Vegur til lífsins

Vegur til lífsins

Jón Sigurðsson var alinn upp við það gildismat er Jesús Kristur birti og boðaði. Gildismat sem byggist á kærleika Guðs okkur til handa og vissunni um að allar manneskjur mega kynnast því gildismati.

Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Eða hver er sá maður meðal yðar sem gefur barni sínu stein er það biður um brauð? Eða höggorm þegar það biður um fisk? Fyrst þér sem eruð vond hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann? Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir. Matt 7: 7 - 12
Við skulum biðja: Drottinn Guð. Þú sem elskar okkur skilyrðislaust og vilt að við lifum í sátt við þig, okkur sjálf, náunga okkar og umhverfi. Við þökkum þér lífið og landið okkar góða og biðjum þess að við gleymum ekki ábyrgð okkar gagnvart því og þeirri þjóð sem við tilheyrum. Þess biðjum við í Jesú nafni. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. 200 ár er langur tími ef miðað er við mannsævina. En 200 ár eru ekki langur tími ef miðað er við jarðsöguna, eða sögu mannkynsins. Ljóst er að manna minni eiga ekki við þegar litið er 200 ár aftur í tímann. Engu að síður komum við saman hér á Hrafnseyri í dag vegna þess að lítill drengur leit dagsins ljós hér á þessum stað fyrir 200 árum. Frumburður móður sinnar, fyrsta barn foreldra sinna. Eftir þrautir og þjáningu barnsfæðingarinnar hefur hamingjan hellst yfir þegar ljóst var að heilbrigt barn var í heiminn borið. Og móðirin hefur horft á 10 fingur og 10 tær og litla líkamann allan þar sem allt var eins og það átti að vera. Kvalir fæðingarinnar gleymdar og sælan tekin við. En um leið helltist ábyrgðin yfir því þetta litla barn á allt undir því komið að vel sé hugsað um það, líkamlega sem andlega. Það kann að vera tilviljun hvar við fæðumst og af hvaða fólki við erum komin. En víst er að það mótar okkur og setur okkur í visst samhengi. Hinn ægifagri Arnarfjörður með öllum sínum innfjörðum og tignarlegu fjöllum var sá heimur sem við barninu blasti þegar það komst til vits og ára. Enda lærði Jón Sigurðsson allt það er lífsbaráttunni tendist á þessum stað, sjósókn, bústörf og sambúina við náttúruna. Og þar sem hann var alinn upp á prestsheimili hlaut hann einnig að komast í kynni við lærdóm úr bókum og vitneskju um að fleira væri til en Arnarfjörðuinn rúmaði. Prestssetur voru á þessum tíma fræðasetur enda presturinn oft á tíðum eini skólagengni maðurinn í héraðinu. Jón lærði að lesa, skrifa og reikna og fróðleikurinn um Jesú mótaði persónu hans. Kristin hugsun og hugmundafræði var yfir og allt um kring og trúariðkunina drakk hann með móðurmjólkinni.

Við sungum áðan „Drottinn, ó, Drottinn vor, dagarnir líða, allt er að breytast, en aldrei þú.“ Það hefur eðilega margt breyst á þeim 200 árum sem liðin eru frá fæðingu Jóns Sigurðssonar. Hann átti mikinn þátt í því að breyta stöðu þjóðar okkar og lagði grunn að því sjálfstæði sem við búum við í dag. Líf hans og starf hafði umbreytandi áhrif á hag hinnnar íslensku þjóðar. Hann elskaði land sitt og vildi því og íbúum þess allt það besta. Og ekki er að efa að hann hafi heyrt þær sömu frásagnir og við höfum heyrt hér í dag úr heglri bók. Texta Jeremía spámanns þar sem Guð gefur fyrirheiti þjóð sinni. „Þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð“. Orð Páls postula til safnaðarins í Róm um kærleikann. Þar sem við erum minnt á að elska náungann eins og sjálf okkur. Og orð Jesú sjálfs, eins og þau eru skráð í fjallræðunni, sem geymir meginatriðin í siðakenningu Jesú. Fjallræðan hefst á sæluboðunum en þar kemur fram við hverja er talað í fjallræðunni. Jesús ávarpar hin fátæku í anda og segir þau sæl. Jesú er hér ekki að tala um veraldlega fátækt. Það verður enginn sæll af því að vera fátækur af veraldlegum eigum. Nei, hann talar hér til þeirra sem eru reiðubúin til að horfast í aug við andlega fátækt sína því þá munu þau leita leiða til að bæta úr því.

Í morgun skírði ég lítinn dreng. Í skírninni var grunnur lagður að aldlegri velferð hans, ekki eingöngu vegna fyrirheitis Jesú um að taka hann að sér, heldur líka vegna þess að foreldrar hans, skírnarvottar og kirkjan öll vilja að barnið alist upp við kristin trúargildi og læri að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig. Kærleikurinn til Guðs er það bjarg sem við stöndum á sem kristin þjóð og sú uppspretta sem við getum alltaf leitað í, því hún tæmist aldrei. Við höfum oft heyrt þau orð sem lesin voru úr fjallræðunni í guðspjallstexta dagsins. Um að biðja, leita og knýja á. Og gullna reglan sem lesturinn endaði á er þekktari en flest það er í Bibliunni stendur. Í gullnu reglunni erum við hvött til að setja okkur í annarra spor. Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Gullna reglan á að vera í heiðri höfð hjá okkur hvern dag. Í öðrum trúarbrögðum, austurlenskum, grískum og rómverskum er til regla sem svipar til þessarar: Það sem þér viljið ekki að aðrir geri yður, það skulið þér ekki gera öðrum. Þessi regla er lík gullnu reglunni, en orðið ekki skiptir sköpum varðandi viðhorfið sem hún setur fram. Eins og reglan er sett fram þarna felur hún í sér aðgerðarleysi, aðgerðarleysi gagnvart Guði og náunganum. Við eigum ekkert að skipta okkur að öðrum. Hvorki leiðbeina, gagnrýna né sýna nokkuð í garð náungans. Sú góðmennska sem byggist á því að gera ekkert, er í andstöðu við hina kristnu góðmennsku. Kristinn kærleikur byggist ekki á klappi á kinn, heldur virkni, athöfnum, en ekki aðgerðarleysi. Þess vegna er stundum erfitt að vera kristin manneskja. Taka afstöðu til hlutanna, með Krist að leiðarljósi, með Krist að markmiði, með Krist, sem fyrirmynd. Jesús Kritur er fyrirmyndin, leiðtoginn. Við megum treysta orðum hans, guðssonarins, breyta eftir þeim og geyma þau í hjarta okkar.

Það var ekki alltaf hljótt í kringum frelsarann þegar hann gekk hér um á foldu. Hann sagði mönnum til syndanna ef svo bar undir. Hann minnti á lífsgildin og hvatti til réttlætis og jafnræðis. Í gullnu reglunni setur Jesús fram lífsafstöðu. Lífsafstöðu, sem byggist á því að við eigum ekki að sitja með hendur í skauti, eins og gullna regla hinna trúarbragðanna, heldur eigum við að aðhafast. Vi eigum að bera trúnni vitni í lífi okkar og í verkum okkar. Ekki til að sýnast fyrir mönnum, heldur til að gera vilja Guðs. Líf í trú á Krist er lífsviðhorf, grundvallarafstaða, þar sem vilji okkar skiptir máli. Að vera kristin manneskja krefst sífelldrar sjálfskoðunar, því kristin manneskja er í raun alltaf fátæk í anda. Í þeirri merkingu að hún þarf á því að halda að biðja um leiðsögn Guðs, leita að meiri fullkomnun og knýja á um betri heim. Því ef við biðjum þá mun okkur gefast. Ef við leitum, þá munum við finna og ef við knýjum á þá mun fyrir okkur uppplokið verða. Í öllum aðstæðum lífsins höfum við möguleika. Við verðum a.m.k. alltaf að halda áfram veginn, líka þó í móti blási.

Í dag er hátíð þjóðar. Í mínu ungdæmi voru börn alin upp við að elska landið sitt. Minn fæðingarbær, Ísafjörður var fallegastur og bestur í heimi hér. Það fannst okkur krökkunum. Enda þekktum við lítt heiminn þar fyrir utan. Nú eru börn meiri heimsborgarar. Þau alast upp við það að fleira sé til en plássið þeirra. Það hefur margt breyst til batnaðar við það að vita meira. Samt sem áður þurfum við að glima við ýmis mál þó þekking aukist. Undanfarna daga höfum við sem Kirkja horfst í augu við bresti okkar. Orð hafa verið látin falla og sitt sýnist hverjum. Ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist er ólíðandi og við verðum að vera tilbúin til að taka á ofbeldismálum, sem og að finna leiðr til að koma í vega fyrir þau. Viðverðum að ljúka uppp dyrunum þegar knúð er á þær. En hver eru þessi við sem ég nefni hér? Það erum við sem játum trú á Jesú Krist, krossfestan og upprisinn. Við tilheyrum félagsskap, hreyfingu, sem við köllum kirkju. Við erum kirkjan, þó hlutverk okkar innan hennar séu misjöfn. Við verðum að leita leiða til að takast á við hin ýmsu mál og þá er skipulag nauðsynlegt svo og verkferlar. Við verðum að vera góðar fyrirmyndir þó breyskar manneskjur séum. Síðast liðinn sunnudag fermdust mörg börn víðsvegar um landið. Í fermingarathöfninni er það svo að eftir að börnin hafa verið fermd er hvatning til safnaðarins. Þar erum við minnt á ábyrgð okkar gagnvart þeim og við minnt á að varast að hneyksla þau, hafa illt fyrir þeim eða leiða þau afvega á nokkurn hátt. Við erum hvött til að ástunda með orðum og eftirdæmi að halda þeim á hinum góða vegi, sem liggur til eilífs lífs. Og hver er svo þessi vegur sem liggur til eilífs lífs? Þð er sá vegur er varðaður er af orði Jesú. Þar sem leiðtogi lífs okkar fer fyrir og brýnir okkur til góðra veka og fallegs umtals. Alt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera, sagði Jesús. Á þessi gullna regla sem kom af vörum hans alltaf við? Ætlumst við alltaf til uppbyggilegra gjörða frá annarra hendi? Gullna reglan á við þau og er sögð við þau er lært hafa gildismat Jesú. Þau taki hana til sín sem lært hafa að það er engu að treysta nema þeim kærleikskrafti, sem ríkir að baki tilverunni. Jón Sigurðsson var alinn upp við það gildismat er Jesús Kristur birti og boðaði. Gildismat sem byggist á kærleika Guðs okkur til handa og vissunni um að allar manneskjur mega kynnast því gildismati. Kraftur kærleikans, sem Guð gefur er undistaða þess að Jón gafst aldrei upp á því að vinna landi sínu vel og ráða þjóð sinni heilt. Megi sá kærleikskraftur einnig einkenna þjóðlíf okkar nú á tímum. Gleðilega þjóðhátíð, í Jesú nafni. Amen. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.