Hvernig ferð þú með talentur þínar?

Hvernig ferð þú með talentur þínar?

Guðspjall: Matt. 25.14-30 Lexia: 5. Mós. 8.7, 10-11, 17-18 Pistill: 1. Kor. 3. 10-15

Dæmisaga Jesú um talenturnar segir frá þjónum sem höfðu umsjón með eignum húsbónda síns. og þessa líkingu notar Jesús um okkur. Það er mynd af mannlífinu öllu þar sem talentunum má líkja við viðfangsefni sem okkur er trúað fyrir til úrlausnar.Húsbóndinn í dæmisögunni er Guð. Þetta á við allt, án undantekningar, einnig það sem við helst köllum eigin eign okkar eða einkamál. Þetta er líkt og svar við miklum og sífelldum spurningum. Hver er ég? Hvers vegna er ég ? Og hér fá sumar þeirra svör sem benda á ábyrgð og lausn í senn. En svarið kann að reynast andstætt venjulegum þankagangi, erfitt að sætta sig við það. Við viljum ráða okkur sjálf, hafa á réttu að standa, drottna, en ekki vera þjónar og umboðsmenn. Við skiljum ekki að slíkt er ógæfan, skiljum ekki að mesta miskunn Guðs er sú að við fáum að vera þjónar hans.

Enginn maður ræður sér sjálfur. Einhver annar segir fyrir verkum ævinlega. Stundum er það utan að komandi afl, sem yfir okkur ræður, stundum eitthvað í okkur sjálfum, ósk, innræting.Enginn er frjáls í þeirri meiningu, að hann sé skapaður til sjálfræðis. Við erum samfélagsverur og aðeins frjáls í þjónustu við aðra.

Jesús gengur út frá þessu og ávarpar okkur því eins og við erum, kemur til hjálpar þar sem við stöndum. og hjálp hans er þessi: Þú skalt horfast í augu við það hve háður þú ert og hlusta eftir tilboði hans að verða honum háður sem hefur skapað þig, gefið þér lífið og verkefni þess. Það er hin æðsta blessun og frelsi, það er það líf sem þér er ætlað. Þá hverfur hikið og kvíðinn fer á braut, því að líf þitt er í hendi skaparans og þú ert hans eigin eign.

Húsbóndinn sagði við þá þjóna sína sem ávöxtuðu sínar talentur: Gott þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns”.

Já, ef það reynist nú rétt að starfsdegi loknum. Við vitum að af öllum kröfum var þó mikilvægast að þjónninn reyndist trúr, héldi áfram við verk sín allt til enda. Freistandi var að vilja eitthvað annað. Þreytandi og einhæft að gera sífellt það sama. Hefði ekki verið hvetjandi að fá annað viðfangsefni á nýjum stað – eða þá svolítið meira metið? Þeir duglegu, þeir sem eru réttir menn á réttum stað – ekki er ég í þeim flokki? Ég fékk svo lítið! Þetta er svo sem ekki neitt!

Freisting “lata þjónsins” liggur við dyrnar hjá okkur. Það er ekki þitt mál, hve mikið Drottinn gaf þér, heldur hitt, hvernig þú ferð með það. Og það er flótti frá ábyrgðinni að vera hlutlaus í lífinu. Að nota það sem þú hefur – smátt eða stórt – það er að lifa. Og því lífi áttu að vera trúr – og sjálfum þér.

“Yfir litlu varstu trúr”, segir húsbóndinn sem gerði mun á þjónum sínum, fól þeim misstór verðmæti á hendur. Eða svo virðist okkur, ef reiknað er í krónum og aurum. En auðvitað er sú reikningsaðferð röng í þessu tilliti. Mikilvægara er að gá hvort hæfni og starfsgeta samsvari því sem manni er trúað fyrir. Það gerði húsbóndinn í dæmisögunni. Þar fékk hver eftir getu. Og þessi aðferð sýnir ekki aðeins hyggindin heldur kærleikann. Stóra verkefnið yrði ofurefli þeim sem minnsta hefur hæfni og orku. Því væri miskunnarlaust að gera til hans sömu kröfur og hinna.

Sannur kærleikur er miskunnsamur og þorir að gera mun. Sá munur sést þó aðeins hið ytra. Í því máli sem skiptir eru allir eins. Öllum sýnt hið æðsta réttlæti og miskunn – réttlæti kærleikans.

Oft kvörtum við um kjörin og örlögin, finnst við ekki hafa hlotið nóg verksvið, eða þá að tækifæri okkar séu síðri en annarra, ellegar hæfileikarnir, alls ekkert sérstakt.

En við gerum best í því að hætta öllu kveini, en gæta í þess stað betur að því sem okkur hefur verið trúað fyrir og vera þakklát, að við skulum hafa hlotið eitthvað annað en allir hinir. Og ef þér finnst þú ekkert hafa í höndum, þá ertu líklega aftur farinn að bera þig saman við manninn með “mörgu talenturnar”. Nei, notaðu það sem þú hefur. Eitthvað er það, Verum sönn og trú í sérhverju verki.

Trúmennskan er það sem öllu varðar. Þegar vonbrigði getuleysisins sækja að, hve illa þú veldur viðfangsefni þínu, þá skaltu ekki undan láta. Það er ekki þitt að dæma niðurstöðurnar, en gæti gert þig stærilátan eða örvæntingarfullan.

Nei, haltu áfram, byrja á ný. Þú þarft alls ekki að komast á toppinn. En finnist þér þú dragast aftur úr þá mundu að faðir þinn sem sér í leyndum hefur augun á þér, þekkir þig. Það sem skiptir máli er að varðveita trúna og fullna skeiðið”.

Einn þjónninn sagði við húsbóndann: “Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur”. Þegar við hugleiðum þessi orð þá skilst okkur að við getum aldrei gengið fram fyrir Guð með neitt annað en það sem hann hefur sjálfur gefið okkur. En fjársjóðum lífsins er hægt að glutra niður og glata þeim af því að þeir eru afræktir og einskis metnir.

Hver vildi þá ganga fram fyrir skapara sinn og segja við hann: “ Þú gafst mér líf og heilsu, góði Guð, ástvini, atvinnu og föðurland. Þú gafst mér Jesú Krist, þú gafst mér trú, von og kærleika. Þú gafst mér arfsvon þíns eilífa lífs, barnarétt himnaríkis! Sjá herra, allt þetta gafstu mér. En ég gerði ekkert við það – alls ekki neitt”

Á þennan hátt er hægt að snúa baki við raunverulegum fjásjóðum lífsins, vanmeta þá og lítilsvirða. Þannig er unnt að setja allt sitt traust á gryfjuna í jörðinni og eiga allt gull sálarinnar fólgið þar – aðeins þar.

En vegur trúarinnar, leið lífsins er sú að bera gjafir Guðs sífellt fram fyrir hann: Sjá herra, þetta gafstu mér. Þetta fólstu mér að vinna og vera. Ég bið um kraft til að þjóna þér og þor til að trúa að hlutverk mitt sé fengið mér í hendur af sjálfum þér.

Drottinn, ég er eignin þín, og hvað sem ég get gefið þér, þá er það allt saman smátt – og raunar allt saman þitt. Aðeins þín gjöf er stór – gjöf þíns eilífa lífs og himinköllun fyrir Drottinn Jesú Krist.