Útrás

Útrás

Fl Group hefur nýlokið hlutafjáraukningu upp á 44 milljarða króna. Í frétt um þetta segir að nú þyki félagið álitlegur fjárfestingarkostur fyrir fjárfesta. Við fylgjumst í undrun með útrás og landvinningum íslenskra fyrirtækja erlendis og óneitanlega fyllir það okkur stolti. Okkur þykir ekkert slæmt að landar okkar skuli kaupa hvert þekkt fyrirtækið á fætur öðru í kóngsins Kaupmannahöfn svo að Danir lyfta jafnvel brúnum.
fullname - andlitsmynd Kjartan Jónsson
13. nóvember 2005
Flokkar

En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. Matt 28.16-20

Fl Group hefur nýlokið hlutafjáraukningu upp á 44 milljarða króna. Í frétt um þetta segir að nú þyki félagið álitlegur fjárfestingarkostur fyrir fjárfesta. Við fylgjumst í undrun með útrás og landvinningum íslenskra fyrirtækja erlendis og óneitanlega fyllir það okkur stolti. Okkur þykir ekkert slæmt að landar okkar skuli kaupa hvert þekkt fyrirtækið á fætur öðru í kóngsins Kaupmannahöfn svo að Danir lyfta jafnvel brúnum. Starfsfólk Össurar hefur hannað rafrænt hné sem er tímamótaviðburður á sviði stoðtækja og mun auka lífsgæði margra. Án efa verður það góð söluvara. Þessi útrás hefur verið mjög í umræðunni á undanförnum misserum. Hún hefur skapað mikil verðmæti hér á landi í hækkuðu gengi hlutafjár í þessum fyrirtækjum til hagsbóta t.d. fyrir lífeyrissjóði, fyrirtæki og einstaklinga.

Í dag er árlegur kristniboðsdagur kirkjunnar. Dagskipun Jesú Krists er: "Farið út um allan heim og gjörið allar þjóðir að lærisveinum." Hann stefnir kirkju sinni til útrásar. Það leið ekki langur tími frá því Jesús gaf þessa skipun þar til kirkjan hafði náð mjög víða, um norður Afríku, kringum allt Miðjarðarhaf, til Tyrklands, austur til Íraks, Írans og Kákasusfjalla. Í kringum árið 200 var búið að koma á biskupsdæmum í Írak og hlutum Írans nútímans. Talið er að fyrsti kristniboðinn í Eþíópíu hafi verið þrællinn Frumentíus frá Sýrlandi sem kom þangað á 4. öld, en Páll postuli var einmitt sendur þaðan sem kristniboði til Tyrklands og Grikklands. Það er dapurt til þess að vita að flest þessara landa hafi orðið íslam að bráð. Aðeins litlar og veikar kirkjur eru þar nú á dögum. En skipun Jesú Krists er skýr. Hún er aðalatriði og niðurstaða Mattheusarguðspjalls. Höfundur þess hefur þetta að segja við okkur: Kirkjan er samfélag kristinna manna, líkami Krists, send út í heiminn með vitnisburðinn um hinn upprisna og lifandi Jesú Krist. Henni er ætlað að kunngjöra öllum mönnum að Jesús gefi þeim samband við Guð, að náð hans standi öllum til boða vegna þess að Guð elskar alla menn og þráir samfélag við þá.

Ég er sannfærður um að kristin trú hefði breiðst út þótt kristniboðsskipunin hefði aldrei verið gefin. Hún er svo góð frétt að margir þrá að miðla henni til annarra. Pétur og Jóhannes sögðu frammi fyrir lögregluyfirvöldum Jerúsalem þegar þeir höfðu verið handteknir og þeim bannað að tala opinberlega um trú sína: "Vér getum ekki annað en talað það, sem vér höfum séð og heyrt" og með þetta fóru þeir og létu hótanir þeirra sem vind um eyrun þjóta. Kirkjan breiddist út við svona aðstæður og þannig eru aðstæður hennar víða í heiminum. Á undanförnum árum hafa kristnir píslarvottar verið fleiri en nokkru sinni fyrr í sögu kirkjunnar, t.d. í ríkjum íslams, Súdan, Indónesíu o. m. fl. Erfiðleikar þrýsta okkur nær Guði og gera okkur meira upp á hann komin. Okkur hættir til að gleyma honum þegar lífið gengur leikur við okkur og allt er í blóma.

Trúin á Jesú færði fólki kærleika og ljós þar sem ég starfaði í Afríku um margra ára skeið. Hann var máttugri en öll illu öflin sem héldu því í stöðugum ótta og óöryggi. Því fannst það þurfa að miðla því með öðrum og fólk sagði nágrönnum, ættingjum frá og lagði óvíða land undir fót til að flytja fregnina til nýrra svæða. Þannig urðu til og vísar að nýjum söfnuðum. Á tímabili fór fólk til svo margra nýrra staða að við urðum að halda aftur af því vegna þess að við náðum ekki að fylgja öllum þessum fjölda eftir með uppfræðslu. Kristnin vex á þennan hátt enn þann dag í dag. Allir sem heimsækja kirkjurnar í Afríku hrífast af gleðinni, einlægninni og trúarhitanum sem þar ríkir. Trúin er virkt afl í daglegu lífi. Almennt safnaðarfólk segir nágrönnum sínum og öðrum frá því hvaða þýðingu trúin hefur haft í lífi þeirra. Þess vegna sækjast margar kirkjur á Vesturlöndum eftir því að fá starfsfólk frá kirkjum Afríku lánað ef verða mætti að það flytti þennan anda með sér.

Hvers vegna stend ég hér og prédika yfir ykkur í dag? Það á sér langa sögu. Þegar ég var 14 ára gerðist það að Guð varð veruleiki fyrir mér. Ný vídd opnaðist í lífi mínu. Það var eins og hulu væri svipt frá mínum andlegu augum og ég gerði mér grein fyrir því að Guð var ekki bara goðsögn um vinalegan, hvítskeggjaðan gamlan mann á skýi með gleraugu sem sátu framarlega á nefinu, sem talað var um á jólum og hátíðum. Hann var það sem ég hafði leitað að, það sem var ekta, hið dýpsta, sannasta, uppspretta lífsins. Ég eignaðist samband við Guð. Hann varð hluti af lífi mínu, persóna sem ég umgekkst daglega, stöðugt. Hann var þá lifandi í raun og veru! Þessi uppgötvun kom mér mjög á óvart. Ég fylltist slíkri gleði að ég eignaðist þá þrá heitasta að fá að miðla þessu með öðrum. Mér var sama hvort ég lifið í hreysi eða höll ef ég fengi bara miðlað þessum veruleika a.m.k. með einni manneskju á lífsleiðinni. Þetta mótaði líf mitt þaðan í frá. Ég leitaði mér menntunar sem gæti nýst mér til að miðla trúnni. Reyndar ætlaði ég að gera það sem læknir en ég hafnaði sem sagt í guðfræði, einu fræðigreinni sem ég gat sem unglingur ekki hugsað mér að læra!

Ég varð aldrei samur eftir að hafa mætt Kristi. Enginn verður samur á eftir þó að hver mæti honum á sinn hátt. En það er vinna að viðhalda trúnni. Oft er hún veik og ég er breyskur á margan hátt en hún lifir og endurnýjast dag frá degi í bæninni, lestri Biblíunnar, samfélagi við kristna vini sem uppörva mig og biðja fyrir mér, með þátttöku í samkomum og guðsþjónustum og við að meðtaka heilagt altarissakramenti þar sem ég mæti hinum upprisna Jesú Kristi á áþreifanlegan og sýnilegan hátt. Án nærveru Jesú Krists í lífi mínu gæti ég ekki prédikað. Án hennar hefði ég ekkert að gefa í prestsstarfi. En nærvera hans gefur mér þrá til að miðla fréttinni góðu til annarra og gleði yfir þeim forréttindum að fá að vinna við að færa öðrum nærveru Jesú Krists. Jesús er nálægur okkur í samfélaginu hér í kirkjunni til að styrkja trú okkar svo að trúin verði ásin sem líf okkar snýst um og leiðarljósið í daglegu lífi okkar. Lúther sagði að dagleg störf okkar væru þjónusta okkar við Guð.

Kristniboðsdagurinn. Við minnumst ábyrgðar okkar á að taka þátt í útrás kirkjunnar út fyrir menningarmörk okkar og landamæri. Það eru 76 ár síðan við Íslendingar hófum skipurlagt kristnboðsstarf er Samband íslenkra kristniboðsfélaga var stofnað til að standa straum af kostnaði kristniboðsstarfs Ólafs Ólafssonar í Kína. Nú hafa mörg hundruð söfnuðir verið stofnaðir sem ávextir af íslensku kristniboði í Eþíópíu og Kenýa. Fyrsti biskupinn var vígður í ungu kirkjunni okkar í Pókothéraði þar sem ég starfaði ásamt konunni minni og börnum í mörg ár. Það er mikið fagnaðarefni að Nessöfnuður vilji taka þátt í kristniboðsstarfi. Við berum ábyrgð á 48 söfnuðum á Waddera-svæðinu í Eþíópíu. Við skulum hafa þá með í bænum okkar. Hugsið ykkur að það er beðið fyrir Neskirkju í þessum söfnuðum við miðbaug! Þarna eigum við bræður og systur í trúnni og samherja. Framlag fermingarbarna safnaðarins er líka frábært en þau söfnuðu um 520 þúsund kr. fyrir Hjálparstarf kirkjunnar síðast liðinn mánudag. Í lexíunni fyrir þennan dag segir Jesaja spámaður: "Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna" og Páll segir í pistlinum: "[V]erið brennandi í andanum. Þjónið Drottni. Verið … staðfastir í bæninni. Takið þátt í þörfum heilagra."

Að mæta Kristi hefur alls staðar áhrif. Ég man eftir sænskri konu sem heimsótti okkur fjölskylduna er við bjuggm í Afríku. Ég tók hana með á kvöldsamkomu sem haldin var á sléttunni fyrir neðan heimili okkar, undir berum himni. Við gengum góða stund ásamt hópi af nágrönnum í tunglskini sem var svo skært að við þurftum ekki að nota vasaljósin okkar. Er við komum á áfangastað varð fyrir hópur af fólki sem söng við taktfast lófaklapp með hjálp heimagerðrar trommu. Nokkrir samkomugesta stóðu upp og sögðu frá reynslu sinni af trúnni og hvaða þýðingu hún hefði haft fyrir þá. Er ég túlkaði þetta fyrir sænsku konuna, hallaði hún sér að mér og sagði undrandi: "Þetta fólk hefur sömur reynslu af Jesú Kristi og við!"

"Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum … Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar."