Vinabandsdagur

Vinabandsdagur

Fimir fingur fléttuðu þræðina saman. Rautt, grænt, fjólublátt band varð að einum þræði. Ofið saman. Sterkara þannig en sitt í hverju lagi. Og svo kom hún, og bar upp erindið, við hann. Sagði svolítið hikandi: „Ég, hérna, fléttaði þetta handa þér. Þetta er svona ... vinaband ... viltu eiga það?“

Ef þér elskið mig munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, anda sannleikans. Heimurinn getur ekki tekið á móti honum því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig. En þann sem elskar mig mun faðir minn elska og ég mun elska hann og birta honum hver ég er. Jóh 14.15-21

Fimir fingur fléttuðu þræðina saman. Rautt, grænt, fjólublátt band varð að einum þræði. Ofið saman. Sterkara þannig en sitt í hverju lagi. Og svo kom hún, og bar upp erindið, við hann. Sagði svolítið hikandi: „Ég, hérna, fléttaði þetta handa þér. Þetta er svona ... vinaband ... viltu eiga það?“

Hvítasunnudagur er vinabandsdagur.

* * *

Það eru tvö einkenni á vinaböndum sem skipta okkur máli í dag: Annars er að þau eru ofin úr nokkrum þráðum. Hitt er að þau tengja. Tengja saman.

Kæri söfnuður, það eru líka nokkrir þræðir spunnir í lestrum dagsins. Við skulum skoða og íhuga þrjá þeirra. Hvernig eru þeir ofnir saman? Hvaða sýn birta þeir á hlutskipti og hlutverk hinna kristnu? Á kirkjuna sem samfélag.

Fyrstur er þráður nærverunnar. Jesús segir við lærsveina sína: „Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, anda sannleikans.“

Og í lexíunni sem lesin var áðan er líka rætt um nærveru – og fjarveru – Guðs, en nú út frá áhrifum hennar:

„[Þ]ú lýkur upp hendi þinni og þau mettast gæðum. Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau, þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar. Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til og þú endurnýjar ásjónu jarðar.“

Og hvað segir þetta? Kannski tvennt:

Annars vegar fyrirheitið um nærveru Guðs. Guð er nálægur Guð og ekki fjarlægur. Hins vegar því að þessi nærvera skiptir máli fyrir okkur. Nálægð Guðs er tengd við gæði og gleði og líf og endurnýjun. Fjarlægð hans við skelfingu og dauða.

Það er fyrsti þráðurinn.

Annar er þráður sannleikans. Í pistli dagsins segir:

„Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.“

Nærvera Guðs og andans er tengd við það að tala. Og andinn er nefndur „andi sannleikans“. Og til hvers vísar þetta þá? Jú, til þess að geta talað. Til þess að hafa hugrekki til þess að segja það sem þarf, þegar þörf krefur. Til þess að hafa vit á hvenær á að hlusta og hvenær á að tala. Og til þess að vita hvað á að segja, hvað á við, hvað þarf að segja á hverjum tíma.

Það er annar þráðurinn.

Þriðji er þráður elskunnar. Í guðspjallinu segir Jesús: „Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig. En þann sem elskar mig mun faðir minn elska og ég mun elska hann og birta honum hver ég er.“

Það eru semsagt gerðar kröfur. Og hverjar eru þær? Örlítið einfaldað mætti segja að þær væru um elsku annars vegar og þjónustu hins vegar: Þú skalt elska Drottinn Guð þinn. Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig.

Og þó. Kannski er ekki rétt að tala um kröfu um elsku. Kannski er það svolítið öfugsnúið. Réttara væri að orða þetta svona:

Þér er boðið. Til þín er leitað. Þú ert ávörpuð - ávarpaður.

Og þitt er að svara.

Og hvernig er svarað: Með þjónustu við náungann.

Það er þriðji þráðurinn.

* * *

Kæri söfnuður. Ég hef nefnt þrjá þræði sem eru ofnir saman í eitt á þessum degi.

þráð nærverunnar. þráð sannleikans. þráð elskunnar og þjónustunnar.

Og hvað þýðir þetta þá? Og hvað segir það okkur?

Ja, á þessum degi, getum við kannski litið svo á að hér sé reynt að lýsa samfélagi. Því samfélagi sem kirkjan er. Hvítasunnudagur er jú stundum nefndur afmælisdagur kirkjunnar. Stofndagur hennar.

Og út frá þessu má segja. Fyrir andann er kirkjan – og á kirkjan að vera: - samfélag um og í nærveru Guðs. - samfélag þar sem er talað skýrt og af eindrægni og í sannleika. Og hlustað. - samfélag sem sýnir það í raun hvernig elskan til Guðs og til manna birtist í þjónustunni við náungann.

Spurningin til okkar – í dag – er þá þessi:

Hvernig birtist þetta þrennt í okkar umhverfi? Í kirkjunni okkar? Hvers konar samfélag erum við? Hvar stöndum við okkur vel? Hvað þarf að bæta? Og hvernig má það verða?

Það er brýning dagsins.

* * *

Hann sá hana nálgast með þetta fléttaða band. Og hún bar upp spurninguna sína um vinabandið: „Ég, hérna, fléttaði þetta handa þér. Þetta er svona ... vinaband ... viltu eiga það?“

Og hann sagði „já“ og brosti og hún brosti líka.

Hann sagði „já“ þegar hún bauð honum vinabandið. Og hún hnýtti það um úlnlið hans. Nú voru þau tengd. Og hann bar bandið. Á vinstri hendi. Lengi. Og það minnti á tengslin. Á vináttuna. Á kærleikann. Það tengdi þau saman.

Þú átt líka svona vinaband.

Það var boðið þegar þú varst borin að skírnarlauginni og nafnið þitt var nefnt og foreldrar þínir og skírnarvottarnir sameinuðust í fyrirbæn fyrir þér. Bandið var fléttað og hnýtt og fest. Ekki á hendi heldur á hjarta þegar þú varst signd eða signdur – merkt með tákni krossins.

Þetta er vinaband skírnarinnar.

Og hverjir eru þræðirnir í þessu vinabandi sem tengir þig við Guð?

Meðal annars þeir þrír sem við höfum nefnt hér í dag: Nærvera. Sannleikur. Elska.

Og hver óf þetta band?

Heilagur andi. Fyrir þig. Til þín.

Til að tengja þig við Guð.

Og nú getum við stigið eitt skref til viðbótar og sagt að textar hvítasunnudags og þræðirnir þrír verði að persónulegri spurningu og jafnvel áskorun og brýningu – til okkar. Um að: - vera meðvituð um og leita eftir nærveru Guðs. - vera rödd sannleikans. - og vera staðföst í elskunni til Guðs og náungans og láta þessa hana birtast í þjónustu okkar við aðra.

Það er boðskapur hvítasunnudags. Og það er áminning þessa vinabands skírnarinnar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.