Hvar eru hinir níu?

Hvar eru hinir níu?

Prédikunin er í raun síðasta viðvikið sem við gerum innan guðfræðideildarinnar þó eftir sitji verkefnaskil og formleg útskrift úr Háskóla Íslands. Það er vel við hæfi því að segja má að á vettvangi prédikunarinnar skarist öll svið guðfræðinnar
fullname - andlitsmynd Sigurvin Lárus Jónsson
05. maí 2006

Svo bar við á ferð Jesú til Jerúsalem að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt mættu honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: "Jesús, meistari, miskunna þú oss!" Jesús sá þá og sagði við þá: "Farið og sýnið ykkur prestunum." Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir. En einn þeirra sneri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: "Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?" Síðan mælti Jesús við hann: "Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér." cite>Lk 17.11-19
Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Kæri söfnuður, vinir og vandamenn. Þessi loka-prédikun markar tímamót hjá okkur Ólafi Jóhanni í guðfræðináminu og það er mikill heiður að hafa ykkur með okkur að samgleðjast á þessari stund. Prédikunin er í raun síðasta viðvikið sem við gerum innan guðfræðideildarinnar þó eftir sitji verkefnaskil og formleg útskrift úr Háskóla Íslands. Það er vel við hæfi því að segja má að á vettvangi prédikunarinnar skarist öll svið guðfræðinnar. Í prédikun reynir í raun á alla þá þætti sem að guðfræðinám þjálfar okkur í en markmið prédikunar er þríþætt. Það sem gerir prédikun að prédikun er í fyrsta lagi Orð Guðs, þ.e. texti eða textar biblíunnar sem eru lagðir undir prédikunina. Í öðru lagi vitnisburður prédikarans, persónuleg reynsla og trúarvitnisburður þess sem er að prédika og mót hans við textann sem fjallað er um. Loks er heimfærsla til safnaðarins, útlegging textans í samhengi þess samtíma og þeirra aðstæðna sem að prédikarinn talar inn í.

Textinn sem komið hefur í minn hluta að prédika útfrá kemur úr Lúkasarguðspjalli og er lækningarfrásögn. Tíu menn koma til Jesú sem allir eru holdsveikir, standa álengdar honum og kalla til hans ,,Jesús, meistari, miskunna þú oss." Messan okkar, sem byggir á ævafornum helgisiðum endurómar þetta lækningarákall í miskunnarbæninni svokölluðu. Í henni fer presturinn með orðin, ,,Drottinn miskunna þú oss - Kristur miskunna þú oss - Drottinn miskunna þú oss", og söfnuðurinn sameinast í því bænakalli sem er á sama tíma játning á breiskleika okkar og valdi þess Guðs sem leitað er til. Svar Jesú við bænakalli hinna tíu líkþráu var að senda þá leiðar sinnar með orðunum ,,Farið og sýnið ykkur prestunum" og á leið sinni urðu þeir hreinir.

Ástæða þess að þeir eru sendir til prestanna er sú að í Ísrael til forna voru holdsveikir útskúfaðir úr samfélagi manna og prestarnir héldu um tauma þess. Heimsmynd hinna fornu Hebrea var nokkuð ólík okkar og þekking á sjúkdómum mun takmarkaðri en hún er í dag. Menn áttuðu sig ekki á eðli smitsjúkdóma, heldur voru ástæður sjúkdóma taldar liggja í syndum manna eða vanþóknun Guðs. Holdsveikir stóðu þó sérlega illa að vígi í þeirra menningu, vegna hugmynda þeirra um Chaos og Cosmos, óreiðu og reglu. Víða í kúltískum lagabálkum 3. Mósebókar kemur fram óttinn við líkamsvessa sem leita útfyrir líkamann. Þeir voru taldir óhreinir og hættulegir og á þeim forsendum var ekki óhætt að nálgast. Hinn holdsveiki glímir stöðugt við rifna og blóðuga húð og því voru slíkir sjúklingar látnir búa saman utan við jaðar samfélagsins og öll umgengni við þá bönnuð.

Sú lækning sem hinir tíu fengu var því ekki einungis líkn á líkamlegum meinsemdum þeirra heldur aðgöngumiði aftur inn í mannlegt samfélag. Einn þeirra snýr til baka og sagt er að hann hafi fallið að fótum meistarans og lofað Guð fyrir lækningu sína. Kinnroði sögunnar er sá að þessi eini sem sýndi rétt viðbrögð við lækningu sinni og snéri til baka til að gefa Guði dýrðina var útlendingur, nánar tiltekið Samverji. Samverjar voru þjóð náskyld Ísraelum en höfðu að áliti þeirra fallið frá hinum sanna átrúnaði og samskipti þessa hópa voru ekki alltaf friðsæl. Ísraelar álitu sig æðri þeim á flestum sviðum og sú tilhugsun að Samverja sé stillt upp sem trúarhetju hefur verið mjög sláandi, líkt og í dæmisögunni þekktu um miskunsama samverjann. Boðskapur sögunnar til hinna fyrstu viðtakenda er augljóslega að endurmeta fordóma sína í garð Samverja og með slíkum sögum barðist meistarinn frá Nasaret gegn kynþáttafordómum sem virðist tilhneiging manna á öllum tímum. Þegar samverjinn fellur að fótum Jesú spyr hann "Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?" Síðan segir hann við Samverjann: "Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér."

Þessi texti líkt og svo margir textar Biblíunnar eru sveipaðir þeim töfrum að ef skyggnast er undir yfirborðsmerkingu þeirra kemur í ljós túlkunarheimur sem verður seint að fullu afhjúpaður. Mennirnir tíu urðu allir heilir á líkama og að baki því lækningar-kraftaverki liggur guðsmynd þess sem mætir þörfum fólks. Sá Guð sem Jesús boðar er Guð sem lætur sig varða um aðstæður fólks og mætir þörfum þeirra. Þessvegna grípur Jesú til myndmáls uppeldis í boðun sinni og ávarpar Guð sem foreldri sitt. Guð er líkt og foreldri vegna þeirrar elsku sem hann ber til okkar, barna sinna. Hann er foreldri vegna þess að við erum af honum komnir og hann er foreldri vegna þess að hann þráir að mæta þörfum okkar.

Það er margt sem læra má af hinum tíu og þar er mikilvægast að leita til Guðs með holdsveiki okkar. Þó að holdsveiki sé ekki vandamál í okkar samfélagi er það nokkuð myndrænn sjúkdómur fyrir þau andlegu sár sem lífið veitir öllum mönnum. Það er ekki óhætt að taka umbúðirnar af sárum okkar hvar sem er, en í nærveru Krists öðlumst við rými til að leyfa lækningarmætti Guðs að leika um þau. Annað sem taka má til eftirbreytni felst í ákalli þeirra til Jesú, en það ákall hefur Kristin kirkja endurtekið frá öndverðu. Í orðunum "Jesús, meistari, miskunna þú oss!" felst djúpur sannleikur um stöðu okkar og kröftug játning á mætti hans. Sá sem játar að hann þurfi miskunnar við hefur raunhæfa sjálfsmynd, því öll erum við breyskar og syndugar manneskjur. Og sá sem ber gæfu til að uppgötva þann ægimátt sem aðgengilegur er í heilögum anda Guðs fyrir Jesú Krist, þarf aldrei að líða kraftleysi í lífi sínu. Loks felst mikilvæg lexía í því að mennirnir gengu allir fram í trú. Fæstir eru grandalausir um hvað þeir eiga að gera til að leiðrétta meinvörpin í lífi sínu en það kostar kjark að leita hjálpar og gera breytingar. Mennirnir tíu stigu allir fram í trú og uppskáru að launum lækningu frá Guði.

En hvað er það sem gerir Samverjann að trúarhetju ofar hinum? Sú boðun Jesú að Guð sé okkar himneska foreldri ber með sér kjarnann í boðskap hans og guðsmynd. Hvað er það sem foreldri þráir fyrst og fremst? Það er að eiga samfélag við börn sín og vita að þau geti til sín leitað. Dæmisagan gerir ekki lítið úr líkamlegum þörfum þess sem er veikur, þvert á móti mætir Guð þeim þörfum, líknar og læknar. En ofar líkamlegum þörfum er þrá mannsins eftir samfélag við Guð og það er það sem Samverjinn fann er hann kraup við fætur Jesú. Hann er trúarhetja sögunnar vegna þess að hann áttaði sig á því að gjöf Jesú nær útfyrir hið efnislega og líkamlega. Jesús sagði við hann ,,trú þín hefur bjargað þér". Allir tíu þáðu lækningu á líkama frá Guði en hann einn varð heill á líkama og sál. Sál hans varð heil vegna þess að samfélag komst á við hinn heilaga Guð. Allar manneskjur bera í sér þránna eftir samfélagi við Guð, hún getur myrkvast af erfiðleikum, stolti eða tilbeiðslu á öðrum hlutum en hún er innra með okkur öllum. Vitnisburður kristindómsins er að allir geta átt merkingarbært vitundarsamband við skapara sinn á einföldum og aðgengilegum forsendum, óháð aðstæðum og uppruna. ,,Leitið og þér munuð finna, biðjið og yður mun gefast, knýjið á og fyrir yður mun upplokið verða." Annað og meira gerir þennan læknaða samverja að fordæmi fyrir okkur. Hann snýr til baka í þakklæti og fátt er mikilvægara í lífi hins trúaða en hafa hugarfar þakklætisins. Kjarni og hápunktur hins kristna helgihalds er samfélagið um borð Guðs en þar sameinast söfnuðurinn í þakkargjörðarmáltíð að fordæmi síðustu kvöldmáltíðar Jesú með lærisveinum sínum. Þakkargjörðin er hápunkturinn og það að temja sér að þakka Guði fyrir allt sem við höfum úr hendi hans þegið er lykill að mikilli gleði. Á tímum þegar ég hef fundið fyrir vannþakklæti og leiða í lífi mínu, hefur það aldrei brugðist að færa Guði þakkir fyrir það fjölmarga sem ég hef til að þakka fyrir. Í kjölfarið fyllist hugurinn af þakklæti og hjartað af gleði. Erindi Samverjans við Jesú var að gefa Guði dýrðina og það felur í sér að bera vitni til annara um þann kraft sem þar er að finna. Það er skylda okkar sem bragðað höfum á brunni frelsarans að segja frá því hvar hann er að finna og að öllum sé frjálst að bergja þar af.

Leið mín til trúar liggur í gegnum 12 reynsluspor AA samtakanna og erindi mitt í guðfræðideildina er þaðan sprottið. Sá kraftur sem fólginn er í því einfalda kerfi hefur bjargað lífi fjölmargra, sameinað brostnar fjölskyldur og gefið fólki sem enga von átti gæfuríkt líf. Markmið reynslusporanna er aðeins eitt, að ryðja burt hindrunum til að sá sem sporin fetar geti öðlast vitundarsamband við Guð á þeim forsendum sem hverjum og einum er auðið. Líkt og hinir holdsveiku í sögunni útlistar grunnrit AA samtakanna að sá sem orðið hefur drykkjusýki að bráð þurfi að játa vanmátt sinn gagnvart sjúkdómsástandi sínu og leita á náðir almáttugs Guðs í von um lækningu. Það kann að virðast að gripið sé í hálmstrá, en reynsla þeirra sem leitað hafa á náðir Guðs eftir þeirri einföldu leið, sýnir og sannar að Guð er sannarlega engin lyfleysa. Það eina sem krafist er er vilji til að bera vitni og aðstoða þannig aðra sem misst hafa fótfestu til að ná bata.

Bæn og játning AA-bókarinnar er á þessa leið. ,,Drottinn, ég fel mig þér á vald til að þú byggir með mér og gerir við mig það sem þér þóknast. Leystu mig úr sjálfsfjötrunum svo að mér auðnist betur að lúta vilja þínum. Taktu frá mér erfiðleikana til að sigurinn yfir þeim megi bera vitni um mátt þinn, kærleika og lífsvegu gagnvart þeim sem ég leitast við að hjálpa. Hjálpaðu mér alltaf að gera vilja þinn." Bænin endar ekki heldur er næst útlistuð leið til að gera ítarleg reikningsskil í lífi þess sem sporin fetar. Skrifað er niður reiðin og óttinn sem býr hið innra og leitað að orsökum í okkur sjálfum. Auk þess er skoðaður sá skaði og ógagn sem hegðun okkar hefur valdið gegnum árin og við hvött til að deila leyndarmálum okkar með manneskju sem við treystum. Að því afloknu eru brestir og meinsemdir lagðar í hendur Guðs og gefin er bæn sem er í beinu framhaldi af þeirri fyrri. Hún hljómar: ,,Skapari minn, nú er ég þess albúinn að þú takir við mér eins og ég er, með kostum og göllum. Ég bið þig um að losa mig við alla þá skapgerðarbresti, sem varna því að ég geti orðið þér og meðbræðrum mínum að gagni. Gefðu mér styrk til að gera vilja þinn er ég geng héðan út. Amen."

Ferlinu er ekki lokið enda er síðari bænin einungis sjöunda sporið af tólf. Eftir situr að reyna að bæta fyrir það sem misfarist hefur, þjálfa sig í bæn og íhugun og reyna að verða öðrum að gagni sem vilja feta sömu leið. En mikilvægast er sú guðsmynd sem þessar bænir birta. Þegar við erum tilbúin, er okkur boðið að nálgast Guð sem gerir engar kröfur aðrar en þær að við séum tilbúin að draga okkur nær honum. Eftir ítarlega sjálfsskoðun er þess farið á leit að Guð taki við okkur eins og við erum, með kostum og göllum. Enda höfum við ekki annað að færa honum. Ef þess er krafist að við þurfum að breytast áður en við getum nálgast Guð, vaknar spurningin hvenær við erum orðin nógu góð til að standa í nærveru hans. Svarið er 'aldrei' og samtímis 'nú þegar'. Guð er það heilagur og stór að réttlæti okkar mun ávallt fölna í samanburðinum við réttlæti hans en kærleiki Guðs er slíkur að við megum nálgast hann nákvæmlega óbreytt. Þegar við meðtökum þann kærleika vaknar þráin til að breytast og líkjast honum og áskorun þeirra sem kenna sig við kristna trú er að bera vitni um mátt hans og kærleika. Guð veit að mín ganga er skammt á veg komin í þá átt en þráin er sannarlega kviknuð.

Lærdómur guðspjallsins útlistar fordæmi fyrir hinn trúaða um hvernig nálgast eigi nærveru og kraft Guðs. Okkur er ávallt frjálst að leita á náðir hans með mein okkar og sár og Guð mun ekki fela ásjónu sína þeim er leita hans í einlægni. Samverjinn trúaði minnir okkur á hversu djúp þrá mannsins er eftir nærveru Guðs. Við erum sköpuð til að eiga samfélag við skapara okkar og án þess verðum við ekki að fullu heil. Frásagan af hinum tíu líkþráu felur í sér áskorun til okkar að bera vitni um mátt hans og kærleika.

Guð veiti oss öllum kjark til þess.