Ein stór fjölskylda

Ein stór fjölskylda

Hvað er það dýrmætasta sem við eigum?Svarið er: fjölskyldan. Það er alltaf fjölskyldan… Okkar nánustu… þegar við segjum ,,nánustu” þá erum við ekki að tala um mikinn fjölda… því við hugsum í smáum einingum… EN Guð hugsar STÓRT… Hann lítur á okkur öll sem eina stóra fjölskyldu, við erum börn Guðs og hann vill eiga okkur öll, vill ekki að neinn úr hópnum glatist…
fullname - andlitsmynd Bryndís Svavarsdóttir
26. desember 2020
Flokkar

Guðsþjónusta LIVE í Saurbæjarkirkju á Rauðasandi... einnig tekin upp og sett á netið.

Ritningartextar Jes 9.1-6, Tít 2.11-14 og Matt 1.18-25

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.
Í spádómnum um fæðingu Frelsararans segir: Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós… og Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna, skín ljós. Og Jesús sagði: Ég er ljós heimsins, sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins

Ljós lífsins… ljós eilífs lífs… því það er það sem fagnaðarerindið boðar… að Jesús sé hið sanna ljós sem lýsir öllum þjóðum. Ljósið lýsir ÖLLUM, svo við þurfum að stíga fram í trú og hleypa því inn í hjörtu okkar… Rétt eins og ritningin segir að það rigni yfir réttláta sem rangláta… þá skín ljósið líka fyrir réttláta sem rangláta. Í spádómnum er dagurinn sem Jesús muni fæðast, sagður vera dagur hinnar miklu gleði. Englar himins sungu af fögnuði og allur heimurinn átti að fagna en fregnin af fæðingunni fór ekki víða… Samt gætum við sagt að Guð hafi notað nokkurns konar ljósleiðara til að vísa vitringunum veginn til Betlehem… Stjarnan skein hátt á himni og leiddi þá á réttan stað… á þann sama hátt á ljós heimsins, Jesús, að vísa okkur rétta veginn… til Guðs.

Við fæðumst ekki með trúna í hjartanu, þó við fæðumst inn í trúarlegt umhverfi… þess vegna þarf hver og einn að rækta trúna í hjarta sér…  Það er einstaklings verkefni… sambands verkefni milli Guðs og þín. Spádómurinn sagði að sonur Guðs ætti að heita Immanúel… sem þýðir: Guð er með oss… 
Margir eiga erfitt með að sjá Guð að störfum þegar hörmungar dynja yfir… en hann hefur lofað því að vera með okkur allt til enda veraldar. Það er Guð sem gefur okkur styrkinn til að standast áföll og halda áfram þegar erfiðleikar steðja að…

Allar áskoranir sem við mætum í lífinu byggja okkur upp, gera okkur sterkari og hver reynsla gerir okkur úrræðabetri og útsjónarsamari en áður. Það er sagt að Guð leggi ekki meira á okkur en við þolum en það er ekki þar með sagt að við séum sátt við það sem er lagt á okkur…

Þegar við horfum til Seyðfirðinga og þess áfalls sem hefur dunið yfir þá, þá verður maður áþreifanlega var við styrkinn sem fólkinu er gefinn, samhugann í samfélaginu og viljann til að vinna sem best úr ástandinu. Allir eru boðnir og búnir að hjálpa… og þakklátir fyrir að ekki fór verr, þ.e. ekkert manntjón.

Á erfiðum stundum er gott að eiga Guð í hjartanu… Gott að hafa Guð sem traustan vin EN það mun samt sem áður taka langan tíma að vinna úr svona áfalli. Öll áföll taka toll… breyta okkur til frambúðar… og við áfall endurmetum við hvað sé mikilvægast í lífinu… en jafnvel mitt í erfiðleikum okkar sjálfra, getum skinið ljós frá okkur… og einmitt þannig á trúin að virka, styrkurinn sem okkur er gefinn – á að skína frá okkur til annarra í kringum okkur… endurvarpast út í heiminn.

Jesús er ljós heimsins… jólin eru hátíð ljóss og friðar. Um jól magnast hátíðleikinn upp við að fara til kirkju, heyra orgeltónana og syngja hefðbundna jólasálma… Vaninn hjá okkur er ríkur, við setjum upp sömu jólaskreytingarnar ár eftir ár og það eru hreinlega helgispjöll að breyta matseðlinum… en það eru ekki bara jólin sem eru eftir ákveðinni uppskrift… margt annað í okkar lífi er það líka.

Í hvaða munstri sem við höfum búið okkur til, er ákveðin festa… sem lætur okkur líður vel… Nú hugsum við til þeirra sem upplifa ekki þetta öryggi, Seyðfirðinga, sem geta ekki verið heima hjá sér… á okkar helgustu hátíð… Ekkert verður aftur eins… fyrir liggur uppbygging og þá víkja hefðir… fyrir því sem er mikilvægast…

Fólk endurmetur, forgangs röðin breytist… og við spyrjum: Hvað er það dýrmætasta sem við eigum?Svarið er: fjölskyldan. Það er alltaf fjölskyldan… Okkar nánustu…  þegar við segjum ,,nánustu” þá erum við ekki að tala um mikinn fjölda… því við hugsum í smáum einingum… EN Guð hugsar STÓRT… Hann lítur á okkur öll sem eina stóra fjölskyldu, við erum börn Guðs og hann vill eiga okkur öll, vill ekki að neinn úr hópnum glatist… Þess vegna gaf hann son sinn, til að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf… Ljósið kom í heiminn því Guð vill ekki að við týnumst í myrkrinu… og á jólum, hátíð ljóss og friðar, lýsum við upp í kringum okkur.  Við  skulum leyfa ljósinu að lýsa inn í hjörtun og frá okkur til annarra því það gefur okkur sannan  jólafrið.

Með þessari bæn skulum við þakka Guði fyrir kærleika hans til okkar….

Eilífi Guð við þökkum þér fyrir þá miklu gjöf er þú gafst okkur son þinn Jesú Krist svo hann gæti frelsað okkur frá syndum okkar… Þakka þér að náð þín er ný á hverjum degi og hver dagur er sem nýtt upphaf í trúargöngu okkar með þér. Við lofum þig og þökkum þér…. Amen

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen