,,Má bjóða þér afrit?"

,,Má bjóða þér afrit?"

Ég má, ég vil, ég skal, er viðhorf okkar á vegferð okkar í gegnum lífið í allt of ríkum mæli.. Það er engu líkara en við höfum sagt hófseminni stríð á hendur. Við þurfum að snúa við frá þessari óheillaþróun. Til þess þarf hugrekki, já og kærleika. Okkar er valið.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
09. janúar 2008

,,Nei, takk”, er ég ósjálfrátt farinn að segja án þess að hugleiða hvað ég er eiginlega að neita mér um frá degi til dags. Ef ég hef tekið við afritinu þá hefur það verið saman krumpað í vasanum þar til ég hef hent því eftir marga daga án þess nokkurn tímann að líta á það. Ákvörðunin er mín.

Ég ætti að taka kortin mín í litum regnbogans úr slíðrunum og klippa þau áður en einhverjir aðrir gera það. Eigum við ekki flest þessa reynslu að eyða um efni fram? En þegar kemur að skuldadögum þá ýtum við snjóboltanum á undan okkur þar til við getum leyst úr fjármálaflækjunni, nú eða liggjum laglega í súpunni. Valið er alltaf okkar.

Ég vel að halda kortunum mínum. Hins vegar hef ég verið að hugleiða að leggja þeim og handfjatla um tíma eða jafnvel framvegis íslensku myntina og seðlana í staðinn. Það er svogóð lykt af nýjum seðlum og svo get ég sett klinkið í ,,Gefðu vatns” baukinn frá Hjálparstarfi kirkjunnar á skrifborðinu mínu! Ef ég gerði þetta þá er ég viss um að ég yrði meira meðvitaður um ríkidæmi mitt eða fátækt. Mitt er valið. Stórfyrirtæki eru farin að vantreysta blessaðri silfurkrónunni og vilja telja fram í evrum til þess að halda fengnum hlut og bæta jafnvel í. Seðlabankinn heldur uppi háu vaxtastigi til þess að allt fari ekki fjandans til í þjóðfélaginu. Ég má ekki segja þetta af því að ég er prestur. Stórfyrirtækin og Seðlabankinn tefla blessaða silfurrefskák þar sem þau reyna að máta kónginn sem verst eins og hann eigi lífið að leysa umkringdur riddurum, biskupum og peðum. Þetta má ég segja. Hverjum vilt þú fylgja? Valið er þitt. Ég er ekki að hvetja til þess að fólk skipi sér í fylkingarbrjóst, með eða á móti, með gunnfánum, sverðum og skjöldum. Þetta er kannski veruleikinn í dag. Ég vil aðeins benda á það að Guð lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi og Þjóðkirkjan á ekki að vera feimin að benda á siðferðisbresti í þjóðarskútunni. Það vil ég nú gera.og ég vil hvetja aðra kollega mína til þess að gera slíkt hið sama. Hófsemi er mikilvæg dyggð. Hún er silkiþráðurinn sem perlur dyggðanna eru festar á. Mér finnst þessi þráður vera farinn að trosna á kostnað margra dyggða, viskunnar, hugrekkisins, já, kærleikans sem er höfuðdyggðin í kristnum sið. Það veldur mér áhyggjum. Það er lítið vit í því að eyða um efni fram. Það eru gömul og góð sannindi. Nú er tími til þess að spara og leggja fyrir sem mest við megum því að hlutabréfin falla ásamt úrvalsvísitölunni. Samt höldum við áfram að kaupa gallabuxur, jafnvel á degi neytendanna, þrátt fyrir að við eigum þrjár fyrir uppi í skáp því að jólin eru að koma.

Ég má, ég vil, ég skal, er viðhorf okkar á vegferð okkar í gegnum lífið í allt of ríkum mæli.. Það er engu líkara en við höfum sagt hófseminni stríð á hendur. Við þurfum að snúa við frá þessari óheillaþróun. Til þess þarf hugrekki, já og kærleika. Okkar er valið. Ég er undir sömu sök seldur. Ég keypti mér dýran Landcruiser jeppa í haust. Ég hefði alveg getað ekið áfram á gamla bílnum mínum en ég ákvað að kaupa jeppann. Mitt var valið. Ég hafði hins vegar gaman af athugasemd kollega míns sem þáði far á Akureyri. Þegar hann sá bílnúmerið á jeppanum mínum varð hann mjög sposkur á svipinn. Fyrstu tveir bókstafirnir eru: I X. Ég hafði ekki tekið eftir því fyrr. Ef þú lesandi góður vilt fá að vita hvað stafirnir I X standa fyrir þá getur þú lagt inn fyrirspurn á trú.is. Þitt er valið Það kemur að skuldadögum. Reikningsskilin eru nær en við höldum. Þá þýðir ekki að leggja fram afrit af því sem við höfum keypt, sagt, tjáð og gert. Minnumst þess að á líkklæðunum eru engir vasar. Leitum því inn á við ekki síst með því að spegla okkur í ljósi boðorðanna 10, gullnu reglunnar og tvíþætta kærleiksboðorðsins. Þá mun renna upp fyrir okkur ljós. Hvernig sem á afritið er litið er þetta milli okkar og Guðs Okkar er valið

Góðar stundir

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 6. janúar.