Hallgrímur Pétursson - Annar hluti

Hallgrímur Pétursson - Annar hluti

Eins og fram kom í síðasta pistli var Hallgrímur fæddur árið 1614. Þannig eru nú liðin 400 ár frá fæðingu hans. Það er áhugavert að skoða líf hans í ljósi samtímaatburða í Evrópu, en oft vilja þeir gleymast þegar við Íslendingar erum að fjalla um sögu okkar.
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
03. apríl 2014

Eins og fram kom í síðasta pistli var Hallgrímur fæddur árið 1614. Þannig eru nú liðin 400 ár frá fæðingu hans. Það er áhugavert að skoða líf hans í ljósi samtímaatburða í Evrópu, en oft vilja þeir gleymast þegar við Íslendingar erum að fjalla um sögu okkar.

Við skildum sem sagt við Hallgrím úti í Kaupmannahöfn árið 1636. Það ár hafði geysað í Evrópu frá árinu 1618 hið svokallaða Þrjátíu ára stríð og átti eftir að standa til 1648. Þar bárust Evrópuþjóðir á banaspjótum, og tóku Danir þátt í stríðinu sem og aðrir. Og fóru halloka. 1629 hröktust Danir þannig úr styrjöldinni eftir að hafa beðið mikinn ósigur fyrir þýska keisaranum. En lengst af þessa tímabils áttu danskir í styrjöldum við sænska. Smátt og smátt nöguðu Svíar utanaf veldi Dana sem hafði náð um allt Eystrasalt. Því má nefnilega ekki gleyma að um 1600 var Danmörk mikið heimsveldi. En missti síðar einn þriðja ríkisins til sænskra. Og háði við þá fjölmörg stríð sem ekki verða rakin hér. 1657 lagði til dæmis Karl Gústav X Svíakóngur undir sig alla Danmörku og settist um Kaupmannahöfn, þó ekki næði hann borginni það sinnið. Lauk átökum Svía og Dana í bili með því að 1679 urðu Danir að láta af hendi Skán, Halland, Blekkinga, Öland og Gotland og halda Svíar þessum héruðum enn. sem nú fyrir löngu eru orðin hluti Svíþjóðar.

En bara til að sýna hversu hart var barist, þá kostaði orrusta Dana og Svía um borgina Lund árið 1676 um 3000 Svía og 5000 Dani lífið.

Svona var sem sagt umhorfs í henni veröld og í ríki vors arfakonungs, þegar Hallgrímur Pétursson kom ungur maður til Kaupmannahafnar. Þetta ástand allt í Evrópu nýttu sjóræningjar sér og lá leið þeirra meðal annars til Íslands frá Norður -Afríku árið 1627 þar sem þeir drápu og rændu fólki með sér og seldu síðar í Algeirsborg sem þá var hluti af Tyrkjaveldi.

Safnað var fé á Íslandi og í Danmörku til að reyna að kaupa fangana lausa sem enn voru á lífi og sumarið l636 kom hópur Íslendinga úr herleiðingunni í Alsír til Kaupmannahafnar. Var orðið svo áliðið sumars að skip gengu ekki til Íslands og varð fólk þetta því að bíða árlangt í Danmörku. Fæst af því hefur kunnað dönsku, og þótti því nauðsynlegt að fá einhvern Íslending til að flytja því Guðs orð og vera því innan handar í borginni. Var Hallgrímur Pétursson fenginn til þessa starfa, en hann var nú ámóta vel menntaður og piltar þeir sem lokið höfðu skólanámi á Hólum og í Skálholti, þótt ekki væri formlega á enda námsvist hans í Vorrar frúar skóla. Meðal hinna hernumdu var kona ein úr Vestmannaeyjum, Guðríður Símonardóttir, kona Eyjólfs Sölmundarsonar, Jónssonar frá Ofanleiti. Var hún einum l6 árum eldri en Hallgrímur. Líklega hefur Guðríður verið fríð kona sýnum, enda var hún hátt metin til kaups, eins og sjá má af reikningum yfir lausnargjöld hinna ánauðugu. Með þeim Guðríði og Hallgrími tókust einhverjar hinar frægustu ástir sem Íslandssagan getur um. Virðist svo sem tæplega hafi verið liðið eitt ár frá því, er fangarnir komu til Kaupmannahafnar, til þess er Guðríður ól Hallgrími barn.

Engum getum þarf að því að leiða, hvílíkar afleiðingar þetta hlaut að hafa. Hér var um að ræða ótvírætt skírlífisbrot. Guðríður gift kona á leið heim til manns síns, en Hallgrímur í sérstöku trúnaðarstarfi og vandabundinn henni og samferðafólki hennar, þar sem hann var sálusorgari þess og fræðari í kristilegum dyggðum. Hallgrími hefur vafalaust verið vísað úr skóla þegar þetta komst upp. Og nærri má geta upplitið á Brynjólfi Sveinssyni, þegar hann komst að þessu athæfi skjólstæðings síns.

En svona er ástin sterk.

Nú var ekki til setunnar boðið. Hallgrímur fór heim til Íslands ásamt ástkonu sinni vorið l637. Tóku þau land í Keflavík, og Guðríður fékk athvarf hjá Grími bónda Bergssyni, þar sem hún ól barnið skömmu eftir heimkomuna. Hallgrímur tók til við venjulega erfiðisvinnu hjá "þeim dönsku" og var kallaður "púlsmaður".

Þegar þau Hallgrímur og Guðríður komu út til Íslands fréttu þau, að Eyjólfur maður Guðríðar væri látinn, en hann hafði drukknað einu ári áður. Eftir þetta gengu þau í hjónaband, Guðríður og Hallgrímur, og bjuggu um tíma á Akranesi, en síðar um sjö ára bil á Suðurnesjum, í fátækt, basli og vaxandi ómegð. Ganga af þeim margar þjóðsögur frá þessum tíma og fylgja sögunum vísur, sem Hallgrímur varpaði fram við ýmis tækifæri.

Nú var Brynjólfur Sveinsson orðinn biskup í Skálholti. Bersýnilega hefur hann fylgst með Hallgrími og enn ætlað honum nokkurt hlutverk. Kallaði biskup þennan "húskarl" af Suðurnesjum á sinn fund og reyndist reiðubúinn að taka hann í sátt. Vígði Brynjólfur Hallgrím til prests í Hvalsnesþingum á Reykjanesi.

Er Hallgrímur síðan prestur þar árin 1644-51.