Um Þorláksbúð í Skálholti

Um Þorláksbúð í Skálholti

Skálholt skipar dýrmætan sess í vitund þjóðarinnar. Mikilvægt er að sátt og friður ríki um uppbyggingu staðarins og það starf sem þar fer fram.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
17. september 2011

Karl Sigurbjörnsson, biskup ÍslandsFram hafa komið sterkar gagnrýnisraddir á framkvæmdir við uppbyggingu svonefndrar Þorláksbúðar í Skálholti. Spurningum þar að lútandi hefur verið beint til mín sérstaklega, sem ég vil leitast við að svara.

Um aldir hefur rúst Þorláksbúðar staðið í kirkjugarðinum og minnt á forna sögu og minningar. Skemma dómkirkjunnar, skrúðhús sem iðulega í aldanna rás var notuð sem dómkirkja þegar unnið var að endurbyggingu kirkjunnar.

Hugmyndir um uppbyggingu rústarinnar hafa oft komið fram, þar á meðal í nefnd um uppbyggingu Skálholts sem skilaði áliti 1993. Þar segir: „Þorláksbúð er forn tóft norðan við kirkjuna. Hlutverk búðarinnar til forna er ekki þekkt með vissu. Til álita kemur að endurbyggja Þorláksbúð þannig að hún mætti hvort tveggja endurspegla forna byggingargerð og nýtast í tengslum við kirkjulegar athafnir.”

Séra Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup, sem var í nefndinni, hafði mikinn áhuga á þessu verkefni, enda var minning Þorláks biskups honum hugleikin. Beitti hann sér fyrir stofnun Þorláksbúðarfélags fyrir nokkrum árum, ásamt með Árna Johnsen, alþingismanni, og Kristni Ólasyni, rektor Skálholtsskóla.

Á þessum tíma var starfandi sérstök stjórn fyrir Skálholt, skipuð af kirkjuráði, en formaður hennar var sr. Sigurður. Aðrir stjórnarmenn voru tveir þáverandi kirkjuráðsmenn sr. Kristján Björnsson og Jóhann E. Björnsson.

Stjórn Skálholts sannfærði kirkjuráð um að uppbygging Þorláksbúðar nyti almenns stuðnings og að tilskilin leyfi lægju fyrir, og að fjármögnun verkefnisins væri tryggð. Á þeim grundvelli veitti kirkjuráð samþykki sitt. Ég vissi t.d. ekki betur en handhafar höfundarréttar Skálholtskirkju hefðu gefið leyfi sitt.

Þorláksbúðarfélagið hefur borið hitann og þungann af verkefninu. Kirkjuráð og biskup Íslands bera samt sem áður hina endanlegu ábyrgð á öllum framkvæmdum í Skálholti, og geta ekki vikist undan því. Kirkjuráð mun nú ræða þessi mál og bregðast við þeirri gagnrýni sem fram hefur komið.

Skálholt skipar dýrmætan sess í vitund þjóðarinnar. Mikilvægt er að sátt og friður ríki um uppbyggingu staðarins og það starf sem þar fer fram. Ég vil þakka alla velvild og hlýhug í garð Skálholts sem m.a. kemur fram í málflutningi þeirra sem láta sér ekki á sama standa um ásýnd og virðingu staðarins.