Að vera

Að vera

Faðir minn hvernig ættum við að elska Guð? Með því að elska mennina. Og hvernig ættum við að elska mennina? Með því að reyna að vísa þeim áleiðis á réttri braut. Og hver er rétta brautin? Sú bratta.
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
23. október 2011

[audio:http://db.tt/rMuUXlqE] Apple-jöfurinn Steve Jobs er nýlátinn. Hann var snjall og skilaði sínu margfaldlega. Og hann kom tækjum í hendur fólki, sem hafa gagnast vel og eru jafnan falleg. Og þessi prédikun er skrifuð á Apple-tölvu. Á heimilum margra okkur eru einhver I-tæki frá fyrirtæki hans. Apple-merkið er epli sem búið er að bíta í, minnir okkur á frumsöguna í Eden, um að fólk vill vita meira, teygja sig eftir meiru. Það er frumlöngun okkar að víkka út vitund, þekkingu, möguleika. Og það er stórkostleg hæfni, skikkan skaparans, sem við þurfum að læra að stilla vel til að hún verði til góðs. Svo þegar við vitkumst lærum við að lífið er hverfult, ávextirnir og allt annað.

Það lærði Steve Jobs líka. Hann komst ekki hjá því að bregðast við takmörkunum af ýmsu tagi. Hann hraktist frá fyrirtækinu, sem hann stofnaði. Hann veiktist og bjó sig undir dauðann á miðjum aldri. Í ræðu, sem Steve Jobs flutti í Stanford fyrir nokkrum árum, talaði hann um að það sem virtist ógn en væri í raun tækifæri. Hann dró ályktanir af reynslu sinni og ráðlagði tilheyrendum: “Tími þinn er takmarkaður og sóaðu honum ekki á að reyna lifa lífi annarra. Láttu ekki hugmyndir annarra fjötra þig – sem er það að láta aðra stjórna þér. Leyfðu ekki ópum annarra að verða þín lífsstefna. Hið mikilvæga er að vera svo hugrakkur að hlusta og hlýða sinni eigin innri rödd.”

Jobs skildi baráttuna milli innri manns og ytri ávirkni, mkilli þrár og eyðingar, milli lífs og dauða. Hann hvatti fólk til að virða eigið líf, heiðra innri mann. Það merkir líka að menn eigi að virða aðra og skoðanir annarra. Boðskapurinn er að menn eigi að gæta að því að lifa vel, lifa fallega og virða takmarkanir, flæði og fegurð lífsins. Bitinn af eplinu verður þeim til visku, sem staldra við og gera upp.

Guðspjallið Strákur kom hlaupandi til Jesú. Hann var ekki úr hópnum sem fylgdi honum jafnan. Hann hafði greinilega heyrt um, að það væri ýmislegt á Jesú að græða og var tilbúinn til að hlusta. Og nú kom hann til meistarans til að fá ráð. Beiðnin var einlæg: Hvað á ég að gera til að komast inn í himininn – til að öðlast eilíft líf?

Hvað á ég að gera? Og svo beið hann. Jesús þekkti spurningarnar og fór í rólegheitum yfir námsefnið, rétt eins og hann væri með nemendur í tíma. Hver er góður? Jú Guð. Þú kannt boðorðin, þetta með bannið við manndrápum, framhjáhaldi, að hafa af öðrum eignir þeirra, að svindla ekki á öðrum og virða ástvinina. Og maðurinn kunni þetta allt og sagði sannfærður. “Ég hef gætt alls þessa.” Jesús horfði á hann á móti og vissi að hann gætti að sér í öllu sem hann gerði. Og svo bætti meistarinn við og þar kom Salómonsdómurinn: Bara eitt sem vantar upp á: Farðu og losaðu þig við eigur þínar, húseignirnar, peningana, hlutina, allt og gefðu andvirðið fátækum – komdu svo. Þá muntu eignast meira en allar jarðnesku eigur.

Hljóp eignamaðurinn burt til að gera það sem Jesús bauð honum? Nei, hann varð fyrir fullkomnu áfalli – og guðspjallið skýrir þetta með því að hann hafi átt miklar eignir. Bitinn úr eplinu stóð í drengnum.

Hvernig get ég komist inn? Ég hef dálæti á krítverska höfundinum Nikos Kazanzakis. Í liðinni viku kom svo upp í fang mitt spekiklausa úr bókinni um grísku ástríðuna. Þar segir:

“Faðir minn hvernig ættum við að elska Guð? Með því að elska mennina. Og hvernig ættum við að elska mennina? Með því að reyna að vísa þeim áleiðis á réttri braut. Og hver er rétta brautin? Sú bratta.”

Þetta er vel orðað. Að elska, lifa og iðja er stórkostlegt, aldrei klént og smálegt heldur bratt og reynir á. Lífið er ekki þannig, að eplin bara detti á okkur fyrirhafnarlaust. Hið góða krefst sóknar og áraunar.

Hvað á ég að gera? Hvert er notendanafnið og lykilorðið að himnaríki? Hvernig get ég komist inn? Segðu mér það Jesús. Hvað á ég að gera til að komast inn í himininn? Ég skal fara að öllum fyrirmælunum. Þetta var erindi mannsins. Og Jesús horfði á hinn ungan auðjöfur og benti á eina snögga blett hans - þar sem hann var veikur fyrir. Losaðu þig við allt sem þú átt. Losaðu þig við eigurnar – allt sem hemur þig.

En af hverju sagði Jesús þetta? Var hann á móti eignasöfnun? Var hann á móti peningafólki – bisnisssnillingum, eplafólkinu? Nei, svo sannarlega ekki. Hann vildi aðeins hjálpa fólki til að skilja hvað hindraði fólk til guðstengsla, hindraði fólk á veginum, yrði að fótakefli svo fólk kæmist ekki áfram. Svo einfalt er það.

Þannig er það í lífinu líka. Þú þarft að losa þig við það sem hindrar lífsgæði og lífsgleði þína. Ef það er eitthvað, sem hindrar þig í að vera þú sjálf eða þú sjálfur í einkalífi, námi eða vinnu þarftu að ganga í þig og breyta. Ef eitthvað hemur þig þarftu að staldra við. Er það fíkn, einhver reynsla sem hefur sest að þér, misnotkun, einhver kvíði, eitthvað sem þú þrást við að sleppa?

Og fært inn í mál eilífðar. Ef eitthvað heldur fast í þig og þú þroskast ekki þarftu að sleppa, til að geta verið í sambandi við sjálfa þig og sjálfan þig. Þú getur aldrei verið Guðs í gegnum aðra. Vertu til að vera Guðs, lifa Guði, vera í sambandi við Jesú.

Hvað á ég að gera? spurði maðurinn. Jesús svarar: Þú átt ekki að gera – heldur vera. Það er boðskapur dagsins.

Iðja – biðja Vinnuæði og asasótt síðustu áratuga varð til að fræðimenn fóru að tala um menn sem homo faber – verkmenni. Við vinnum mikið til að skapa okkur og fjölskyldum okkar góðan ramma. Við bisum við að koma okkur upp góðum aðstæðum og uppgötvum svo að börnin okkar vilja ekkert frekar en eiga gæðastund með pabba eða mömmu. Við streðum og gerum. En við gleymum kannski hinu mikilvæga - að vera.

Við getum auðvitað verið á ýmsan máta. Jesús minnir á, að vera er það að vera vinur hans, eiga gott samband við hann og treysta trúnaðarbandið við hann. Viljum við það? Viljum við kannski hafa veröldina eins og kjörbúð sem við veljum í og stingum í körfu okkar því, sem hugnast okkur best.

Ora et labora var sagt á miðöldum - iðja og biðja. Að vera í Jesúskilningi er það að innlifast Guði og afleiðingar af því eru altækar.

Gera eða að vera. Þetta er viðfangsefni fólks á öllum öldum. Þetta var það sem siðbót Lúthers snerist um. Hann hafnaði algerlega, að maðurinn þyrfti að gera þetta og hitt til að Guð elskaði manninn og opnaði himindyrnar. En skiptir þá engu hvað við gerum? Jú svo sannarlega. En röðin er þessi: Hið fyrsta er að vera Guðs og hið annað er síðan að gera vel. Vertu og gerðu síðan.

Að vera er ekki aðeins það að ná að narta heldur forsenda góðs lífs. Að vera í góðu sambandi við Guð er það að fá aðgang að ávaxtastöð alheimsins. Að vera Guðs er að tengjast hinu himneska neti. Þá fer lífið raunverulega í samband – ekki í samband sýndarveruleika heldur raunveruleikann, sem við lifum í og erum af. Þá er lífið gott og berum við ávöxt í lífi okkar. Gera eða vera? Amen

Flutt í Neskirkju 23. október, 2011, 18. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.

Textaröð: B Lexía: 5Mós 10.12-14 Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn, Guð þinn, annars af þér en að þú óttist Drottin, Guð þinn, gangir á öllum vegum hans og elskir hann, að þú þjónir Drottni, Guði þínum, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni og haldir boð Drottins og lög sem ég set þér í dag svo að þér vegni vel? Sjá, Drottni, Guði þínum, heyrir himinninn og himnanna himinn og jörðin og allt sem á henni er.

Pistill: 1Jóh 2.7-11 Þið elskuðu, það er ekki nýtt boðorð sem ég rita ykkur, heldur gamalt boðorð sem þið hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið sem þið heyrðuð. Eigi að síður er það nýtt boðorð, er ég rita ykkur, og sannindi þess birtast í honum og í ykkur því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína. Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu og í honum er ekkert er leitt geti hann til falls. En sá sem hatar bróður sinn er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer því að myrkrið hefur blindað augu hans.

Guðspjall: Mrk 10.17-27 Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“ Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“ Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir. Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“ Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“