Umsóknareyðublöðin

Umsóknareyðublöðin

Mikið erum við nú rík á Íslandi að geta treyst á eyðublöðin, sem skipa svo stóran sess í daglegu lífi, hafa næði til að þess að fylla þau út og fá hjálp til að gera það rétt.
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
07. desember 2016

Um daginn var ég á fundi þar sem fjallað var um sjóð sem ætlað er að styrkja með nokkrum krónum menningarviðburði í landinu. Forstöðumaður sjóðsins sagði frá því, að við síðustu úthlutun hefði stórum hluta af umsóknum verið hafnað með einu pennastriki af því að sótt hafi verið um á gömlum umsóknareyðublöðum. Auk þess kom fram að nýju umsóknareyðublöðin væru svo flókin að tæpast væri á færi annarra en sérfræðinga að fylla þau út. Þess vegna væri afar brýnt fyrir vonina um styrk úr sjóðnum að sækja sér aðstoð fagfólks. Verkefnið sjálft skipti því ekki mestu máli heldur umsóknin.

Mér var hugsað til heimsóknar minnar fyrir mörgum árum á heimili fyrir munaðarlaus börn í Eþíópíu sem nunnur ráku. Fólkið í héraðinu bjó við sára örbirgð, en á heimlinu dvaldi fjöldi munaðarlausra ungbarna. Ég spurði önnum kafnar nunnurnar hvernig þær fjármögnuðu starfið. Þær sögðust biðjast fyrir og Guð sendi þeim alltaf eitthvað gott fyrir rekstur heimilisins. Ég hitti á ferð minni framkvæmdarstjóra, sem hafði umsjón með hjálparstarfinu á svæðinu, og spurði hvort nunnurnar sæktu um styrk í hjálparsjóðinn til að reka heimilið? „Nei“, svaraði framkvæmdarstjórinn og bætti við: „Ég efast um að þær eigi blað og býant, en við biðjum um að fá að styrkja starfið af því að þetta er eitt besta hjálparstarf sem hér fer fram“.

Mikið erum við nú rík á Íslandi að geta treyst á eyðublöðin, sem skipa svo stóran sess í daglegu lífi, hafa næði til að þess að fylla þau út og fá hjálp til að gera það rétt. Við erum þá kannski aflögufær um að leggja að mörkum til þeirra sem minnst mega sín og ekkert eiga nema bæn í hjarta? Hjálparstarf kirkjunnar er okkar trausta brú til þessa fólks,- og við getum gefið þar án þess að villast í frumskógi eyðublaðanna.