Frelsi og trúarmenning

Frelsi og trúarmenning

Traust vinnur kirkjan ekki með því að hörfa í varnastöðu heldur með hinu vitsmunalega samtali við þá þjóð sem hún vill þjóna og hefur þjónað um aldir og þjónar enn af þeirri alúð sem hún kann best. Í þessu eru meginstoðir siðbótarkristninnar.
fullname - andlitsmynd Gunnar Kristjánsson
31. október 2010
Flokkar

Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“

Fólkið svaraði honum: „Við erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: Þið munuð verða frjálsir?“

Jesús svaraði þeim: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem drýgir synd er þræll syndarinnar. En þrællinn dvelst ekki um aldur á heimilinu, sonurinn dvelst þar um aldur og ævi. Ef sonurinn frelsar yður munuð þér sannarlega verða frjálsir. Jóh. 8.31-36.

Náð sé með yður og friður.

Á siðbótardaginn leiðum við hugann að rótum þeirrar trúarmenningar sem hefur mótað þessa þjóð um aldir. Við horfum til upphafs siðbótarinnar, til siðbótarmannsins Marteins Lúthers, þar sem hann stendur við kirkjuhurð hallarkirkjunnar í Wittenberg í Þýskalandi og festir upp mótmælaskjal við aflátssölu kirkjunnar. Þetta var 31. október 1517.

Frelsi mannsins var Lúther ofarlega í huga á þessum degi, og alla tíð síðar. Það efni setti frá upphafi sterkan svip á siðbótarhreyfinguna, sem við hann er kennd, og þá trúarhefð sem mótaðist á hennar forsendum. Einnig hér á landi er frelsið sjaldan langt undan í opinberri umræðu því að frelsið tengist lífsviðhorfum, mannvirðingu og samfélagsskilningi.

Í huga Lúthers var frelsið ekki aðeins heimspekilegt og pólitískt viðfangsefni heldur einnig, og ekki síður, sterkur þáttur í persónulegri reynslu hans í aðdraganda siðbótarinnar og á upphafsárum hennar. Sú reynsla verður dýrmæt fyrir trúarskilning hans því að í allri guðfræði Lúthers er reynsla mannsins eins og rauður þráður.

Glíma hans við frelsið átti sinn þátt í að vekja hann til umhugsunar um kirkjuna og augljósa þörf hennar fyrir siðbót. Á fyrstu árum siðbótarinnar rekur hver stóratburðurinn annan og allir tengjast þeir frelsi mannsins með einum eða öðrum hætti. Lúther er sjálfur á leið til frelsis og býður öðrum til þátttöku í þeirri reynslu.

Sá trúarheimur, sem Marteinn Lúther þekkti frá bernsku, snerist ekki um frelsi mannsins – það var nánast ekki inni í myndinni – heldur um ytri guðsdýrkun, um helgisiði og helgigöngur, um dýrkun dýrlinga og helgigripa, um að fylgja fyrirmælum en ekki að taka sjálfstæða afstöðu. Trúin snerist um hið ytra en ekki hið innra.

Til að byrja með snerist barátta hins unga siðbótarmanns öðru fremur um eigið frelsi. Við fylgjumst með honum í angist, ótta og örvæntingu heyja baráttu sem flestir geta sett sig inn í. Hörð innri átök og efi, glíma við sjálfan sig, samtöl við vini og ættingja, svefnlausar nætur. Það er ekki fyrr en áhættan er tekin að stíga skrefið, skoða eigin sannfæringu, greina sinn eigin vilja, taka eigin ákvörðun sem maðurinn skynjar frelsið verða til innra með sér. Barátta Lúthers var í senn frelsi frá einhverju en um leið frelsi til einhvers.

Með þessa reynslu að vegarnesti lagði Lúther grunn að því sem við nefnum tjáningarfrelsi, trúfrelsi og samviskufrelsi einstaklingsins og vísar þar veginn til upplýsingartímans og þar með okkar tíma.

Um frelsið ritaði hann lítið kver þegar barátta hans stóð sem hæst, haustið 1520, þar sem hann byggir á reynslu sinni, það hefst með tveim þverstæðukenndum setningum sem eru meðal þeirra orða Lúthers sem oftast er vitnað til, þau eru þannig:

„Kristinn maður er frjáls herra allra hluta og engum undirgefinn. Kristinn maður er auðmjúkur þjónn allra og öllum undirgefinn.“ Upphafsorðin hittu beint í mark, þau vöktu athygli: Kristinn maður er frjáls herra allra hluta og engum undirgefinn? Hver hlustaði ekki á þessi orð Alþýðufólk til sjávar og sveita opnaði augu og eyru, bændur töldu sinn tíma vera kominn til að kasta af sér hlekkjum ánauðar og kúgunar, fyrir þeim glitti í nýja tíma, eftirvæntingin lá í loftinu. Hver gat talað svo afdráttarlaust um mannréttindi og mannúð í upphafi sextándu aldar?

Hugrekkið var ekki ókeypis, það átti eftir að reynast Lúther dýrkeypt. Tveimur mánuðum eftir að frelsisritið kom út var hann bannfærður af Leó tíunda páfa um aldur og ævi og jafnframt allir sem fylgdu honum, þeirri bannfæringu hefur ekki enn verið aflétt. Og keisarinn í hinu heilaga rómverska keisaradæmi, Karl fimmti, gerði sitt til að þagga niður í þessum framhleypna munki og dæmdi Lúther útlægan og réttdræpan hvar sem til hans næðist. Sá dómur vofði yfir honum alla ævi. Hugrekkið kostaði Lúther mikið – en gerði málstað hans um leið þeim mun trúverðugri.

Reynslan gerði hinum unga siðbótarmanni ljóst að frelsið verður að veruleika þegar maðurinn tekur ákvörðun um mikilvæga hluti en ekki þegar hann heldur að sér höndum og bíður þess að eitthvað gerist, ekki með því að halda öllum dyrum opnum. Í ákvörðuninni skynjar maðurinn eigið frelsi, ákvörðunin sýnir manninum að hann getur haft áhrif á sjálfsmynd sína, á framvindu eigin lífs og þá fyrst finnst honum hann vita hver hann er, þá verður hann frjáls og engum háður, engum undirgefinn. Þeim sem enga sannfæringu hefur er sama um frelsið, hann lætur sér ekki annt um það, hann velur þann kostinn að láta berast með straumnum eða gera ákvarðanir annarra að sínum. En þannig er líf mannsins ekki í reynd.

Þegar dýpst er skoðað byggist frelsið því á sannfæringu okkar og snýst um það sem hverjum og einum er mikilvægast af öllu. Rætur þess eru því djúpar. Þess vegna er frelsið dýrmætt og vandmeðfarið og það kallar á ábyrgð sem birtist í næstu setningu í upphafi ritsins um frelsið: Kristinn maður er auðmjúkur þjónn allra og öllum undirgefinn. Þessi orð hafa valdið mörgum heilabrotum. Sá sem þekkir frelsið hlýtur að leggja sig fram annarra vegna, sá sem tekur ákvörðun um mannúð og mannréttindi leggur jafnvel sjálfan sig að veði, það sýnir sagan. Hann er með orðum Lúthers þjónn þeirra sem eiga við skerðingu á mannúð og mannréttindum að glíma. Sjálfviljugur er hann undirgefinn hverjum þeim málstað sem gerir þennan heim lífvænlegri og mannúðlegri.

Þannig var málstaður þeirra Gandhis, Mandela og Martin Luther Kings svo einhverjir séu nefndir af þeim fjölmörgu sem börðust fyrir frelsi á liðinni öld. Þeir lögðu allt í sölurnar og uppskáru ríkulega. Þeir stóðu í eldlínunni eins og Lúther. Þeir breyttu heiminum með því að leggja sjálfa sig að veði fyrir frelsi mannsins. Þeir voru hvort tveggja í senn: herrar allra hluta og engum undirgefnir en einnig auðmjúkir þjónar allra og öllum undirgefnir sem troðið var á. Sannfæringu skorti þá ekki. Frelsið snertir dýpstu sannfæringu mannsins um lífsgildi.

Þessar hugsanir Lúthers í ritinu um frelsið höfðu ekki aðeins almenn áhrif í samfélaginu heldur einnig á hinn nýja kirkjuskilning siðbótarmanna. Frelsi af þessu tagi hlaut að koma fram í mjög eindregnum safnaðarskilningi siðbótarmanna. Í því sambandi töluðu þeir um „hinn almenna prestsdóm“. Þar er höfðað til frelsis einstaklingsins innan safnaðins. Enginn er knúinn til að hugsa eins og næsti maður, fjölbreytnin er lykilorð. Málstaður Jesú leiðir ekki alla í sömu átt og gerir ekki alla eins. Einstaklingurinn spyr ekki hverju hann eigi að trúa heldur horfir hann í eigin barm og spyr: hverju trúi ég, hvað er mér dýrmætast alls, hver er mín forsenda fyrir því frelsi sem ég vil varðveita í þessum heimi. Þetta voru afleiðingarnar af skilningi Marteins Lúthers á frelsi kristins manns sem fæst við að lesa Heilaga Ritningu með skynsemi.

Lútherskur söfnuður er því söfnuður einstaklinga sem ráða sameiginlegum málum til lykta með upplýstum umræðum og einnig með upplýstri trú sem tekur reynslu mannsins gilda. Í stað kirkjustofnunarinnar sáu siðbótarmenn fyrir sér grasrótarsamfélag. Þeir voru róttækir hugsjónamenn enda rættust draumar þeirra misjafnlega vel þegar tímar liðu.

Vitund okkar Íslendinga um frelsið sem dýrmætt fjöregg á sér djúpar rætur, vel að merkja trúarlegar rætur. Í þeirri hugsun og í þeim hófstillta lífsstíl sem af því leiðir er arfur siðbótarinnar varðveittur, í sterkri vitund um frelsi mannsins sem sérhver kristinn maður telur sig skuldbundinn.

Þannig getum við horft til hugsjóna siðbótarmanna. En um leið ættum við að spyrja: hvaða erindi eiga þær hugsjónir til okkar tíma? Eiga þær erindi til kirkju í kreppu, eiga þær erindi til þjóðar í kreppu?

Þjóðkirkjan hefur nú vindinn í fangið, hvert reiðarslagið hefur yfir hana gengið á skömmum tíma. Kirkjan hefur fengið drjúgan skerf af óvæginni umræðu dagsins, þar hlýtur hún af sitja við sama borð og aðrir. Kirkjunni þarf ekki að hlífa og hún þarf ekki að biðja um vægð, hún þekkir eitt og annað úr sögu sinni og hefur mátt þola margt mótlætið, oft hefur það orðið til að gera hana heilli og sterkari í hlutverki sínu. Saga kirkjunnar er ekki flekklaus, ekki heldur saga íslensku þjóðkirkjunnar, öll höfum við flekkaðar hendur, þar er kirkjan engin undantekning og málstaður hennar hefur oft liðið hennar vegna.

Siðbótarmenn litu ekki á kirkjuna sem stofnun, þeir horfðu á fólkið, á söfnuðina og þar ætti siðbótin aldrei að nema staðar, kirkjan ætti á vera í sífelldri siðbót, ekkert er henni eins háskalegt og jafnandstætt og stöðnun. Tákn kirkjunnar væri ekki klettur heldur fylking, fólk á ferð um söguna. Siðbótin ætti aldrei að nema staðar, hvorki inn á við né út á við. Þannig kirkju fer sjálfsgagnrýni best, fúsleikinn til samtals, til að vera mannleg og mannúðleg í umræðu dagsins. Það á ekki síst við í fjölhyggjusamfélagi samtímans, i vaxandi alþjóðlegu fjölmenningarumhverfi þar sem trúarbrögðin færast nær hvert öðru, þar sem umræðan um lífsskoðun er vakandi, þar sem umræðan um dýpstu sannfæringu mannsins er alltaf á dagskrá, þar sem leit mannsins að staðarákvörðun í þessu lífi, að merkingu og tilgangi er ákafari en nokkru sinni fyrr.

Kirkjan verður því að eiga samtal við samtíð sína, slíku samtali má aldrei linna, þar verður hún að gera allt sem í hennar valdi stendur. Hún verður að þekkja menningu þeirrar þjóðar sem hún þjónar, til þess að geta greint hjartslátt líðandi stundar, til þess að geta stuðlað að gagnkvæmum skilningi manna á meðal, til þess að læra, og til þess að miðla reynslu og þekkingu sem hún býr yfir í langri sögu sinni. Og til þess að geta iðkað umræðu um málastað Jesú í samfélagi líðandi stundar.

Það trúnaðarsamband sem íslenska þjóðkirkjan hefur haft við þjóðina um aldir má ekki glatast, það hefur nú beðið hnekki að margra mati. Það traust verður hún að vinna á ný, um það ætti líf hennar og starf á þessari stundu að snúast. Það gerir hún með því að líta til grunnhugmynda siðbótarmanna um hinn lýðræðislega, opna söfnuð, sem er samofinn menningu samfélagsins og er því fær um að veita þá leiðsögn sem þörf er á, ekki síst á tímum þegar samfélagið allt hefur vindinn í fangið.

Traust vinnur kirkjan ekki með því að hörfa í varnastöðu heldur með hinu vitsmunalega samtali við þá þjóð sem hún vill þjóna og hefur þjónað um aldir og þjónar enn af þeirri alúð sem hún kann best. Í þessu eru meginstoðir siðbótarkristninnar.

Málið snýst um trúarmenningu þar sem hver kynslóð hefur fundið sinn eigin tón. Mér kemur í hug pistill sem ég las um daginn í pistlakverinu Þankagangur eftir borgarstjórann í Reykjavík þar sem hann segir að þakklæti komi upp í hugann þegar hann hugsi til bernskunnar, til fólks sem kenndi honum að trúa. Hann nefnir þar ömmu sína or kristinfræðikennara í barnaskóla. Þau kenndu honum að biðja og veittu honum undirstöðuþekkingu í kristnum fræðum. Hann sagði að hvort tveggja hefði komið sér að góðum notum í lífinu og hann hefði ekki viljað fara á mis við þá fræðslu. Hér er svipmynd af hinni lúthersku trúarmenningu sem berst frá kynslóð til kynslóðar. Hún vekur þakklæti í huga okkar, í lífi mannsins sannast gildi hennar.

Skapandi menn allra tíma, eins og Lúther, eru mótandi og gefandi, hver kynslóð á við þá samtal sem tekur aldrei enda. Þess vegna er lútherskur trúararfur og lúthersk trúarmenning dýrmæt, og hún er falin okkur á hendur, sem lúthersk erum, öðrum fremur. Lúther og aðrir siðbótarmenn skildu eftir sig mikinn og dýrmætan arf, einnig myndlist siðbótarinnar.

Í myndverkum málara siðbótarinnar, Lúkasar Cranachs eldri, nágranna og náins vinar Lúthers og borgarstjóra í Wittenberg, þróaðist nýtt myndmál sem túlkaði trúarskilning siðbótarmanna í mynd. Þar finnur boðskapur hins nýja frelsis og hinnar nýju trúarhefðar sér farveg í nýju, áður óþekktu myndefni sem er samt sótt til hinna biblíulegu rita, en nýtt í myndlistinni með nýjum áherslum. Hin mildu lífsgildi sem undirstrika nýtt frelsi mannsins birtast með ýmsum hætti. Allslausir og útskúfaðir fá óvæntan boðskap: Mæðurnar bera kornabörn til Jesú til þess að hann blessi þau, hinir forsmáðu villutrúarmenn eins og samverjar og kanverjar eða fulltrúar hins erlenda valds, tollheimtumenn og hundraðshöfðingjar eru teknir gildir sem manneskjur – og svo bersynduga konan sem Cranach var greinilega afar hugleikin líkt og Lúther.

Í einni mynd Cranachs af bersyndugu konunni hefur honum tekist að túlka stundina þegar hún gengur af fundi Jesú. Athygli áhorfandans dregst að svip hennar, sem er þrunginn eftirvæntingu. Nýtt líf hefur kviknað – en aðeins í augum hennar á því andartaki þegar hún horfir til hliðar þegar Jesús snertir hönd hennar.

Hér er lágstemmd trúarjátning. Full af von en kannski einnig full af efa, af upplifun hins óvænta og ótrúlega.

Svipmyndin sem Jóhannes guðspjallamaður dregur upp af bersyndugu konunni var Lúther einnig hugleikin, í ritum hans varð hún iðulega táknmynd mannsins sem fellur frelsið óvænt í skaut.

Bersynduga konan er manneskjan sem hefur ekkert að gefa en allt að þiggja. Hinn nýi sannleikur í lífi hennar leysir hana úr viðjum og gefur henni aftur gleðina.

Sá sannleikur var fólginn í návist Jesú, sem stóð óvænt við hlið hennar meðan farísearnir hurfu hver af öðrum. Hann túlkaði líf hennar í nýju ljósi, það fékk nýja merkingu, það var snortið af návist hans sem kom óvænt á vettvang.

Þannig er niðurstaðan í guðspjallstexta dagsins sem fjallar um rökræður Jesú og faríseanna í kjölfar þessa atburðar.

Jesús kenndi okkur að þrá mannúðlegan heim og vinna sjálf að því markmiði, hvert á sínum stað, hvert með sínum hætti, einnig þegar móti blæs. Þannig var hans fordæmi og með það fyrir augum er manninum borgið í þessum heimi.

Hin lágstemmda trúarmenning okkar Íslendinga er arfur frá Lúther, það er trúarmenning sem lifir með fólkinu, hún hefur ekki hátt á strætum og torgum, hún býr ekki í stórum orðum, ekki í sterkum tilfinningum.

Hún býr í hjarta mannsins, í sannfæringu hans, veikri eða sterkri, í tilfinningum hans, í vitund og viðhorfum sem skila sér í daglegu lífi, í lífi og starfi, í sorg og í gleði, í vitund um tilgang og merkingu lífsins, í mannlegum samskiptum, í siðferðislegum ákvörðunum. Hún vakir yfir lífi mannsins, við störf fólksins til sjávar og sveita, hún býr í eftirvæntingu mannsins til þess sem gefur honum viljann til að lifa og láta gott af sér leiða, hún býr í þrá hans til þess veruleika sem gefur lífi hans merkingu, og í löngun hans til að varðveita hið dýra frelsi mannsins. Amen.

Takið postullegri kveðju Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleikur Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.