Fannst þér þetta ekki vel gert?

Fannst þér þetta ekki vel gert?

Orðum var ekki eytt til ónýtis og tilfinningar sundruðu ekki heldur drógu menn, konur og karla, saman. Öxl við öxl, hönd við hönd, gengu menn í það sem þurfti gera af umhyggju fyrir öðrum.
fullname - andlitsmynd Gunnar Rúnar Matthíasson
18. febrúar 2013

Ég hafði hugsað mér að skrifa um elskuna. Ég vildi segja að það að elska Krist snýst ekki um að bera tiltekna trúartilfinningu til hans, heldur að ala sér gott hugarfar og umhyggjusemi gagnvart öðrum. Það að elska Krist þýðir að gera fordæmi hans að sínu og vinna engum mein. Já, ég var að móta þessa hugsun með mér þegar...

...já þegar fólkið úr snjóflóðinu fangaði athygli mína. Þar var verið að sýna á RÚV þátt um snjóflóðið á Flateyri. Umfjöllunarefnið var þetta stóra áfall en það sem greip mig var að það voru staðreyndir, orð og viðmót viðmælendanna sem leiddu þáttargerðina. Fólkið sem átti reynsluna réði för.

Þar voru m.a. þessar flottu stelpur sem sögðu svo eftirtakanlega vel af reynslu sinni undan flóðinu og björgunarfólkið af staðnum og síðan þau sem komu annarsstaðar að sem lýstu með fjölmiðlafólkinu því sem fyrir augu bar. Hvert orð var vandað og hófstillt þó verið væri að fjalla um óhugsandi og yfirþyrmandi veruleika. Nú hafði fjallið þeirra Önfirðinga leikið þorpið sitt svo grátt sem fjall Súðvíkinga hafði gert við þorpið og fólkið sitt aðeins nokkrum mánuðum fyrr.

Þáttargerðarfólkið sýndi hvernig brugðist var við og gengið fumlaust til verka samhliða því að menn voru að átta sig á umfangi þess sem hafði gerst. Upphrópanir eins og „yfirþyrmandi“, „ ógnvænlegt“ eða „hryllilegt“ mótuðu ekki frásögn þáttarins. Heldur fengu orð og viðmót fólksins sem átti reynsluna að ráða förinni. Og hver voru orðin þeirra? - Þau töluðu um að yfirvegun og rósemi hafi verið ríkjandi. Orðum var ekki eytt til ónýtis og tilfinningar sundruðu ekki heldur drógu menn, konur og karla, saman. Öxl við öxl, hönd við hönd, gengu menn í það sem þurfti gera af umhyggju fyrir öðrum.

Hérna fékk ég efnið um elskuna, betur en þetta verður ekki lýst hvað það er að elska Krist.