Kölluð til þjóna

Kölluð til þjóna

Þið eruð kölluð til almennrar þjónustu sem og sérgreindrar þjónustu en öll eruð þið kölluð til samstarfs í kirkju okkar.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
14. september 2014
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í bréfi Páls postula til Rómverja stendur: „Því brýni ég ykkur, systkin, að þið vegna miskunnar Guðs bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn guðsdýrkun. Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“

Þessi orð Páls eru í svokölluðum hvatningarhluta Rómverjabréfsins, en þar „fjallar Páll um þá þýðingu sem hið nýja líf andans hafi fyrir samlíf manna og leggur áherslu á kærleikann og ábyrgð kristins manns“

Söfnuðurinn sem bréfið fékk var nýr og fólk var ekki fullkomlega meðvitað um það hvað það væri að vera kristin manneskja og tilheyra kristnum söfnuði. Þó liðin séu um 2000 ár síðan Páll sendi bréfið til hins unga safnaðar í Róm eru menn enn að glíma við spurninguna um guðsdýrkunina og hvað það er að vera kristin manneskja. Það er sístætt verkefni að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna. Það er sístætt verkefni að skoða sjálfan sig og heiminn. Hið nýja hugarfar sem Páll talar um kennir okkur og hvetur til að sinna þessu sístæða verkefni. Það hugarfar mótast í og með hverri manneskju og hver og ein þarf að vera sér meðvituð um það.

Dagurinn í dag, sem er dagur kærleiksþjónustunnar í kirkju okkar, er hátíðisdagur í lífi ykkar, kæru vígsluþegar. Eftir strit og álag námsáranna og væntingar og e.t.v. vonbrigði í kjölfar umsóknanna er komið að þeirri stund í lífi ykkar að vera helguð, vígð til þjónustu í kirkju Krists. Frátekin til ákveðinnar þjónustu. Vígð með bæn og handayfirlagningu.

Ég óska ykkur til hamingju með vígsluna og embættin sem þið hafið verið kölluð til, en embætti er annað orð yfir kirkjulega þjónustu. Í huga ykkar allra hefur búið sannfæring um að Guð hafi ætlað ykkur ákveðið hlutverk. Þá sannfæringu nefnum við innri köllun. Þó hún búi í huga og sál er það ekki nóg til að hljóta vígslu, því ytri köllunin verður að vera fyrir hendi, köllun safnaðarins, sem nú hefur kallað ykkur til þjónustu sinnar. Söfnuður er félagsleg eining en ekki landfræðileg og því eru þeir söfnuðir sem kallar fólk til þjónustu sinnar ekki einsleitir.

Það er til vitnis um margbreytileikann í þjónustu kirkjunnar að þið eruð ekki öll kölluð til samskonar þjónustu. Þið eruð kölluð til almennrar þjónustu sem og sérgreindrar þjónustu en öll eruð þið kölluð til samstarfs í kirkju okkar. Skipulag kirkjunnar er ekki hægt að teikna upp í lokaða kassa heldur eru þeir opnir og er flæði á milli þeirra. Með batnandi samgöngum, nýrri tækni og kröfu nútímans um hagræðingu og samvinnu hefur skipulag kirkjunnar breyst. Erindi hennar hefur hins vegar ekki breyst. Kirkjan er í heiminum en ekki af heiminum er stundum sagt. Kirkjan á að bera heiminn á bænarörmum fram fyrir Guð.

Ýmislegt hefur verið sagt og skrifað um erindi kirkjunnar hér í heimi. Lima skýrslan er gott dæmi um vilja kristinna manna til að starfa saman. Hún er afrakstur margra ára samtals og samvinnu kirkjudeila Alkirkjuráðsins. Skýrslan birtir einhug þeirra kirkjudeilda er að samtalinu komu um skírn, máltíð Drottins og þjónustu. Í skýrslunni segir um kirkjuna: „Kirkjan er kölluð til þess að prédika Guðs ríki og bera mynd þess og gera það með því að boða heiminum fagnaðarerindið og lifa sem líkami Krists“.

Það er gott að koma saman texta sem hefur áhrif á þau sem lesa og vinna með hann. Slíkur texti byggist ekki á hugsunum einnar manneskju heldur er hann afrakstur samtals fólks, sem á sér sameiginlegan grundvöll í trúnni á Jesú Krist.

Jesús, fyrirmynd okkar og frelsari, nefndi sjálfan sig þjón. Með þjónustu sinni gaf hann lærisveinunum eftirdæmi. Það er sístætt verkefni kristinna manna að kynna sér orð Jesú, framkomu og verk. Það er nauðsynlegt að lesa Orð hans reglulega, sjálfum sér til uppbyggingar og fræðslu. Án þess og bænarinnar endist enginn í þjónustunni. Í trúnni er fólgið mikið ríkidæmi sem ekki má vanmeta frekar en ríkidæmi kirkjunnar, sem er fólgið í mannauði hennar. Í dag bætist í þann fjársjóð með vígslu ykkar, kæru vígsluþegar.

Þið fáið nú það sérstaka hlutverk að boða trú á Krist í orði og í verki. Í dag á degi kærleiksþjónustunnar erum við minnt á að boðunin fer ekki síður fram í verki. Það er ekki hægt að segja eitt og framkvæma annað. Orð og verk verða að fara saman.

„Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna“ segir Páll við hinn unga söfnuð í Róm. Hið nýja hugarfar sem Páll talar um þarf áminningar við. Hið nýja hugarfar þarf að varðveita og á hverjum degi koma nýjar áskoranir sem minna okkur á að þörf er á skilningi á því hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna. Á degi kærleiksþjónustunnar erum við minnt á tvöfalda kærleiksboðorðið. Að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig. Það fer saman að elska Guð og að elska náungann og okkur sjálf. Sá sem ekki elskar sjálfan sig, ber ekki virðingu fyrir sjálfum sér, treystir sér ekki til verkanna, er ekki fær um að gefa af sér til náungans eða Guðs. Umhyggja fyrir okkur sjálfum er forsenda umhyggju okkar fyrir náunganum og þannig sýnum við elsku okkar til Guðs. Við viljum vera nýtir þjónar og sýna elskuna til Guðs í verkum okkar.

Kristnir menn þurfa ekki að leita langt yfir skammt til að fá vitneskju um vilja Guðs. Það þarf ekki annað en að lesa guðspjöllin til að sjá það. Jesús Kristur birtir okkur vilja Guðs og það er sístætt verkefni okkar að kynna okkur hann og framkvæma hann, náunganum til blessunar og okkur sjálfum til hvatningar.

Margt hefur verið sagt og skrifað um kirkjuna og hlutverk hennar. Kirkjan Krists hér á jörð hefur alltaf verið undir smásjá þeirra er ekki tilheyra henni og þeirra sem ekki trúa á þann Guð er Jesús birti og boðaði. Hún hefur samt lifað af. Það er aðeins að litlu leyti fyrir það fólk sem henni hefur þjónað í gegnum tíðina. Hún hefur lifað af vegna þess Guðs er vakir yfir henni og vendar. Grunnur hennar stendur á bjarginu Jesú. Þess vegna stendur hún af sér storma og regn. Hinir lifandi steinar hennar, fólkið sem tilheyrir henni finnur fyrir storminum og regninu en veit að hún mun ekki riða til falls þrátt fyrir eigin breiskleika og vanmátt.

Þið hafið verið kölluð til að þjóna í þessari kirkju, kæru víglsuþegar. Í dag eruð þið héðan send til þeirra safnaða er kölluðu ykkur til þjónustunnar. Þar eru væntingar og þar eru kröfur og það kann að vera að á stundum spyrjið þið ykkur út í hvað þið voruð að koma ykkur. En munið þá ykkar innri köllun og að þið eruð ekki ein á veginum. Jesús skildi lærisveina sína ekki eftir eina þegar hann fór frá þeim. Hann sendi þeim hjálpara, andann heilaga. Það á við um lærisveina allra tíma. Við erum aldrei ein á veginum. Hjálparinn birtist okkur í margskonar myndum, í og með öðru fólki, nýjum hugsunum og ráðum. Efisti aldrei um það. Jesús sendir okkur anda sinn. Leyfum honum að verka í lífi okkar og þjónustu allri „og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ Amen.

Prédikun flutt við djákna- og prestsvígslu í Dk 13. sunnudag e.tr. 14. sept. 2014.