Sól upprisunnar lýsi þér

Sól upprisunnar lýsi þér

Undrið veitti þeim von sem þær miðluðu til vina sinna og áfram barst boðskapurinn kynslóð fram af kynslóð, boðskapurinn um sigurinn yfir dauðanum.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
26. mars 2016

Páskarnir miðla von. Von um eilíft líf. Jesús Kristur sigraði dauðann í upprisunni á páskadagsmorgni samkvæmt guðspjöllunum.

Samkvæmt guðspjallamanninum voru það konurnar sem fyrstar urðu vitni af undrinu. Þær komu fyrstar að gröfinni á páskadagsmorgni og hafa alla tíð verið í lærisveinahópi Jesú. Að konurnar hafi verið fyrstar að gröfinni varpar ljósi á mikilvægi þeirra í lærisveinahópnum. Jafnrétti kynjanna og mikilvægi hvers einstaklings eru hornsteinar kristins siðgæðis og menningar. Okkar kristna lýðræðismenning er nokkuð sem þjóðin verður að standa vörð um.

Undrið veitti þeim von sem þær miðluðu til vina sinna og áfram barst boðskapurinn kynslóð fram af kynslóð, boðskapurinn um sigurinn yfir dauðanum. Lífið er meira og stærra en virðist við fyrstu sýn. Boðskapur páskanna veitir þeim sem trúir stærri sjóndeildarhring en augun greina.

Þjónusta kirkjunnar á páskum hefur það markmið að miðla þessari von og glæða hana í samfélagi okkar. Kirkjan þjónar um land allt, í hverjum bæ og hverri sveit.

Það er undir þér komið hvort þú vilt leyfa sól upprisunnar að lýsa þér á lífsveginum. Kristur þröngvar sér aldrei inn í líf fólks, en býður þér samfylgd, viljir þú þiggja. Samfélagið við hann veitir styrk er við erum vanmáttug, von þegar staðan virðist vonlaus og kærleika er hjarta okkar er kalt. Kristur vill að sól upprisunnar lýsi þér alla tíð. Bjóðir þú hann velkomin mun hann reynast þér vel. Gleðilega páska.

Pistill fyrst birtur í Morgunblaðinu 26.mars 2016