Innræting eða kennsla

Innræting eða kennsla

Ég ber fullkomið traust til presta, forstöðumanna trúfélaga, ásatrúarmanna og til vantrúarmanna að kenna börnunum hvernig við eigum að umbera aðra og gera fyrir aðra það sem við viljum að aðrir geri fyrir okkur. Ég treysti þeim fullkomlega til að segja frá helginni í þeirra lífsskoðunarkerfi án þess að vera með innrætingu.
fullname - andlitsmynd Lena Rós Matthíasdóttir
29. desember 2010

Samfélag getur ekki talist opið, lýðræðislegt og heiðarlegt nema það taki öllum trúar og menningarheimum fagnandi og upplýsi einstaklinga um fjölbreytileika lífsins. 

Séu tillögur Mannréttindanefndar skoðaðar í þessu ljósi, sjáum við því miður aðeins tillögur sem eru til þess fallnar að draga úr þekkingu, stuðla að fordómum og þar með að byggja múra í milli trúar- og menningarheima.  Samkvæmt tillögunum má segja börnum mínum frá Nýjatestamenntinu í skólunum en ekki rétta þeim það til lestrar.  Fyrir mér hljómar það alveg eins og ef íslenskukennarinn mætti aðeins segja börnum mínum frá Njálu en ekki rétta þeim hana til lestrar.

Umburðarlyndið er okkur nauðsynlegt og raunar er eitt af meginstefjum í boðskap Jesú Krists, stefið um náungakærleikann.  En Jesús fór ekki bara inn í musterið til að boða náungakærleikann, hann fór að mestu með boðskapinn út úr musterunum og til fólksins.  Þess vegna mun kristin kirkja alltaf sækja út í lífið og uppfræða fólk í daglegum önnum þess. 

Orð Krists, ,,Leyfið börnunum að koma til mín" voru ekki töluð inn í skólaumhverfi barna.  Þau voru sögð í eyru lærisveina, fullorðinna manna og kvenna.  Þau voru sögð til að útskýra eðli Himnaríkis.  Þar segir Jesús að börnin eigi að vera hjá sér, í návist sinni, því þeirra sé himnaríkið og að hver sem ekki taki við himnaríki eins og barn muni aldrei inn í það koma.  Þar með kennir hann okkur fullorðna fólkinu að líta til barnanna og læra af þeim hvernig við eigum að lifa lífinu.  Himnaríkið er í huga Jesú Krists einhvers konar ástand sem börnum er eiginlegt.  Sem dæmi fara börnin ekki í manngreinarálit, þau horfa á manneskjuna eins og hún er, án fordóma.  Í þeirra huga er enginn munur á því þegar prestur kristinna eða formaður trúlausra heimsækir skólann þeirra.  Þannig var Jesús og þannig samfélag viljum við líka skapa.  Samfélag sem rýfur niður múra og tekur öllum á þeirra forsendum.  Slíkt samfélag verður ekki skapað með því að banna ,,hið heilaga" í opinberu rými hins daglega lífs. 

Setningin ,,Leyfið börnunum að koma til mín, því slíkra er himnaríki" getur ein og sér legið til grundvallar málstað þeirra sem vilja gera ráð fyrir ,,hinu heilaga" í opinberu rými.  Til að geta lifað því himnaríki sem Jesús talar um, (ástandi þar sem kærleikur og manngæska eru drifkrafturinn) þarf að vera rými fyrir þann siðferðisboðskap.  Þann boðskap ætlaði Jesús öllum mönnum, burt séð frá trú þeirra, kyni, kynferði, aldri, stétt, menningarheimi, þjóðerni o.s.frv.  Við getum ræktað þennan eiginleika með börnunum okkar með því að leifa þeim að kynnast ,,raunverulega" því hvernig unnið er með hið heilaga í mismunandi trúarbrögðum landans.  Að loka slíka sjálfsprotna þekkingarleit úti elur á fáfræði og fordómum. 

Kristni var ekki til sem trúarbrögð þegar Jesús gekk um hér á jörðunni.  Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga og skoða hvernig Jesús gaf sig að öllum, óháð trúarskoðunum og hvernig hann fór aldrei í manngreinarálit.  Hann átti samfélag við trúlaust fólk af sama kærleiksþeli og fölskvalausri mannvirðingu og þegar trúaðir áttu í hlut.  Miðað við orðin hans:  ,,Farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum!"  er ljóst að hann vildi ná til allra með speki sína og hefur því hugsað þetta í mun víðara samhengi en við gerum í dag.  Því miður erum við alltof duglega að tileinka trúarbrögðum orð Guðs.  Margir halda því fram að kennsla um speki Guðs og kærleiksvisku sé trúarleg innræting.  En til að lesa um speki Jesú frá Nasaret, þurfum við að opna Nýjatestamenntið.  Það að rétta barni Nýjatestamenntið er því ekki innræting, heldur aðferð til upplýsingar, leið til að kynna fyrir barninu grunngildi þess siðar er þjóðlífið að mestu byggir á.

Í fimmtu grein Ágsborgarjátningarinnar er sérstaklega tekið fram að embætti prestsins sé stofnað til að ,,kenna" (athugið ekki til að innræta) boðskapinn og einnig til að útdeila sakramenntum (í messum ekki í skólum).  Þar af leiðandi ættu allir leiðtogar kristinna safnaða að ganga keikir út í hið opinbera rými og kenna öllum þjóðum speki Krists, nefnilega boðskapinn um náungakærleikann.  Það er svo í sjálfvald hvers og eins sett, hvort hann/hún opni hjarta sitt fyrir Guði og einungis á valdi heilags anda að hræra við sálum þeirra sem þannig leita Drottins.  Enn hef ég ekki heyrt fréttir af börnum sem turnuðust til hinnar eða þessarar trúarinnar í samfélagsfræðitímum, það er næstum fásinna, enda kennarar fagfólk á sínu sviði sem virða mörk boðunar og kennslu.

Viskan sem Jesús hafði fram að færa getur aldrei rifið niður eða skaðað.  Menn aftur á móti geta valdið skaða, hverrar trúar eða lífsskoðunarstefnu þeir annars aðhyllast.   Það er þó ekki þar með sagt að það sé boðskapnum um að kenna, heldur miklu fremur skorti mannsins á skilningi boðskaparins.  Ég treysti bæði fulltrúum trúfélaga og annarra lífsskoðanafélaga og kennarastéttum á öllum skólastigum, fullkomlega til að vega og meta hvar mörkin í milli fræðslu og innrætingar liggja, enda hafa þessir hópar hingað til, í flestum tilfellum staðið sig með sóma þegar kemur að kennslu barna í efni tengdu siðferði og trú. 

Ég ber fullkomið traust til presta, forstöðumanna trúfélaga, ásatrúarmanna og til vantrúarmanna að kenna börnunum hvernig við eigum að umbera aðra og gera fyrir aðra það sem við viljum að aðrir geri fyrir okkur.  Ég treysti þeim fullkomlega til að segja frá helginni í þeirra lífsskoðunarkerfi án þess að vera með innrætingu.  Kristnin hefur engan einkarétt á náungakærleik, jafnvel þótt Jesús hafi haft hann í forgrunni hjá sér.  Ég er hins vegar Þjóðkirkjunni afar þakklát fyrir að hafa sinnt þessari þjónustu við samfélagið, að uppfræða og tala máli kærleikans´í hinu opinbera rými, því ég hef ekki orðið vör við vilja trúlausra að koma inn í skólana og deila með börnunum sögum og söngvum um náungaást og mannvirðingu.  Vonandi hef ég rangt fyrir mér í þeim efnum.