Gengið um hlið

Gengið um hlið

…Fréttin var hugljómun, sem fréttafólkið af innsæi og snilld náði að festa á mynd, hún var mikill vitnisburður um þá möguleika, sem felast í fólkinu í þessu landi og trúartrausti á skapandi hugsun og góð verk, sem vinna má, þegar lagst er á eitt og kraftur gleði, sköpunar, verklags og þekkingar fær að njóta sín. Sá sem fer um þetta hlið finnst hann ýmist boðinn velkominn, eða sællega kvaddur, eftir því hvort hann kemur eða fer….
fullname - andlitsmynd Birgir Ásgeirsson
29. nóvember 2009
Flokkar

Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinnþarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“ Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um: Segið dótturinni Síon: Konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip. Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“ Matt. 21:1-9

Vertu Guð faðir faðir minn Í frelsarans Jesú nafni Hönd þín leiði mig út og inn Svo allri synd ég hafni. (HP) Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Á þessu hausti varð til eftirtektarverð augnabliksmynd hvunndagsins í kvöldfréttum sjónvarspins. Víðsjá myndavélarinnar var á yndisfögrum haustdegi beint frá kirkjunni á Þingvöllum að gamla þjóðveginum niður Almannagjá.. Hvítir stólpar sáust bera við litföróttan klettavegginn og nú kom einnig í ljós pallbíll frá dögum alþingishátíðarinnar 1930, sem silaðist niður gamla veginn á gömlum hjólum. Hann bar á baki sér hvítmálaðan dýrgrip, sem var nýtt fagurlega gert sáluhlið í garð hinnar fallegu kirkju þjóðgarðsins. Hliðið var smíðað af nemendum Iðnskólans í Hafnarfirði og skólastjórinn var stoltur af verklagni þeirra og listfengi og skilaði þessu hliði í hendur biskups Íslands. Fleiri voru nærstaddir og ljóst var að þeir allir létu sig varða þetta gamla guðhús og umbúnað þess. Hliðið var sett niður á augabragði enda allt undirbúið, undirstöður boltar og rær. Nú stendur það þarna hvítt og glæsilegt, listasmíð, vísar veginn að kirkjunni, þeim er koma vilja og bendir fram veginn þeim er þaðan fara. Þetta er gott hlið og tilurð þess og staðsetning er listrænn viðburður í sjálfu sér, sem er hafinn upp fyrir allt lögmál málstagls og úrræðaleysis líðandi stundar, en boðar leið nýrrar hugsunar, sem stendur þó á gömlum og traustum merg. Fréttin var hugljómun, sem fréttafólkið af innsæi og snilld náði að festa á mynd, hún var mikill vitnisburður um þá möguleika, sem felast í fólkinu í þessu landi og trúartrausti á skapandi hugsun og góð verk, sem vinna má, þegar lagst er á eitt og kraftur gleði, sköpunar, verklags og þekkingar fær að njóta sín. Sá sem fer um þetta hlið finnst hann ýmist boðinn velkominn, eða sællega kvaddur, eftir því hvort hann kemur eða fer.

Á fyrsta sunnudegi í aðventu segir frá því þegar Jesús kemur að hliðum Jerúsalemborgar. Jesús birtist borginni, fólkinu þar, fólkinu í landinu, valdsmönnum og almenningi, börnum og gamalmennum, sjúkum og þjáðum. Jesús kemur. Hann birtist í fyllingu tímans, (Gal. 4:4) þ.e. þegar allt er reiðubúið, en þó með öðrum orðum, þegar hans er þörf.

Allt virtist reiðubúið. Fólkið stóð úti á götu á fagnaði Jesú. Þetta var undarlegur maður. Hann hafði farið vítt um landið, talað til fólksins og við það, hann hafði sagt margt, sem umsneri skilningi fólksins á lífi sínu og starfi, tilgangi og markmiði. Hann hafði sýnt börnum sérstaka alúð, vakið athygli á því að þeim bæri að sinna í andlegum efnum, sem og veraldlegum, en fyrst og fremst af elsku og umhyggju. Hann hafði reist við fallna, faðmað að sér úthýsta, læknað sjúka. Hann hafði setið að borðum með yfirvaldinu, með auðmönnum, einnig með stórsyndurum, og haldið uppi samræðum við þá, vakið nýja hugsun með orðum sínum og fengið fólk yfirleitt til þess að skoða hug sinn um allt er varðar afstöðu og breytni, lífið í gleði og raun, jafnvel dauðann og harðræði hans. Ýmsir höfðu þó sannarlega hatast við hann, þegar þarna var komið sögu, en einnig gengið til liðs við hann, fylkt sér að baki honum, þó ekki væri nema fyrir forvitnissakir. En eitt var ljóst, þessi maður hafði breytt samfélaginu öllu á þremur árum. Hann hafði hvorki dagblað né útvarp né sjónvarp, enda ekki til, frekar en sími eða gemsi eða neitt af því tagi. Hann átti ekkert skrifborð, enga tölvu, ekki einu sinni gjallarhorn, og ekkert til að skrifa á, nema sandinn á jörðinni. Hann sneri öllu við, hugsun fólks, viðhorfum, breytni, almenningsáliti, trú, - en líka borðum víxlaranna í helgidóminum. Og skyldi þá allt hafa verið reiðubúið?

Jesús kemur. Mikilvægt er að átta sig á því að engin kyrrstaða er í þeim veruleika sem Jesú ber með sér. Nærvera hans vitnar um kraft hugsjónamanns, þekkingu vitsmunamanns, og miskunnsemi hins réttláta. Þó vekur mesta athygli auðmýkt hans frammi fyrir barninu og þeim, sem leita sannleikans í lífi sínu af einlægni og þrá. Það fyrsta sem haft er eftir Jesú við komu hans til Jerúsalem, háborgar gyðinglegrar þjóðmenningar og trúar er þetta: Hús mitt á að vera bænahús. (Mt. 21:13).

Jesús höfðar til þess innra, sem með okkur býr. Hann vekur athygli á því að sá dvalarstaður, sem hann kýs helst, er musteri hjartans. Það ert þú sjálf, manneskja, sköpuð í Guðs mynd, eintaklingur með hjarta og sál.. Hjartað er kjarni mannsins skv. Biblíulegum skilningi og sálin er starfandi vitund hans. Í því samfélagi gistir andi Guðs. Andi Guðs starfar í okkur og vitnar um Guðs blessun, mátt og kærleika. Hann virkjar hvern og einn, sem opnar hjarta sitt fyrir honum, til frjálsrar hugsunar, leitandi huga, réttlætis og trúar, sannleiksástar og góðra verka. Þannig verður augljós konungdómur hans og ávöxtur trúfestinnar, sem í honum býr og líf hans allt vitnar um: Hann er læknir og lífgjafi, hann er leiðbeinandi, hvetjandi, miskunnsamur, elskandi, brosandi. Jesús kemur. Við skulum taka á móti honum af öllu hjarta. Þau hlið sem við gerum í tilefni jólanna, ljós á stiku, vafningar og skraut bjóða hann velkominn. Við vitum og eigum þá vitneskju í hugskoti okkar að það er gott og uppbyggilegt. Læknandi og líknandi, og skemmtilegt. Í honum er vonin björt og ljós trúartraustsins, sem gefur kjark og vissu um úrræðí dagsins í dag og möguleika morgundagsins.

Barn jólanna er frumglæði þess alls sem í trúnni býr. Þess vegna leggjum við mikið á okkur til þess að búa okkur undir komu þess í okkar hús, hjartans hús. Það þarf ekki að kosta svo mikið í peningum, en sá undirbúningur er fyrst og fremst fólginn í því sem við hugsun og gerum fyrir aðra. Það er ávöxtur trúarinnar. Nú vill svo til að í fordyrum kirkjunnar hér, hafa starfsmenn Hjálparstarfs kirkjunnar komið fyrir upplýsingum og myndum af vettvangi starfsins. Það er listilega upp sett og er ómæld hvatning til að huga að þessu merka og nauðsynlega hjálparstarfi. Það teygir sig til hjálparvana íbúa fátækra landa, og varðar til dæmis spurninguna um þau lífsréttindi að mega drekka hreint vatn, og að frelsa börn úr ánauð þrælahalds, svo undarlega sem það hvort tveggja hljómar nú á tuttugustu og fyrstu öld. Og Hjálparstarfið snertir líka líknandi hendi sinni þau vandamál, sem við höfum á þjóðarmælikvarða skapað okkur heima fyrir, þar sem stutt er við þjáða og illa stadda hér á Íslandi af þeim mætti, sem Hjálparstarfið fær kraft til. Þetta er sannarlega íhugunarefni fyrir okkur öll og áskorun um að láta gott af sér leiða í þessum efnum. Guð blessi það starf og leyfi því að dafna og eflast í hvívetna, bæði í trú og von, börnum og þjáðum til hjálpar og blessunar.

Svo vill líka svo skemmtilega til, að hér í dag eru fyrsta sinni tendruð ljós á nýjum og frumgerðum listaverkum, sem eru 25 myndarlegar ljósastikur af leiri gerðar af jafn mörgum listamönnum. Þeir bera vitni frjálsum, skapandi huga og natinni hagleikshönd. Og hvílíkt feiknahlið mynda þessar tvær sýningar hér í dag, sem bjóða ljós heimsins velkomið í þetta bænahús og í sérhvert það hjarta, sem væntir komunnar í gleði vonarinnar. “Sjá, hjálpræði þitt kemur!

Um þessar mundir er sýnt leikrit í borginni, sem heitir Litli Jesús. Það er skemmtilegt nafn og gefur sýn til jólabarnsins frá nýjum sjónarhóli. Það er gott að “Litla Jesú” er búinn staður í þessu landi. Þegar gengið er út um hliðið sem honum heilsar, verður hljómur söngvanna í takt við hina fornu hvatningu:

“Gangið út, já , gangið um hliðið, greiðið götu þjóðarinnar. Leggið braut, ryðjið grjótinu burt, reisið merki fyrir þjóðirnar... Sjá, hjálpræði þitt kemur!” Jes 62.

Við erum í mörgum skilningi kvíðafull. Skammdegið er stundum mest í hjartanu. Ógn líðandi stundar er áleitin um þessar mundir. En Drottinn kemur. “Nú kemur heimsins hjálparráð.” Litli Jesús er gestur komandi jóla, ljós heimsins.

Myrkur lífsins mér er ógn og mæða. Litli Jesús, ljósið þitt, lýsi´ upp litla hjartað mitt.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.