Viðbótarsamningur, sjálfstæði eða fjötrar?

Viðbótarsamningur, sjálfstæði eða fjötrar?

Ljóst er að mikill þrýstingur verður á kirkjuþing að verja stórauknum fjármunum til sókna kirkjunnar, vegna niðurskurðar ríkisins á sóknargjöldunum. Allir eru sammála um að þörf sé á því inn í rekstur safnaðanna. En eru allir sammála um að á móti skuli stórfækka prestum?
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
02. september 2019

Kirkjan þarf að verða sjálfstæðari frá ríkisvaldinu svo hún geti endurnýjað tengsl sín við þjóðina. 

Kirkjan er á þeirri vegferð á Íslandi líkt og í nágrannalöndunum.  

Fjársamskipti ríkis og kirkju eru ekki flókin 

Þjóðkirkjan tryggir sálgæslu og prestsþjónustu við alla landsmenn. Hið svokallaða kirkjujarðasamkomulag ríkis og kirkju frá 1997 er grundvöllur þess fjármagns sem launar þá þjónustu. Kirkjan afhenti ríkisvaldinu eignir sínar og sem gagngjald kostar ríkisvaldið þessa þjónustu. Eignir kirkjunnar tryggja því prestsþjónustuna í landinu. 

Eftir bankahrunið 2008 samþykkti kirkjan árlega að veita ríkisvaldinu afslátt af gagngjaldinu sem nam sambærilegri skerðingu og stofnanir ríkisins þurftu að þola í kjölfar hrunsins. Prestum var fækkað, sem og starfsfólki á biskupsstofu. Þegar hagur samfélagsins fór að vænkast á ný hefur ríkisvaldið efnt að fullu kirkjujarðasamkomulagið. Enginn ágreiningur er eða hefur verið um að ríkisvaldinu beri að efna þetta einkaréttarlega samkomulag, sem líkja má við fasteignaviðskipti tveggja sjálfstæðra lögaðila.

Fólkið í kirkjunni annast rekstur safnaðanna. Lög um sóknargjöld og fleira eru frá árinu 1987 þar sem fjallað er um þær skyldur ríkisvaldsins að sjá um innheimtu og greiðslu sóknargjalda til safnaða kirkjunnar sem og annarra trú- og lífsskoðunarfélaga í landinu. Alþingi hefur með lögmætum, en kannski siðlausum, hætti skert einhliða með lagasetningu sóknargjöldin í landinu.  Skerðing síðustu ára sem bitnað hefur á kirkjunni telur í milljörðum og kemur það mjög illa niður á söfnuðunum um land allt. 

Fólkið í kirkjunni, sjálfboðaliðar í hverri kirkju landsins, annast reksturinn, en ríkisvaldið skerðir einhliða þann tekjugrundvöll sem reksturinn byggist á. Sóknargjöldin eru nýtt til að greiða organistum laun, kirkjuvörðum, leiðtogum í barna- og æskulýðsstarfi og fleirum. Sóknargjöldin standa straum að rekstri kirkjubygginganna og safnaðarheimilanna, viðhaldi og endurbótum, sem víða er orðið mjög ábótavant vegna niðurskurðar ríkisins á sóknargjöldunum. Sumir söfnuðir eru þegar komnir að fótum fram í rekstrinum, þrátt fyrir að hæfileikafólk sé þar við stjórnvölin og allir í sóknarnefndunum gefi vinnu sína. 

Fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju eru því í stuttu máli tvenns konar, kirkjujarðasamkomulag og sóknargjöld. Við örlitla skoðun má sjá að þessi tengsl eru ekki flókin.  

Að skrá sig í og að skrá sig úr

Aðild að kirkjunni skiptir rekstur kirkjunnar máli. Sóknargjöld eru greidd á grundvelli aðildar, þ.e.a.s. ríkisvaldið ákveður einhliða fjárhæð sóknargjaldsins á hverju ári og greiðir það til þeirrar sóknar eða þess trú- eða lífsskoðunarfélags sem einstaklingurinn tilheyrir. Ef þú tilheyrir engu slíku félagi, heldur ríkisvaldið gjaldinu í ríkissjóði. Ef einstaklingur skráir sig í kirkjuna, fær kirkjan þar sem hann býr aukin sóknargjöld. Sé miðað við lögin um sóknargjöldin og rauntölurnar í dag, hefur ríkisvaldið jafnt og þétt skert sóknargjöldin undanfarin ár, í dag nemur skerðingin um 46%, sé miðað við fjárhæðina þegar lögin voru sett. (Sóknargjöld eru greidd fyrir 16 ára og eldri, nú að fjárhæð kr. 925.- á mánuði beint til þeirrar kirkjur þar sem einstaklingurinn býr). 

Þann 5. september 2014 var þáverandi innanríkisráðherra veitt heimild ríkisstjórnarinnar til að hefja undirbúning að gerð samkomulags ríkis og kirkju um að umframskerðing sóknargjalda yrði jöfnuð út, á grundvelli greinargerðar starfshóps þar um, sem skilaði ráðherra niðurstöðum sínum í maí það ár. Ráðuneytið (nú dómsmálaráðuneytið) hefur hins vegar ekki lagt fram neinar tillögur á grundvelli þessarar greinargerðar, en sóknargjöldin hafa verið skert enn meira fram til dagsins í dag. Þarf ekki eitthvað að ræða þetta betur áður en gengið er frá viðbótarsamkomulagi við ríkisvaldið sem snertir kirkjujarðasamkomulagið?

Aðild hefur einnig áhrif á kirkjujarðasamkomulagið því skrái 5000 einstaklingar sig í kirkjuna launar ríkisvaldið einn prest til viðbótar, og fækki um sama fjölda, launar ríkisvaldið einum færri presta o.s.frv. Skrái allir landsmenn sig úr þjóðkirkjunni launar ríkisvaldið samt sem áður hátt í níutíu presta, samkvæmt kirkjujarðasamkomulaginu. Úrsagnir úr kirkjunni hafa því ekki úrslitaáhrif á sálgæslu og prestsþjónustu í landinu. 

Auknar tekjur til sóknanna á kostnað prestsþjónustunnar?

Viðræðunefndir ríkis og kirkju hafa nú lokið störfum og fyrir kirkjuþingi liggur að afgreiða til samþykktar viðbótarsamning við kirkjujarðasamkomulagið. Viðbótarsamningurinn gengur m.a. út á að heimila kirkjuþingi að ráðstafa á annan máta því fjármagni sem ríkisvaldið greiðir í launagreiðslur til þjónandi presta og starfsfólks biskupsstofu. Markmiðið er að einfalda fjársamskiptin á þann máta að í stað þess að Fjársýsla ríkisins annist um að greiða hverjum og einum presti laun í hverjum mánuði, samkvæmt úrskurði kjararáðs, á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins, mun ríkisvaldið nú greiða þjóðkirkjunni eina fjárhæð, sem kirkjuþing setur starfsreglur um hvernig ráðstafað verður. 

Ljóst er að mikill þrýstingur verður á kirkjuþing að verja stórauknum fjármunum til sókna kirkjunnar, vegna niðurskurðar ríkisins á sóknargjöldunum. Allir eru sammála um að þörf sé á því inn í rekstur safnaðanna. En eru allir sammála um að á móti skuli stórfækka prestum?

Upplýst samþykki?

Verði viðbótarsamningurinn samþykktur á kirkjuþingi 4. september nk. er um að ræða stærstu skipulagsbreytingar í kirkjunni í áratugi. Ekkert samráð hefur hins vegar verið haft innan kirkjunnar um þær skipulagsbreytingar. Viðbótarsamningurinn var kynntur biskupi Íslands, kirkjuráði og kirkjuþingsfulltrúum, tveimur dögum áður en kirkjuþing skyldi taka afstöðu til hans, þann 28. ágúst sl. Biskup óskaði á þinginu eftir því að aukinn tími yrði veittur til skoðunar, til 2. nóvember, áður en viðbótarsamningurinn yrði borinn upp til samþykktar. Að tillögu forseta kirkjuþings var hins vegar veittur viku frestur, en þingið er boðað á ný nk. miðvikudag. Biskupsembættið, kirkjuþingsfulltrúar og starfsfólk biskupsstofu hefur nú nýtt nótt og dag til að leita svara við fjölda spurninga sem viðbótarsamningurinn vekur og hefur ekki verið svarað. 

Ákvæði og orðalag er hægt að túlka á mismunandi vegu. Ekki er ljóst hver viðtakandi fjármagnsins skal vera. Ekki er ljóst hver staða kirkjujarðasamkomulagsins verður ef viðbótarsamningnum verður sagt upp síðar. Ekki er ljóst hver staða presta kirkjunnar er, verði viðbótarsamningurinn samþykktur. Ekki er ljóst hvort sú skipulagsbreyting sem samkomulagið felur í sér samræmist því að kirkjan sé evangelísk lútersk, eins og ákvæði stjórnarskrárinnar fjallar um. Svo fátt eitt sé nefnt. 

Eitt er víst að óvissa skapast og ringulreið, verði viðbótarsamningurinn samþykktur, að óbreyttu. Með leyndarhyggju, miklum hraða og þrýsting er verið að þvinga í gegn skipulagsbreytingar sem enginn veit hvert muni leiða. Kirkjuþingsfulltrúum er stillt upp við vegg og þeir krafðir um að taka afstöðu, án fullnægjandi upplýsinga og á mjög veikum grundvelli í stærsta hagsmunamáli kirkjunnar í áratugi

Þau öfl sem vilja knýja breytingarnar í gegn með þessum hætti hafa notað óttastjórn til að ná fram markmiðum sínum. Viðkvæðið er að ef kirkjan ekki samþykkir viðbótarsamninginn núna, þá muni illa fara fyrir kirkjunni. Þegar ótti og hræðsla ræður för, verður niðurstaðan alltaf röng.

Ég tel að þetta sé ógæfulegt og lofi ekki á gott.

Kirkjan og þjóðin

Í fjögur ár hafa þrír leikmenn af kirkjuþingi 2015, tveir aðalmenn og einn varamaður (enginn þeirra aðalmaður á núverandi kirkjuþingi), haft málið á sinni könnu og skipað viðræðunefnd kirkjuþings. Verulega hefur skort á samráð og nú skal með hraði afgreiða málið án þess að tækifæri sé veitt til að það sé skoðað sem skyldi. 

Mér er það til efs að fólkið í kirkjunni vilji að vinnubrögðin séu slík. Þarf ekki að eiga samráð við fleiri? Þurfa kirkjuþingsfulltrúar ekki að ráðfæra sig við bakland sitt, fólkið sem veitti þeim brautargengi með kosningu á kirkjuþing? Þurfa önnur stjórnvöld kirkjunnar, kirkjuráð og biskupsembættið, ekki að fá svigrúm til að sinna skyldum sínum og yfirfara samninginn áður en hann er borinn upp til samþykktar.

Ríkisvaldið þarf að losa kirkjuna úr sínum heljargreipum. Kirkjan þarf að fá rými til að annast ákvörðun um fjárhæð sóknargjalda og fá svigrúm til að halda utan um sína meðlimaskráningu. Þannig er það ekki í dag. Slíkt skref væri mikil einföldun á fjársamskiptum ríkis og kirkju og myndi færa kirkjuna nær þjóðinni. Viðbótarsamningurinn við kirkjujarðasamkomulagið sem nú liggur fyrir kirkjuþingi er vanreifaður innan kirkjunnar og óljós. Hætta er á að hið meinta aukna sjálfstæði sem viðbótarsamkomulaginu á að fylgja, verði kirkjunni sjálfhelda og fjötrar til framtíðar.