Konudagurinn, klám og kynbundið ofbeldi

Konudagurinn, klám og kynbundið ofbeldi

Það er við hæfi á degi þar sem ást til og á konum kemur saman við áskorun föstunnar um sjálfskoðun, að spyrja hvernig að samfélag okkar og kirkja hefur reynst konum og hvar við erum stödd á þeirri vegferð að konur jafnt sem karlar fái notið verðleika sinna óáreitt.

Konudagurinn markar upphaf Góu í hinu forna norræna tímatali og ber með sér þá von að með hækkandi vorsól vænkist hagur þeirra sem hafa verið að þreyja þorrann. Konudagur á sér ekki langa sögu í okkar menningu en skv. Árna Björnssyni er hann er fyrst nefndur á prenti á 19. öld. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá því að ,,Húsfreyjur áttu að fagna góu á líkan hátt og bændur fögnuðu þorra, fara fyrstar á fætur fáklæddar góumorguninn fyrsta, ganga þrisvar í kringum bæinn og bjóða góu í garða svo mælandi:"

Velkomin sértu, góa mín, og gakktu inn í bæinn; vertu ekki úti í vindinum vorlangan daginn.

Sé aftur vitnað í þjóðháttafræðinginn segir hann að víða hafi verið til siðs að ,,bóndi ætti með einhverju móti að hugnast konu sinni á þessum degi, færa henni morgunkaffi og jafnvel smágjöf í rúmið eða halda til hennar í mat, taka af henni störf og gera henni á einhvern hátt glaðan dag." (Saga daganna s. 500) Í sinni einföldustu mynd er boðskapur konudagsins að sýna í verki þá ást sem við berum til konunnar.

Konudaginn ber upp á föstu, sem er í takti kirkjuársins frátekinn tími þar sem kristið fólk gengur í sjálft sig, með föstu og sjálfskoðun, í þeirri viðleitni að verða að betri manneskjum og með þá von í brjósti að skapa megi réttlátara samfélag. Það er því við hæfi á degi þar sem ást til og á konum kemur saman við áskorun föstunnar um sjálfskoðun, að spyrja hvernig að samfélag okkar og kirkja hefur reynst konum og hvar við erum stödd á þeirri vegferð að konur jafnt sem karlar fái notið verðleika sinna óáreitt.

Sú staða sem konur njóta í okkar kirkju, sem jafningjar karla í ábyrgðarstöðum, er nýtilkomin. Stærsta kirkjudeild kristinnar trúar rökstyður það að halda konum frá áhrifum á þeim grundvelli að Guð hafi komið til jarðar sem karl og því þurfi staðgengill hans, presturinn, að vera af réttu kyni. Sé okkur karlmönnum og kirkjunnar fólki alvara með inntaki föstunnar, eru brot okkar mikil þegar kemur að því að virða systur okkar í Kristi.

Nýja testamentið hefur margt fallegt að segja um stöðu kvenna í karllægu samfélagi síns samtíma. Í frásögnum guðspjallanna kemur Jesús fram við konur sem jafningja og brýtur með framkomu sinni viðtekin kynjahlutverk síns samfélags; konur á borð við Maríu Magdalenu voru áhrifamiklar í hópi hinna fyrstu fylgjenda og bréf Páls bera vott um að söfnuðir á upphafsárum Kristni hafi játað að trú á Krist geri alla að jafningjum óháð kyni og þjóðerni.

Umræða frumkirkjunnar um kynjahlutverk og stöðu kvenna er merkileg og er meðal annars knúin áfram af þeirri breyttu stöðu karlmennskuhugmynda sem að endalok lýðveldisskeiðs Rómarveldis leiddi af sér. Hinar hefðbundnu karlmennskudyggðir Rómverja voru í uppnámi og kirkjufeður áréttuðu karlmennsku sína með því að snúa hefðbundnum gildum á haus, kölluðu sig brúði krists, héldu fram skírlífi og höfnuðu veraldlegri hermennsku. Strax í yngri ritum Nýja testamentisins má hinsvegar sjá merki þess að konur bera skertan hlut frá borði í mótun hins unga átrúnaðar. Í Korintubréfi er konum skipað að þegja á safnaðarsamkomum og í hirðisbréfunum svokölluðu er þeim gert að lifa undirgefnar eiginmönnum sínum. Umræða frumkirkjunnar um karlmennsku og kynjahlutverk leiddi af sér guðlega réttlætingu feðraveldisins, þvert á fordæmi Jesú Krists.

Við Íslendingar megum vera stoltir af þeim árangri sem að við höfum náð sem samfélag í átt til kynjajafnréttis. Það er engin skortir á fyrirmyndum í íslensku samfélagi fyrir ungar konur og það er sannarlega fagnaðarefni að í fyrsta sinn í sögu Þjóðkirkjunnar séu nú tveir af þremur biskupum konur. Umræðan um konur, getu þeirra og dyggðir, hefur losnað úr viðjum karllægs yfirlætis, með þeirri baráttu sem kvenfrelsishreyfingin leiddi af sér, og afraksturinn er umburðarlyndara og réttlátara samfélag. En sú deigla hefur ekki leitt af sér sambærilega endurskoðun karlmennskunnar, sem enn virðist föst í staðalmyndum fortíðarinnar.

Fyrir rúmri viku var rætt um Kyn-líf í fermingarfræðslu Neskirkju og var hópnum kynskipt að því tilefni. Tímasetning fræðslunnar hitti á sömu viku og dansað var gegn kynbundnu ofbeldi í Hörpu og kynlífsfræðingur Fréttablaðsins upplýsti lesendur um að íslenskir drengir eigi heimsmet, miðað við höfðatölu að sjálfsögðu, í klámnotkun á netinu. Þegar fermingardrengir eru spurðir um ,,sanna karlmennsku” eru fyrirmyndir þeirra venju samkvæmt sóttir í heim tölvuleikja, kvikmynda, tónlistar og íþrótta og þeir svara því til að karlmennska felist í líkamlegum styrk, hernaðargetu, auðsöfnun og kvenhylli. Í fræðslunni bentum við á Jesú sem karlmennskufyrirmynd og þá framandi hugmynd að sönn karlmennska gæti leynst hjá feðrum þeirra í þeirri alúð sem þeir leggja í uppeldi drengja sinna.

Mótunaráhrif afþreyingariðnaðarins á ungt fólk skyldi ekki vanmeta og þar gætir áhrifa kláms í síauknu mæli. Það sem þótti gróft klám fyrir örfáum árum er í dag í almennri dreifingu, klámefni er það áberandi á netinu að börn komast vart hjá því að sjá klámfengnar auglýsingar og efnið sem aðgengilegt er löglega verður æ grófara. Það að sjá nekt og kynlíf er ekki skaðlegt í sjálfu sér og það er eðlilegt að unglingar séu forvitnir um þennan heim fullorðinna en klámiðnaðurinn ber með sér gildismat sem bókstaflega ýtir undir ofbeldi gegn konum.

Leiðin áfram felst ekki í því að koma upp stórtækum ríkissíum að hætti einræðisvelda til að hindra að kynlífstengt efni sé ekki aðgengilegt í gegnum nettengdar tölvur á Íslandi. Vandinn er mun stórtækari en svo og þær ritskoðunar tilraunir myndu skapa fleiri vandamál en þær leysa. Við sem samfélag þurfum að horfast í augu við þá staðreynd að við lítum á ofbeldi sem skemmtun og ofbeldi gegn konum er aðgengilegt í formi spennuþátta og kvikmynda á kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins.

Það er á ábyrgð foreldra að halda ofbeldisefni frá börnum sínum og á auðveldan hátt er hægt að setja upp síur á netaðgang heimila, sem hindra að klám sé aðgengilegt unglingum. Efni sem hlutgerir og niðrar konur er hinsvegar svo alsráðandi í afþreyingariðnaði samtímans að það er næsta ógjörningur að halda fyrir augu og eyru barna okkar þegar það dynur á. Það verkefni hefur aldrei verið brýnna að kenna ungu fólki að vera gagnrýnið á það sem borið er á borð fyrir það. Karlmenn þurfa markvisst að kenna drengjum að bera virðingu fyrir konum og vera fyrirmyndir þeirra í framkomu og talsmáta.

Guðspjall dagsins, sagan af blinda beiningamanninum í 10. kafla Markúsarguðspjalls, má lesa bókstaflega sem lækningarfrásögn eins Jeríkóbúa sem varð á vegi Jesú eða í yfirfærðri merkingu sem forskrift að því að losna undan blindu andspænis óréttlæti. Hróp mannsins ,,Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér” eru hróp þess er gerir sig kláran til að viðurkenna smæð sína, vanmátt og fáfræði og er reiðubúinn að líta í eigin barm. Við sem sækjum kristna guðþjónustu tökum undir þau hróp í miskunnarbæninni og setjum okkur sem einstaklingar og samfélag í sömu stellingar með orðunum ,,Drottinn miskunna þú oss.”

Blinda okkar er margskonar, við getum verið blind fyrir göllum í fari okkar sem öðrum eru augljósir og blind gagnvart samfélagslegu óréttlæti á borð við kynbundið ofbeldi, sem er sárlega augljóst þeim sem fyrir verða. Flest höfum við þá reynslu að hafa opnað augun gagnvart meinum, okkar jafnt sem annara, en fyrirmynd beiningamannsins liggur í niðurlagi guðspjallskaflans.

Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú. Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní, að ég fái aftur sjón.“ Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“ Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni.

Líkt og beiningamanninum forðum, sem fylgdi Jesú á ferðinni, ber okkur sem kennum okkur við Krist að slást í för með honum. Það að fylgja Jesú, á ferð sinni eftir áætlun Guðs fyrir þennan heim, krefst þess að halda vöku gagnvart blindu okkar við óréttlæti heimsins.

Í stað þess að samþykkja þann tíðaranda, sem upphefur ofbeldi gegn konum í klám- og hernaðarmenningu skemmtanaiðnaðarins, þurfum við, karlmenn jafnt sem konur, að sækjast eftir heilögum anda Guðs sem brennur af vandlætingu. Það er skylda okkar að hefja upp gagnrýnisraddir, kenna sonum okkar að reynast systrum sínum vel og vera komandi kynslóð fyrirmynd að fordæmi frelsarans Jesú Krists.

Guð veiti okkur náð sína til þess.

Gleðilegan konudag!

2. sunnudagur í föstu (reminiscere)

Guðspjall: Mrk 10.46-52 Þeir komu til Jeríkó. Og þegar Jesús fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði að þar færi Jesús frá Nasaret tók hann að hrópa: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Margir höstuðu á hann að hann þegði en hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“ Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“ Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú. Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní, að ég fái aftur sjón.“ Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“ Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni.