Hús leyndarmálanna

Hús leyndarmálanna

Það eru margar ástæður fyrir skömm okkar. Stundum er hún réttmæt en oftar en ekki tökum við á okkur skömm sem ekki er okkar. En einmitt þess vegna er svo mikilvægt að geta deilt leyndarmálunum okkar með annarri manneskju, líka þessum skammarlegu. Sjónarhorn annarra getur breytt sýn okkar sjálfra og jafnvel fært skömmina til, minnkað hana eða látið hana hverfa.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
28. júlí 2013
Flokkar

1082293_482869795141457_910977372_o.jpg

Engin leyndarmál Fyrir nokkrum árum kom fyrir að ég horfði á sjónvarpsþætti í sænska sjónvarpinu sem hétu “Big brother”. Þetta var sænska útgáfan sem ég horfði á en samskonar þættir voru á dagskrá í fleiri löndum. Þetta voru raunveruleikaþættir þar sem fólk var lokað inni í húsi í um það bil þrjá mánuði og myndavélum komið fyrir í öllum herbergjum (líka á baðherberginu). Á hverjum degi voru klipptir saman áhugaverðustu bútar hvers dags og búinn til þáttur úr þeim. Mig minnir að einnig hafi stundum verið sýnt beint frá húsinu.

Til að byrja með voru þátttakendur fullkomlega meðvitaðir um myndavélarnar og framkoma þeirra eftir því. En smám saman var eins og þau gleymdu því að allt sem þau sögðu og gerðu væri tekið upp og fóru að lifa eins eðlilegu lífi og hægt er, innilokuð í lítilli íbúð.

Fyrir utan hefðbundna herbergjaskipan mátti í húsinu finna svokallað “játningarherbergi” þar sem þátttakendur gátu farið inn og talað beint til áhorfenda eða stjórnenda þáttanna ef þau vildu koma einhverju sérstökum boðskap eða skilaboðum á framfæri. Fyrir utan húsið var síðan að finna lítinn garð þar sem þátttakendur gátu gengið hring eftir hring ef þau vildu fá hreyfingu og svo var hann notaður til reykinga.

Áhorfendur áttu síðan að velja einn þátttakenda í viku sem þurfti að yfirgefa húsið. Sú eða sá sem stóð ein eða einn eftir í lokin, vann. Verðlaunin var nokkur peningaupphæð og svo náttúrulega frægð og frami.

Það þótti ekkert sérstaklega fínt að horfa á þessa þætti sem töldust til “lágmenningar” og það var varla að ég segði frá því upphátt að ég kíkti stundum á þá.

En það var margt áhugavert við þessa þætti því þótt sumir þátttakendurnir hafi gengið nokkuð langt í að láta ekki velja sig í burtu (gerðu hluti sem þau myndu ekki gera annars), þá var áhugavert að fylgjast með hvernig myndavélarnar skiptu þau minna málið eftir því sem á leið og allt fór að snúast um samskiptin þeirra á milli. Að smám saman fóru þau að hegða sér eins og þau væru ekki meðvituð um miljónir áhorfenda. Og þá á ég við að þau bæði rifust og elskuðust. Áttu góða daga og vonda.

Það sem þessir þættir höfðuðu til hjá áhorfandanum var kannski einhver upplifun um að vera á gægjum. Að geta horft á fólk lifa sínu lífi án þess að það tæki eftir því. Það borðaði, átti í samskiptum við hvert annað, þurfti að leysa ákveðin verkefni á hverjum degi, það reifst og elskaðist. Og öllu þessu gátu áhorfendur fylgst með og jafnvel haft áhrif á framvinduna með því að velja einhvern burt úr húsinu.

Það voru ekki mörg leyndarmál í þessu húsi.

Leyndarmál Árið 2002 kom út bókin “Dead famous” eftir rithöfundinn Ben Elton. Hún fjallar einmitt um samskonar sjónvarpsþætti þar sem þeir ganga alla leið og einn þátttakandinn er drepinn í beini útsendingu. Bókin gengur síðan út á leitina að morðingjanum sem að hluta á sér stað fyrir framan myndavélarnar því ákveðið var að halda þáttunum áfram þrátt fyrir morð í beinni útsendingu. Áhorfið jókst jú.

Í bókinni er farið kyrfilega á bakvið tjöldin og hugmyndir framleiðandanna um hvað selur og hvað ekki koma vel í ljós. T.d. vita allir að nekt selur og því er hitinn í húsinu hækkaður verulega svo að þátttakendur fækki fötum. Svo eru þátttakendurnir valdir bæði eftir útliti og manngerðum, til þess að gera þáttinn sem áhugaverðastann.

Það voru mörg leyndamál í þessu húsi.

Þín leyndarmál og mín Ég á mér leyndarmál. Ég á leyndarmál sem fáar manneskjur vita og ég á leyndarmál sem engin veit nema ég.

En ég hef komist að því að ég vil lifa einföldu lífi. Lífi sem byggir á að eiga sem fæst leyndarmál. Lífi þar sem ég hef ekkert að skammast mín fyrir og get komið til dyranna eins og ég er klædd, og ekki látið mig varða of miklu um skoðanir fólks á þeim klæðnaði. Svolítið eins og fólkið í Big brother húsinu en þó vonandi með meiri tengingu við raunveruleikann en þau höfðu.

Þetta tekst ekki að öllu leyti hjá mér. Ég geri oft eitthvað til þess að halda andlitinu. Ég laga til áður en fólk kemur í heimsókn því mig langar til að fólk haldi að það sé alltaf fínt hjá mér. Ég klæði mig ekki alltaf eins og mig langar mest til heldur vel föt út frá tilefninu. Horfi kannski á sjónvarpsefni sem mig langar ekkert til að fólk viti að ég horfi á s.s. “Big brother”. Ég veit að þetta eru bara ómerkileg smáatriði og einmitt þess vegna get ég viðurkennt þau hér.

Ég vil ekki eiga leyndarmál en það eru samt leyndarmál í mínu húsi. Leyndarmál sem ég myndi aldrei segja frá hér.

Ég geri ráð fyrir því að það séu leyndarmál í þínu húsi. Ég veit ekki hvort þau eru mörg eða hvort þú hefur deilt þeim með einhverjum. Ég veit ekki hvort þú lifir lífi þar sem þú þarft ekki að skammast þín fyrir sjálfa(n) þig. En ég veit að of mörg leyndarmál eru ekki góð fyrir sálina. Og ég trúi því að Guð þekki leyndarmálin þín vel og deili þeim nú þegar með þér. Ég trúi því að það sé Guðs vilji að þú þurfir aldrei að bera nokkra skömm ein(n).

Ef ég ætti að draga saman boðskap allra texta þessa sunnudags þá væri hann einhvern veginn svona:

“Gerðu gott en ekki illt og vertu allsgáð og ekki svíkjast undan þeirri ábyrgð sem þér er trúað fyrir og lifðu þannig að þú þurfir ekki að skammast þín.”

Mín skömm og þín Það eru margar ástæður fyrir skömm okkar. Stundum er hún réttmæt en oftar en ekki tökum við á okkur skömm sem ekki er okkar. En einmitt þess vegna er svo mikilvægt að geta deilt leyndarmálunum okkar með annarri manneskju, líka þessum skammarlegu. Sjónarhorn annarra getur breytt sýn okkar sjálfra og jafnvel fært skömmina til, minnkað hana eða látið hana hverfa.

Ef skömmin er réttmæt er hægt að fá fyrirgefningu. Ef skömmin er ekki okkar er mikilvægt að skila henni þangað sem hún á heima.

Í guðspjalli dagins erum við hvött til þess að lifa í ljósinu. Að haga lífi okkar þannig að við þurfum ekki að skammast okkar. Þannig að við getum sagt að við höfum verið stoltir þjónar Guðs og náungans og borið okkur sjálfum þokkalegt vitni.

Í gær gekk hópur fólks niður Skólavörðustíg, beinn í baki og laus við skömm. Þetta voru druslur, sem reyndar eru alls engar druslur. Með orðinu drusla er verið að vísa til þess að oft á tíðum er þolendum nauðganna og kynferðisofbeldis kennt um verknaðinn með því að vísa til druslulegs klæðnaðar, útlits eða hegðunar. Þessi ganga, sem haldin var hér þriðja árið í röð, gengur út á að senda skömmina þangað sem hún á heima. Til gerandans.

Hús leyndarmálanna eru mörg. Þau eru í ýmsum stærðum, gerðum og litum.

Þar sem leyndarmálin eru mörg er skömmin oft meiri. Deilum því leyndarmálunum með annarri manneskju og leyfum henni að vera eyru Guðs. Ef það er ekki mögulegt er hægt að snúa sér beint til almættisins og deila leyndarmálunum með Guði sem nú þegar ber leyndarmálin með þér.

Sum leyndarmál eru þannig. Amen.