Endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna.

Endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna.

Í bæninni okkar, Faðir vor, biðjum við Guð að fyrirgefa okkur “vorar skuldir” þe fyrirgefa okkur það sem við höfum gert rangt… og hjálpa okkur svo að við getum fyrirgefið þeim sem gera illt á okkar hlut… “að fyrirgefa vorum skuldunautum”… sá sem á kærleika á auðveldara með að fyrirgefa og sá sem fyrirgefur – honum verður fyrirgefið…

 Netmessa - Patreksfjarðarkirkju 24.maí 2020
Endir allra hluta er í nánd...                          Esk 37.26-28,  1.Pét 4.7-11,  Jóh 15.26-16.4 

Biðjum.... Eilífi Guð, við þökkum fyrir eilífa varðveislu þína, umhyggju og kærleika til okkar. Þökkum, að við getum lagt allt okkar traust á þig því þú hefur sagt að þú munir vel fyrir sjá, styrkja þá veikbyggðu, lækna sjúka, leiða þá villtu og hugga þá sem syrgja. Vertu með okkur öllum. Í Jesú nafni, Amen

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi

Það hefði passað betur ef ritningarlestrar dagsins hefðu verið í öfugri röð… Nú er uppstigningardagur nýliðinn, Jesús farinn til himna og varnaðarorð hans hljóma í eyrum lærisveinanna… endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna.

Já, endir allra hluta… Jesús sagði lærisveinunum ekki hvenær hann kæmi til baka en hann sagðist koma aftur… og englarnir, sem stóðu hjá þeim þegar Jesús steig upp, sögðu að hann kæmi aftur á sama hátt… myndi koma niður úr skýjum himins… í Op er endurkomunni lýst þannig… hann kemur í mætti og mikilli dýrð. Eftir að lærisveinahópurinn missti meistarann frá sér, hafa þeir vafalaust verið áhyggjufullir… Þeir sem höfðu fylgt Jesú eftir, urðu núna að taka stjórnina og sjá um sig sjálfir… þeir höfðu fengið fyrirmæli um að nota náðargáfurnar sem þeim höfðu verið gefnar og fara til Jesúsalem og bíða.   Frá uppstigningardegi til hvítasunnudags eru 10 dagar… þeir hljóta að hafa verið mjög lengi að líða… í guðspjallinu segir Jesús að hann muni senda heilagan anda, þeim til hjálpar…

Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi.
Jesús skildi þá ekki eftir eina, en þeir þurftu að bíða… Eins getum við þurft að bíða þegar við biðjum Guð um hjálp… við biðjum kannski á síðustu stundu og viljum hjálpina STRAX… en Guð veit auðvitað best hvenær rétti tíminn er… og hverskonar hjálp við þurfum á að halda… en við vitum öll hvað það er erfitt að bíða og lærisveinarnir biðu í 10 daga…

Jesús lagði mikla áherslu á kærleikann, hafið brennandi kærleika til hvers annarsþví kærleikur hylur fjölda synda… sagði hann… kærleikurinn umber allt og breiðir yfir allt sagði Páll í fyrra Korintubréfi… Sá sem hefur mikinn kærleika fyrirgefur af öllu hjarta… Í bæninni okkar, Faðir vor, biðjum við Guð að fyrirgefa okkur “vorar skuldir” þe fyrirgefa okkur það sem við höfum gert rangt… og hjálpa okkur svo að við getum fyrirgefið þeim sem gera illt á okkar hlut… “að fyrirgefa vorum skuldunautum”… sá sem á kærleika á auðveldara með að fyrirgefa og sá sem fyrirgefur – honum verður fyrirgefið  Forsenda góðra samskipta er að geta rætt vandamálin, fyrirgefið og þegið fyrirgefningu af hjarta.

Jesús sendi anda sannleikans til jarðar til að gefa lærisveinum sínum staðfestu og styrk til að vitna um hann. Þeirra beið mikil vinna við að breiða út boðskapinn og þeir fengu misjafnar móttökur… þannig er það líka í dag, boðskapurinn fær misjafnar móttökur… við köllum boðskapinn – fagnaðarerindi – en því fagna ekki allir.   

Ég sagði áðan að það hefði passað betur að hafa aðra röð á ritningarlestrunum… Seinni ritningalesturinn fjallaði um orð Jesú… að endir allra hluta væri í nánd… jú, við vitum að allt endar einhverntíma… og Páll sagði lærisveinunum að nota náðargáfurnar við boðun orðsins, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs eins og það var orðað… guðspjallið sagði að Jesús myndi senda þeim heilagan anda, þeim til halds og trausts… og þá er komið að fyrri ritningalestrinum… þar sem spámaðurinn segir þjóðinni hvað Guð ætlar að gera í framtíðinni: Ég mun gera við þá sáttmála þeim til heilla… og setja helgidóm minn mitt á meðal þeirra um alla framtíð. Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín.

Það þekkja allir sköpunarsöguna þar sem Guð gekk um í aldingarðinum á meðan Adam og Eva bjuggu þar… Þessi garður átti að vera bústaður okkar allra… hann var Plan A eins og við segjum… en þegar maðurinn féll í synd, setti Guð strax af stað Plan B… sem kemur svo vel fram versi sem við köllum Litlu Biblíuna: Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn, svo að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf 

Guð er enn með þá áætlun að búa hjá okkur… eða að við búum hjá honum… Hann fyrirgaf manninum að hafa fallið í synd… og gaf son sinn… þ.e. fórn sonarins er gjöf til okkar… gjöf sem hver og einn þarf að þiggja persónulega… Guð einn sér í hjarta hvers manns… hverjum hann fylgir.  Verum því viss um að hafa nafnið Jesús stimplað á hjörtu okkar. Páll postuli sagði: Ef þú játar með munninum og trúir í hjarta þínu að Jesús er Drottinn þá muntu hólpinn verða. Sá sem trúir mun búa hjá Guði.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen 

Guðsþjónusta tekin upp í Patreksfjarðarkirkju á samsung galaxy síma, klippt og sett á netið 24.maí 2020

https://www.youtube.com/watch?v=tPCOZ_YUmoo&t=3s