Valdahlutföll á skírdegi

Valdahlutföll á skírdegi

Síðasta kvöldmáltíðin birtir okkur í fyrstu hefðbundinn valdahlutföll þar sem Jesús var í hlutverki fjölskylduföðurins sem úthlutaði matnum til lærisveinannna. En svo breyttist allt.

Maðurinn leitast við að ná völdum. Sú staðreynd blasir við okkur allvíða. Heimurinn ber þess merki. Menningarsamfélög standa og falla með því hvernig þau hafa staðist samkeppnina við aðra hópa fólks.

Sterkir leiðtogar

Heimspekingurinn Nietzsche sagði alla siðmenningu vera afrakstur valdbeitingar. Hann var mótaður af þeim hugmyndum að lífið allt og lífverur þróist í kjölfar baráttu um takmörkuð lífsgæði. Áhrifasaga hugmynda hans er svo dæmi um hvernig flóknar og djúpsæjar kenningar verða farvegur fyrir ódæðisverk. Hún var réttlæting nýlenduherra fyrir kúgun fólks í öðrum heimshlutum. Hin eðlislæga þörf eftir völdum varð að hinu æðsta boðorði í þriðja ríki Hitlers og um leið afsalaði múgurinn sér sjálfstæði sínu og lét teyma sig í ógöngur.

Leitin að sterkum leiðtoga er áhrifaríkt stef í sögu mannsins. Hún birtist í stóru og smáu, óttinn við að verða undir í baráttunni lætur fólk fylkja liði á bak við slíka einstaklinga.

Trúarbrögð eru þar engin undanteking, þar á meðal kristin trú. Í eðli sínu byggir hún á kærleika til náungans og í hennar nafni hafi verið unnar dáðir, heiminum öllum til farsældar. Engu að síður er það einkenni á fjölmörgum kristnum trúarsöfnuðum að byggja upp starfsemi sína í kringum manneskjur sem yfirtaka allar hugsjónir og smám saman snýst starfsemin, ekki um þjónustu við náungann og æðri gildi, heldur um persónu þess sem ræður.

Í sinni ýktustu mynd sjáum við á sjónvarpsskjánum stjörnuklerka sem hagræða öllum sannleika og predikun þeirra verður áróður og krafa um skilyrðislausa hlýðni fylgjenda. Fögur hugsjón um frelsi einstaklings og umhyggju fyrir okkar minnstu systkinum má sín lítils ef allt snýst um að hlaða undir þann sem fremstur fer. Í gegnum söguna hafa kóngar, páfar og ýmsir prelátar komið með þeim sama hætti óorði á kærleiksboðskap Krists, blindaðir af hroka og valdafíkn og þeirri sannfæringu að allt sem þeir hugsi, geri og segi, sé svo margfalt betra en öðrum gæti hugkvæmst.

Kristnir leiðtogar

Enginn skyldi ætla að þessi lýsing á kristnum samfélögum sé nýlunda eða nokkuð sem sprettur fram úr mínum kolli. Saga kristindómsins er þvert á móti átakasaga þar sem umbótasinnar hafa stigið fram, hver á fætur öðrum, og bent á hvernig kirkjan hefur hrakist af leið. Nýlegt dæmi er breytingar á hjúskaparlögum. Þær hófust með því að hópur innan kirkjunnar krafðist umbóta og framhaldið þekkjum við.

Áhrifamest slíkra mótmæla voru sjálfsagt andmæli Marteins Lúthers sem hafði hugrekki og vit til að ásaka kirkjuna í Róm fyrir spillingu og að standa í veginum fyrir trúarþroska fólks. Þar var enginn óskeikull. Ef hann hefði verið haldinn þeirri grillu að kristnir menn væru öðrum fremri og leiðtogar þeirra hafnir yfir gagnrýni, þá hefði nú vart orðið nein siðbót. Nei, Lúther sveið það hvernig kirkjan var orðin að bákni sem mergsaug fólk í öllum hinum kristna heimi.

Þar var og ekkert yfirlæti í garð annarra trúarhópa. Hann hafði það meira að segja á orði að kristin systkini hans í Þýskalandi gætu lært margt af Tyrkjum, sem voru þó andstæðingar þeirra í blóðugum hernaði um það leyti. Hann benti á að múslímar væru stakir bindindismenn og sýndu að hans sögn um margt lofsamlega hegðun. Það hefði á hinn bóginn verið fullkomlega marklaust að upphefja landa sína á kostnað fjarlægra þjóða. Lúther var jú óragur að benda á það sem bæta mátti. Við mættum taka hann okkur til fyrirmyndar á okkar dögum þegar hatur í garð trúarhópa er orðið slíkt að jaðrar við ofsóknir.

Siðbót Lúthers var áhrifaríkari en aðrar, en hún var ekkert einsdæmi. Saga kirkjunnar er saga innra endurmats, sem byggir á því að þótt hugsjónir séu háleitar, göfugar og þegar allt er með felldu, mannbætandi í víðasta skilningi þess orðs - eru breyskir menn jafn líklegir til að misnota þær og gera úr þeim einhvern óskapnað. Maðurinn leitast við að ná völdum, ekki allir menn sem betur fer, en allt í kring um okkur eru einstaklingar sem virðast eiga sér þetta eina markmið og fjöldinn er stundum svo óttasleginn, ginnkeyptur fyrir áróðri og skrumi að hann lætur teyma sig út í ógöngur. Kristnir menn eru því miður ekki ónæmir fyrir slíkri villu frekar en aðrir.

Fyrirmyndina að því hafa þeir hjá sjálfum Jesú Kristi. Ef einhverjir urðu fyrir hárbeittri gagnrýni hans þá voru það hinir frómu í samfélaginu. Augu hans beindust að trúarleiðtogunum sem voru í versta falli eins og kalkaðar grafir, skínandi hvítar hið ytra en að innan var þar allt rotið og skemmt. Slíkar ákúrur búa í kjarna kristinnar trúar. Hún byggir á hreinskilni, ekki skrumskælingu. Hún byggir á heiðarleika, ekki áróðri. Hún á að vera réttlát og trúin á að endurspeglast í kærleikanum til náungans. Því er ekki öfugt farið. Markmiðið er ekki að hlaða undir þann sem situr efst í valdapíramídanum heldur að vinna raunverulegt gagn, sinna þjónustu við náungann og vera þar með verðugir verkamenn Guðs á akrinum.

Skírdagur

Áhugavert er að skoða atburði skírdags í þessu ljósi. Síðasta kvöldmáltíðin birtir okkur í fyrstu hefðbundinn valdahlutföll þar sem Jesús var í hlutverki fjölskylduföðurins sem úthlutaði matnum til lærisveinannna. En svo breyttist allt. Að máltíðinni lokinni deildi hann brauðinu á milli þeirra, afhenti hverjum þeirra einn hlut með þeim orðum að þetta sé líkami hans. Og þegar hann rétti þeim kaleikinn þá var hann að gefa þeim af blóði sínu. Að því loknu gekk hann í hlutverk þjónsins og þvoði fætur þeirra.

Þennan gjörning má skoða sem ádeilu á valdakerfi og ríkjandi leiðtogasýn. Orðin, ,,þetta er líkami minn” og ,,þetta er blóð mitt” endurtökum við þegar við sjálf tökum þátt í hinni helgu kvöldmáltíð. Þau eru töluð inn í samfélag þar sem fórnir voru færðar reglulega í musterinu. Fólk færði ýmis verðmæti til æðstu prestanna, sláturfé og jafnvel miða sem fólk keypti og voru svo brenndir. Klerkarnir höfðu það merkilega embætti að fórna því á altarinu. Fórnin var þungamiðja helgihaldsins og undirstrikað valdahlutföllin. Forsendan var sú að nauðsynlegt væri að blíðka hin æðstu máttarvöld svo koma mætti í veg fyrir hamfarir. Að baki bjó hin forna réttlætishugsun, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hold fyrir hold, þar sem greiddar voru bætur til að koma á friði og reglu.

Við síðustu kvöldmáltíðina rauf Kristur þetta samhengi og bauð sjálfan sig fram sem fórn. Á máli kirkjunnar er þetta ,,hin eina algjöra fórn” sem merkir hefur þegar farið fram og verður ekki endurtekin. Út á það ganga atburðir þessara síðustu daga Jesú eins og þeim er lýst í guðspjöllunum. Með því göngum við til altaris, sem jafningjar í kirkjunni, þar sem hver og einn fær hlutdeild í þeim sáttamála sem ríkir á milli manns og Guðs. Hér er enginn öðrum fremri, það er sú grunnhugsun sem gildir.

Og svo tók Kristur á sig hlutverk þrælsisins og þvoði fætur lærisveinanna. Við sjáum það best á viðbrögðum Péturs hversu fjarstæðukennd sú hegðun var. Hann var í fyrstu ófáanlegur til að þiggja þessa þjónustu. Hér var það leiðtoginn sem gerist þjónn og sendi þessi sterku skilaboð fram til komandi kynslóða kristinna manna sem villast ítrekað af leið í leit sinni að völdum. Þjónustan er hið æðsta markmið, ekki völdin.

En, maðurinn leitast við að ná völdum. Því má jafnvel halda fram að þar reyni hann að setja sig í sæti Guðs sem drottnar yfir öllu. Sú staðreynd hefur aldrei verið jafn augljós og nú á okkar dögum þar sem drottnunargirnd mannsins hefur leitt hann á slíkar ógöngur að verulega breytingu þarf til að snúa þróuninni við. Út á það gengur syndin, kennir Biblían, en í stað refsingar stendur okkur til boða fullkomin fyrirgefning. Eftir stendru að bæta fyrir þann skaða sem valdafíkn okkar hefur valdið. Þar reynir á hið næma auga kærleikans sem kristnir menn eiga að hafa og með hann að leiðarljósi eigum við að fylgja fordæmi kynslóðanna og vinna ljóssins verk í heiminum.