Í kvöld er allt á hvolfi

Í kvöld er allt á hvolfi

Og enn ein mótsögnin í jólasögunni er sú að valdamikli keisarinn, hann Ágústus, er löngu gleymdur (nema mögulega sem byrjun á sögu sem síðan fjallar um eitthvað allt annað en hann). En litla valdalausa barnið er það sem við minnumst.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
25. desember 2014
Flokkar

I Í kvöld er allt á hvolfi en um leið er allt á sínum stað. Allt er hreint og strokið en kannski þurfti heilmikla vinnu, átök og áhyggjur til þess að allt yrði hreint og fínt í tæka tíð. Við höfum haft fyrir því að útvega fallegar gjafir handa okkar nánasta fólki og þeim sem okkur langar að gleðja en kannski hefur það kostað blóð, svita og tár. Mikla vinnu, lán eða gjafir frá hjálparstofnunum.

Úti er kalt og jörðin hvít en inni logar á ljósum og ofnarnir eru heitir.

Okkur líður vel.

Einhvern veginn svona held ég að jólin og undirbúningur þeirra sé hjá flestum okkar.

Þegar ég var barn skildi ég ekki allt þetta tilstand. Það var náttúrulega gaman að mamma skyldi baka og að pabbi gerði konfekt. Já og alltaf hlakkaði ég jafn mikið til að opna pakkana. En ég skildi aldrei mikilvægi þessara miklu heimilisþrifa og hvers vegna við þyrftum að vera að halda í svo margar hefðir.

Þegar ég síðan eltist og fór að halda jól með minni eigin fjölskyldu stóð ég mig að því að gera hlutina alveg eins og foreldrar mínir höfðu gert. Ég þreif allt hátt og lágt, bakaði (svona eitthvað alla vega), var með sama jólamat og ég hafði alist upp við. Já, liturinn á ljósaseríunni á jólatrénu er enn sá sami og hjá foreldrum mínum.

En það sem ég gerði mér ekki grein fyrir til að byrja með, var að ég var að skapa hefðir í jólaundirbúningi og jólahaldi fyrir mín börn, sem þau síðan velja úr og halda að öllum líkindum í einhverjar.

Það er merkilegt hvað við verðum oft íhaldssöm þegar kemur að jólunum.

Það er merkilegt hvað hefðir skipta miklu máli á jólunum en í nýlegri könnun kom í ljós að um 71% Íslendinga borða hangikjöt á jóladag.

II Í kvöld er allt á hvolfi í jólaguðspjallinu en um leið er það svo yndislega fallegt og kunnuglegt.

“Það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara um að skrásetja skuldi alla heimsbyggðina”.

Ég veit ekki með þig, en það gerist eitthvað innra með mér þegar ég heyri þessi upphafsorð jólaguðspjallsins. Þessi orð sem lýsa fullkomlega veraldlegum hlutum, skrásetningu á fólki svo hægt sé að rukka það um skatt. Og alla heimsbyggðina, hvorki meira nér minna. En þegar boðin komu frá keisaranum hafði fólkið í landinu ekkert val. Það varð bara að gjöra svo vel að drífa sig af stað og láta skrásetja sig í sinni heimabyggð svo „skattman“ gæti sent þeim rukkun. En þrátt fyrir það minna þessi orð mig (og sjálfsagt flest okkar) á eitthvað fallegt og gott. Þau minna okkur á öll hin fyrri jól. Á jól bernskunnar. Jólin þegar við vorum ástfangin. Fyrstu jólin með barninu okkar. Jólin þegar við fengum bestu gjöfina. Þau minna okkur á matarilm, upplýst heimili, kertaljós, frið í hjarta og gleði.

Það er merkilegt hvað ein setning um skrásetningu fólks getur framkallað ljúfar tærar tilfinningar, líka hjá þeim sem eiga minningar um minna gleðileg jól. Þar sem áföll hafa dunið yfir eða þar sem fíkn hefur breytt jólaandanum.

En þegar allt kemur til alls er það ekki innihald þessara orða sem kallar fram þessar tilfinningar heldur er það minningin um að hafa heyrt þau áður. Á jólum. Kannski á hverjum jólum næstum allt okkar líf. Síða er það innihaldið sem kemur á eftir þessum orðum sem snertir okkur og skiptir okkur máli.

Það er sagan um litla barnið sem fæddist við erfiðar aðstæður sem kallar fram tilfinningaleg viðbrögð. Lítið barn sem kallar á að við verndum það. Við viljum að því farnist vel. Hvort sem okkar reynsla af barni eða börnum er góð eða sár, þá kveikir lítið barn yfirleitt einhverjar tærar tilfinningar í brjóstum okkar. Það hefur verið rannsakað oftar en einu sinni að börn, með sinn háa krúttstuðul, hlutfallslega stóru augu og stóru höfuð, kalla fram eitthvað gott og viðkvæmt í fullorðnu fólki.

III Í kvöld er allt á hvolfi í jólaguðspjallinu því það fjallar um valdamikinn mann og varnarlaust barn. Það fjallar um valdalítinn verðandi föður og valdalausa verðandi móður. Það fjallar um hátt upp hafna og hressa engla og valdalausa óttaslegna hirða. Það fjallar um óöryggi og fátækt og hlýju og öryggi móðurfaðmsins.

Það fjallar um það hvernig það er að vera manneskja. Það er einmitt svona. Lífið er fullt af mótsögnum og því hlýtur sjálft jólaguðspjallið, í sjálfri Biblíunni að segja mótsagnakennda sögu.

Og enn ein mótsögnin í jólasögunni er sú að valdamikli keisarinn, hann Ágústus, er löngu gleymdur (nema mögulega sem byrjun á sögu sem síðan fjallar um eitthvað allt annað en hann). En litla valdalausa barnið er það sem við minnumst.

Þar sem Jesús kemur við sögu er flestum hlutum snúið á hvolf. Hlutirnir eru ekki eins og þeir virðast við fyrstu sýn. Valdhafar eru ekkert merkilegri en hin valdalausu. Hin fátæku eru í raun hin ríku og syrgjendur eru sigurvegar.

Í kaótískum heimi þar sem allt er á hvolfi og margt er öðruvísi en það virðist við fyrstu sýn, er gott að halda í hefðir. Hefðirnar skapa öryggi. Þegar við erum ekki alveg viss um hvernig við eigum að bjarga okkur um næstu mánaðarmót er þó gott að vita að sumir hlutir eru eins og venjulega og breytast ekki hvað sem á dynur.

Eins og hlýju útihúsin, móðurfaðmur Maríu og föðurfaðmur Jósefs gefa tilfinningu um öryggi og frið í heimi þar sem fólk var neytt í ferðalög þrátt fyrir erfiðar aðstæður, veita hefðirnar okkur öryggistilfinningu.

Í heimi þar sem hlutirnir fara oft á hvolf og lífið stenst sjaldan áætlun er gott að vita til þess að Guð valdi að verða manneskja í litlu barni sem grét í útihúsunum í nóttinni. Þessi Guð veit hvernig það er að vera manneskja. Þessi Guð kippir sér ekki upp við að hlutirnir fari stundum öðruvísi en við lögðum upp með. Þessi Guð veit að jólin okkar eru misjöfn og að jólaminningarnar okkar er ekki allar bjartar og fagrar.

Þessi Guð vill gera allt til þess að veita okkur öryggi, hlýju og von þegar allt fer á hvolf. Þessi Guð skilur að stundum þurfum við að halda í hefðir til þess að upplifa öryggi. Þessi Guð elskar þig hvernig sem allt er og hvernig sem allt fer. Ekki síst þegar allt er á hvolfi. Amen.