Jesús og heimsforeldraáskorunin

Jesús og heimsforeldraáskorunin

Samverjinn er lifandi tákn og virk áminning til okkar að mæta fólki í kringum okkur í kærleika og hjálpsemi. Hann minnir okkur á að hafa augun opin svo við sjáum þau sem á vegi okkar verða. Samverjinn er táknmynd kærleiksþjónustunnar, sem setur manneskjuna og þarfir hennar í öndvegi, sama hverjar aðstæður hennar eru.
fullname - andlitsmynd Kristín Þórunn Tómasdóttir
14. september 2014
Flokkar

Fyrir nokkrum árum var sett upp sýning á vegum The National Gallery í London með listaverkum sem sýndu atriði úr ævi Jesú Krists. Verkin voru frá því tímabili sem er kennt við klassíska tímann og fram á okkar daga. Eitt af verkunum sem var til sýnis var frekar nett höggmynd sem sýnir Jesú á stundu sem ekki er sagt frá sérstaklega í guðspjöllunum, en verður listamanninum samt innblástur. Þetta er stundin eftir að Jesús hefur borið krossinn upp á Golgata og bíður eftir því að vera negldur á hann og mæta dauða sínum. Hann situr einn og nakinn, soldið samanhnipraður og í algjöri einsemd.

Á sýningunni í The National Gallery var þessari höggmynd komið fyrir í miðju herberginu og hún var alveg frístandandi, engar grindur eða slíkt sem skildu hana frá þeim sem komu að skoða. Og umsjónarmenn sýningarinnar tóku eftir því að höggmyndin af nakta, einmana Jesú, hafði ótrúlega sterk áhrif á þau sem komu og kölluðu fram umhyggjuviðbrögð. Margir fóru úr yfirhöfnunum sínum og sveipuðu litlu styttuna inn í þær, til að reyna að hlýja manneskjunni sem var ein og köld. Sterkustu viðbrögðin komu ef til vill frá konu sem hafði komið og séð sýninguna og litlu styttuna af kalda, einmana Jesú. Á leiðinni heim af sýningunni gekk hún fram á betlara á götunni, sem hún hafði oft rekið augun í áður, og í fyrsta sinn nam hún staðar og talaði við hann, augliti til auglitis, manneskja við manneskju.

Á sunnudaginn var töluðum við svolítið um hvernig allt tekur við sér á haustin eftir sumardvalann og hvað haustið er einhvernveginn náttúrulegur tími til að byrja nýja hluti og leggja aðra af. Haustið er ekki bara tíminn þegar sólin lækkar á lofti og náttúran hniprar sig saman og undirbýr sig fyrir vetrardvalann heldur einnig tíminn þegar menningin springur út og nýjir hlutir byrja. Allt í kringum okkur finnum við þessa orku og hún pumpast inn í okkur eins og fjörefni úr nýtíndum berjum.

Haustið er tími til að byrja nýja hluti og hrinda góðum verkum í framkvæmd. Einn af þessum spennandi hlutum sem virkja okkur til góðra verka er dagur rauða nefsins sem síðustu ár hefur verið haldinn hátíðlegur 12. september. Markmiðið með degi rauða nefsins er að kynna hjálparstarf UNICEF - barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna - í þágu barna um allan heim. Dagur rauða nefsins er hugsaður sem átak í að fjölga í hópi heimsforeldra, sem styðja hjálparstarf UNICEF með því að gefa til starfsins mánaðarlega upphæð sem nýtist til góðs í ömurlegum aðstæðum. Við höfum síðustu daga fengið að kynnast nokkrum heimsforeldrum og því hvers vegna fólk velur að takast á við það hlutverk. T.d. bættist Agnes biskup í hóp heimsforeldra í sjónvarpsútsendingunni á föstudaginn og tók snöfurmannlega á móti Hraðfréttadrengjunum sem gengu að þessu sinni erinda góðs.

Heimsforeldrahlutverkið er frábært dæmi um hvernig við á meðvitaðan hátt getum beitt okkur til góðs þannig að það muni um það. Og það er uppörvandi að fylgjast með hversu góðar viðtökur ákall Unicef fær og ber vott um ríka meðlíðan og samkennd sem býr í fólki.

Það eru slík viðbrögð sem er kallað eftir í sögunni sem Jesús segir um miskunnsama Samverjann. Dæmisagan lýsir bæði því þegar manneskjur láta sig varða um aðra í neyð og þegar þær kjósa að líta fram hjá aðstæðum annarra. Hún vekur ennfremur athygli okkar á því að stundum finnum við samkennd og meðlíðan þar sem við eigum síst von á, í þessu tilviki hjá manneskju sem fyrirfram hefði verið stimpluð sem “vondi kallinn” í sögunni.

Það er beitt gagnrýni í dæmisögunni sem Jesús segir til að svara lögvitringnum sem vill fá hann til að útskýra hvað felist í því að elska náunga sinn eins og sjálfan sig. Það er vegna þess að hann velur fulltrúa “góða fólksins” sem við hefðum fyrirfram búist við að myndu bregðast við með réttri hegðun, til að vera dæmi um það þegar við klikkum á grunnskyldunni að koma þeim til hjálpar sem þurfa á henni að halda.

Dæmisagan um miskunnsama Samverjann kennir okkur þess vegna líka að dæma fólk ekki eftir stöðu, stétt og uppruna heldur mynda okkur skoðun eftir að við höfum séð hvað fólk stendur í raun og veru fyrir. Þar er einn og aðeins einn mælikvarði - hvort þú kemur náunga þínum til hjálpar.

Samverjinn í sögunni er þannig lifandi tákn og virk áminning til okkar að mæta fólki í kringum okkur í kærleika og hjálpsemi. Hann minnir okkur á að hafa augun opin svo við sjáum þau sem á vegi okkar verða. Samverjinn er táknmynd kærleiksþjónustunnar, sem setur manneskjuna og þarfir hennar í öndvegi, sama hverjar aðstæður hennar eru.

Þetta hljómar svo fallega og einfalt. En í raun og veru sjáum við dæmi um hið gagnstæða allt í kringum okkur, að mennska og mannvirðing lúta í lægra haldi fyrir öðrum hagsmunum. Stundum verða fátækt, sjúkdómar og fötlun til þess að draga athyglina frá manneskjunni sjálfri svo við sjáum hana ekki heldur bara fátæktina, sjúkdóminn eða fötlunina.

Á þeim dögum sem ég hef haft til að kynnast Laugarnessöfnuði og setja mig inn í starfið, hef ég m.a. fengið að heimsækja heimilin í Hátúnsþorpinu, Sóltúni og Dalbrautarþorpinu og hitt íbúa þeirra. Það hefur verið lærdómsríkt og gefandi. Ég hef hugsað hvort aðstæðurnar sem við sköpum þeim sem búa við örorku, sjúkdóma og fatlanir, styðji við mannvirðingu þeirra og reisn eða hvort umhverfið klumpi þau svolítið saman í vegkanti samfélagsins, sem auðveldi okkur hinum að ganga fram hjá og láta sem við sjáum þau ekki.

Á hverjum degi reynir á okkur, hver sem við erum, að sjá manneskjuna í þeim sem við mætum og sýna henni virðingu og kærleika. Sunnudagurinn í dag er tileinkaður kærleiksþjónustu kirkjunnar sem hefur einmitt þetta að yfirskrift. Kærleiksþjónusta kirkjunnar snýst ekki um að boða eða prédika, heldur að mæta manneskjunni þar sem hún er. Það fer fram með ýmsum hætti, m.a. með þjónustu djákna. Við í Laugarneskirkju erum svo lánsöm að vera í tengslum við þrjá djákna sem standa vaktina á sínum stöðum, og miðla mannvirðingu og náungakærleik með nærveru og þjónustu. Þetta eru þau Guðrún og Jón sem lásu ritningarlestrana í dag, Guðrún starfar í Hátúnsþorpinu og Jón á Sóltúni, svo er þriðji djákninn sem er í tengslum við Laugarneskirkju Kristín Axelsdóttir sem starfar á Heilsugæslustöðinni Lágmúla. Mér finnst frábært að hin vígða þjónusta Laugarnessafnaðar, birtist í einum presti en þremur djáknum! Það táknar einfaldlega það að þessi söfnuður er “hands on” og tekur alvarlega köllun kirkjunnar að standa með þeim sem minna mega sín og hlúa að mannvirðingu og náungakærleik í samfélaginu okkar.

Mér finnst líka mikilvægt að við sem kristin kirkja í samfélagi dagsins í dag, séum alveg heiðarleg með það að meðlíðan og umhyggja er ekki sérkristið fyrirbæri. Það að sýna umhyggju og kærleika er ekkert sérkristið í sjálfu sér. Við getum algjörlega hvílt í því að þau sem ekki líta á sig sem kristnar manneskur eiga umhyggju og samlíðan í hjarta sínu, eru góðir þegnar, ástríkir foreldrar og alveg jafn vel heppnaðar - eða misheppnaðar - manneskjur og við sem köllum okkur kristin.

Hvað er þá það sem gerir kristna trú eitthvað sérstaka? Þurfum við þá eitthvað á Guði að halda? Ég vil segja já og ég veit að við mörg segjum já, vegna þess að við höfum reynslu af því að sjálf náum við ekki utan um þessa mögnuðu ferð sem er lífið, í öllum þess hæðum og lægðum, með öllum þess áskorunum og verkefnum, gleði og sorg, sigrum og ósigrum, ef við tökum ekki skrefið og treystum því að það er eitthvað stærra en við sjálf. Og svar kristinnar trúar er ekki hlutlaust og ekki afstætt, svar kristinnar trúar er að það sem er stærra en við sjálf er kærleikurinn, sem birtist í Jesú Kristi.

Þegar við mætum þessum kærleika sem er Jesús, gerist eitthvað og við umbreytumst. Og umbreytingin snýr ekki síst að því hvernig við bregðumst við fólkinu í kringum okkur, þeim sem við erum kannski alltaf að mæta en sjáum samt ekki. Umbreytingin verður hjá konunni sem gekk út af sýningunni í The National Gallery og mætti í fyrsta sinn betlaranum á götunni eins og manneskju. Umbreytingin verður þegar við sjáum manneskjuna á veginum og göngum ekki framhjá heldur nemum staðar og veitum hjálp. Umbreytingin verður þegar við tökum af skarið og verðum heimsforeldri og leggjum okkar af mörkum til að gera óþolandi aðstæður betri.

Ég hef trú á kirkjunni, ég hef trú á Laugarnessöfnuði sem vill að þessi umbreyting einkenni líf sitt og starf. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.