fylgt ,,kúlturnum” í Enron. Hann vilji þó að sagt verði um sig í sögubókum, að hann hafi verið nægilega hugrakkur til að viðurkenna að hafa gert eitthvað af sér. Þegar borið er á Jeff að sölumenn Enrons hafi valdið lamandi rafmagnsleysi svarar hann, að ekki sé hægt að stunda viðskipti ef siðferði sé blandað í þau, en munurinn á sér og hinum viðskiptakólfunum hafi verið sá, að þeir hafi ekki verið nógu klárir til að gera það sama og hann. Við gjaldþrot Enrons eru skuldir þess 30 miljarðir $. Yfirmenn Enrons hafa þó fengið bónusgreiðslur rétt fyrir hrunið.

Enronfarsinn breytist í harmleik, þegar tjónið mikla sem svikamilla þess veldur kemur í ljós og tryggir en sviknir starfsmenn Enrons koma fyrir réttinn og gera grein fyrir því, að þeir hafi að hvatningu Jeffs leyst út allan lífeyri og sparifé sitt til að kaupa hlutabréf í Enron. Þótt þeir líti á Jeff sem ótýndan glæpamann, segist hann ekki vera vondur heldur óvenjulegur maður sem hafi viljað breyta heiminum. ,,Þið viljið byggja á áþreifanlegum raunveruleika”, segir hann, ,,en trúið samt á Guð. Það þarf bólur til skapandi framkvæmda. Allt sem skiptir máli er gert í (bjartsýnis)bólu. Halda verði í hugsjónina/tálsýnina fyrir öll okkar sköpunarverk, trú, gróða og peningana sem séu öflugastir.”

Andý er dæmdur í 10 ára fangavist og Jeff í nær 25 ára fangelsi. Á því er þó klifað í lok leikverksins, að fáein skemmd epli megi ekki skemma fjármála - og fyrirtækjamenningu í Vesturheimi og lögfræðingarnir staðhæfa við uppgjörið, að ,,viðskiptaglæpir af þeirri stærðargráðu” sem Enron viðhafði verði alls ekki liðnir.

En hvað gerðist? Enronhneykslið breytti litlu í viðskiptaháttum fyrir vestan sé mið tekið af því sem á eftir kom. Sýndarveruleikinn með töfrum sínum birtist í enn fjölbreyttari myndum þegar eftirbátar Enrons komust á góða siglingu. Ekkert var talað um loftbólur þrátt fyrir vafasama skuldavafninga, undirmálslán, afleiður og myrk skúmaskot fyrr en fjöldi stöndugra og hátt skráðra fjármálafyrirtækja og líka Lehmansbræður féllu um koll.

Íslendingar lærðu kúnstirnar og töframenn, sem líkt var við víkinga í framsækinni útrás sinni, nutu hylli og aðdáunar enda urðu margir efnaðir af hlutabréfum í bönkum þeirra og fyrirtækjum, meðan þau stóðu uppi og þenslan magnaðist í samfélaginu. Viðskiptaverðlaun og heiðurskrossar hlóðust utan á athafnaskáldin og víkingana, enda taldir velgjörðamenn svo sem rausnarlegir styrkir þeirra til menningar, lista og blaðaútgáfu bentu til. Forseta lýðveldisins, fyrrum formanni Alþýðubandalagsins, þótti sem þjóð sín væri loksins virt á meðal þjóða heimsins, enda öðrum snjallari að gáfum og hæfileikum svo sem alþjóðleg fjármálamiðstöð á landinu myndi sýna og sanna.

Eftir að loftbólan sprakk með hvelli og hruni og blekkingarnar birtust, sem voru mjög í stíl við svikamillu Enrons, erum við sem þjóð í sporum fórnarlamba þess og svikinna starfsmanna, rúin og blekkt. Forsvarsmenn Enrons fengu sína dóma, en víkingarnir eru enn lausir og leita að nýjum viðskiptatækifærum, og ráðamenn í ríkisstjórn, seðlabanka og fjármáleftirliti virðast fæstir þurfa að sæta ákærum.

Hví er hægt að láta blekkjast svo sem raun varð á af spilaborgum og tálsýnum og fylgja og þjóna þeim? Væntanlega vegna þess að aðgát og gagnrýni eru ekki vakandi og löngunin til að auðgast með auðveldum hætti svo sterk, sé vel ginnt fyrir hana, að leiðarmerki víkja um æðri tilgang og merkingu lífsins. Er það ásættanleg lífssýn að telja að kauphallir og fjármagnsstofnanir séu helstu orkuver lífsins og eigi að ráða viðmiðunum í einu og öllu? Hvers konar Guðstrú er það sem tekur undir þá kröfu? Væntanlega sú sem telur að blessun Guðs felist í ytra auði og hagsæld án mikillar hliðsjónar af því hvernig þeirra er aflað eða nýtast eins og augsýnilega hefur átt við Ken Lay. Guð er honum naumast annað en vogunarsjóður sem gott er að eiga tiltækan til að rétta sig af með, ef fjárfestingar hafa misfarist á einhvern veg, eða bara þvottalögur til að hreinsa sig af ódæðum og þvo af sér óhreinar/blóðugar hendur og lyf til að róa hugann fyrir bæði svefn og dauða. Auðhyggja sem elur á taumlausri græðgi samræmist ekki virkri og lifandi trú á Guð, sem opinberast í Jesú Kristi og miðar að því að fegra og frelsa líf frá fátækt og fjötrum. Slík auðhyggja er birtingarmynd mammonsdýrkunar, sem niðurlægir lífið og gerir það að spilavíti ef ekki beinlínis ruslahaug þar sem ránfuglar og hrægammar ríkja.

Leikverkið um Enron birtir vel þessa einhæfni og andleysi á fjölum Borgarleikhússins, kapphlaupið um gerviverðmætin sem virðast bæta og fegra lífið, en aðeins á ytra borði enda svikul og nýtast ekki til raunverulegrar uppbyggingar, gagns og gleði. Verkið kemst úr þessari einhæfni við uppgjörið, þegar spurningar vakna um ábyrgð andspænis vonsviknum og niðurbrotnum starfsmönnum. Þeir voru góðir svo lengi sem þeir dugðu í viðskiptasamkeppni og ímyndarsmíð, en síðan úr sér gengnir vélarhlutir í útbrunninni vél. Bjargarleysi þeirra vísar á fátæka menn, svikna og særða víðsvegar í veröldinni sem auðhyggjan hefur svipt auðlindum og lífsbjörg.

Farsinn/hasarinn og harmleikurinn í leikverkinu eru þó vart í því jafnvægi eða togast þannig á, að þessi sýn komi vel fram í því. Hún hefði gert það að enn máttugra og betra verki. Leikstjórinn vinnur þó ágætlega úr efniviði sínum og leikarar valda hlutverkum sínum vel í ögrandi og áleitinni sviðsmynd. Sýning Þjóðleikhússins á leikverkinu Enron á erindi við okkar samtíð og samfélag, er leitar leiða til þess að komast upp úr efnahagshruni og marka framtíð sína.

Stjörnugjöf *** og ½ * vegna vandaðrar og upplýsandi sýningarskrár.