Styrkurinn liggur í reglulegri guðsþjónustu

Styrkurinn liggur í reglulegri guðsþjónustu

Gunnar Nelson segir að stykurinn liggi í rútínunni. Við getum vel verið sammála okkar sigursæla bardagakappa í þessu því styrkur okkar í trúnni er ekki síst fólginn í því að sækja reglulegt helgihald í kirkjunni okkar. Það er kannski ekki sjónvarpað frá hverri messu með flugeldasýningu í upphafi en það eru heldur ekki frétt í sjónvarpinu ef Gunnar mætir á æfingu í Mjölni.
fullname - andlitsmynd Kristján Björnsson
13. september 2014

Reglulegt helgihald er gott fyrir sálina. Gunnar Nelson segir að stykurinn liggi í rútínunni. Við getum vel verið sammála okkar sigursæla bardagakappa í þessu því styrkur okkar í trúnni er ekki síst fólginn í því að sækja reglulegt helgihald í kirkjunni okkar. Það er kannski ekki sjónvarpað frá hverri messu með flugeldasýningu í upphafi en það eru heldur ekki frétt í sjónvarpinu ef Gunnar mætir á æfingu í Mjölni. Við fáum það nánast sjálfkrafa á tilfinninguna þegar við sjáum mann sem hefur náð svo langt í íþrótt sinni að sá hafi heldur betur stundað æfingarnar. Hann hefur mætt reglulega í salinn sinn.

Hann hefur ekki orðið svona fyrir tilviljun heldur með því að efla styrk sinn með reglulegri iðkun. Hvern sunnudag er líka boðið uppá fullkomna aðstöðu til að iðka trú í söfnuði. Það má örugglega halda því fram að reglulega góð guðsþjónusta er oftar í mörgum sóknarkirkjum en flestir þurfa á að halda yfir árið. En það er gott til þess að vita að kirkjan er opin þegar ég get mætt. Guðsþjónustan er regluleg á helgum dögum og hátíðum. Það er einmitt til þess að hver og einn geti eflt sinn innri mann og iðkað trú með reglulegum hætti allan ársins hring. Það er ekki tilviljun hvað mörgum líður vel sem sækja kirkjuna sína reglulega. Það er vegna þess að hún byggir upp og nærir sálina allra mest ef hún er stunduð vel. Boðunin snýst um fagnaðarerindið svo ekki getur það verið nema til gleði.

Styrkur safnaðanna sprettur ekki upp fyrir tilviljun heldur hefur safnaðarvitund orðið góð með reglulegri iðkun helgihaldsins. Það eykur á gleðina hjá öllum ef vel er mætt því mesta gleðin í hverri guðsþjónustu er þegar þeim fjölgar sem vilja láta fagnaðareindið um Jesú Krist hafa áhrif í lífi sínu og í samfélaginu. Það eru engin geimvísindi að hver og einn getur hæglega fjölgað um einn með því einu að mæta bara sjálfur til leiks og njóta. Það er gott framlag og minnir örlítið á þann gamla sið þegar oftast kom einn frá hverju heimili eða fjölskyldu til kirkju sem fulltrúi síns fólks þann sunnudaginn. Flest viljum við þó að þau sem sækja kirkju njóti einfaldlega þess sem hefur verið vel undirbúið og njóti uppbyggingar sem reglulega góð guðsþjónusta getur verið í lífi þess sem trúir. Þá náum við árangri í hinni góðu baráttu.