Brjóstabylting veraldarinnar

Brjóstabylting veraldarinnar

Það sem gerist í páskasögunni er óvænt lausn og óskyld Hollywoodsögunni. Í stað þess að við samsömum okkur fallega fólkinu erum við hvött til að samsama okkur þeim sem þjást.
fullname - andlitsmynd Bjarni Karlsson
05. apríl 2015
Flokkar

Samtalsprédikun

J Gleðilega páska, Jesús er upp risinn.

B Já, takk fyrir að segja þetta. Gleðilega páska sömuleiðis. En mikið er annars skrýtið að segja svona.

J Svona hvað?

B Að einhver sé upp risinn.

J Já, þú segir...

B Samt er svo mikilvægt að segja það, láta það flakka: Jesús er upprisinn! Var það e.t.v. hér sem pönkið byrjaði? Er til meira pönk en maður sem tekinn hefur verið formlega af lífi af yfirvöldum sem stendur svo skyndilega fyrir framan vini sína og segir „Eigið þið ekki eitthvað handa mér að borða?“

J Þú átt við að páskagleðin sé pönk?

B Mér finnst það freistandi hugsun. Það var búið að jarða Jesú. Það var búið að strauja yfir allt sem hann hafði staðið fyrir, malbika yfir það. - elskið óvini ykkar hafði hann sagt, Slái einhver þig á hægri kinn þá bjóð honum einnig hina. ... Ha, ha, ha, nei, nein hann hafið verið krossfestur. Og menn höfðu staðið undir krossinum á Golgata hlægjandi að fimmaurabröndurum á meðan hann kvaldist og móðir hans og allir ástvinir engdust í skelfingu. Svo stendur hann bara og spyr vini sína hvort þau eigi ekki eitthvað handa honum!

J Og þau færðu honum stykki af steiktum fiski! segir orðrétt hjá Lúkasi. - Mig langar að segja ykkur frá nokkru sem gerðist hér dag einn ekki fyrir löngu sem e.t.v. tengist þessu máli. Maður vaknaði að morgni einn í húsi sínu, maki hans og börn voru í burtu og hann ákvað að hringja sig inn veikan í vinnunni, draga fyrir alla glugga, hafa ekki samband við neinn en njóta þess að vera einn heima hjá sér allan daginn. Þetta var svona skyndiákvörðun hjá honum. Sem hann gengur á morgunsloppnum að útidyrum til að sækja blaðið sér hann miða sem settur hafði verið inn um lúguna og á honum stendur nafnið hans með þessum skilaboðum: „Í dag skalt þú hringja á vinnustað þinn og tilkynna þig veikan, þú átt að draga fyrir alla glugga í húsinu og mátt ekki hafa samband við nokkurn mann en vera einn heima í allan dag. Á morgun ferðu svo til vinnu eins og ekkert hafi í skorist. Ef þú hlýðir þessu mun allt fara vel en gerir þú það ekki munt þú ekki sjá fjölskyldu þína framar."

B Hversu súrt er þetta?

J Að vísu er þetta dæmisaga sem Indverski hagfræðingurinn Amartya Sen lagði eitt sinn fram til þess að útskýra gildi þess að vera sjálfstæður gerandi í eigin lífi. Maður sér fyrir sér að hann hafi sárlega þurft á því að halda að vera einn heima og hann velur þessa leið sem er útaf fyrir sig umdeilanleg, að þykjast vera veikur. En hvað um það, við gleðjumst með honum og hlökkum til dagsins fyrir hans hönd. Svo dettur inn þessi litli miði.

B Þetta er áhugavert. Jafn vel þótt dagur þessa manns verði í ytri atriðum nákvæmlega eins og hann hafði ætlað, þá er samt allt breytt.

J Já, en hvað breytt? Allt er eins og til stóð, að viðbættum einum litlum miða?

B Ef ég er ekki sjálfs mín ráðandi. Ef ég hef ekki skýrt umboð fyrir mínu eigin lífi heldur geri það sem ég geri í ótta þá verða dagarnir lítils virði.

J Það var einmitt það sem hagfræðingurinn Sen vildi benda á með þessari sögu. Engin manneskja getur þrifist undir hótunum og í ótta. Hvað á maðurinn að gera?

B Það er erfitt að ráðleggja fólki í svona stöðu og gott að þetta skuli vera dæmisaga en ekki veruleiki.

J Ekki veruleiki? Hér er á ferðinni sami mannlegi veruleikinn og á Golgata á föstudeginum langa. Þetta er reynslan af því að vera sviptur völdum. Það þarf ekkert krossfestingardrama, sólin þarf ekkert að sortna á himninum eða jörðin að skjálfa, þetta gerist bara í lífi venjulegs fólks. Vandinn sem Jesús var að glíma við í sínu lífi og aðstæður mannsins í dæmisögu Sen er vandinn sem hrjáir mannkynið; við erum alltaf að ræna hvert annað völdum yfir eigin lífi og svipta fólk tilgangi.

B Nýlega fór fram á vegum Alþjóðabankans viðamikil rannsókn á kjörum fátækra í heiminum. Ein aðal niðurstaðan af þeirri rannsókn er sú að fátækt fólk á þessum hnetti upplifir allt sömu tilfinningu. Hver heldur þú að hún sé?

J Seg þú.

B Fátækt fólk um allan heim upplifir sig berskjaldað. Að vera fátækur er reynslan af berskjöldun.

J Og er það ekki einmitt tilfinningin sem gagntekur manninn í sögunni?

B Og er það ekki líka tilfinningin sem Jesús tjáir þegar hann hrópar nakinn á krossinum „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ Berskjöldun er þykkt hugtak sem nær býsna vel að dekka mannlegan ótta. Óttann við höfnunina og dauðann. Myndin af Jesú í þjáningunni, upp máluð í öllum sínum litbrigðum með öllum persónum og leikendum er lýsing á mannlegri berskjöldun. Þess vegna er hún svo ómótstæðileg og um leið óþolandi.

J Enda fóru menn bara í Bingó á Golgatahæð. - Sögðu gamansögur og köstuðu hlut um kyrtilinn - Allt til þess að þurfa ekki að staðnæmast í angistinni sem fylgir því að vera berskjölduð manneskja. Það er ekkert nýtt að gerast.

B Og það þarf ekki föstudaginn langa. Allir dagar í menningu okkar eru langir föstudagar. Og alveg sérstaklega eru föstudagarnir langir því að einmitt þá er mest hvílandi að setjast niður eftir erfiði vikunnar og leita huggunar andspænis berskjöldun tilverunnar.

J Ætlar þú núna að fara að móralísera útaf drykjusiðum landans?

B Drykkjan er auðvitað hluti af því en það sem mig langar að benda á er það að við erum öll hvernig sem drykkjusiðum okkar er háttað meira og minna samstíga í bingóspilinu, afþreyingunni og gríninu sem fram fór á Golgata. Berskjöldun mannlegar tilveru þjáir okkur hvert og eitt en við viljum ekki beyta leiknum, bara stokka spilin. Þess vegna látum við Hollýwood maskínuna rugga okkur í svefn föstudag eftir föstudag og segja okkur sitt fagnaðarerindi, að höfnuninni og dauðanum verði alla vega í okkar tilviki frestað ef ekki bara alveg útvistað til einhverra annarra.

J Þú ert að tala um hinn klassíska krimma?

B Ég á við hann. Þar samsömum við okkur fallega fólkinu sem aldrei er berskjaldað heldur öruggt og elskað. Fallega fólkinu sem raunverulega er ekki til. Svo kemur einhver ógn og þá er hetjan mætt. Hetjan sem ekki þarf að lúta hraðatakmörkunum eða reglum um vopnaburð í þéttbýli. Þú kannt þessa sögu jafn vel og ég...

J Jú, við kunnum hana öll; Eftir frækilega valdbeitingu á meðan við maulum poppkornið hefur hetjan sigrast á óvininum og við fáum þessa tegund af réttlætistilfinningu þegar hinn illi er niðurlægður eða dritaður í spað. Köttur út í mýri o.s.frv.

B En við erum bara í snakkinu, erum áhorfendur og eigum engan þátt í því sem er að gerast. Undir niðri erum við samt fegin lausninni sem ofbeldið laðar fram. Og þegar stafirnir renna niður skjáinn hefur einhverskonar jafnvægi náðst og venjulegt fjölskyldulíf, þetta sem við höldum að sé hamingja, fær að blómstra í skjóli hetjuvaldsins.

J Og hvað er að þessu?

B Ekkert nema það að Hollywoodsagan er sagan sem yfirvöld Gyðinga ætluðu að segja á Golgata, en mistókst. Kross Jesú átti að auglýsa valdið sem ræður og sýna og sanna hvernig fer fyrir þeim sem ekki spila eftir reglum hetjuvaldsins og undirstrika um leið gildi þess að hlýða því sem stendur á miðanum í dæmisögu Sen; - Ef þú gerir eins og þér er sagt mun allt fara vel. Þá munt þú varðveita allt sem þú elskar, annars ekki.

J Það sem gerist í páskasögunni er óvænt lausn og óskyld Hollywoodsögunni. Í stað þess að við samsömum okkur fallega fólkinu erum við hvött til að samsama okkur þeim sem þjást.

B Já, og í stað þess að refsa illgjörðamanninum er hann umfaðmaður. „Faðir, fyrirgef þeim, þeir vita ekki hvað þeir gera!“

J Og svo horfir Jesús í augu morðingjans á hinum krossinum og segir: „Í dag skalt þú vera með mér í paradís.“ - Þetta er klárt pönk.

B Þetta er það. Þvert á allar leikreglur veraldarinnar. Þvert á allt sem við höfum lært biður Jesús illgjörðarmönnum sínum miskunnar.

J Og ofan í kaupið stendur hann á þriðja degi mitt á meðal vina sinna. Stendur þarna með sárin sín, þessi niðurlægði og níddi líkami og byrjar á því að sýna þeim áverkana. Biður þau um að snerta sig.

B Eftir alla vondu snertinguna, vanvirðuna, höggin og hrákana. Hafandi lifað þessa algjöru berskjöldun hangandi nakinn og lemstraður og hafður til sýnis í alfaraleið. Þá biður hann augun sem elska hann að sjá sig.

J Og svo biður hendur sem hann treystir um að snerta sig. Snertingin góða sem hann hefði fengið hjá Maríu vinkonu sinni þegar hún nuddaði fætur hans með olíu og þerraði þá með hárinu sínu áður en allt dundi yfir. Sú góða minning hefur verið þarna og margt fleira í huga hans. Sjáiði mig, vinir mínir. Snertið þið mig og gefið mér sjálfsvirðinguna að nýju. Látið mig finna hver ég er.

B Eigið þið ekki eitthvað gott borða?

J Var ekki brjóstabyltingin um þetta?

B Þú segir nokkuð.

J Við getum vel deilt um aðferðinar. En hvað var krossfesting Jesú annað en hefndarklám? Hvað var annað verið að gera við líkama hans en að draga hann fram til háðungar til þess að niðurlægja og meiða þannig að það myndi aldrei gleymast heldur geymast og munast?

B En kristnir menn á öllum öldum hafa tekið þennan nakta líkama, þetta blygðurnartákn og upphafið það. Sett það uppá kirkjurnar sínar, hengt það á veggi híbýla sinna, lagt það um háls sér, tattúerað það á hörund sitt...

J Já, bara þegar við signum okkur erum við með í hinni stóru brjóstabyltingu veraldarinnar. Sem kristið fólk erum við aðilar að byltingunni sem tekur nektina sem vera átti til háðungar og gerir hana að stolti sínu og trúnaði.

B Þvílíkt alsherjar pönk!

J Líkaminn er góður er verið að segja. Jafningjasamskipti eru möguleg.

B Við þurfum ekki að forðast höfnunina með því að samsama okkur fallega fólkinu. Við þurfum ekki að útvista dauðanum til annara með því að refsa illgjörðarmönnum.

J Við megum horfast í augu við höfnunaróttann með því að samsama okkur hinum þjáðu. Og við megum kannast við dauðaóttann með því að umfaðma illgjörðarmanninn með Jesú.

B Þess vegna er full ástæða til að segja gleðilega páska. Þeir eru gleðilegir vegna þess að þeir birta okkur nýja lífsmöguleika. T.d. eru páskarnir góðar fréttir fyrir kvenlíkamann sem í sífellu er krossfestur í menningu okkar með því að hylja hann eftir ströngum reglum en birta hann í síbylju fótósjopperaðan og klæmdan.

J Bingóið heldur áfram.

B Já, já, það verður alltaf gamblað á Golgata og hlegið að vitleysunni. En það breytir bara ekki þeirri staðreynd að Jesús er upp risinn.

J Gleðilega páska.