Aðventufriður

Aðventufriður

Aðventan er tími undirbúnings og endurmats. Er eitthvað sem við viljum breyta eða erum við ánægð með lífið eins og það er? Aðventan er líka tími ljósa og hlýju, tími þinn með þér og tími þinn með vinkonum þínum, vinum og fjölskyldu og aðventan er tími með Guði og gjöf Guðs til þín.
fullname - andlitsmynd Elína Hrund Kristjánsdóttir
04. desember 2008

Aðventan er gengin í garð og við bíðum spennt komu frelsarans.

Mörg okkar ætla að nota aðventuna til að gera svo ótrúlega margt. Við ætlum að baka nokkrar sortir af smákökum, kaupa jólagjafir, búa til jólakort, skrifa á þau og senda þau, kaupa fleiri jólagjafir, ákveða hvort eða hversu marga tónleika við ætlum að sækja á aðventunni og pússa allt í hólf og gólf því allt verður að vera hreint og fínt áður en frelsarinn kemur.

SmákakaEn er það þetta sem aðventan á að snúast um? Er þetta ekki bara það sem fólk heldur að það eigi að vera að stússast í á aðventunni? Við vitum að aðventan verður aldrei laus við allan óróa og streitu og þaðan af síður losnum við undan hugsunum um það sem við ætluðum að gera þetta árið en komum aldrei í framkvæmd og árið er alveg að verða búið. En eigum við ekki í ár að reyna að vanda okkur og vefja allan óróann í kringum okkur inn í frið aðventunnar. Friðinn sem Guð gefur okkur því Guð gefur okkur sinn frið á aðventunni og við skulum reynum að nota þennan undursamlega frið og skipuleggja tímann okkar með aðstoð Guðs.

Við getum byrjað á því að skrifa niður það sem við ætlum að gera.

Er t.d. raunhæft að ætla sér að baka allar þessar smákökur? Þurfum við að kaupa allar þessar jólagjafir? Ef við getum búið til jólakort þá getum við ef til vill líka búið til nokkrar jólagjafir um leið. Við getum setið í stofunni okkar og hlustað á upptökur af jólatónleikum í útvarpinu um leið og við föndrum saman með fjölskyldunni og höfum það hugglegt. Kertaljósin loga og samveran er hlý og yndisleg og engin tekur eftir rykinu því birtan á frá kertunum gerir allt svo hlýtt og notalegt.

Aðventan er tími undirbúnings og endurmats. Er eitthvað sem við viljum breyta eða erum við ánægð með lífið eins og það er? Aðventan er líka tími ljósa og hlýju, tími þinn með þér og tími þinn með vinkonum þínum, vinum og fjölskyldu og aðventan er tími með Guði og gjöf Guðs til þín.

Njótum aðventunnar, aðventan er tíminn sem Guð gefur okkur til að undirbúa okkur fyrir komu frelsarans. Tökum til í hillunum og skúffunum í huga okkar og hendum þeim hugsunum sem við viljum ekki lengur hugsa og gera okkur lífið bara erfiðara. Brjótum svo saman minningar og hugsanir sem við erum ekki alveg tilbúin til að henda og setjum þær aftast í hillur hugans. Höfum fremst þær hugsanir og minningar sem byggja okkur upp og tökum þær fram á hverjum degi. Notum aðventuna til að taka til í hjartanu okkar og rýma til fyrir boðskap jólanna, rýmum til fyrir friði jólanna.

Á aðventunni sem aðra daga er gott að hafa það í huga að gærdagurinn er liðinn, morgunndagurinn óþekktur en dagurinn í dag er núna. Við skulum nýta hann vel og gleyma því aldrei að ein af stórkostlegum gjöfum Guðs erum við sjálf. Við skulum ekki vanmeta þá gjöf heldur nota hana vel í þjónustunni og eftirfylgdinni við Krist.

Guð gefi okkur öllum yndislega aðventu.