Heiminum til lífs

Heiminum til lífs

Efni þessa dags er kærleikssamfélagið. Samfélagið við Guð og samfélag okkar innbyrðis, mannfólksins. Við eigum val, eins og ég hóf máls á. Við veljum svo margt. Við veljum afstöðu til annarra – við veljum það sjálf hvern hug við berum til annars fólks.

Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir hefur eilíft líf. Ég er brauð lífsins. Feður ykkar átu manna í eyðimörkinni en þeir dóu. Þetta er brauðið sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því deyr ekki. Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.“ Jóh 6. 47 - 51

Ég gef, heiminum til lífs. Ég gef sjálfan mig, líf mitt, allt til þess að þú lifir. Í þessum litla kafla Jóhannesarguðspjalls er það trú eða vantrú. Annaðhvort fylgirðu honum eða ekki. Annaðhvort hefur trúin áhrif í lífi þínu eða ekki. -- Þú ræður. Viltu ljósið hans eða viltu það ekki? Viltu lífið sem hann býður þér, eða viltu það ekki. ---

Í okkar landi heyrum við daglega um kristna trú. Svo er það auðvitað misjafnt hversu mikið við kynnumst henni. Sem lítil börn oftast í kvöldbænum og síðan áfram á æviveginum okkar, í lífi og starfi. Ánægjulegt er að heyra ungt fólk lesa Passíusálmana nú á föstunni eftir kvöldfréttir RÚV. Unga kynslóðin að flytja gamla bænamálið og gera það nýtt.

Orð Jesú Krists og boðskapur berst flestum í okkar samfélagi t.a.m. í guðsþjónustu og með þátttöku í atburðum lífsins: skírnum, fermingum, hjónavígslum, jarðarförum. Hversu mikil áhrif trúin hefur, hversu miklu máli trúin skiptir, því getur enginn svarað fyrir annan. Þú einn, þú ein, veist hvað þú hugsar um Guð og trú. Og það getur enginn yfirheyrt þig um það hvort trúin þín er mikil eða lítil, mikilvæg eða léttvæg.

Jesús sagði þeim: ,,Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir.

Þetta merkir að Kristur býðst til að vera þér lífgefandi og nærandi kraftur.

Fyrr í 6. kafla Jóhannesarguðspjalls eru mettunarfrásögurnar, þar sem Kristur margfaldaði brauðin og fiskana og allir urðu saddir og sælir. Með því ávann hann sér hylli fjöldans, fylgið jókst og vinsældirnar til mikilla muna. Matur handa öllum, skoðanakannanir þess tíma benda til nær 100% trausts. Fólkið vildi gera hann að leiðtoga sínum, konungi.

Ekki spurning að kjósa hann. En Kristur vék sér undan; hann varð ekki konungur brauðs og fiska, heldur er hann konungur lífs vors og ljóss. Það tók hann að skýra út í orðaskiptunum sem á eftir fara. Afgangur kaflans í guðspjallinu segir frá minnkandi vinsældum Jesú Krists.

Það á sér stað dramatískt samtal milli Krists og Gyðinganna og það endar þannig að Kristur virðist tapa í rökræðunum við andstæðinga sína. Fylgið hrynur af honum, aðeins þeir tólf postularnir eru eftir um það er lýkur. Fólk hristir höfuðið, hneykslast á boðskap hans, hættir að fylgja honum, fer að leita að einhverju öðru, sem er áhugaverðara og meira spennandi.

Traust, trúnaður, tiltrú. Ég spjalla stundum við kunningja mína í stjórnunargeiranum, þá sem starfa við fyrirtækjarekstur og starfsmannamál. Mér heyrist á þeim að Kristur hafi flaskað á mörgum grundvallarþáttum leiðtogans. Tökum dæmi:

1. Hann valdi Júdas Ískariot sem postula. Það er dæmi um að kunna ekki að velja sér náinn samstarfsmenn. Hann setti Júdas m.a.s. yfir fjármálin. Samt vissi Jesús að Júdas yrði til vandræða seinna meir. Þrátt fyrir það gerði hann aldrei tilraun til að víkja honum til hliðar.

2. Hann kunni ekki að skilja á milli vinnu og einkalífs. Hann krafðist alls af samstarfsmönnum sínum og ennþá meir keyrði hann sjálfan sig áfram.

3. Hann valdi bara annað kynið, karlmenn sem stjórnendur guðsríkis á Jörð. Ekki sex konur og sex karla. Kona var ekki postuli, heldur 12 karlar. Samt umgekkst hann alla jafnt – og mat alla jafnt.

4. Hann gaf ekki nógu skýr skilaboð. Hugsið ykkur ef hann hefði nú ekki alltaf verið að tala í líkingum. Mörghundruð ára deilur um meiningu og merkingu þess sem hann sagði. Rifrildi guðfræðinga, deilumál og ófrið á veraldarvísu hefði mátt forðast ef hann hefði talað hreint út en ekki í gátum.

5. Framtíðarsýnin fyrir þetta fyrirtæki sem hann stofnaði, kirkjuna, var næsta óljós. Hann segir við þessa 11, sem eftir voru á uppstigningardag, að fara út um allan heiminn og gera fólkið og þjóðirnar að lærisveinum. Hvernig áttu þeir að fara að því? Og hvað gerði hann til að tengja boðskap sinn, kristna trú, við aðra tíma og aðra menningarheima? Sjaldan hefur nokkur 11 manna flokkur fengið óskilgreindara og vonlausara verkefni en það sem hann eftirlét þeim að skilnaði: “Farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum.”

Það er skrýtið að skoða þetta svona. En það getur verið hjálplegt. Allt er hægt að gagnrýna og finna á veikleika. Á mannlegan kvarða mælt hefði kristin kirkja aldrei getað orðið til. Allra síst hefði hún orðið að því afli sem hún er á hverjum tíma. Kristur lauk sinni göngu á jörð, hann settist síðan aftur að stjórn þessa heims. En áður sagði hann: “Ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.” Hann er með söfnuði sínum á jörð, annars væri engin kirkja. Hún lifir þrátt fyrir ófullkomleika og annmarka okkar, mannanna. Þrátt fyrir allt er hún áhrifamesta hreyfiaflið í heiminum í dag. Það er vegna þess að andi Guðs býr í henni. Guð og kirkjan hans í heiminum skiptir líf mannsins og heimsins öllu máli.

Góðir vinir. Efni þessa dags er kærleikssamfélagið. Samfélagið við Guð og samfélag okkar innbyrðis, mannfólksins. Við eigum val, eins og ég hóf máls á. Við veljum svo margt. Við veljum afstöðu til annarra – við veljum það sjálf hvern hug við berum til annars fólks. Það er hægt að leita að misfellunum, göllunum, erfiðleikunum. En það er líka hægt að horfa fram og hærra. Og til þess hvet ég sem mest ég má. Veljum lífið, veljum að vera góðar manneskjur, tillitssamt fólk, sem ber virðingu fyrir skoðunum og tilfinningum annarra. Leysum deilumál okkar með sæmd. Förum ekki á mis við þá hamingju sem felst í því að jafna deilur og hafa frið við alla menn og gera þeim það gott sem við getum.

Þetta er merking altarissakramentisins, borðsamfélagsins.

„Gjörið þetta í mína minningu“, sagði Kristur. Sumir drekka til að gleyma raunum sínum, andstreymi og áhyggjum. Oft er reynt að deyfa sársaukann, vonbrigðin, áföllin með neyslu. –Því miður þá eykur það oftast á óhamingjuna.

„Gerið þetta í mína minningu“, segir Kristur. Drekkið til að muna, segir hann. Bergið á kaleiknum til þess að þiggja styrk lífi ykkar, heilli trú, aukið öryggi um nálægð Guðs sem öllu ræður þegar allt kemur til alls. Njótum þess samfélags sem Kristur hefur myndað – og verum hvert öðru systur og bræður. Í Jesú nafni. AMEN